Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1201, 128. löggjafarþing 568. mál: vátryggingastarfsemi (EES-reglur).
Lög nr. 34 20. mars 2003.

Lög um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.


1. gr.

     Skilgreining á hugtakinu aðildarríki í 7. gr. laganna breytist og orðast svo: aðildarríki, ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

     Á eftir 90. gr. laganna koma tvær nýjar greinar ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
     
     a. (90. gr. A.)
Endurskipulagning fjárhags.
     Með endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags er átt við ráðstöfun sem felur í sér íhlutun dómstóls og er ætlað að tryggja eða endurreisa fjárhagslega stöðu vátryggingafélags og hafa áhrif á réttindi aðila annarra en vátryggingafélagsins sjálfs. Til slíkra ráðstafana teljast greiðslustöðvun og nauðasamningar.
     Lög um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, gilda um heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar og til að leita nauðasamnings enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
     Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna beiðni vátryggingafélags um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna öðrum eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ef vátryggingafélagi er veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
     Úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags með aðalstöðvar í því aðildarríki tekur til útibúa vátryggingafélagsins hér á landi.
     Tilkynna skal lánardrottnum úrskurð um heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skv. 13. og 44. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     Í tilkynningu skv. 5 mgr. til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem eiga kröfu á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hafi á vátryggingasamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
     Lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki er heimilt að lýsa kröfu skv. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku.
     Um heimild útibús vátryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings fer eftir íslenskum lögum. Hafi félagið útibú í fleiri en einu aðildarríki skal litið á hvert útibú sem sjálfstæðan lögaðila. Eftirlitsstjórnvöld skulu þó samræma aðgerðir og það sama á við um aðstoðarmenn skuldara við greiðslustöðvun og umsjónarmenn með nauðasamningum.
     
     b. (90. gr. B.)
     Íslensk lög skulu gilda um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags nema á annan veg sé fyrir mælt í þessari grein.
     Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
     Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
     Réttur vátryggingafélags vegna fasteignar, skips eða flugvélar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
     Heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skal ekki hafa áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem eru í öðru aðildarríki þegar heimildin er veitt. Íslensk lög gilda þó um réttindi og skyldur aðila sem lúta opinberu eftirliti hérlendis.
     Hafi vátryggingafélag keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur heimild vátryggingafélagsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggjast á fyrirvaranum sé eign í öðru aðildarríki. Heimild vátryggingafélagsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hefur ekki áhrif á sölu vátryggingafélags á eign hafi afhending þegar farið fram og eignin verið í öðru aðildarríki þegar heimildin var veitt.
     Þrátt fyrir ákvæði 5. og 6. mgr. er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
     Hafi vátryggingafélag eftir að heimild hefur verið fengin til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings selt fasteign, skip eða flugvél sem háð er opinberri skráningu eða framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf skráð í verðbréfamiðstöð skulu lög þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram gilda um lögmæti löggerningsins.
     Um áhrif heimildar vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem vátryggingafélag hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
     Úrræði þau sem aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun og umsjónarmaður með nauðasamningi geta beitt samkvæmt íslenskum lögum hafa þeir jafnframt í öðrum aðildarríkjum. Við beitingu slíkra úrræða í öðru aðildarríki skulu þeir þó fara eftir lögum þess aðildarríkis eftir því sem við á.

3. gr.

     95. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Verði ákveðið að beiðast gjaldþrotaskipta á líftryggingafélagi gilda lög um gjaldþrotaskipti sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
     Ákvæði 94. gr. um sérstaka meðferð líftryggingastofnsins gilda og getur Fjármálaeftirlitið krafist allra gagna frá þrotabúinu sem nauðsynleg eru til að unnt sé að ljúka uppgjöri hans og ráðstöfun. Auk tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 2. mgr. 94. gr. skal Fjármálaeftirlitið tilkynna vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum, sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki, um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Slík tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar. Hafi sérstök meðferð líftryggingastofns verið ákveðin áður en beiðst er gjaldþrotaskipta hefur það ekki áhrif á framkvæmd samkvæmt þessari grein og 94. gr.
     Við gjaldþrotaskipti líftryggingafélags skal hvorki telja eignir sem mæta eiga líftryggingaskuldinni með eignum þrotabúsins né líftryggingaskuldina með skuldum þess. Hafi ekki tekist að ljúka greiðslu líftryggingakröfu með eignum þeim sem mæta eiga líftryggingaskuldinni fer um líftryggingakröfuna á hendur þrotabúi félagsins skv. 11. mgr. 96. gr.
     Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti líftryggingafélags. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna öðrum eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ef bú líftryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.
     Úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki um að bú líftryggingafélags með aðalstöðvar í því ríki sé tekið til gjaldþrotaskipta tekur til útibúa félagsins hér á landi.
     Heimild líftryggingafélags til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að óska gjaldþrotaskipta á félaginu.
     Þegar bú líftryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal skilastjórn skv. 93. gr. birta í Lögbirtingablaðinu ákvörðun um skipun skilastjórnar, innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna og upplýsingar um hvaða lög gildi um gjaldþrotaskiptin. Útdrátt tilkynningarinnar skal jafnframt birta í Stjórnartíðindum ESB.
     Skilastjórn skal tilkynna lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki um gjaldþrotaskipti líftryggingafélags. Fyrirsögn tilkynningarinnar skal vera Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur á öllum tungumálum aðildarríkja.
     Í tilkynningu skilastjórnar skv. 8. mgr. til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem kröfu eiga á líftryggingafélag vegna líftryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi á líftryggingasamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
     Lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki en líftryggingafélag skal heimilt að leggja fram kröfulýsingu á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku.
     Eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja er heimilt að óska upplýsinga um meðferð þrotabús líftryggingafélags hjá Fjármálaeftirlitinu.
     Um gjaldþrotaskipti útibús líftryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja fer eftir íslenskum lögum. Hafi félagið útibú í fleiri en einu aðildarríki skal litið á hvert útibú sem sjálfstæðan lögaðila. Eftirlitsstjórnvöld skulu þó samræma aðgerðir og það sama á við um skilastjórn.

