Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 710, 130. löggjafarþing 254. mál: gjald vegna ólögmæts sjávarafla (rannsóknir og nýsköpun).
Lög nr. 146 20. desember 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Gjald skv. 2. mgr. skal renna í sérstakan sjóð í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins og skal verja fé úr honum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum. Sjóður þessi nefnist Verkefnasjóður sjávarútvegsins. Ráðherra skal skipa stjórn Verkefnasjóðsins sem skilar tillögum til ráðherra um ráðstöfun fjárins. Ráðherra setur reglur um stjórn sjóðsins og úthlutun úr honum.

2. gr.

     Í stað „1. mgr.“ í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: 3. mgr.

3. gr.

     Í stað „2. mgr.“ í 8. gr. laganna kemur: 3. mgr.

4. gr.

     Við 3. mgr. 10. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir er orðast svo: Ef gjald, sem lagt hefur verið á útgerð skips sem veitt hefur hinn gjaldskylda afla, hefur ekki verið greitt þegar sá tími er kominn að krefjast má fullnustu þess með fjárnámi skal Fiskistofa svipta hlutaðeigandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni þar til skuldin greiðist eða samið hefur verið um greiðslu hennar. Gildir þetta einnig þótt eigendaskipti hafi orðið á skipi, enda hafi eigendaskiptin ekki orðið við nauðungaruppboð eða gjaldþrotaskipti. Standi útgerð ekki við samning um greiðslu skuldar er Fiskistofu heimilt að svipta skip fyrirvaralaust leyfi til veiða í atvinnuskyni.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2003.