Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1262, 131. löggjafarþing 551. mál: miðlun vátrygginga (EES-reglur).
Lög nr. 32 11. maí 2005.

Lög um miðlun vátrygginga.


I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um miðlun vátrygginga hér á landi. Með miðlun vátrygginga er átt við starfsemi sem felst í að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samninga um vátryggingu, að koma á slíkum samningum eða að aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingarbætur er sett fram.
     Heimild til miðlunar vátrygginga hér á landi hafa:
  1. vátryggingamiðlarar sem hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins skv. 9. gr.,
  2. vátryggingaumboðsmenn sem skráðir eru hjá vátryggingafélagi, sbr. 39. gr.,
  3. vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn með aðalstöðvar á Evrópska efnahagssvæðinu utan Íslands sem fengið hafa starfsleyfi í heimaríki, sbr. 55. gr.,
  4. vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn með aðalstöðvar utan hins Evrópska efnahagssvæðis sem fengið hafa leyfi hér á landi til að reka útibú, sbr. 57. gr.

     Lögin gilda um miðlun endurtrygginga, að undanskildum ákvæðum VI. og XI. kafla.
     Ákvæði VI. og XI. kafla gilda ekki við miðlun stóráhættu.

2. gr.

Ófrávíkjanleiki.
     Óheimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara með samningi ef það leiðir til lakari stöðu viðskiptamanns.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Vátryggingamiðlun:
    1. starfsemi vátryggingamiðlara sem felst í að miðla á eigin ábyrgð vátryggingum, sbr. 1. mgr. 1. gr., og byggist á hlutlausri greiningu vátryggingarsamninga sem í boði eru á markaði,
    2. starfsemi vátryggingamiðlara sem felst í að miðla á eigin ábyrgð vátryggingum, eins eða fleiri vátryggingafélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr.
  2. Vátryggingamiðlari: einstaklingur eða lögaðili sem stundar miðlun frum- og/eða endurtrygginga gegn endurgjaldi.
  3. Vátryggingaumboðsmaður: einstaklingur eða lögaðili sem á grundvelli samnings miðlar frum- og/eða endurtryggingum, sbr. 1. mgr. 1. gr., á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á ábyrgð þeirra gegn endurgjaldi.
  4. Vátryggingasölumaður: starfsmaður sem starfar á vegum og á ábyrgð vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags við miðlun vátrygginga.
  5. Aðildarríki: ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.
  6. Heimaríki: aðildarríki þar sem aðalstöðvar vátryggingamiðlara eru og starfsleyfi er gefið út.
  7. Gistiríki: aðildarríki þar sem vátryggingamiðlari með aðalstöðvar í öðru aðildarríki hefur útibú eða veitir þjónustu án starfsstöðvar.
  8. Þriðja ríki: ríki utan hins Evrópska efnahagssvæðis.
  9. Eftirlitsstjórnvöld: aðili sem samkvæmt lögum hlutaðeigandi ríkis fer með eftirlit með vátryggingamiðlurum, vátryggingafélögum og vátryggingastarfsemi, hér á landi Fjármálaeftirlitið.
  10. Varanlegur miðill: tæki sem gerir viðskiptamanni kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í ákveðinn tíma.
  11. Virkur eignarhlutur: bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórn viðkomandi félags.
  12. Stóráhætta: greinaflokkar vátrygginga er tengjast atvinnurekstri og stærri fyrirtækjum sérstaklega, sbr. 7. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.


4. gr.

Starfsemi undanþegin lögunum.
     Lögin taka ekki til:
  1. starfsemi vátryggingafélaga og starfsmanna þeirra, nema annars sé getið,
  2. ráðgjafar sem tilfallandi er veitt innan ramma annarrar atvinnustarfsemi þegar tilgangurinn með ráðgjöfinni er ekki sá að aðstoða viðskiptamann við gerð eða framkvæmd vátryggingarsamnings,
  3. almennrar upplýsingagjafar um vátryggingar eða þess að koma á tengslum við vátryggingafélag að því tilskildu að tilgangurinn sé ekki sá að aðstoða viðskiptamenn við að gera eða efna vátryggingarsamning, enda fái viðkomandi ekki endurgjald fyrir,
  4. starfsemi í atvinnuskyni þar sem fram fer meðferð vátryggingarkrafna vátryggingafélags, tjónsuppgjör og sérfræðimat á tjónakröfum.


5. gr.