4. gr.

     96. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Verði ákveðið að beiðast gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi sem rekur aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi gilda lög um gjaldþrotaskipti sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
     Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna öðrum eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ef bú vátryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.
     Úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki um að bú vátryggingafélags með aðalstöðvar í því ríki sem rekur aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi sé tekið til gjaldþrotaskipta tekur einnig til útibúa félagsins hér á landi.
     Heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða nauðasamnings kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að óska gjaldþrotaskipta á félaginu.
     Fjármálaeftirlitið skal jafnskjótt og búið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta meta hvort hagsmuna vátryggingataka og vátryggðra verði best gætt með því að yfirfæra vátryggingastofna að öllu leyti eða að hluta til annars eða annarra vátryggingafélaga.
     Berist tilboð er Fjármálaeftirlitið metur hagkvæmt fyrir vátryggingataka og vátryggða skal það leggja fram tillögu um flutning stofnsins og tilkynna í Lögbirtingablaðinu um helstu efnisatriði slíks samkomulags. Einnig skal auglýsa eftir athugasemdum vátryggingataka og vátryggðra er berast skulu skriflega innan eins mánaðar frá birtingu tilkynningarinnar. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum, sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki, um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Sú tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi hefur lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar. Að teknu tilliti til athugasemda skal Fjármálaeftirlitið að frestinum loknum taka ákvörðun um hvort unnt sé að yfirfæra vátryggingastofna á þann hátt sem lagt er til.
     Þegar bú vátryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal skilastjórn skv. 93. gr. birta í Lögbirtingablaðinu ákvörðun um skipun skilastjórnar, innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna og upplýsingar um hvaða lög gildi um gjaldþrotaskiptin. Útdrátt tilkynningarinnar skal jafnframt birta í Stjórnartíðindum ESB.
     Skilastjórn skal tilkynna lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags. Fyrirsögn tilkynningarinnar skal vera Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur á öllum tungumálum aðildarríkja.
     Í tilkynningu skilastjórnar skv. 8. mgr. til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi á vátryggingasamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
     Lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki en vátryggingafélag skal heimilt að leggja fram kröfulýsingu á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku.
     Vátryggingakröfur á hendur þrotabúi vátryggingafélagsins skulu ganga næst á undan kröfum skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     Eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja er heimilt að óska upplýsinga um meðferð þrotabús vátryggingafélags hjá Fjármálaeftirlitinu.
     Um gjaldþrotaskipti útibús vátryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja fer eftir íslenskum lögum. Hafi félagið útibú í fleiri en einu aðildarríki skal litið á hvert útibú sem sjálfstæðan lögaðila. Eftirlitsstjórnvöld skulu þó samræma aðgerðir og það sama á við um skilastjórn.

5. gr.

     Á eftir 96. gr. laganna kemur ný grein, 96. gr. A, svohljóðandi:
     Íslensk lög skulu gilda um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags nema á annan veg sé fyrir mælt í þessari grein.
     Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
     Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
     Réttur vátryggingafélags vegna fasteignar, skips eða flugvélar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
     Úrskurður um að bú vátryggingafélags sé tekið til gjaldþrotaskipta skal ekki hafa áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem voru í öðru aðildarríki þegar úrskurðurinn var kveðinn upp. Íslensk lög gilda þó um réttindi og skyldur aðila sem lúta opinberu eftirliti hérlendis.
     Hafi vátryggingafélag keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur úrskurður um að bú vátryggingafélags sé tekið til gjaldþrotaskipta ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggjast á fyrirvaranum sé eign í öðru aðildarríki. Gjaldþrot vátryggingafélags hefur ekki áhrif á sölu vátryggingafélags á eign hafi afhending þegar farið fram og eignin verið í öðru aðildarríki þegar úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp.
     Þrátt fyrir ákvæði 5. og 6. mgr. er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, eða ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
     Hafi vátryggingafélag eftir úrskurð um að bú vátryggingafélags skuli tekið til gjaldþrotaskipta selt fasteign, skip eða flugvél sem háð er opinberri skráningu eða framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf skráð í verðbréfamiðstöð skulu lög þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram gilda um lögmæti löggerningsins.
     Um áhrif úrskurðar um að bú vátryggingafélags skuli tekið til gjaldþrotaskipta á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem vátryggingafélag hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
     Úrræði sem skilastjórn getur beitt samkvæmt íslenskum lögum hefur hún jafnframt í öðrum aðildarríkjum. Við beitingu slíkra úrræða í öðru aðildarríki skal skilastjórn þó fara eftir lögum þess aðildarríkis eftir því sem við á.

6. gr.

     Við 97. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Um frjáls slit vátryggingafélags gilda ákvæði 95., 96. og 96. gr. A eftir því sem við á.

7. gr.

     Fyrirsögn XI. kafla laganna verður svohljóðandi: Sérstakar ráðstafanir. Endurskipulagning fjárhags. Brottfall starfsleyfis. Félagsslit.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.