Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1314, 131. löggjafarþing 478. mál: bókhald (ársreikningar o.fl.).
Lög nr. 48 13. maí 2005.

Lög um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „hlutafélög“ í 1. tölul. kemur: einkahlutafélög.
  2. 4. tölul. orðast svo: sparisjóðir.


2. gr.

     Í stað orðanna „góða bókhalds- og reikningsskilavenju“ í 4. gr. laganna kemur: settar reikningsskilareglur.

3. gr.

     Í stað orðanna „bókhalds- og reikningsskilavenju“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: bókhaldsvenju og settar reikningsskilareglur.

4. gr.

     4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra getur sett reglur um færslu rafræns bókhalds, þar á meðal um hugbúnað vegna gagnaflutninga milli gagnaflutningskerfa, og um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að rafrænt bókhald sé fært í samræmi við lög og reglugerðir.

5. gr.

     Í stað orðanna „skjölum sem flutt eru milli tölvukerfa“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: rafrænum skjölum.

6. gr.

     Í stað orðsins „tölvutæku“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: rafrænu.

7. gr.

     2. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
     Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við upphaf eða lok rekstrar eða breytingu á reikningsári getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó aldrei lengra en fimmtán mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. Breytingin skal tilgreind og rökstudd í skýringum.

8. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Á efnahagsreikning eru færðar á kerfisbundinn hátt eignir, skuldir, þ.m.t. skuldbindingar, og eigið fé sem er mismunur eigna og skulda.
     Eign skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt er að félagið hafi af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.
     Skuld skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt þykir að til greiðslu hennar komi og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.
     Efnahagsreikningurinn skal þannig sundurliðaður að hann gefi skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.

9. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Allar tekjur og öll gjöld reikningsársins skulu koma fram á rekstrarreikningi nema lög þessi eða settar reikningsskilareglur kveði á um annað.
     Í rekstrarreikningi skal á kerfisbundinn hátt sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðað að reikningurinn gefi skýra mynd af rekstrarafkomunni á reikningsárinu í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.

10. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Rekstrarreikningar og efnahagsreikningar skulu settir upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Ef gerðar eru breytingar skulu þær tilgreindar í skýringum.
     Óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða.
     Texti ársreiknings skal vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum.

11. gr.

     3. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
     Birgðir skal meta á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist. Ef birgðir eru metnar við dagverði og það er verulega lægra en kostnaðarverð skal gera grein fyrir því í skýringum. Kostnaðarverð birgða tekur til alls kostnaðar við kaup á birgðum eða áfallins kostnaðar við framleiðslu þeirra. Auk þess telst til kostnaðarverðs birgða allur kostnaður við að koma þeim á núverandi stað og í það ástand sem þær eru. Dreifingarkostnað má ekki telja til kostnaðarverðs birgða.

12. gr.

     1. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
     Ef markaðsverð fastafjármuna er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt.

13. gr.

     30. gr. laganna orðast svo með fyrirsögn:
Beiting reikningsskilareglna.
     Bókhaldsskyldum aðilum sem falla ekki undir ákvæði annarra laga um samningu ársreikninga er heimilt að beita settum reikningsskilareglum við samningu ársreikninga sinna. Í skýringum skal gera grein fyrir beitingu slíkra reglna.

14. gr.

     32. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmenn í félögum skv. 7. tölul. 1. gr., sem fara með minnst einn fimmta hluta atkvæða í félagi, geta á fundi krafist þess að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi, endurskoðunarfélag eða skoðunarmaður.
     Skoðunarmenn skv. 1. mgr. skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi. Þeir skulu hafa þá reynslu í bókhaldi og viðskiptaháttum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins er nauðsynleg til rækslu starfans. Hæfisskilyrði 9. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, eiga einnig við um skoðunarmenn.
     Uppfylli endurskoðandi eða skoðunarmaður ekki lengur skilyrði til starfans og enginn varamaður er til að koma í hans stað skal stjórn félagsins annast um að valinn verði nýr endurskoðandi eða skoðunarmaður eins fljótt og unnt er og skal hann gegna því starfi þar til kosning getur farið fram.
     Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um starf endurskoðanda sem kosinn er skv. 1. mgr.

15. gr.

     Í stað orðsins „Skoðunarmenn“ í 33. gr. laganna kemur: Endurskoðendur og skoðunarmenn.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef kosinn er skoðunarmaður, eða skoðunarmenn, úr hópi félagsmanna jafnframt endurskoðanda eða skoðunarmanni skv. 1. mgr. 32. gr. í samræmi við samþykktir félagsins, skulu þeir árita ársreikninginn.
  2. Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
  3.      Skoðunarmenn skv. 1. mgr. mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Skoðunarmenn“ í 1. mgr. kemur: Endurskoðendur og skoðunarmenn.
  2. Í stað orðsins „Skoðunarmönnum“ í 2. mgr. kemur: Endurskoðendum og skoðunarmönnum.


18. gr.

     Í stað orðanna „góða reikningsskilavenju“ í 5. tölul. 1. mgr. 38. gr. laganna kemur: lög þessi og settar reikningsskilareglur.

19. gr.

     Í stað orðanna „Rannsóknarlögregla ríkisins“ í 1. mgr. 41. gr. laganna kemur: Ríkislögreglustjóri.

20. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda um færslu bókhalds og samningu ársreikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 2005.