Takmörkun á gildissviði.
     Lögin taka ekki til miðlunar vátrygginga ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
  1. Vátryggingarsamningurinn krefst eingöngu þekkingar á þeirri vátryggingarvernd sem hann veitir.
  2. Vátryggingarsamningurinn er ekki líftryggingarsamningur.
  3. Vátryggingarsamningurinn tekur ekki til skaðabótaábyrgðar.
  4. Miðlun vátrygginga er ekki aðalatvinna viðkomandi.
  5. Vátryggingin kemur til viðbótar tryggingu eða þjónustu sem látin er í té af hvaða aðila sem er ef vátryggingin nær yfir:
    1. hættu á að vörur, sem aðili lætur í té, bili, glatist eða skemmist eða
    2. farangur, sem skemmist eða glatast, og aðra áhættu sem tengist ferð sem bókuð er hjá þeim aðila, jafnvel þótt vátryggingin feli í sér líftryggingu eða skaðabótaábyrgð, að því tilskildu að vátryggingarverndin sé til viðbótar við aðalverndina gegn áhættu tengdri ferðinni.
  6. Árlegt iðgjald er ekki hærra en 40.000 kr., þó aldrei hærra en 500 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi evru á hverjum tíma.
  7. Gildistími vátryggingarsamnings er ekki lengri en fimm ár.


II. KAFLI
Veiting starfsleyfis vátryggingamiðlara.

6. gr.

Starfsleyfisveitandi.
     Fjármálaeftirlitið veitir vátryggingamiðlara starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.
     Vátryggingamiðlara er heimilt að hefja starfsemi þegar leyfi Fjármálaeftirlitsins hefur verið veitt.

7. gr.

Umsókn einstaklinga.
     Umsókn einstaklinga um starfsleyfi vátryggingamiðlara skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
  1. Nafn, kennitala og lögheimili umsækjanda.
  2. Upplýsingar um greinaflokka vátrygginga sem miðla á, sbr. 22. og 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
  3. Staðfesting á að umsækjandi uppfylli kröfur skv. 15. gr.
  4. Staðfesting á að starfsmenn umsækjanda uppfylli kröfur skv. 17. gr.
  5. Upplýsingar um fyrirhugað starfsskipulag þar sem m.a. skal greina frá hvernig fyrirhugaðri starfsemi verður sinnt, starfsstöð, fyrirhuguðum fjölda starfsmanna, innra eftirliti og áhættustýringu.
  6. Áætlun um starfsemina þar sem eftirfarandi skal koma fram:
    1. rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði,
    2. áætluð staða starfseminnar samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld,
    3. áætlun um hvernig umsækjandi hyggst standa við skuldbindingar sínar fyrstu þrjú reikningsárin.
  7. Vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu og skilmála hennar ásamt heiti og aðsetri hlutaðeigandi vátryggingafélags.
  8. Greinargerð um náin tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
  9. Í hvaða ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins fyrirhugað er að stunda vátryggingamiðlun.
  10. Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.


8. gr.

Umsókn lögaðila.
     Umsókn lögaðila um starfsleyfi vátryggingamiðlara skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
  1. Nafn, kennitala og lögheimili umsækjanda.
  2. Upplýsingar um greinaflokka vátrygginga sem miðla á, sbr. 22. og 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
  3. Samþykktir félagsins.
  4. Áætlun um starfsemina þar sem eftirfarandi skal koma fram:
    1. rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði,
    2. áætluð staða félagsins samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld,
    3. áætlun um hvernig umsækjandi hyggst standa við skuldbindingar sínar fyrstu þrjú reikningsárin.
  5. Nöfn, kennitölur og lögheimili stofnenda og hluthafa.
  6. Nöfn, kennitölur og lögheimili stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
  7. Staðfesting á að fyrirsvarsmenn umsækjanda uppfylli kröfur skv. 16. gr.
  8. Staðfesting á að starfsmenn umsækjanda uppfylli kröfur skv. 17. gr.
  9. Vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu og skilmála hennar ásamt heiti og aðsetri hlutaðeigandi vátryggingafélags.
  10. Greinargerð um náin tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
  11. Í hvaða ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins fyrirhugað er að stunda vátryggingamiðlun.
  12. Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.


9. gr.

Veiting starfsleyfis.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að fullbúin umsókn barst.
     Í starfsleyfi skal koma fram til hvaða greinaflokka vátrygginga starfsleyfið tekur.
     Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um starfsleyfi vátryggingamiðlara í Lögbirtingablaði.

10. gr.

Synjun starfsleyfis.
     Fullnægi umsókn um starfsleyfi ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal umsókninni synjað.
     Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan mánaðar frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist umsækjanda sex mánuðum frá móttöku umsóknar.

11. gr.

