Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1440, 128. löggjafarþing 622. mál: sveitarstjórnarlög (fjármálastjórn o.fl.).
Lög nr. 74 27. mars 2003.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     44. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Hlutverk og valdsvið nefnda.
     Sveitarstjórn ákveður valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum.
     Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð getur sveitarstjórn ákveðið í samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. þessara laga, að fela nefnd, ráði eða stjórn sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.
     Á sama hátt og með sömu skilyrðum og getur í 2. mgr. er sveitarstjórn heimilt að fela öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu mála. Sveitarstjórn, byggðarráð eða hlutaðeigandi nefnd skal hafa eftirlit með afgreiðslu mála samkvæmt þessari málsgrein og kalla eftir reglulegum skýrslum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli hennar.
     Sá aðili sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu skv. 3. mgr., eða þriðjungur fulltrúa ef um nefnd, ráð eða stjórn er að ræða, sbr. 2. mgr., getur ávallt óskað eftir því að sveitarstjórn, byggðarráð eða viðkomandi nefnd samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins taki ákvörðun í máli.
     Þegar sveitarstjórn neytir heimildar skv. 2. eða 3. mgr. skal jafnframt kveðið á um það í samþykkt sveitarfélagsins hvernig fara skuli með endurupptöku mála sem hljóta afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

2. gr.

     Við 57. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Starfsmenn sveitarfélaga eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Fyrir lok desembermánaðar skal sveitarstjórn afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs fyrir sveitarsjóð og stofnanir sveitarfélagsins.
 2. Við 5. mgr. bætist: og stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru skv. 4. mgr. 67. gr. um fjárhagsáætlanir.


4. gr.

     Við 62. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ef sveitarstjórn tekur ákvörðun um verulegar skuldbindingar sem ekki koma fram í fjárhagsáætlun, þ.m.t. langtímaskuldbindingar samkvæmt leigusamningum, samningum um rekstur fasteigna eða þjónustu við íbúa eða sambærilegum samningum, skal hún tilkynna þá ákvörðun til eftirlitsnefndar, sbr. 74. gr.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „eins mánaðar“ kemur: tveggja mánaða.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Form þriggja ára áætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings og stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru skv. 4. mgr. 67. gr. um þriggja ára áætlanir.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
 1. Við bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 1. og 2. mgr., svohljóðandi:
 2.      Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra.
       Sveitarstjórn skal á hverjum tíma tryggja umráðarétt yfir fasteignum sem eru nauðsynlegar til að lögboðin verkefni sveitarfélagsins verði rækt.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Útgjöld úr sveitarsjóði og meðferð fjármuna og fasteigna.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
 1. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Á sama hátt skal afla álits sérfróðs aðila áður en sveitarstjórn staðfestir samninga um framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð. Þetta gildir einnig um samninga um sölu og endurleigu fasteigna sem falla undir 2. mgr. 73. gr.
       Ákveði sveitarstjórn að selja fasteignir sveitarfélags sem falla undir 2. mgr. 73. gr. skal hún tilkynna þá ákvörðun til eftirlitsnefndar. Eftirlitsnefnd skal kanna hvaða fjárhagslegu áhrif salan hefur á rekstur sveitarfélagsins. Eftirlitsnefnd getur sett fram tillögur sínar til viðkomandi sveitarstjórnar um ráðstöfun söluandvirðis eða ávöxtun þess. Ráðherra getur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sett í reglugerð nánari fyrirmæli um form tilkynninga, viðmiðanir við athugun eftirlitsnefndar og önnur atriði er varða framkvæmd ákvæðisins.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Miklar fjárfestingar og sala fasteigna.


8. gr.

     Á undan 74. gr. laganna kemur ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: VII. KAFLI, Eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, og breytast númer kafla samkvæmt því.

9. gr.

     2. mgr. 74. gr. laganna orðast svo:
     Nefndin skal fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, bera saman við viðmiðanir skv. 4. mgr. þessarar greinar og hafa eftirlit með að fjárstjórn sveitarfélaga sé í samræmi við 3. mgr. 61. gr. Leiði athugun eftirlitsnefndar í ljós að afkoma sveitarsjóðs er ekki í samræmi við 3. mgr. 61. gr. eða fjármál sveitarfélags stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Samhliða skal nefndin upplýsa ráðuneytið um álit sitt. Sveitarstjórn er skylt í slíkum tilvikum að gera eftirlitsnefndinni innan tveggja mánaða grein fyrir hvernig hún hyggst bregðast við aðvörun nefndarinnar.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2003.