Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1203, 128. löggjafarþing 241. mál: búnaðarlög (erfðanefnd).
Lög nr. 53 20. mars 2003.

Lög um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     16. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Erfðanefnd landbúnaðarins.
     Landbúnaðarráðherra skipar sjö menn og jafnmarga til vara í erfðanefnd landbúnaðarins að fengnum tilnefningum frá Bændasamtökum Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skógrækt ríkisins, Veiðimálastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.
     Helstu verkefni nefndarinnar eru:
  1. að annast samráð innan lands um varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði,
  2. að hvetja til rannsókna á sviði erfðaauðlinda í landbúnaði,
  3. að stuðla að miðlun þekkingar um erfðaauðlindir og gildi þeirra, jafnt með kennslu sem upplýsingagjöf til almennings,
  4. að veita hagsmunaaðilum og stjórnvöldum ráðgjöf um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði,
  5. að annast samskipti við erlenda aðila á þessu sviði í samstarfi við tengiliði Íslands hjá alþjóðastofnunum.

     Landbúnaðarráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um verkefni nefndarinnar og nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar á ákvæðum þessarar greinar.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.