Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1875, 130. löggjafarþing 594. mál: vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.).
Lög nr. 94 9. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðskýringarinnar „Lífsvæði“ í 1. gr. laganna kemur svohljóðandi orðskýring:
      Búsvæði: svæði sem villt dýr nota sér til framfærslu og viðkomu, svo sem varplönd og fæðusvæði, eða sem farleið.

2. gr.

     Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim tilvikum sem ákveðið er að aflétta friðun skal Umhverfisstofnun gera tillögur til umhverfisráðherra um stjórn og framkvæmd veiða á stofnum villtra fugla og spendýra, sbr. 7. gr., að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands.

3. gr.

     1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, metur ástand þeirra og gerir í framhaldi tillögur til umhverfisráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

4. gr.

     2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Ávallt skal gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Við skipulag og landnotkun skal tekið tillit til villtra dýra og búsvæða þeirra, sbr. lög um náttúruvernd og skipulags- og byggingarlög.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þar skal m.a. kveða á um hvaða tegundir eru alfriðaðar, hverjar er heimilt að veiða, hvar megi veiða þær, gerð og notkun vopna og annarra veiðitækja, veiðiaðferðir, lengd veiðitímabils, sérákvæði vegna hefðbundinna fuglanytja, hvað teljist til fágætra fugla, skylduskil á þeim, umgengni við hreiður þeirra og annað sem máli skiptir.
  2. Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umhverfisráðherra er heimilt að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands að aflétta tímabundið og á ákveðnum svæðum friðun á stofnum eða tegundum villtra dýra, sem flust hafa til Íslands af mannavöldum, til að halda stofnum niðri.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Eitur eða svefnlyf, nema til músa- og rottuveiða.
  2. Í stað tilvísunarinnar „18. gr.“ í 4. tölul. 1. mgr. kemur: 20. gr.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Umhverfisstofnun getur veitt tímabundna undanþágu til að nota þær veiðiaðferðir sem taldar eru upp í 1. mgr. í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni eða umtalsverðum ama og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.


7. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum, músum og minkum, skulu afla sér veiðikorts gegn gjaldi, sbr. 3. mgr.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Umhverfisstofnun annast sölu veiðileyfa og eftirlit með hreindýraveiðum.
  2. 1. málsl. 6. mgr. fellur brott.
  3. 7. mgr. fellur brott.
  4. Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  5.      Enginn má stunda hreindýraveiðar nema hann hafi til þess veiðileyfi og sé í fylgd með leiðsögumanni. Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um réttindi og skyldur leiðsögumanna með hreindýraveiðum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og hreindýraráðs.
         Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar nánari reglur um framkvæmdina, m.a. um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.


9. gr.

     2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Heilbrigðisnefndir hafa umsjón með fækkun á músum og rottum eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.

10. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Sértæk friðun, með tveimur nýjum greinum, svohljóðandi:
     
     a. (18. gr.)
     Ráðherra er heimilt með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að tegundunum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu sérstaklega viðkvæmar fyrir raski.
     Umhverfisstofnun getur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæðum þessa kafla, svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um hana fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.
     
     b. (19. gr.)
Ernir.
     Óheimilt er frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ýtrustu varfærni og forðist að trufla fuglana. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.
     Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkast af 100 m hringmáli umhverfis, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Einnig er óheimilt að koma fyrir hvers kyns búnaði í þeim tilgangi að fæla fugla frá hreiðurstæðum eða reyna að hindra þá í að verpa þar. Með hreiðurstæðum samkvæmt þessari grein er átt við alla þá staði sem ernir hafa orpið á. Heimilt er þó að stugga við örnum sem halda til eða sjást í friðlýstum æðarvörpum, svo fremi sem fuglunum sjálfum, hreiðrum þeirra, eggjum og ungum er ekki hætta búin. Þó er óheimilt að stugga við hreiðurörnum innan 2 km frá varpstað. Ráðherra setur reglugerð um þær aðferðir sem heimilt er að nota til að stugga við örnum í friðlýstum æðarvörpum.
     Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá banni skv. 1. og 2. mgr. í sérstökum tilvikum, svo sem vegna lagningar þjóðvega eða annarrar mannvirkjagerðar í almannaþágu, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá er Umhverfisstofnun heimilt, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr., svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um hana fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.
     Náttúrufræðistofnun Íslands skal halda skrá yfir hreiðurstæði arna og láta Umhverfisstofnun í té. Fara skal með allar upplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál í samræmi við reglur sem umhverfisráðherra setur um meðferð upplýsinga úr skránni. Heimilt er þó að veita landeiganda upplýsingar um arnarhreiður á landareign hans og öðrum sem er nauðsynlegt að fá slíkar upplýsingar, t.d. vegna mannvirkjagerðar í almannaþágu.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.