Skrá yfir veitt starfsleyfi.
     Fjármálaeftirlitið skal halda skrá, vátryggingamiðlaraskrá, yfir þá sem leyfi hafa til vátryggingamiðlunar hér á landi.
     Eftirfarandi atriði skulu skráð:
  1. Nafn, kennitala og lögheimili vátryggingamiðlara.
  2. Útgáfudagur starfsleyfis.
  3. Greinaflokkar vátrygginga sem heimilt er að miðla.
  4. Tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
  5. Heiti og aðsetur þess vátryggingafélags er veitir lögboðna starfsábyrgðartryggingu. Gildistími vátryggingarinnar og vátryggingarfjárhæð.
  6. Nöfn, kennitölur og heimili stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þegar við á.
  7. Í hvaða ríkjum vátryggingamiðlari stundar starfsemi á grundvelli 56. gr.

     Allar breytingar varðandi atriði sem skráð eru í vátryggingamiðlaraskrá skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að þær hafa tekið gildi.
     Almenningi skal heimill aðgangur að vátryggingamiðlaraskrá.

12. gr.

Heiti.
     Sá einn má nota heitið vátryggingamiðlari sem hefur starfsleyfi hér á landi og er skráður í vátryggingamiðlaraskrá.
     Sé hætta á að villst verði á nafni erlends vátryggingamiðlara sem starfar hér á landi á grundvelli 55. gr. og innlends vátryggingamiðlara getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annar vátryggingamiðlarinn verði auðkenndur sérstaklega.

13. gr.

Breyting á starfsemi.
     Vátryggingamiðlari sem hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga skal sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins fyrir hinni nýju starfsemi. Í umsókn skal koma fram hvaða greinaflokka fyrirhugað er að taka upp, þá skulu fylgja umsókn gögn er sanna að gild starfsábyrgðartrygging sé fyrir hendi. Afgreiðsla umsóknarinnar fer skv. 9. gr.

14. gr.

Takmarkanir á starfsemi.
     Vátryggingamiðlari skal einungis miðla frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til stofnunar útibús eða til að veita hér þjónustu án starfsstöðvar.
     Fjármálaeftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá banni skv. 1. mgr.

III. KAFLI
Hæfiskröfur vátryggingamiðlara.

15. gr.

Hæfisskilyrði einstaklings.
     Einstaklingur sem stundar vátryggingamiðlun skal vera lögráða og vera búsettur hér á landi. Hann má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Einstaklingur sem stundar vátryggingamiðlun skal búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Hann má ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina.
     Einstaklingur sem stundar vátryggingamiðlun skal jafnframt hafa staðist próf í miðlun vátrygginga skv. 18. gr.
     Ríkisborgarar annarra aðildarríkja eru undanþegnir búsetuskilyrðum séu þeir búsettir í aðildarríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.

16. gr.

Hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra lögaðila.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri vátryggingamiðlara skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði félagið.
     Um stjórn og framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara gilda ákvæði laga um hlutafélög eða einkahlutafélög, enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

17. gr.

Hæfisskilyrði starfsmanna vátryggingamiðlara.
     Starfsmaður vátryggingamiðlara, sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun skv. 1. tölul. 3. gr., skal hafa staðist próf í miðlun vátrygginga. Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða á starfsmannahaldi ber vátryggingamiðlara að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn samkvæmt þessari málsgrein.
     Vátryggingamiðlari skal tryggja að vátryggingasölumenn er starfa á hans vegum búi yfir nægilegri starfsreynslu og þekkingu til að geta sinnt vátryggingamiðlun, þar á meðal á meginatriðum þessara laga, laga um vátryggingastarfsemi, laga um vátryggingarsamninga og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Vátryggingasölumenn skulu vera lögráða og hafa forræði á búi sínu. Þeir skulu ekki hafa á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Viðskiptaráðherra getur sett nánari reglur um hæfisskilyrði starfsmanna vátryggingamiðlara, m.a. um lágmarksþekkingu.

18. gr.

Próf í miðlun vátrygginga.
     Prófnefnd hefur umsjón með prófi í miðlun vátrygginga sem að jafnaði skal haldið einu sinni á ári. Viðskiptaráðherra skipar þriggja manna prófnefnd til fjögurra ára í senn. Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skulu próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveður. Ákvarðanir prófnefndar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
     Prófnefnd er heimilt að fela óháðum aðilum að gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Þá getur prófnefnd skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka. Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd prófs, þar á meðal prófkröfur og prófsefnislýsingu, og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild.

IV. KAFLI
Fjárhagslegar kröfur vátryggingamiðlara.

19. gr.

