Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1436, 132. löggjafarþing 709. mál: lausafjárkaup, þjónustukaup og neytendakaup (kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa).
Lög nr. 87 13. júní 2006.

Lög um breytingu á lögum um lausafjárkaup, lögum um þjónustukaup og lögum um neytendakaup.


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 50 16. maí 2000, um lausafjárkaup.

1. gr.

     Á undan 99. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
     Viðskiptaráðherra skipar kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa til fimm ára í senn, sbr. 40. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup, með síðari breytingum. Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari. Kærunefndin skal vistuð hjá Neytendastofu sem sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við kvörtunum til nefndarinnar, annast tilkynningar og sér um vörslu gagna.
     Greini aðila að lausafjárkaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið.
     Niðurstöðum kærunefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
     Viðskiptaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um valdsvið og verkefni kærunefndar, málsmeðferðarreglur fyrir nefndinni og störf hennar að öðru leyti.

2. gr.

     Fyrirsögn XVI. kafla laganna verður: Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, gildistaka o.fl.

3. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 42 16. maí 2000, um þjónustukaup.

4. gr.

     Á eftir 39. gr. laganna kemur nýr kafli, XI. kafli, Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, gildistaka o.fl., með einni nýrri grein, 40. gr., sem orðast svo:
     Viðskiptaráðherra skipar kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa til fimm ára í senn, sbr. 99. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, með síðari breytingum. Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari. Kærunefndin skal vistuð hjá Neytendastofu sem sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við kvörtunum til nefndarinnar, annast tilkynningar og sér um vörslu gagna.
     Greini aðila að þjónustukaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið.
     Niðurstöðum kærunefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
     Viðskiptaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um valdsvið og verkefni kærunefndar, málsmeðferðarreglur fyrir nefndinni og störf hennar að öðru leyti.

5. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 48 20. mars 2003, um neytendakaup.

6. gr.

     Á eftir 62. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
     Greini aðila að neytendakaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa, sbr. 40. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000, með síðari breytingum, og 99. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, með síðari breytingum, og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið.

7. gr.

     Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, gildistaka o.fl.

8. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.