Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1432, 132. löggjafarþing 647. mál: starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða (opinber skráning verðbréfa, EES-reglur).
Lög nr. 85 13. júní 2006.

Lög um breytingu á lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, með síðari breytingum.


1. gr.

     IV. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Reglur um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll, orðast svo:
     
     a. (17. gr.)
     Kauphallaraðilar sækja um opinbera skráningu verðbréfa í viðskiptakerfi kauphallarinnar fyrir hönd útgefenda nema stjórn hennar samþykki annað. Skráning er háð samþykki stjórnar kauphallar sem setur nánari reglur um verðbréf sem tekin eru til opinberrar skráningar. Áður en stjórn kauphallar samþykkir fyrir sitt leyti reglur um opinbera skráningu verðbréfa skal hún leita umsagnar um þær hjá Fjármálaeftirlitinu. Reglur, sem kauphöll setur um opinbera skráningu verðbréfa, skulu uppfylla ákvæði laga þessara og reglugerðar sem ráðherra setur á grundvelli þeirra. Reglur um opinbera skráningu verðbréfa skulu fela í sér skilyrði fyrir upptöku viðskipta og skráningar, svo sem:
  1. að lögð sé fram skráningarlýsing útgefanda,
  2. um stærð og dreifingu hvers flokks, svo og önnur atriði sem stjórn telur að geti skipt máli fyrir markaðshæfi verðbréfa,
  3. að birtar séu við skráningu og eftirleiðis upplýsingar um hvern verðbréfaflokk og útgefanda hans sem máli skipta varðandi mat á verðmæti bréfanna samkvæmt reglum sem stjórnin setur.

     Umsækjanda skal tilkynnt ákvörðun stjórnar um umsókn um skráningu að jafnaði eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Ákvörðun stjórnar skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.
     Stjórnin tryggir að nauðsynlegar upplýsingar um opinberlega skráð verðbréf séu aðgengilegar almenningi.
     
     b. (18. gr.)
Niðurfelling skráningar og tímabundin stöðvun viðskipta.
     Stjórninni er skylt að fella af skrá þau verðbréf sem að hennar mati uppfylla ekki skilyrði laga þessara og reglna settra af stjórninni eða skilyrða skráningu verðbréfanna. Jafnframt er henni heimilt að fella tímabundið niður skráningu einstakra verðbréfaflokka ef ástæða þykir til.
     Útgefandi opinberlega skráðra verðbréfa eða kauphallaraðili fyrir hans hönd getur óskað eftir því skriflega að þau verði felld af skrá kauphallarinnar. Skal stjórn kauphallarinnar verða við því að fenginni skriflegri greinargerð fyrir þeirri ósk. Stjórnin getur ákveðið að bréfin verði ekki tekin af skrá fyrr en allt að eitt ár er liðið frá því að fullbúin greinargerð barst kauphöllinni. Hún getur einnig ákveðið að birta greinargerðina í heild eða að hluta.
     Heimilt er að stöðva tímabundið viðskipti í kauphöll þegar sérstakar aðstæður krefjast þess. Tilkynna skal um slíka tímabundna stöðvun til Fjármálaeftirlitsins.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.