Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1556, 130. löggjafarþing 613. mál: yrkisréttur (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.).
Lög nr. 37 11. maí 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 1. gr. laganna bætist við ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
     Lög þessi taka til yrkja allra ættkvísla og tegunda plantna, þ.m.t. blendinga ættkvísla og tegunda.
     Í lögum þessum er hugtakið yrki notað um plöntuhópa sömu tegundar eða undirtegundar samkvæmt nákvæmustu þekktu flokkun grasafræðinnar sem, óháð því hvort öllum skilyrðum fyrir vernd samkvæmt lögunum er fullnægt, er unnt:
 1. að skilgreina með þeim einkennum sem birta tiltekna arfgerð eða samsetningu arfgerða,
 2. að aðgreina frá öðrum flokkum plantna með að minnsta kosti einu af fyrrnefndum einkennum og
 3. að líta á sem einingu með tilliti til möguleika til fjölgunar án þess að einkenni þeirra breytist.

     Plöntuhópar samanstanda af heilum plöntum eða plöntuhlutum ef með hlutunum má rækta heilar plöntur, hvort tveggja í lögum þessum nefnt yrkishlutar.
     Birting eiginleika skv. a-lið 2. mgr. getur verið stöðug eða breytileg milli sams konar stofnþátta yrkis að því tilskildu að breytileiki ráðist einnig af arfgerð eða samvali arfgerða.

2. gr.

     1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Yrkisrétt má veita ef yrki er:
 1. greinilega sérstætt, þ.e. ef unnt er að greina það með skýrum hætti frá öðrum yrkjum sem þekkt eru á umsóknardegi, sbr. 2. mgr.,
 2. nægilega einsleitt, þ.e. ef afgerandi einkenni þess eru nægilega einsleit með tilliti til þeirrar fjölbreytni sem búast má við miðað við fjölgunaraðferð hverju sinni,
 3. stöðugt, þ.e. ef einkenni þess sem máli skipta eru óbreytt eftir endurtekna fjölgun eða ef um er að ræða sérstaka fjölgunarhringrás við lok hverrar slíkrar hringrásar,
 4. nýtt, þ.e. ef efniviður til fjölgunar þess eða uppskera af því hefur ekki á umsóknardegi yrkisréttar, með samþykki yrkishafa, verið selt eða boðið til sölu á almennum markaði ellegar með öðrum hætti framselt til hagnýtingar í atvinnuskyni:
  1. hér á landi lengur en eitt ár,
  2. erlendis lengur en fjögur ár, þó í sex ár sé um tré eða vínvið að ræða.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 6. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tímabilið reiknast frá innlagnardegi fyrstu umsóknar og skal ekki telja umsóknardag til þess tímabils.
 2. Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Yrkishafi hefur frest í tvö ár frá því að forgangsréttartímabilinu lýkur eða sama tíma frá höfnun eða afturköllun umsóknar hafi henni verið hafnað eða hún afturkölluð til að láta yrkisréttarnefnd í té nauðsynlegar upplýsingar, skjöl eða efni sem þörf er á við rannsókn á umsókninni, sbr. III. kafla.


4. gr.

     Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að yrkisréttur hefur verið veittur þeim sem ekki á rétt til hans nema hann sé yfirfærður til þess sem á slíkan rétt.

5. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Yrkisréttur nær til þess yrkis sem skráð er samkvæmt lögum þessum. Yrkisréttur gildir einnig um:
 1. yrki sem eru í öllum aðalatriðum komin af vernduðu yrki, enda sé hið verndaða yrki ekki sjálft komið af öðru í öllum aðalatriðum,
 2. yrki sem ekki verða með vissu greind frá verndaða yrkinu skv. 2. gr.,
 3. yrki sem ekki er unnt að framleiða nema með endurtekinni notkun verndaða yrkisins.

     Yrki telst í skilningi a-liðar 1. mgr. komið af öðru yrki í öllum aðalatriðum þegar:
 1. það er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, eða af yrki sem sjálft er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, og heldur þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins,
 2. það verður með vissu greint frá upphafsyrkinu skv. 2. gr.,
 3. það samsvarar, að frátöldum þeim mismun sem felst í aðgerðinni við að fá það fram, upphafsyrkinu í þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins.

     Í reglugerð er heimilt að tilgreina mögulegar leiðir til að fá fram yrki skv. 1. og 2. mgr.

6. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Yrkisréttur felur í sér að aðrir en yrkishafi mega ekki án hans samþykkis nýta stofnþætti yrkis eða uppskeru af hinu verndaða yrki með eftirfarandi hætti:
 1. framleiða eða fjölga,
 2. undirbúa til fjölgunar,
 3. bjóða til sölu,
 4. markaðssetja eða selja,
 5. flytja út,
 6. flytja inn,
 7. safna birgðum í þeim tilgangi sem greinir í a–f-lið.

     Ákvæði 1. mgr. gildir aðeins um uppskeru af yrki sem fengist hefur með hagnýtingu á efniviði til fjölgunar þess hafi yrkishafi ekki:
 1. heimilað þá hagnýtingu og
 2. haft tök á að nýta réttindi sín skv. 1. mgr.

