Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1446, 131. löggjafarþing 698. mál: fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi (farmflutningar).
Lög nr. 51 18. maí 2005.

Lög um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðanna „vöruflutninga og efnisflutninga“ í 1. málsl. 1. gr. og 1. málsl. 2. gr. laganna kemur: farmflutninga.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „vöruflutninga og/eða efnisflutninga“ í a-lið kemur: og farmflutninga.
 2. I-liður orðast svo: Farmflutningar í atvinnuskyni: Flutningur á hvers kyns farmi gegn endurgjaldi þegar flutningsþjónusta er seld sérstaklega og flytjandi starfar við flutningsþjónustu. Sem dæmi má nefna farmflutningafyrirtæki og vörubifreiðastjóra sem starfa sem verktakar við flutning á farmi.
 3. J-liður orðast svo: Farmflutningar í eigin þágu: Flutningur farms þegar ekki er innheimt sérstakt gjald fyrir flutninginn. Sem dæmi má nefna flutning iðnfyrirtækis á eigin hráefni og/eða aðföngum með merktum bifreiðum, svo sem flutning á gosdrykkjum og flutning með mjólkurbifreiðum. Einnig flutningur verktaka sem starfa við annars konar verktöku en flutningsþjónustu þótt flutningurinn sé hluti af verki, svo sem verktaka við byggingar.


3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá sem stundar fólksflutninga og/eða farmflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum þessum skal hafa til þess almennt rekstrarleyfi.
     Leyfi má veita einstaklingum eða lögaðilum, hvort sem eru fyrirtæki, félög eða stofnanir. Leyfishafi skal uppfylla skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 5. gr.
     Ef leyfishafinn er einstaklingur skal hann jafnframt uppfylla skilyrði 2. og 3. tölul. 1. mgr. 5. gr.
     Ef leyfishafi er lögaðili skal starfa hjá honum forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum. Forsvarsmaður skal uppfylla skilyrði 2. og 3. tölul. 1. mgr. 5. gr.
     Leyfisbréf og leyfismerki skulu gefin út af Vegagerðinni. Leyfishafi skal hafa leyfisbréfið sýnilegt í bifreið sinni og leyfismerki fest í vinstri kant framrúðu eða á númeraplötu bifreiðarinnar. Leyfi skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt.
     Ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu.
     Óheimilt er að stunda leyfisskyldan fólks- eða farmflutning án tilskilins leyfis og er slíkt brot gegn ákvæðum laganna og refsivert, sbr. 16. gr.

4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Til að öðlast leyfi skv. 4. gr. þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
 1. Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
 2. Fullnægja skilyrðum um starfshæfni eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
 3. Hafa ekki verið dæmdir til refsivistar eða framið alvarleg eða ítrekuð brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda, svo sem stundað leyfisskyldan akstur án tilskilins leyfis. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.

     Skilyrðum skv. 1. mgr. verður leyfishafi einnig að fullnægja á leyfistímanum.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um leyfi, skilyrði fyrir leyfum og framkvæmd leyfisveitinga.

5. gr.

     9. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „vöru- og efnisflutninga“ í 1. málsl. kemur: og farmflutninga.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fólks- og farmflutningar innan Evrópska efnahagssvæðisins og milli aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „vöru- og efnisflutninga“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: og farmflutninga.
 2. Í stað orðanna „eftirliti og leyfisveitingum“ í 4. mgr. kemur: framkvæmd leyfisveitinga.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Leyfisgjöld.


8. gr.

     14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Brottfall leyfis.
     Leyfi skv. 4. gr. fellur niður ef leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa verður gjaldþrota eða er sviptur fjárræði.
     Hafi Vegagerðinni borist tilkynning um að leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa uppfylli ekki lengur skilyrði 5. gr. getur hún fellt leyfi skv. 4. gr. úr gildi. Um tilkynningar gilda ákvæði 1. mgr. 15. gr. eftir því sem við á. Áður en leyfi er fellt úr gildi skal Vegagerðin senda viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar og leyfishafa gefinn kostur á að bæta úr annmörkum. Vegagerðin leggur mat á hvort skilyrði 5. gr. eru uppfyllt.
     Komi til brottfalls leyfis skv. 2. mgr. skal Vegagerðin senda leyfishafa skriflega tilkynningu þess efnis og frá hvaða tíma leyfi telst niður fallið.

9. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 15. gr. laganna og orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tilkynningar um brot og eftirfarandi eftirlit.
     Tilkynna má til Vegagerðarinnar ef leyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er stunduð án tilskilins leyfis. Tilkynningar geta verið hvort sem er munnlegar eða skriflegar og skulu innihalda, eftir því sem við á, greinargóðar lýsingar og skýringar á meintu broti, upplýsingar um þá starfsemi sem stunduð er, ökutæki sem notuð eru við starfsemina og aðila sem hana stunda. Berist Vegagerðinni slík tilkynning skal hún þegar senda skriflega fyrirspurn um starfsemina og gefa viðkomandi færi til skýringa. Vegagerðin leggur mat á hvort starfsemi er leyfisskyld og skal veita viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta.
     Hafi Vegagerðinni borist tilkynning um leyfisskylda starfsemi sem stunduð er án tilskilins leyfis og ljóst þykir af skýringum frá viðkomandi að starfsemin er leyfisskyld, en ekki er orðið við áskorunum um að sækja um leyfi skv. 4. gr., er sérstökum eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar heimilt að stöðva ökutæki hans og kyrrsetja það uns sótt hefur verið um leyfi. Ef ekki er orðið við ítrekuðum áskorunum Vegagerðarinnar um skýringar á starfsemi er eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar heimilt að stöðva ökutæki viðkomandi til að kanna um hvernig flutning er að ræða og hvort starfsemi er leyfisskyld. Vegagerðin getur leitað aðstoðar lögreglu við að stöðva ökutæki í þessum tilvikum.
     Ökumanni er skylt að stöðva ökutæki þegar lögreglan eða eftirlitsmaður Vegagerðarinnar gefur stöðvunarmerki og verða við fyrirmælum um að hætta akstri. Ökumaður ber ábyrgð á farmi sem hann flytur þegar ökutæki er stöðvað samkvæmt þessari grein og ber ábyrgð á að útvega áframhaldandi flutning farmsins til viðtakanda.

10. gr.

     15. gr. laganna, er verður 16. gr., orðast svo ásamt fyrirsögn:
Refsingar.
     Brot gegn ákvæðum 4., 6., 7., 10. og 12. gr. laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála.
     Sektir allt að 100.000 kr. fyrir brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum ríkissaksóknara.

11. gr.

     Á undan 16. gr. laganna kemur ný grein er verður 17. gr. laganna og orðast svo ásamt fyrirsögn:
Málskot.
     Stjórnsýsluákvörðunum Vegagerðarinnar samkvæmt lögum þessum má skjóta til ráðuneytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

12. gr.

     Í stað orðanna „vöruflutningum og efnisflutningum“ í 2. mgr. 16. gr. laganna, er verður 18. gr., kemur: og farmflutningum.

13. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um fólksflutninga og farmflutninga á landi.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2005.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Leyfishafar sem hafa gild leyfi til vöruflutninga og efnisflutninga í atvinnuskyni við gildistöku laga þessara skulu skila inn leyfum og sækja að nýju um leyfi til Vegagerðarinnar innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.
     Öll leyfi til vöruflutninga og efnisflutninga í atvinnuskyni sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara falla úr gildi sex mánuðum eftir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.