Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 628, 132. löggjafarþing 189. mál: Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (skráning upplýsinga um einstaklinga og hluti, EES-reglur).
Lög nr. 129 19. desember 2005.

Lög um breyting á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16 14. apríl 2000, með síðari breytingum.


1. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar um einstaklinga:
 1. kenninafn, eiginnöfn með vísun til hugsanlegrar sérskráningar falskra nafna,
 2. sérstök varanleg líkamleg einkenni,
 3. fæðingarstað, fæðingardag og -ár,
 4. kynferði,
 5. ríkisfang,
 6. hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
 7. ástæðu fyrir skráningu,
 8. aðgerðir sem farið er fram á,
 9. tegund brots þegar upplýsingar eru skráðar skv. a-lið 1. mgr. 6. gr.

     Í upplýsingakerfið má skrá upplýsingar um eftirtalda hluti:
 1. vélknúin ökutæki með slagrými yfir 50 rúmsentimetrum, skip, báta og loftför sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
 2. eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, atvinnutæki, utanborðsvélar og gáma sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
 3. skotvopn sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
 4. óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
 5. útgefin persónuskilríki, svo sem vegabréf, nafnskírteini, ökuskírteini, dvalarleyfi og ferðaskilríki, sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða verið ógilt,
 6. skráningarskírteini og skráningarmerki ökutækja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða verið ógilt,
 7. peningaseðla með skráðum númerum,
 8. verðbréf og aðrar tegundir greiðslu, svo sem ávísanir, greiðslukort, skuldabréf eða hlutabréf, sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið.


2. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga, ökutæki, báta, skip, loftför og gáma í upplýsingakerfið til að fram fari eftirlit með leynd, leit, líkamsleit eða líkamsrannsókn í eftirfarandi tilvikum.

3. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, er orðast svo:
     Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið, sem og þegar hlutir eða einstaklingar, sem skráðir hafa verið í kerfið, finnast. Ekki má nota slíkar upplýsingar á annan veg en leiðir af tilgangi skráningar eða beiðni.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Fyrir framan orðið „lögreglan“ í a-lið 1. mgr. kemur: ríkissaksóknari og.
 2. Á eftir orðinu „grundvelli“ í b-lið 1. mgr. kemur: d- og e-liðar 2. mgr. 5. gr. og.
 3. Á eftir b-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður er orðast svo: Umferðarstofa við skráningu ökutækja í þeim tilgangi að kanna hvort ökutæki sem óskað er skráningar á hafi verið stolið, selt ólöglega eða horfið; aðgangurinn takmarkast þó við upplýsingar um ökutæki á grundvelli a-liðar 2. mgr. 5. gr., um eftirvagna og hjólhýsi á grundvelli b-liðar 2. mgr. 5. gr. og um skráningarskírteini og skráningarmerki á grundvelli f-liðar 2. mgr. 5. gr.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „ökutæki“ í b-lið 2. mgr. kemur: hluti.
 2. Í stað 4. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
 3.      Upplýsingar sem skráðar eru um hluti skv. 7. gr. skulu ekki standa lengur í upplýsingakerfinu en fimm ár frá skráningu.
       Aðrar upplýsingar en þær sem skráðar eru í kerfið á grundvelli 6. og 7. gr. skulu ekki standa lengur en tíu ár frá skráningu.


6. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, er orðast svo:
     Viðbótarupplýsingar um einstaklinga og hluti sem verða til við upplýsingaskipti á grundvelli 9. gr. a má einungis geyma í þann tíma sem er nauðsynlegur í samræmi við tilgang skráningarinnar og aldrei lengur en í eitt ár eftir að samsvarandi skráningu, sem varðar sömu einstaklinga eða hluti, í Schengen-upplýsingakerfinu hefur verið eytt.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2005.