Fjárhagsleg staða. Áætlun.
     Vátryggingamiðlari skal á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Ef líkur eru á því að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum skal hann gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir stöðu sinni og leggja fyrir það áætlun um endurreisn fjárhags. Fjármálaeftirlitið ákveður hvort þær ráðstafanir teljast fullnægjandi.
     Áætlun skv. 1. mgr. skal m.a. innihalda áætlaðan rekstrarkostnað, sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld og áætlaðan efnahagsreikning.
     Gefi ársreikningur vátryggingamiðlara Fjármálaeftirlitinu vísbendingu um að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum getur Fjármálaeftirlitið gert vátryggingamiðlara að skila áætlun skv. 1. mgr.
     Meðan áætlun skv. 1. mgr. er í gildi skal Fjármálaeftirlitið ekki framsenda tilkynningu vegna ráðagerða vátryggingamiðlara um starfsemi erlendis, sbr. 56. gr.

20. gr.

Starfsábyrgðartrygging.
     Vátryggingamiðlurum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Slík trygging getur verið vátrygging tekin hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða önnur trygging jafngild að mati Fjármálaeftirlitsins. Nánari ákvæði um gildissvið vátryggingarinnar, þ.m.t. vátryggingarfjárhæðir, skal setja í reglugerð.
     Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar.

21. gr.

Viðtaka fjármuna.
     Vátryggingamiðlari má ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptamanns nema samkvæmt skriflegri heimild.

22. gr.

Vörslufjárreikningar.
     Vátryggingamiðlara er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Vextir, sem á vörslufé kunna að falla, renna til eiganda þess. Vátryggingamiðlari er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
     Viðskiptaráðherra setur nánari reglur um vörslufjárreikninga.

V. KAFLI
Starfshættir vátryggingamiðlara.

23. gr.

Yfirsýn yfir starfsemina og sérstakar ráðstafanir.
     Vátryggingamiðlari skal:
  1. gæta þess að framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunar hafi yfirsýn yfir rekstur miðlunarinnar, þar á meðal fjárhagslega stöðu,
  2. gæta þess að sá starfsmaður, sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun skv. 1. tölul. 3. gr., hafi yfirsýn yfir rekstur miðlunarinnar,
  3. gæta þess að fjöldi vátryggingasölumanna er starfa á hans vegum sé hæfilegur svo fullvíst megi telja að hann hafi yfirsýn yfir reksturinn.


24. gr.

Ráðningar- eða verksamningar.
     Vátryggingamiðlari skal gera skriflegan ráðningar- og/eða verksamning við vátryggingasölumenn sem eru í þjónustu hans eða koma fram fyrir hans hönd. Þar skal kveðið á um réttindi og skyldur aðila, þar á meðal um að vátryggingasölumaður starfi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti vátryggingamiðlarans. Vátryggingamiðlari skal tryggja að vátryggingasölumaður falli undir starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlarans. Vátryggingasölumaður sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingamiðlara skal starfa í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um miðlun vátrygginga. Viðkomandi ber að leysa starf sitt af hendi í samræmi við góðar venjur í vátryggingaviðskiptum.

25. gr.

Samningur um þjónustu.
     Vátryggingamiðlari skal gera skriflegan samning við viðskiptamenn sína áður en hann tekur til starfa fyrir viðkomandi. Í samningi skal koma fram í hverju umboð vátryggingamiðlarans felst, hversu víðtækt það er og til hvaða þátta á starfssviði hans það nær. Einnig skal koma fram hvort honum er heimilt að taka við fjármunum fyrir hönd viðskiptamanna og um skil á þeim.

26. gr.

Skilríki.
     Hver sá sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingamiðlara skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem gefin eru út af vátryggingamiðlara sem hann starfar fyrir.

27. gr.

Trúnaðarupplýsingar.
     Vátryggingamiðlari, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, vátryggingasölumenn, aðrir starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu vátryggingamiðlara eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingarnar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
     Við miðlun vátrygginga skal fullnægja skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

28. gr.

Góðir viðskiptahættir og venjur.
     Vátryggingamiðlari skal starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Verði misbrestur á skal Fjármálaeftirlitið gefa fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.

29. gr.

Reglugerðarheimild.
     Viðskiptaráðherra hefur heimild til að kveða nánar á um starfshætti vátryggingamiðlara í reglugerð, þar á meðal um yfirsýn vátryggingamiðlara yfir rekstur.

VI. KAFLI
Upplýsingaskylda vátryggingamiðlara.

30. gr.

