Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1884, 130. löggjafarþing 737. mál: Landsnet hf..
Lög nr. 75 7. júní 2004.

Lög um stofnun Landsnets hf.


1. gr.

     Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er skal annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003.
     Iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun Landsnets hf. og fer með framkvæmd laga þessara.

2. gr.

     Hlutverk Landsnets hf. er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, og er því óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum. Hlutafélaginu er þó heimilt að reka raforkumarkað. Stjórn Landsnets hf. skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum þess.

3. gr.

     Ríkissjóður Íslands er eigandi alls hlutafjár í Landsneti hf. við stofnun þess. Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Landsneti hf. Stjórn Landsnets hf. skal skipuð þremur mönnum sem iðnaðarráðherra fær til starfans án tilnefningar.

4. gr.

     Landsnet hf. skal frá 1. janúar 2005 annast rekstur þeirra flutningsvirkja er falla undir skilgreiningu 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fram að þeim tíma skal það undirbúa reksturinn m.a. með því að koma fram gagnvart eigendum flutningsvirkja við mat á verðmæti slíkra eigna, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í sömu lögum.
     Heimilt skal að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landsneti hf. þegar flutningsvirki skv. 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, hafa verið metin endanlegu mati og fyrir liggur hvort eigendur þeirra kjósa að leggja flutningsvirkin inn í Landsnet hf. sem hlutafé. Kaupendur hlutafjár geta einungis verið eigendur þeirra flutningsvirkja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003.

5. gr.

     Í stofnyfirlýsingu Landsnets hf. skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.

6. gr.

     Um skattskyldu Landsnets hf. skal fara eins og um skattskyldu annarra orkufyrirtækja.

7. gr.

     Stofna skal Landsnet hf. á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2004. Á fundinum skal kjósa stjórn Landsnets hf. og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að lokaniðurstaða verðmats flutningsvirkja samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI í raforkulögum, nr. 65/2003, liggur fyrir. Fram að því tímamarki skal Landsnet hf. hafa það verkefni að undirbúa starfsemi sína.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.