Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 679, 131. löggjafarþing 328. mál: raforkulög (gjaldskrár, tekjumörk o.fl.).
Lög nr. 149 22. desember 2004.

Lög um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, 6. mgr., svohljóðandi:
     Stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn flutningsfyrirtækis þess sem ráðherra veitir rekstrarleyfi skv. 1. mgr. skulu hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. 2. tölul. 2. mgr. orðast svo: Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs kerfisins. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir eru 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til. Um heimild til uppfærslna á bókfærðu verði fastafjármuna við útreikning tekjumarka vegna endurmats og breytinga á verðlagi skal kveðið á í reglugerð.
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn en endurskoðuð árlega. Við endurskoðun skal athugað hvort breytingar hafi orðið á forsendum sem lagðar voru til grundvallar við ákvörðun tekjumarka. Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur milli ára. Í reglugerð skal kveðið á um takmörk heimilda til uppsöfnunar réttinda.
 4. Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Gjaldtaka fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðisins auk þess sem móttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins, sbr. þó 5. mgr. Ekki skal greitt af notkun í einangruðum kerfum innan dreifiveitusvæða sem ekki njóta tengingar við flutningskerfið.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Sama gjaldskrá skal vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal innmötunargjaldið renna til dreifiveitunnar. Greiða skal úttektargjald vegna framleiðslu slíkrar virkjunar til flutningsfyrirtækisins sem hér segir:
  1. Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
  2. Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1–3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 75% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
  3. Vegna orku frá virkjun sem er 3,1–7 MW skal greiða 75% fulls úttektargjalds.

 7. 1. málsl. 8. mgr. orðast svo: Krefjast skal greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda kerfisins.
 8. 9. mgr. orðast svo:
 9.      Komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri fyrirtækisins skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Sama á við komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. 2. tölul. 2. mgr. orðast svo: Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs kerfisins. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir eru 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til. Um heimild til uppfærslna á bókfærðu verði fastafjármuna við útreikning tekjumarka vegna endurmats og breytinga á verðlagi skal kveðið á í reglugerð.
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn en endurskoðuð árlega. Við endurskoðun skal athugað hvort breytingar hafi orðið á forsendum sem lagðar voru til grundvallar við ákvörðun tekjumarka. Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur milli ára. Í reglugerð skal kveðið á um takmörk heimilda til uppsöfnunar réttinda.
 4. 7. mgr. orðast svo:
 5.      Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri veitunnar skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Sama á við komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun.
 6. Við bætist ný málsgrein sem verður 9. mgr. og orðast svo:
 7.      Dreifiveitu er skylt að greiða virkjun sem tengist henni og er undir 3,1 MW þann ávinning, að hluta eða að fullu, sem felst í því að þurfa ekki að greiða úttektargjald að fullu til flutningskerfisins, sbr. ákvæði 5. mgr. 12. gr., með eftirfarandi hætti:
  1. Greiða skal virkjun undir 0,3 MW að fullu hreinan ávinning veitunnar af niðurfellingu úttektargjaldsins.
  2. Fyrir virkjun sem er 0,3–3,1 MW skal minnka greiðsluna hlutfallslega þar til ekkert er greitt sé virkjunin 3,1 MW eða stærri.4. gr.

     Orðin „í samræmi við gjaldskrár sem fengið hafa meðferð“ í 43. gr. laganna falla brott.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum:
 1. Í stað orðanna „Frá 1. janúar 2007“ í 1. mgr. kemur: Frá 1. janúar 2006.
 2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 3.      Óheimilt er að greiða niður raforku til kaupenda sem eiga þess kost að velja sér orkusala með fjármunum sem fást af sölu til kaupenda sem eru bundnir einum raforkusala á tímabilinu 1. janúar 2005 til 1. janúar 2006. Enn fremur er óheimilt að hækka gjald fyrir orku til hinna bundnu kaupenda umfram það tilefni sem leiðir af eðlilegum kostnaðarhækkunum. Orkustofnun getur krafist skýringa og gagna um ákvörðun á raforkuverði til hinna bundnu kaupenda. Stofnunin getur krafist hins sama telji hún óeðlilegt frávik vera á orkuverði miðað við verð hjá öðrum raforkusölum til samsvarandi hóps bundinna raforkukaupenda. Í reglugerð er heimilt að kveða á um hámarksverð raforku til hinna bundnu kaupenda, þ.e. þeirra sem ekki eiga kost á að velja sér raforkusala.


6. gr.

     Í stað orðanna „sex ára“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IX í lögunum kemur: fimm ára.

7. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 12. gr. skulu tekjumörk flutningsfyrirtækis og dreifiveitna einungis sett til eins árs í upphafi og gilda fyrir árið 2005. Orkustofnun er heimilt að ákveða í samráði við eftirlitsskylda aðila að tekjumörk fyrir árið 2006 skuli einnig ákveðin til eins árs.
     
     b. (II.)
     Frá gildistöku laga þessara og fram til 1. janúar 2005 er óheimilt að uppfæra bókfært verð þeirra fastafjármuna sem um er fjallað í 2. tölul. 2. mgr. 12. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna.

8. gr.

     Við upptalningu í viðauka með lögunum bætist nýr töluliður sem verður 3. tölul. og orðast svo: Öldugata í Hafnarfirði.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.