Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 669, 132. löggjafarþing 417. mál: Kjaradómur og kjaranefnd (ógilding úrskurðar).
Lög nr. 2 23. janúar 2006.

Lög um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.


1. gr.

     Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
     Úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 skal falla úr gildi frá og með 1. febrúar 2006. Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.
     Þrátt fyrir ákvæði 5. og 10. gr. skulu úrskurðir Kjaradóms og kjaranefndar, frá og með gildistöku laga þessara og til loka árs 2006, taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Telji Kjaradómur eða kjaranefnd að á þessu tímabili sé sérstök ástæða til breytinga á kjörum einstakra embættismanna eða hópa, vegna breytinga á umfangi starfa eða á verkefnum og verksviði þeirra, skal þess gætt að það valdi ekki röskun á vinnumarkaði.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. janúar 2006.