Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1513, 132. löggjafarþing 713. mál: skráning losunar gróðurhúsalofttegunda (heildarlög).
Lög nr. 107 14. júní 2006.

Lög um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda.


1. gr.

Markmið og gildissvið.
     Markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.
     Lögin gilda um skráningu og upplýsingaskyldu um losun gróðurhúsalofttegunda á landi og í mengunarlögsögu Íslands og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
      Atvinnurekstur: Öll starfsemi sem heimiluð er í samræmi við ákvæði starfsleyfis sem gefið er út samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
      Gróðurhúsalofttegundir: Koldíoxíð (CO 2), metan (CH 4), díköfnunarefnisoxíð (N 2O), vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC), brennisteinshexaflúoríð (SF 6).
      Ígildi koldíoxíðs: Eining sem losun gróðurhúsalofttegunda er mæld í. Magn annarra gróðurhúsalofttegunda en koldíoxíðs er umreiknað eftir stuðlum sem mæla hlýnunaráhrif þeirra í hlutfalli við koldíoxíð.
      Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af mannavöldum.

3. gr.

Yfirstjórn.
     Umhverfisráðuneyti hefur yfirumsjón með framkvæmd laga þessara eftir því sem nánar er tilgreint í lögum þessum.
     Umhverfisstofnun fer með framkvæmd laga þessara í samvinnu við viðeigandi aðila.

4. gr.

Bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda.
     Umhverfisstofnun heldur bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á því sviði.
     Landbúnaðarháskóli Íslands skal taka saman upplýsingar varðandi landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt sem krafist er vegna bókhaldsins, sbr. 1. mgr., sem og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, og skila þeim til Umhverfisstofnunar. Orkustofnun skal taka saman og skila upplýsingum um orkumál, sem krafist er vegna bókhaldsins, til Umhverfisstofnunar.
     Umhverfisstofnun skal útbúa leiðbeiningar um skil á gögnum sem óskað er eftir í samráði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Orkustofnun. Umhverfisráðherra staðfestir leiðbeiningar Umhverfisstofnunar.

5. gr.

Skráningarkerfi.
     Umhverfisstofnun vistar skráningarkerfi um heimildir Íslands til losunar gróðurhúsalofttegunda og sér um rekstur þess. Kerfið skal halda utan um heimildir Íslands, varðveislu þeirra, flutning og eyðingu.
     Umhverfisráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu á skráningarkerfinu.

6. gr.

Upplýsingaskylda um losun gróðurhúsalofttegunda.
     Allur atvinnurekstur sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir fyrir starfsemi sem losar meira en sem nemur 30.000 tonnum af ígildum koldíoxíðs á ári skal skila upplýsingum til Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda í atvinnurekstrinum.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, reglugerð um upplýsingaskyldu atvinnureksturs skv. 1. mgr. Í reglugerð skal m.a. kveðið á um hvaða upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda skuli skilað, hvenær og á hvaða formi. Einnig skal kveðið á um heimildir Umhverfisstofnunar til að gera kröfu um staðfestingu á áreiðanleika veittra upplýsinga.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir yfirferð yfir upplýsingar um losun skv. 2. mgr. sem skila ber til stofnunarinnar. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggjast á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

7. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.
     Umhverfisstofnun er heimilt að ákvarða sektir allt að 100.000 kr. á dag ef atvinnurekstur sinnir ekki skyldu sinni um skil á upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda skv. 6. gr.

8. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.