Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 713, 130. löggjafarþing 420. mál: greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.).
Lög nr. 136 19. desember 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „eða aðrar sambærilegar orsakir“ í 2. mgr. kemur: eða aðrar viðlíka ástæður.
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og fullnægir skilyrðum 2. mgr., skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem það greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur að undanskildum fyrstu þremur dögunum á hverju almanaksári, sbr. þó einnig 4. mgr.
 4. Í stað orðanna „30 greiðsludaga“ í 4. mgr. kemur: 20 greiðsludaga.
 5. Í stað orðanna „60 greiðsludaga“ í 4. mgr. kemur: 45 greiðsludaga.
 6. Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
 7.      Þrátt fyrir takmarkanir 4. mgr. á heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágur þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi er leiða til þess að hráefnisskortur veldur því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Fyrirtæki, sem hyggst sækja um greiðslu skv. 1. gr., skal tilkynna skriflega um fyrirhugaða vinnslustöðvun með eins sólarhrings fyrirvara til Vinnumálastofnunar. Skal fyrirtæki staðfesta tilkynninguna með umsókn um greiðslur ásamt nauðsynlegum upplýsingum um fyrirhugaða vinnslustöðvun, þar á meðal ástæður hennar, innan mánaðar frá því að vinnslustöðvun hófst. Hafi hvorki umsókn né tilskilin gögn borist Vinnumálastofnun innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst mun réttur fyrirtækisins til greiðslna falla niður að því er varðar umrædda vinnslustöðvun.
 3. Í stað orðanna „Skrifstofa Atvinnuleysistryggingasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
 4. Síðari málsliður 2. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Vinnumálastofnun skal hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis ásamt kauptryggingarsamningum sem í gildi eru milli fyrirtækis og starfsmanna þess. Starfsmenn Vinnumálastofnunar skulu fara með allar upplýsingar sem þeir komast að við framkvæmd á lögum þessum og varða persónuleg málefni eða rekstur fyrirtækja sem trúnaðarmál.
 4. Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 5.      Hafi fyrirtæki fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það á rétt á samkvæmt lögum þessum á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga ber því að endurgreiða þær. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að draga ofgreiddar fjárhæðir frá greiðslum sem fyrirtækið getur átt rétt á síðar samkvæmt lögunum.
       Félagsmálaráðherra setur í reglugerð nánari reglur um hvers konar gögn skulu fylgja umsókn fyrirtækis sem sækir um greiðslur samkvæmt lögum þessum.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2003.