Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1397, 128. löggjafarþing 488. mál: persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (rafræn vöktun, ættfræðirit).
Lög nr. 46 26. mars 2003.

Lög um breyting á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77 23. maí 2000, með síðari breytingum.


1. gr.

     6. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Rafræn vöktun: Vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði. Hugtakið tekur til:
  1. vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga, og
  2. sjónvarpsvöktunar sem fer fram með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.


2. gr.

     4. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Rafræn vöktun.
     Rafræn vöktun er ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði er jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.
     Vinnsla persónuupplýsinga sem á sér stað í tengslum við rafræna vöktun skal uppfylla ákvæði laga þessara.
     Um sjónvarpsvöktun fer, auk ákvæðis 1. mgr., samkvæmt ákvæðum 7., 24., 40. og 41. gr. laganna, svo og eftir því sem við á ákvæðum 31., 32. og 38. gr. laganna.

3. gr.

     2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. mars 2003.