Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1259, 131. löggjafarþing 495. mál: vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (rjúpnaveiðar, sölubann og takmörkun veiða).
Lög nr. 36 11. maí 2005.

Lög um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðanna „vélsleða og fjórhjól“ í 2. málsl. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki.

2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að takmarka veiðar við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. og ákveðinn tíma sólarhrings.

3. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, er orðast svo ásamt fyrirsögn:
Bann við sölu á veiðifangi.
     Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands viðkomandi stofns að takmarka veiðar.
     Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja fugla og afurðir fugla sem ráðherra hefur bannað sölu á skv. 1. mgr. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.
     Sölubann sem ráðherra ákveður skv. 1. mgr. nær ekki til innfluttra fugla og fuglaafurða þeirra tegunda sem bannið tekur til. Innflytjanda og seljanda ber að tryggja að innfluttar fuglategundir og afurðir þeirra séu þannig merktar að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar.

4. gr.

     Í stað orðanna „Á sama tíma“ í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: Frá 1. apríl til 14. júlí ár hvert.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 17. gr. a. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.
  3. Á eftir orðunum „framkvæmd brots“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann skv. 17. gr. a.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2005.