Upplýsingar við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingamiðlari láta væntanlegum vátryggingartaka í té a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
  1. Nafn og heimilisfang vátryggingamiðlarans.
  2. Hvar vátryggingamiðlari er skráður og hvernig ganga megi úr skugga um skráninguna.
  3. Hvort hann veitir ráðgjöf á grundvelli a- eða b-liðar 1. tölul. 3. gr.
  4. Hvort vátryggingamiðlari eigi virkan eignarhlut í vátryggingafélagi.
  5. Hvort vátryggingafélag eða móðurfélag vátryggingafélags eigi virkan eignarhlut í vátryggingamiðlara.
  6. Um endurgjald skv. 1. mgr. 32. gr.

     Við endurnýjun vátryggingarsamnings, eða breytingu á honum, skal veita vátryggingartaka upplýsingar skv. 1. mgr. hafi breytingar orðið á atriðum sem talin eru upp í 1.–6. tölul.
     Miðli vátryggingamiðlari vátryggingum á grundvelli b-liðar 1. tölul. 3. gr. skal væntanlegur vátryggingartaki upplýstur um heiti vátryggingafélaganna áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi.
     Upplýsingaskylda vátryggingafélags samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga og vátryggingastarfsemi hvílir á vátryggingamiðlara við vátryggingamiðlun eftir því sem við á.

31. gr.

Rökstuðningur ráðgjafar.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingamiðlari skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur og þarfir hans. Skal hann skýra væntanlegum vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Rökstuðningur skal taka mið af eðli þess vátryggingarsamnings sem mælt er með.

32. gr.

Endurgjald.
     Væntanlegur vátryggingartaki skal upplýstur um endurgjald sem vátryggingamiðlari þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna. Skýrt skal koma fram hvor skuli greiða endurgjaldið, væntanlegur vátryggingartaki eða vátryggingafélag.
     Vátryggingamiðlari má ekki taka við endurgjaldi af neinu tagi frá vátryggingafélagi nema vegna vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á milli vátryggingafélagsins og vátryggingartaka.
     Upplýsingar skv. 1. mgr. skal einnig veita við breytingu eða endurnýjun á vátryggingarsamningi.

33. gr.

Form upplýsinga.
     Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessum kafla skal veita:
  1. skriflega eða á öðrum varanlegum miðli,
  2. á skýran og nákvæman hátt sem viðtakandanum er skiljanlegur,
  3. á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. er heimilt að veita upplýsingar munnlega óski væntanlegur vátryggingartaki þess sérstaklega eða ef vátryggingarverndar er þörf þegar í stað. Í slíkum tilvikum skal veita upplýsingar í samræmi við 1. mgr. þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.
     Við miðlun vátrygginga í símsölu skal veita upplýsingar skv. 9. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.

VII. KAFLI
Afturköllun og innlögn starfsleyfis vátryggingamiðlara.

34. gr.

Ástæður afturköllunar.
     Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi vátryggingamiðlara þegar:
  1. vátryggingamiðlari hefur fengið starfsleyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
  2. vátryggingamiðlari hefur ekki gilda starfsábyrgðartryggingu,
  3. eftirlitsgjald er í vanskilum,
  4. vátryggingamiðlari eða starfsfólk hans uppfyllir ekki hæfisskilyrði sem fram koma í 15.–17. gr.,
  5. starfsleyfi hefur ekki verið nýtt innan tólf mánaða frá því að það var veitt, því verið ótvírætt afsalað eða starfsemi hefur verið hætt í meira en sex mánuði samfellt,
  6. vátryggingamiðlari brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal vátryggingamiðlara veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
     Við afturköllun starfsleyfis skal Fjármálaeftirlitið taka vátryggingamiðlara út af vátryggingamiðlaraskrá.

35. gr.

Tilkynning um afturköllun starfsleyfis.
     Afturköllun á starfsleyfi vátryggingamiðlara skal tilkynnt fyrirsvarsmanni eða stjórn vátryggingamiðlara og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Starfræki vátryggingamiðlari útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynning send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.

36. gr.

Innlögn starfsleyfis.
     Hyggist vátryggingamiðlari hætta starfsemi, standi hann ekki lengur fyrir sjálfstæðri starfsemi eða starfi hann ekki lengur hjá vátryggingamiðlara skal hann skila inn starfsleyfi sínu.
     Áður en vátryggingamiðlari hættir starfsemi og leggur inn starfsleyfi sitt skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptamanna sinna. Hann skal upplýsa viðsemjendur sína, þ.e. vátryggingafélög og þá sem hafa falast eftir vátryggingu, um innlögn starfsleyfis. Hann skal jafnframt leitast við að fá annan til þess bæran aðila, einn eða fleiri, til að taka að sér að þjónusta þá vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á. Hann skal gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum.
     Vátryggingamiðlara sem hyggst skila inn starfsleyfi sínu skv. 1. mgr. er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlits á innlögn leyfis.
     Við innlögn starfsleyfis skal vátryggingamiðlari felldur út af vátryggingamiðlaraskrá. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu þess efnis í Lögbirtingablaði.
     Óski aðili sem lagt hefur starfsleyfi inn að hefja starfsemi að nýju fer um þá umsókn eftir ákvæðum II. kafla.

