Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1872, 130. löggjafarþing 871. mál: meðferð opinberra mála (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.).
Lög nr. 86 9. júní 2004.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. og 2. mgr. 43. gr. laganna orðast svo:
     Verjandi skal jafnskjótt og unnt er fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð. Lögregla getur þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Af sömu ástæðu er lögreglu heimilt að neita verjanda um endurrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur. Bera má þá synjun undir dómara.
     Þegar verjandi hefur fengið afhent endurrit af skjölum máls er honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum það með öðrum hætti.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
  1. Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Það sama á við ef ætla má að öryggi vitnis geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur komist með nærveru sinni í þinghaldi að raun um persónuauðkenni þess, enda sé þá um leið gætt leyndar um nafn þess, sbr. 8. mgr.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  3.      Dómari getur samkvæmt kröfu ákveðið að vitni sem kemur fyrir dóm geri ekki í heyranda hljóði grein fyrir nafni sínu eða öðru sem varðar persónu þess og ekki eru efni til að telja nafnleynd geta spillt fyrir vörn sakbornings svo að máli skipti. Skal þá dómara greint bréflega og í trúnaði frá nafni vitnis og öðrum atriðum sem leynd verður um, en gögn með þeim upplýsingum skulu síðan varðveitt þannig að tryggt sé að aðrir fái ekki aðgang að þeim. Sé máli skotið til æðra dóms skulu þessar upplýsingar á sama hátt fylgja því.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Rannsóknari semur skriflegar skýrslur um rannsóknaraðgerðir sínar og skulu skráðar þar skýrslur þeirra sem yfirheyrðir eru, athuganir rannsóknara sjálfs og annað það sem máli skiptir. Rannsóknari getur tekið yfirheyrslur af sakborningum og vitnum upp á hljóðband eða myndband eða mynddisk. Dómsmálaráðherra setur reglur um framkvæmd hljóðritana og upptöku.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Ef ætla má vegna sakarefnis að öryggi þess sem gerir skýrslu eða sinnir annars rannsóknaraðgerð geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur eða aðrir komist að raun um nafn hans eða önnur persónuauðkenni er heimilt með samþykki þess sem rannsókn stýrir að gefa hlutaðeiganda þar tilbúið heiti eða auðkenni. Skal þá um leið skjalfest hvaða maður hafi átt í hlut, en aðrir skulu ekki hafa aðgang að gögnum um það en sá sem rannsókn stýrir, svo og ákærandi og dómari ef mál kemur til kasta þeirra.


4. gr.

     2. málsl. b-liðar 1. mgr. 74. gr. a laganna orðast svo: Ef þörf krefur getur dómari framlengt frest skv. 1. mgr. 43. gr. í allt að fimm vikur svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans.

5. gr.

     Lokamálsliður 1. mgr. 76. gr. laganna verður svohljóðandi: Sá sem á hagsmuna að gæta getur kært ákvörðun lögreglu til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum er tilkynnt um hana og skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum.

6. gr.

     A- og b-liður 86. gr. laganna orðast svo:
  1. að leggja fyrir síma- eða fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki eða að öðrum kosti síma eða fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns,
  2. að fá upplýsingar hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki.


7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.