Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1362, 128. löggjafarþing 552. mál: rannsókn sjóslysa (starfshættir rannsóknarnefndar, aðsetur o.fl.).
Lög nr. 57 24. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Rannsóknarnefnd sjóslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Um aðgang að rannsóknargögnum fer samkvæmt ákvæðum 13. gr.

2. gr.

     Við 5. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Rannsóknarnefnd sjóslysa er heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að fela erlendu ríki að annast rannsókn sjóslyss á íslensku yfirráðasvæði að hluta til eða öllu leyti.
     Þegar við á skal rannsóknarnefnd sjóslysa láta rannsókn ná til fyrirkomulags tilkynninga um sjóslys, til leitar, björgunaraðgerða og annarra aðgerða sem ætlað er að draga úr afleiðingum sjóslysa.
     Samgönguráðherra er heimilt að fela rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka atriði sem varða almennt öryggi til sjós án þess að þau tengist sjóslysi.

3. gr.

     1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur rétt til að kveðja sér til aðstoðar lögreglu, aðra opinbera aðila og annað björgunar- og hjálparlið. Er þessum aðilum skylt að veita rannsóknaraðstoð.

4. gr.

     Í stað 2. mgr. 12. gr. laganna koma fjórar málsgreinar, svohljóðandi:
     Óheimilt er að veita aðgang að eftirfarandi gögnum sem rannsóknarnefnd sjóslysa aflar við rannsókn sjóslyss eða upplýsingar um þau, sbr. þó 3. og 4. mgr.:
  1. upptökum eða endurritum af framburði þeirra sem nefndin yfirheyrir við rannsókn máls,
  2. hvers konar skráðum fjarskiptum eða upptökum af fjarskiptum milli þeirra sem tengst hafa sjóslysi,
  3. læknisfræðilegum og öðrum persónulegum gögnum sem varða þá sem tengst hafa sjóslysi,
  4. hvers konar álitsgerðum sem nefndin hefur aflað í tengslum við mat á gögnum skv. a–c-lið.

     Veita má umsagnaraðilum skv. 13. gr. aðgang að gögnum skv. 2. mgr. að því marki sem rannsóknarnefnd sjóslysa ætlar að sé nauðsynlegt til að þeir geti veitt umsögn.
     Rannsóknarnefnd sjóslysa skal fella út úr lokaskýrslu sinni beina tilvísun til gagna skv. 2. mgr. nema að því leyti sem nauðsynlegt er talið til greiningar á orsökum sjóslyss.
     Þegar veittur er aðgangur að gögnum skv. 3. mgr. skal virða nafnleynd þeirra sem tengjast sjóslysi. Sama á við um lokaskýrslu nefndarinnar.

5. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Rannsóknarnefnd sjóslysa getur endurupptekið þegar rannsakað mál, sbr. 13. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati.
     Þegar sérstaklega stendur á getur samgönguráðherra falið rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka nánar tiltekið sjóslys eða sérstök atriði sem tengjast sjóslysi, einkum ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. mars 2003.