Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1444, 131. löggjafarþing 708. mál: starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða (verðbréfaviðskipti í minni fyrirtækjum).
Lög nr. 66 20. maí 2005.

Lög um breyting á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a, er orðast svo:
Markaðstorg.
     Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. getur Fjármálaeftirlitið veitt fjármálafyrirtæki sem hefur leyfi til verðbréfaviðskipta eða skipulegum verðbréfamarkaði starfsleyfi til að starfrækja markaðstorg þar sem fram fari kerfisbundin viðskipti með verðbréf sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.
     Í stjórn markaðstorgs skulu vera eigi færri en þrír stjórnarmenn og ber hún ábyrgð á því að starfsemi þess fari fram á öruggan og hagkvæman hátt.
     Stjórn markaðstorgs ber ábyrgð á því að settar séu reglur:
  1. sem tryggja nauðsynlegan aðgang að upplýsinga- og viðskiptakerfum fyrir verðbréf sem þar eru keypt og seld,
  2. sem tryggja að viðskipti á markaðstorginu eigi sér stað með skýrum og gagnsæjum hætti í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglna settra samkvæmt þeim og að gætt sé jafnræðis allra aðila að viðskiptum á markaðstorginu,
  3. sem tryggja að nægjanlegt eftirlit sé með því að útgefendur verðbréfa og aðilar að markaðstorgi starfi eftir lögum og reglum, svo og samþykktum sem um það gilda,
  4. sem tryggja að tilkynnt sé um brot á lögum og reglum, svo og samþykktum sem um markaðstorgið gilda, og að nauðsynlegar upplýsingar þar um berist lögbæru yfirvaldi,
  5. um skilyrði þess að hefja megi viðskipti með verðbréf á markaðstorginu, svo og um upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa og hluthafa, svo að aðilar að því geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun,
  6. um skilyrði sem uppfylla þarf til þess að geta orðið aðili að markaðstorginu,
  7. um skýrslugjöf vegna viðskipta í upplýsingaskyni,
  8. um skipulegt viðskipta- og upplýsingakerfi og uppgjör viðskipta sem þar eiga sér stað; í þeim skal kveðið á um með hvaða hætti tilboð eru sett fram, svo og um söfnun og miðlun upplýsinga um viðskipti með verðbréf sem þar er verslað með, hvort sem viðskiptin eiga sér stað í viðskiptakerfinu eða utan þess.

     Ákvæði VIII.– XI. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, gilda um viðskipti með verðbréf á markaðstorgi.
     Áður en markaðsaðili má hefja viðskipti á markaðstorgi skal hann undirrita skriflegan aðildarsamning. Brjóti markaðsaðili ítrekað eða með vítaverðum hætti skilyrði þau sem sett eru fyrir aðild að markaðinum er heimilt að afturkalla aðildina.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi markaðstorgs og hefur við það eftirlit allar heimildir XI. kafla þessara laga. Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi markaðstorgs að uppfylltum ákvæðum XII. kafla þessara laga.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.

Ákvæði til bráðbirgða.
     Fram til 1. júlí 2006 er útgefendum, sem eru með skráð verðbréf í kauphöll við gildistöku laga þessara, óheimilt að versla með verðbréf sín á markaðstorgi. Stjórn kauphallar er heimilt að veita undanþágu frá þessu banni þjóni það hagsmunum fjárfesta.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.