     Heimilt er að kveða á um í reglugerð að í sérstökum tilvikum geti ákvæði 1. mgr. einnig átt við um afurðir sem fengnar eru beint úr uppskeru annarra en yrkishafa. Það á þó aðeins við að afurðirnar hafi verið fengnar með óheimilli notkun á hinu verndaða yrki, enda hafi rétthafinn ekki með góðu móti átt þess kost að neyta réttar síns. Að svo miklu leyti sem ákvæði 1. mgr. gilda um afurðir sem fengnar eru beint úr uppskeru hins verndaða yrkis skulu þær einnig teljast til uppskeru samkvæmt lögum þessum.
     Beiting yrkisréttar má ekki brjóta í bága við ákvæði sem sett hafa verið á grundvelli almannaheilla, siðferðis eða almannaöryggis, til verndar heilsu og lífi manna, dýra og plantna, vegna umhverfisverndar, verndar hugverkaréttar í iðnaði eða viðskiptum, eða til að tryggja samkeppni í verslun eða landbúnaðarframleiðslu. Ákvæði þessarar málsgreinar skerða ekki rétt bænda sem kveðið er á um í 18. gr. a.

7. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna bætist við ný grein, 17. gr. a, svohljóðandi:
     Yrkishafi getur bundið samþykki sitt fyrir nýtingu yrkis skilyrðum, þar á meðal um greiðslu hæfilegs nytjaleyfisgjalds.
     Sá sem í atvinnuskyni fjölgar yrki, selur efnivið til fjölgunar þess eða nýtir yrki með öðrum hætti skal veita yrkishafa nauðsynlegar upplýsingar vegna innheimtu nytjaleyfisgjalds.
     Þau skilyrði sem yrkishafi setur skv. 1. mgr., m.a. um gjaldtöku, skulu aðeins eiga við um þá notkun og það framboð sem getur í 1. mgr. 17. gr. Skilyrðin skulu vera sanngjörn og allir framleiðendur njóta sambærilegra kjara.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
 1. 3. tölul. orðast svo: notkun til kynbóta, þ.e. til að þróa ný yrki og, nema þegar ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr. eiga við, notkun sem um getur í 1. mgr. 17. gr. þegar um slík ný yrki er að ræða.
 2. Orðin „til fjölgunar“ í 4. tölul. falla brott.
 3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Efniviður skv. 1. mgr. merkir:
  1. hvers kyns efnivið til fjölgunar, þ.m.t. heilar plöntur og plöntuhluta,
  2. uppskeru,
  3. allar afurðir sem unnar eru beint úr uppskeru.9. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna bætist við ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
     Til að vernda landbúnaðarframleiðslu er bændum heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 17. gr., að nota uppskeru af eigin landi til ræktunar á yrkjum af tilgreindum tegundum á eigin landi enda sé ekki um að ræða blendingsyrki eða samsett yrki. Með eigin landi er bæði átt við eignarland og land sem bændur hafa umráð yfir til búsetu og landbúnaðar og annars konar ræktunar samkvæmt samningum við landeigendur.
     Landbúnaðarráðherra ákveður í reglugerð hvaða tegundir falla undir ákvæði 1. mgr. og með hvaða skilyrðum.
     Óheimilt er að krefja bændur um nytjaleyfisgjald fyrir nýtingu yrkis skv. 1. mgr. ef framleiðsla þeirra á nytjajurtum skv. 2. mgr. fer fram á landi sem ekki getur gefið af sér meira en 92 tonna uppskeru af korntegundum en magn annarra nytjajurta miðast við sömu stærð lands. Öðrum bændum er skylt að greiða yrkishafa nytjaleyfisgjald en landbúnaðarráðherra getur ákveðið að það skuli vera lægra en greitt er á sama svæði fyrir hagnýtingu fjölgunarefnis af sama yrki.
     Landbúnaðarráðherra setur í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

10. gr.

     Í stað orðanna „2. mgr. 17. gr. samræmist 6. mgr. sömu greinar“ í 19. gr. laganna kemur: 1. mgr. 17. gr. a samræmist 3. mgr. sömu greinar.

11. gr.

     20. gr. laganna orðast svo:
     Hafi yrkishafi ekki tryggt nægilegt framboð af efniviði til fjölgunar verndaðs yrkis hér á landi á sanngjörnum kjörum og í þeim mæli og með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að tryggja matvælaframleiðslu í landinu og aðra mikilvæga almannahagsmuni getur sá sem vill hagnýta yrkið farið fram á nauðungarleyfi, fyrir dómstólum, svo framarlega sem ekki eru haldbær rök fyrir vanrækslu yrkishafa.
     Einkaleyfishafi sem ekki getur nýtt uppfinningu sína án þess að brjóta á eldri yrkisrétti getur gegn sanngjörnu gjaldi farið fram á nauðungarleyfi til að hagnýta verndaða yrkið. Nauðungarleyfi skal aðeins veita ef einkaleyfishafi sýnir fram á að uppfinningin sem tekur til yrkisins sé tæknilega mikilvægt framfaraspor og hafi verulegan ábata í för með sér í samanburði við verndaða yrkið.
     Hafi yrkishafi fengið nauðungarleyfi til að nýta einkaleyfisverndaða uppfinningu skv. 1. mgr. 46. gr. a laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, hefur einkaleyfishafi rétt á að fá nauðungarleyfi með sanngjörnum skilmálum til að hagnýta verndaða yrkið.
     Ákvæði 49. og 50. gr. laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, gilda eftir því sem við á um nauðungarleyfi samkvæmt þessari grein. Dómstóll getur skyldað yrkishafa til að leggja fram nauðsynlegan efnivið til fjölgunar yrkisins til nauðungarleyfishafa.

12. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 17. gr.“ í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: 1. mgr. 17. gr. a.

13. gr.

Innleiðing á tilskipun.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/44/EB frá 6. júlí 1998 um lögvernd uppfinninga í líftækni, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2003, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, sbr. ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2001/94.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2004.