VIII. KAFLI
Tilkynningar og skil á gögnum vátryggingamiðlara.

37. gr.

Skil ársreiknings.
     Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu ársreikning endurskoðaðan af löggiltum endurskoðanda eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningur skal undirritaður af vátryggingamiðlara og stjórn og framkvæmdastjóra þegar um lögaðila er að ræða.
     Í skýringum ársreiknings skal greina frá heildarfjárhæð fjármuna sem vátryggingamiðlari varðveitir á vörslufjárreikningum í árslok fyrir hönd viðskiptaaðila, sbr. 22. gr. Þá skal fylgja yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að meðferð vátryggingamiðlara á fjármunum undangengið reikningsár sé í samræmi við lög þessi og reglur um vörslufjárreikninga.
     Ársreikningi skal fylgja skrá yfir þau vátryggingafélög sem miðlað er til vegna vátryggingaráhættu hér á landi ásamt iðgjaldamagni og þóknun frá hverju félagi vegna vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á, með skiptingu á greinaflokka vátrygginga. Einnig skal fylgja greinargerð um önnur tengsl við vátryggingafélög.

38. gr.

Tilkynning um framkomna skaðabótakröfu.
     Vátryggingamiðlari skal þegar í stað tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef gerð er skaðabótakrafa vegna starfa hans. Í tilkynningunni skulu koma fram upplýsingar um efni og fjárhæð kröfunnar.

IX. KAFLI
Skráning vátryggingaumboðsmanns.

39. gr.

Skráning vátryggingaumboðsmanns.
     Þegar vátryggingafélag hefur gert samning við vátryggingaumboðsmann um miðlun vátrygginga félagsins skal félagið skrá vátryggingaumboðsmann, sbr. 40. gr. Almenningi skal heimill aðgangur að upplýsingum um skráða vátryggingaumboðsmenn hjá viðkomandi vátryggingafélagi.
     Vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi þegar hann hefur verið skráður hjá vátryggingafélagi.
     Þegar vátryggingaumboðsmaður hættir að miðla vátryggingum á vegum vátryggingafélags skal hann tekinn út af skrá félagsins.
     Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um skráningu vátryggingaumboðsmanns.

40. gr.

Skilyrði skráningar.
     Áður er vátryggingafélag skráir vátryggingaumboðsmann skal félagið ganga úr skugga um að:
  1. einstaklingur sem starfar sem vátryggingaumboðsmaður uppfylli ákvæði 1. og 2. mgr. 15. gr.,
  2. vátryggingaumboðsmaður sem starfar sem lögaðili uppfylli ákvæði 16. gr.,
  3. vátryggingasölumenn sem starfa á ábyrgð vátryggingaumboðsmanns uppfylli skilyrði 2. og 3. mgr. 17. gr.


41. gr.

Heiti.
     Sá einn má nota heitið vátryggingaumboðsmaður sem hefur verið skráður hjá vátryggingafélagi.
     Sé hætta á að villst verði á nafni erlends vátryggingaumboðsmanns sem starfar hér á landi á grundvelli 55. gr. og innlends vátryggingaumboðsmanns getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annar vátryggingaumboðsmaðurinn verði auðkenndur sérstaklega.

42. gr.

Takmarkanir á starfsemi.
     Vátryggingaumboðsmaður skal einungis miðla frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til stofnunar útibús eða til að veita hér þjónustu án stofnunar útibús.
     Fjármálaeftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá banni skv. 1. mgr.

43. gr.

Viðtaka fjármuna.
     Vátryggingaumboðsmaður má ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptamanns nema samkvæmt skriflegri heimild.

44. gr.

Vörslufjárreikningur.
     Vátryggingaumboðsmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Vextir, sem á vörslufé kunna að falla, renna til eiganda þess. Vátryggingaumboðsmaður er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
     Viðskiptaráðherra setur nánari reglur um vörslufjárreikninga.

X. KAFLI
Starfshættir vátryggingaumboðmanns.

45. gr.

