Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1796, 130. löggjafarþing 856. mál: sveitarstjórnarlög (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.).
Lög nr. 69 7. júní 2004.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. mgr. 39. gr. laganna bætist: en meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella.

2. gr.

     4. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
     Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá. Sveitarstjórn getur ákveðið að víkja frá þessu ákvæði ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starf viðkomandi einstaklings er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.

3. gr.

     42. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Lausn frá nefndasetu og endurskipun.
     Fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags, sem ekki eru aðal- eða varamenn í sveitarstjórn, er heimilt að segja af sér nefndarstörfum hvenær sem er á kjörtímabilinu. Aðrir fulltrúar geta óskað eftir því við sveitarstjórn að þeim verði veitt lausn tímabundið eða út kjörtímabilið á sama hátt og skv. 34. gr.
     Sveitarstjórn getur hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sem hún kýs eða skipar ef ekki er um það ágreiningur innan sveitarstjórnar eða málefnalegar ástæður mæla með slíkri breytingu, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu. Enn fremur getur sveitarstjórnarmaður krafist þess að nefnd verði endurskipuð, svo sem ef breytingar verða á meirihlutasamstarfi á kjörtímabilinu. Sveitarstjórn er þó heimilt að hafna slíkri beiðni ef hún er bersýnilega tilefnislaus. Við framangreindar breytingar á skipan fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags skal kjósa alla fulltrúa að nýju og fer þá um kjör skv. 2. mgr. 40. gr. nema enginn ágreiningur sé innan sveitarstjórnar um breytingarnar.

4. gr.

     Við 1. mgr. 43. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ella skipar sveitarstjórn nýjan varamann til setu í nefndinni.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 73. gr. laganna:
  1. 6. mgr. orðast svo:
  2.      Sveitarstjórn er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán til stofnana og fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins sem falla undir b-lið 60. gr. Einnig getur sveitarstjórn veitt einfalda ábyrgð vegna lánveitinga til framkvæmda á vegum félaga sem sveitarfélagið á og rekur í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra opinbera aðila til að veita lögákveðna þjónustu en innbyrðis skal ábyrgð eigenda skiptast í hlutfalli við eignarhluti. Skilyrði fyrir ábyrgðarveitingu er að viðkomandi lögaðili sé að fullu í eigu opinberra aðila og að allir eigendur ábyrgist lánið í samræmi við eignarhlut sinn. Ábyrgðin fellur úr gildi ef lögaðilinn færist að einhverju leyti í eigu einkaaðila.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Prókúruhafa sveitarsjóðs er heimilt fyrir hönd sveitarfélags að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.


6. gr.

     2. mgr. 91. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki íbúa er heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga þótt tillaga samstarfsnefndar hljóti ekki samþykki íbúa allra hlutaðeigandi sveitarfélaga. Skilyrði er að tillaga hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/ 3 sveitarfélaganna og að í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 íbúa á svæðinu.

7. gr.

     Við lögin bætast fjögur ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     
     a. (I.)
     Í tengslum við átaksverkefni ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins skal sameiningarnefnd, sem skipuð er af félagsmálaráðherra, undirbúa og leggja fram tillögur um sameiningu sveitarfélaga.
     Við gerð tillagna sinna skal nefndin hafa hliðsjón af landfræðilegum og félagslegum aðstæðum og sjónarmiðum hlutaðeigandi sveitarstjórna og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Tillögur skulu miða að því að hvert sveitarfélag verði heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði.
     Nefndin skal kynna sveitarstjórnum og samtökum þeirra tillögur sínar og veita þeim hæfilegan frest til að gera athugasemdir við tillögurnar. Einnig skal gefa almenningi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina.
     Þegar frestur til að skila athugasemdum við sameiningartillögur er liðinn skal sameiningarnefnd fara yfir athugasemdir. Að því loknu skal nefndin ákveða hvort hún gerir breytingar á tillögu, dregur hana til baka eða leggur hana fram óbreytta. Endanlegar tillögur nefndarinnar skal auglýsa í dagblöðum og á annan þann hátt sem nefndin ákveður, í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða samtök þeirra.
     Þær sveitarstjórnir sem sameiningartillaga varðar skulu hver tilnefna tvo fulltrúa í samstarfsnefnd sem annast undirbúning atkvæðagreiðslu um tillöguna og gerð kynningarefnis um áhrif hugsanlegrar sameiningar. Sameiningarnefnd og félagsmálaráðuneytið skulu veita samstarfsnefndinni nauðsynlega ráðgjöf um meðferð tillagnanna.
     
     b. (II.)
     Atkvæðagreiðsla um tillögur sameiningarnefndar skal fara fram 23. apríl 2005 í öllum sveitarfélögum sem tillögur varða.
     Um framkvæmd atkvæðagreiðslu, kosningarrétt og gerð kjörskrár gilda ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum, eftir því sem við á.
     Yfirkjörstjórn í hverju sveitarfélagi annast framkvæmd atkvæðagreiðslu og talningu atkvæða en samstarfsnefnd hefur eftirlit með talningu og tilkynnir úrslit atkvæðagreiðslu.
     Ekki er heimilt að hefja talningu atkvæða fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað í þeim sveitarfélögum sem taka þátt í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu.
     
     c. (III.)
     Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum samkvæmt tillögu sameiningarnefndar nema fleiri íbúar þess lýsi sig fylgjandi tillögunni í atkvæðagreiðslu en andvíga.
     Sameining sveitarfélaga telst samþykkt ef sameiningartillaga hlýtur samþykki íbúa í öllum sveitarfélögum sem tillagan varðar, sbr. 1. mgr., og tekur gildi 9. júní 2006 nema sveitarstjórnir ákveði aðra dagsetningu í samráði við ráðuneytið.
     Ef tillaga sameiningarnefndar hlýtur ekki samþykki íbúa í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en meiri hluti þeirra sem afstöðu taka í atkvæðagreiðslu lýsir sig þó fylgjandi sameiningu, skal greiða atkvæði að nýju innan sex vikna í sveitarfélögum þar sem tillaga var felld. Skilyrði er að tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. tveimur sveitarfélögum. Skal þá sama kjörskrá gilda og við fyrri atkvæðagreiðslu.
     Að lokinni atkvæðagreiðslu skv. 3. mgr. er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga var samþykkt heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga. Þetta verður þó ekki gert nema tillaga hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/ 3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 íbúa á svæðinu.
     Sameining sveitarfélaga samkvæmt þessu ákvæði skal taka gildi 9. júní 2006 nema sveitarstjórnir ákveði aðra dagsetningu í samráði við ráðuneytið.
     
     d. (IV.)
     Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla um þá tillögu skal fara fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006 og skal gera nýja kjörskrá fyrir þá atkvæðagreiðslu. Að öðru leyti fer um framkvæmd atkvæðagreiðslu og úrslit samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða II og III.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 7. gr. laga þessara skulu ekki standa því í vegi að sveitarfélög sem ákveðið hafa að skipa samstarfsnefnd, sbr. 90. gr. laganna, fyrir gildistöku þessara laga haldi þeim viðræðum áfram og efni til atkvæðagreiðslu um sameiningu 23. apríl 2005 eða fyrr. Um framkvæmd og úrslit slíkra atkvæðagreiðslna sem fram fara eftir 31. desember 2004 fer skv. b–d-lið 7. gr. (ákvæðum til bráðabirgða II–IV) og getur sameiningarnefnd, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélög, lagt fram bindandi tillögu um að fleiri sveitarfélög skipi fulltrúa í samstarfsnefnd og taki þátt í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu.

Samþykkt á Alþingi 26. maí 2004.