Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1886, 130. löggjafarþing 305. mál: niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar (stofnstyrkir, jarðhitaleit).
Lög nr. 58 7. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.


1. gr.

     Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þurfi umsækjandi að halda fleiri en eitt heimili vegna starfa, eigin náms eða náms fjölskyldu er heimilt að greiða niður húshitunarkostnað óháð því hvar lögheimili er skráð. Umsækjandi þarf að staðfesta þörf sína til þess að halda fleiri en eitt heimili með opinberu vottorði eða öðrum gögnum sem Orkustofnun metur nægileg.

2. gr.

     2. og 3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að greiða niður hluta kostnaðar við hitun húsnæðis sem er skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins þótt þar sé ekki föst búseta. Heimildin nær til þess að greiða niður orkumagn sem svarar til fjórðungs af því orkumagni sem niðurgreitt er vegna þeirra íbúða sem njóta niðurgreiðslna á grundvelli 1. mgr.
     Kostnaður við hitun kirkna, bænahúsa trúfélaga, safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita skal greiddur niður á sama hátt og hitun íbúða.

3. gr.

     Í stað orðanna „Eigandi íbúðar“ og „eiganda“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Eigandi eða umráðamaður íbúðar, og: eiganda eða umráðamanni.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Í stað 1. málsl. koma fjórir nýir málsliðir er orðast svo: Styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan. Greiðsla stofnstyrks til nýrrar hitaveitu eða vegna stækkunar hitaveitu skal miðuð við tímamarkið þegar hitaveitan tekur til starfa eða stækkun er tekin í notkun. Af fjárveitingu hvers árs til niðurgreiðslu á orku til húshitunar og stofnstyrkja hitaveitna skal styrkveiting til nýrra hitaveitna þó aldrei vera meiri en 20% heildarfjárveitingar. Árlega getur hver einstök hitaveita að hámarki fengið styrk er nemur 15% árlegrar heildarfjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Fyrir 1. október ár hvert skal leggja fram skýrslu um ráðstöfun fjár samkvæmt lögum þessum á næstliðnu ári. Einnig skal leggja fram endurskoðaða áætlun greiðslna yfirstandandi árs og áætlun fyrir næstkomandi ár. Greina skal sundurliðað hve miklu fjármagni er varið til niðurgreiðslu húshitunar, stofnstyrkja hitaveitna og orkusparnaðaraðgerða.


5. gr.

  1. Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
  2.      Ráðherra er heimilt að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna. Beiðnir um styrki skulu sendar iðnaðarráðuneytinu ásamt greinargerð um fyrirhugaða jarðhitaleit.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fjárveiting til jarðhitaleitar.

6. gr.

     Lög þessi taka gildi 15. júní 2004.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.