Yfirsýn yfir starfsemina og sérstakar ráðstafanir.
     Vátryggingaumboðsmaður skal:
  1. gæta þess að framkvæmdastjóri vátryggingaumboðsmanns hafi yfirsýn yfir rekstur starfseminnar,
  2. gæta þess að sá starfsmaður, sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við miðlun vátrygginga, sbr. 1. mgr. 1. gr., hafi yfirsýn yfir rekstur starfseminnar,
  3. gæta þess að fjöldi vátryggingasölumanna er starfa á hans vegum sé hæfilegur svo fullvíst megi telja að hann hafi yfirsýn yfir reksturinn.


46. gr.

Ráðningar- eða verksamningar.
     Vátryggingaumboðsmaður skal gera skriflegan ráðningar- og/eða verksamning við vátryggingasölumenn sem eru í þjónustu hans eða koma fram fyrir hans hönd. Þar skal kveðið á um réttindi og skyldur aðila, þar á meðal um að vátryggingasölumaður starfi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti vátryggingaumboðsmanns. Vátryggingasölumaður sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingaumboðsmanns skal starfa í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um miðlun vátrygginga. Viðkomandi ber að leysa starf sitt af hendi í samræmi við góðar venjur í vátryggingaviðskiptum.

47. gr.

Skilríki.
     Hver sá sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingaumboðsmanns skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem útgefin eru af vátryggingaumboðsmanni sem hann starfar fyrir.

48. gr.

Trúnaðarupplýsingar.
     Vátryggingaumboðsmaður, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, vátryggingasölumenn, aðrir starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu vátryggingaumboðsmanns eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingarnar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
     Við miðlun vátrygginga skal fullnægja skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

49. gr.

Góðir viðskiptahættir og venjur.
     Vátryggingaumboðsmaður skal starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Verði misbrestur á skal Fjármálaeftirlitið gefa fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.

50. gr.

Reglugerðarheimild.
     Viðskiptaráðherra hefur heimild til að kveða nánar á um starfshætti vátryggingaumboðsmanna í reglugerð, þar á meðal um yfirsýn vátryggingaumboðsmanna yfir rekstur.

XI. KAFLI
Upplýsingaskylda vátryggingaumboðmanns.

51. gr.

Upplýsingar við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingaumboðsmaður láta væntanlegum vátryggingartaka í té a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
  1. Nafn og heimilisfang vátryggingaumboðsmanns.
  2. Hvar vátryggingaumboðsmaður er skráður og hvernig ganga megi úr skugga um skráninguna.
  3. Heiti þeirra vátryggingafélaga sem hann er umboðsmaður fyrir.
  4. Hvort vátryggingaumboðsmaður eigi virkan eignarhlut í vátryggingafélagi.
  5. Hvort tiltekið vátryggingafélag eða móðurfélag tiltekins vátryggingafélags eigi virkan eignarhlut í vátryggingaumboði.
  6. Um endurgjald skv. 1. mgr. 53. gr. þegar við á.

     Við endurnýjun vátryggingarsamnings, eða breytingu hans, skal veita vátryggingartaka upplýsingar skv. 1. mgr. hafi breytingar orðið á atriðum sem talin eru upp í 1.–6. tölul.
     Upplýsingaskylda vátryggingafélags samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga og lögum um vátryggingastarfsemi hvílir á vátryggingaumboðsmanni við miðlun vátrygginga eftir því sem við á.

52. gr.

Rökstuðningur ráðgjafar.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingaumboðsmaður skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur og þarfir hans. Skal hann skýra væntanlegum vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Umfang skýringa miðast við hversu flóknum vátryggingarsamningi mælt er með.

53. gr.

Endurgjald.
     Miðli vátryggingaumboðsmaður vátryggingum í sama greinaflokki á vegum fleiri en eins vátryggingafélags skal væntanlegur vátryggingartaki upplýstur um endurgjald sem vátryggingaumboðsmaður þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna. Skýrt skal koma fram hvor skuli greiða endurgjaldið, væntanlegur vátryggingartaki eða vátryggingafélag.
     Eigi væntanlegur vátryggingartaki að greiða endurgjald sem vátryggingaumboðsmaður þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna, að hluta eða öllu leyti, skal hann ávallt upplýstur um endurgjaldið áður en hann er skuldbundinn af samningi.
     Upplýsingar samkvæmt ákvæðinu skal einnig veita við breytingu eða endurnýjun á vátryggingarsamningi.

54. gr.

