Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1816, 130. löggjafarþing 734. mál: öryggi vöru og opinber markaðsgæsla (EES-reglur, gildissvið).
Lög nr. 68 7. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 134 22. desember 1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
 1. Orðin „eða notkunar“ í 3. mgr. falla brott.
 2. 4. mgr. orðast svo:
 3.      Ákvæði 8. og 9. gr. laga þessara taka ekki til vöru sem um gilda sérstök lög eða reglur um öryggi vöru. Þar sem ákvæði sérlaga eru ófullnægjandi eða ganga skemmra en ákvæði IV. og V. kafla laga þessara skulu þau ákvæði gilda. Hið sama á við um skyldur framleiðenda og dreifingaraðila eftir því sem við getur átt.


2. gr.

     Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein er verður 7. gr. a, svohljóðandi:
Tilkynntur aðili.
     Tilkynntur aðili er aðili sem stjórnvöld telja hæfan til að meta samræmi vöru við þau ákvæði laga og reglna sem um þær vörur gilda og stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar ESB sem hæfan til að framkvæma samræmismat fyrir tilteknar vörur samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um hlutaðeigandi vöru.

3. gr.

     1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Örugg vara merkir sérhverja vöru sem við eðlileg eða fyrirsjáanleg notkunarskilyrði, þ.m.t. endingartíma, svo og kröfur sem gerðar eru um uppsetningu, viðhald og hvernig hún skal tekin í notkun, telst vera hættulaus fyrir einstaklinga, heilsu þeirra og eignir enda fullnægi hún almennum kröfum sem gerðar eru vegna almannahagsmuna um öryggi og vernd heilsu, svo og umhverfis. Við mat á öryggi vöru skal einkum haft til hliðsjónar:
 1. Eðli vörunnar, þ.m.t. samsetning hennar, umbúðir og samsetningarleiðbeiningar og, þar sem við á, uppsetningar- og viðhaldsleiðbeiningar.
 2. Áhrif vörunnar á aðrar vörur ef fyrirsjáanlegt er að hún verði notuð með öðrum vörum.
 3. Framsetning vörunnar, merkingar og, ef við á, varnaðarorð og leiðbeiningar um notkun og förgun auk hvers kyns ábendinga eða upplýsinga um vöruna.
 4. Hvort varan er gerð fyrir tiltekinn markhóp neytenda sem getur stafað sérstök hætta af vörunni, t.d. börn og eldra fólk.


4. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
Afturköllun og vara tekin af markaði.
     Afturköllun merkir hverja þá ráðstöfun sem miðar að því að hættulegri vöru, sem framleiðendur eða dreifingaraðilar hafa þegar afhent eða boðið neytendum, verði skilað.
     Að vara sé tekin af markaði merkir hverja þá ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að hættuleg vara fari í dreifingu eða sé sýnd eða boðin neytendum.

5. gr.

     Í stað 2. mgr. 9. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Vara telst vera örugg ef hún uppfyllir skilyrði sem fram koma í íslenskum stöðlum, sem innleiða Evrópustaðla, sem tilvísun hefur verið birt í hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins í samræmi við ákvæði tilskipunar um öryggi vöru.
     Í þeim tilvikum þar sem ákvæði um öryggi vöru er ekki að finna í reglum eða stöðlum í samræmi við 1. og 2. mgr. skal öryggi vörunnar m.a. metið með hliðsjón af eftirfarandi:
 1. Íslenskum stöðlum.
 2. Tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram koma viðmiðunarreglur um mat á öryggi vöru.
 3. Gildandi lögum og reglum um góðar starfsvenjur varðandi öryggi vöru innan viðkomandi atvinnugreinar.
 4. Evrópustöðlum, öðrum en þeim sem getið er í 2. mgr.
 5. Öðrum viðeigandi atriðum, þar á meðal eðli vöru, öðrum vörum sem hún er notuð með, tæknistigi og tækni og því öryggi sem neytendur geta vænst með réttu.

     Ef ekki eru til sérákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um öryggi tiltekinnar vöru telst viðkomandi vara örugg ef hún er í samræmi við sérreglur í landslögum þess EES-ríkis þar sem hún er markaðssett enda séu slíkar reglur í samræmi við grundvallarreglur Evrópusambandsins og EES-samningsins um leyfilegar takmarkanir að því er varðar öryggi vöru.

6. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
     Framleiðanda vöru er skylt að upplýsa um hættu sem kann að fylgja notkun hennar ef hættueiginleikarnir eru ekki augljósir og gera varúðarráðstafanir til að takmarka hættuna. Það að slíkar upplýsingar séu veittar leiðir ekki til undanþágu frá öðrum ákvæðum laga þessara.
     Framleiðendum og dreifingaraðilum ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hættuleg vara komist á markað, t.d. með því að fela tilkynntum aðila yfirferð samræmisyfirlýsingar þegar þess er krafist samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um hlutaðeigandi vöru, gera úrtaksprófanir á markaðssettum vörum, taka kvartanir til meðferðar og veita upplýsingar um hættueiginleika vörunnar, framleiðanda hennar og tilvísunarnúmer vörunnar eða, þar sem við á, framleiðslulotunnar sem hún tilheyrir.
     Dreifingaraðila vöru er skylt að gæta þess vandlega að farið sé að gildandi öryggiskröfum og afhenda ekki vörur sem hann veit eða má vita að uppfylli ekki þessar kröfur með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum og sem fagmaður.
     Ef framleiðendur og dreifingaraðilar vita eða hafa mátt vita að vara sem þeir hafa markaðssett stofni neytendum í hættu eða veruleg áhætta geti fylgt áframhaldandi notkun hennar án frekari öryggisráðstafana eða úrbóta skulu þeir tafarlaust tilkynna eftirlitsstjórnvöldum um það. Í slíkum tilvikum ber þeim að upplýsa eftirlitsstjórnvald um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að koma í veg fyrir að neytendum sé stofnað í hættu. Upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein er skylt að senda eftirlitsstjórnvöldum í þeim aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem viðkomandi vörur hafa verið markaðssettar eða afhentar neytendum á annan hátt. Ef um alvarlega áhættu er að ræða skulu þessar upplýsingar fela í sér að minnsta kosti eftirfarandi atriði:
 1. Upplýsingar sem gera kleift að bera nákvæm kennsl á viðkomandi vöru eða framleiðslulotu.
 2. Nákvæma lýsingu á hættunni sem viðkomandi vara hefur í för með sér.
 3. Allar tiltækar upplýsingar sem kunna að vera nauðsynlegar til að rekja uppruna vörunnar.
 4. Lýsingu á aðgerðum sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir að neytendum sé hætta búin.

     Dreifingaraðilum er skylt að halda utan um skjöl sem nauðsynleg eru til að rekja uppruna vöru. Skjöl skulu aldrei geymd skemur en skylt er að geyma skjöl samkvæmt ákvæðum bókhaldslaga.
     Ef aðgerðir þær sem kveðið er á um í 1., 2. og 4. mgr. eru ekki nægilegar er framleiðendum og dreifingaraðilum skylt að afturkalla vöru eða taka hana af markaði samkvæmt ákvörðun eftirlitsstjórnvalds.
     Framleiðendur og dreifingaraðilar skulu ekki flytja út frá Íslandi vöru til landa utan Evrópska efnahagssvæðisins hafi hún verið tekin af markaði vegna hættu sem neytendum stafar af henni.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Orðin „í samræmi við staðla og venjur sem gilda um öryggi vöru á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu“ falla brott.
 2. 2. málsl. 3. tölul. orðast svo: Varúðar- og notkunarleiðbeiningar sem tryggja örugga notkun vöru skulu vera í eðlilegri lesstærð og á íslensku ritmáli ef það á við.


8. gr.

     12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Skyldur framleiðenda og dreifingaraðila.
     Framleiðendum og dreifingaraðilum samkvæmt lögum þessum er skylt að beiðni eftirlitsstjórnvalda að veita þeim aðstoð í tengslum við aðgerðir sem stuðla eiga að öryggi neytenda. Þá er þeim skylt að afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá er bjóða fram vörur þeirra ef eftirlitsstjórnvöld óska eftir því í tengslum við rannsókn máls.

9. gr.

     7. tölul. 14. gr. laganna orðast svo: Að gefa út tilkynningar og vara við hættulegum vörum á markaði sem lög þessi taka til ef nauðsyn ber til og annast samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA og önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, svo og vera tengiliður við RAPEX-tilkynningakerfi framkvæmdastjórnar ESB um hættulegar vörur á markaði.

10. gr.

     1. og 2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
     Löggildingarstofa skal stofnsetja samvinnunefndir um samstarf við önnur eftirlitsstjórnvöld og skoðunarstofur eftir því sem við getur átt.
     Samvinnunefnd skal tryggja skilvirkni í markaðseftirliti með því að fjalla um starfsáætlanir og skipulag markaðseftirlits eftirlitsstjórnvalda, svo og athugasemdir sem þeim berast og gerðar eru um einstakar vörur og vöruflokka, og gera tillögur til Löggildingarstofu og eftirlitsstjórnvalda sem taka endanlega stjórnvaldsákvörðun um skilvirkt eftirlit með vöru samkvæmt lögum þessum eða sérlögum ef það á við.

11. gr.

     Við 2. mgr. 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, sem orðast svo: Lögregla skal tilkynna Löggildingarstofu um slys sem hún rannsakar ef ætla má að orsök þess sé af völdum vöru eða þjónustu sem lög þessi taka til.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Eftirlitsstjórnvald getur með rökstuðningi afturkallað, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru ef hún uppfyllir ekki formleg skilyrði, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunar- og skoðunarskýrslur.
 3. Á eftir orðunum „getur eftirlitsstjórnvald“ í 2. mgr. kemur: afturkallað, tekið af markaði eða.


13. gr.

     Á eftir orðunum „Eftirlitsstjórnvöld skulu“ í 21. gr. laganna kemur: afturkalla, taka af markaði eða.

14. gr.

     Á eftir orðunum „í tengslum við“ í 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna kemur: afturköllun, þegar vara er tekin af markaði eða.

15. gr.

     Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, svohljóðandi:
     Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að krefjast þess að vara sem getur verið hættuleg við tiltekin skilyrði eða tiltekna notkun sé merkt með upplýsingum á íslensku um þá hættu.

16. gr.

     Á eftir orðunum „Hafi eftirlitsstjórnvald“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: afturkallað, tekið af markaði eða.

17. gr.

     Á eftir orðinu „skoðunarstofu“ í 26. gr. laganna kemur: og tilnefndra aðila.

18. gr.

     Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, svohljóðandi:
     Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2003 frá 31. janúar 2003, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/95/EB, um öryggi vöru.

19. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 27. maí 2004.