Form upplýsinga.
     Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessum kafla skal veita:
  1. skriflega eða á öðrum varanlegum miðli,
  2. á skýran og nákvæman hátt sem viðtakandanum er skiljanlegur,
  3. á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. er heimilt að veita upplýsingar munnlega óski væntanlegur vátryggingartaki þess sérstaklega eða ef vátryggingarverndar er þörf þegar í stað. Í slíkum tilvikum skal veita upplýsingar í samræmi við 1. mgr. þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.
     Við miðlun vátrygginga í símsölu skal veita upplýsingar skv. 9. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.

XII. KAFLI
Starfsemi á milli landa.

55. gr.

Starfsemi erlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna hér á landi.
     Vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður, sem er skráður eða hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki, getur stofnsett útibú hér á landi eða veitt þjónustu án starfsstöðvar einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitinu hefur borist tilkynning frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki viðkomandi um fyrirhugaða starfsemi.

56. gr.

Starfsemi innlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna erlendis.
     Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn, sem vilja stunda starfsemi í öðru aðildarríki með stofnun útibús eða veita þar þjónustu án starfsstöðvar, skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu slíka fyrirætlan. Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skal koma fram:
  1. aðildarríki þar sem viðkomandi hyggst stofnsetja útibú og heimilisfang þess eða
  2. aðildarríki þar sem viðkomandi hyggst veita þjónustu án stofnunar útibús.

     Fjármálaeftirlitið skal innan mánaðar tilkynna lögbærum yfirvöldum hlutaðeigandi ríkis fyrirætlan viðkomandi, enda sé af hálfu aðildarríkis óskað eftir slíkum upplýsingum.
     Vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt viðkomandi að tilkynning um fyrirhugaða starfsemi hafi verið send gistiríki en þegar í stað óski aðildarríki ekki eftir slíkum upplýsingum.

57. gr.

Stofnun útibús vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna utan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.
     Fjármálaeftirlitið getur heimilað vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi. Um leyfisveitingu og starfsemi slíkra aðila gilda ákvæði 71.–76. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

58. gr.

Reglugerðarheimild.
     Viðskiptaráðherra getur sett reglugerð um heimildir erlendra vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna til starfsemi hér á landi og innlendra vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna erlendis. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um eftirlit með og nánari kröfur til útibúa og umboðsskrifstofa erlendra aðila og um heimildir innlendra aðila til að stunda starfsemi erlendis.

XIII. KAFLI
Eftirlit og viðurlög.

59. gr.

Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi samkvæmt lögum þessum, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um vátryggingastarfsemi og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

60. gr.

Eftirlitsgjald.
     Vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi útgefið af Fjármálaeftirlitinu skulu árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar í samræmi við ákvæði laga þar um. Jafnframt skulu vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn sem heimild hafa til að starfa hér á landi skv. 57. gr. greiða eftirlitsgjald árlega.

61. gr.

Aðstoð við yfirvöld annarra EES-ríkja.
     Lögbæru yfirvaldi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra fyrirtækja hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.

62. gr.

Viðurlög.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laga þessara.

XIV. KAFLI
Innleiðing, gildistaka og breyting á öðrum lögum.

63. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/92/EB frá 9. desember 2002, um miðlun vátrygginga.

64. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

65. gr.

Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.
     Eftirtaldar breytingar verða á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, við gildistöku laga þessara:
  1. 2. málsl. 1. gr. fellur brott.
  2. Skilgreiningar á hugtökunum „vátryggingamiðlun“, „vátryggingamiðlari“ og „vátryggingaumboðsmaður“ í 7. gr. falla brott.
  3. Skilgreining á hugtakinu „vátryggingasölumaður“ í 7. gr. orðast svo: starfsmann sem starfar á vegum og á ábyrgð vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags.
  4. 3. mgr. 13. gr. fellur brott.
  5. IX. kafli fellur brott.


66. gr.

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.
     3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi: Vátryggingamiðlarar skulu greiða 0,09% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi skv. 81. gr. laga um vátryggingastarfsemi við gildistöku þessara laga skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði laga þessara og skulu uppfylla þau eigi síðar en 1. júlí 2005.
     Vátryggingamiðlarar sem uppfyllt hafa kröfu um þekkingu og starfsreynslu á grundvelli 1.–4. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 853/1999, um miðlun vátrygginga, eru undanþegnir töku prófs skv. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga þessara.
     Hafi vátryggingamiðlari lagt inn starfsleyfi sitt fyrir gildistöku laga þessara gilda ákvæði þeirra um hvernig hann getur öðlast starfsleyfi á ný.
     Vátryggingaumboðsmenn sem eru starfandi við gildistöku laga þessara skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði laganna og skulu uppfylla þau eigi síðar en 1. júlí 2005.
     Vátryggingasölumenn skulu uppfylla hæfiskröfur laga þessara innan sex mánaða frá gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2005.