Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 670, 133. löggjafarþing 389. mál: loftferðir (EES-reglur).
Lög nr. 165 20. desember 2006.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn Íslands skal heimilt að banna flug loftfara sem skrásett eru eða starfrækt frá tilteknum ríkjum og/eða flugrekendum í íslenskri lofthelgi á grundvelli flugöryggis. Flugmálastjórn skal heimilt að miðla upplýsingum um slíkt bann til almennings, alþjóðlegra stofnana og ríkja. Nánar skal kveðið á um setningu slíks banns, skilyrði, framkvæmd, afléttingu þess og upplýsingamiðlun í reglugerð.

2. gr.

     2. og 3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Þó er heimilt að skrá á Íslandi loftfar sem íslenskum flugrekanda er heimilt að nota í rekstri sínum ef það er í eigu einstaklinga eða lögaðila með ríkisfang og heimilisfesti í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa.
     Flugmálastjórn getur heimilað skráningu loftfars hér á landi þótt eigi sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr., enda sé eftirliti með loftfarinu skipað með fullnægjandi hætti að mati stofnunarinnar og sérstakar ástæður mæli með því.

3. gr.

     Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Enda sé skráður eigandi og/eða umráðandi loftfars í skilum við Flugmálastjórn vegna áfallinna og gjaldfallinna gjalda vegna loftfarsins og eftirlits vegna þess, um gjöldin hafi verið samið eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.

4. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 57. gr. d, svohljóðandi:
     Rekstraraðili flugvallar skal veita fötluðum eða hreyfihömluðum farþegum aðstoð, án sérstaks gjalds, á tilgreindum stöðum, einum eða fleiri, innan flugvallarsvæðis til þess að ferðast, enda hafi farþegi óskað aðstoðar með þeim fyrirvara sem áskilinn er samkvæmt reglugerð. Rekstraraðila flugvallar skal heimilt að innheimta gjald af notendum flugvallar til að fjármagna aðstoðina. Gjaldtakan skal ekki mismuna notendum flugvallar og vera ákvörðuð í samræmi við hlut hvers flugrekanda af komu- og brottfararfarþegum af heildarfjölda farþega á flugvelli. Gjaldið skal vera hæfilegt, byggjast á kostnaði sem verður til við að veita þjónustuna, gagnsætt og sett af rekstraraðila flugvallar í samráði við notendur flugvallar.
     Nánar skal kveðið á um aðstoð flugrekanda og rekstraraðila flugvallar, fyrirkomulag aðstoðar, réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega og upplýsingaskyldu flugrekanda, umboðsmanna hans og ferðaskrifstofu með reglugerð.

5. gr.

     2. mgr. 59. gr. laganna orðast svo.
     Skipulagsreglur skulu m.a. geyma fyrirmæli um skipulag innan flugvallarsvæðis, starfsheimildir, starfsemi og umferð innan svæðisins auk fyrirmæla um það svæði utan flugvallar þar sem rétt er að setja takmörkun á hæð mannvirkja og annarra hluta, t.d. húsa, stanga og trjáa, eða takmörkun á meðferð fasteigna eða hluta, t.d. að því er varðar leiðslur eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis. Kveða skal glöggt á um mörk þess svæðis sem skipulagið tekur yfir.

6. gr.

     Í stað orðsins „flugumferðarstjórnar“ í 1. málsl. 2. mgr. 71. gr. laganna kemur: flugleiðsöguþjónustu.

7. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 71. gr. b laganna orðast svo: Umráðandi loftfars skal greiða sérstakt gjald, öryggisgjald, þar sem vopna- og öryggisleit fer fram, til rekstraraðila flugvallar.

8. gr.

     Í stað orðsins „tollhafnir“ í lok 2. málsl. 72. gr. laganna kemur: landamærastöð.

9. gr.

     Á eftir 125. gr. laganna kemur ný grein, 125. gr. a, svohljóðandi:
     Við bókun, hver sem aðferðin er við gerð bókunar, skal samningsbundinn flytjandi upplýsa farþega um nafn eiginlegs flytjanda. Sé óljóst þegar bókun er gerð hver eiginlegur flytjandi er eða verður skal samningsbundinn flytjandi tryggja að farþegi sé upplýstur um nafn eða nöfn þeirra flytjenda sem mögulega munu annast loftflutninginn. Í slíkum tilvikum skal tryggja að farþegi sé upplýstur um eiginlegan flytjanda um leið og það fæst staðfest.
     Verði breytingar gerðar á eiginlegum flytjanda eftir bókun skal samningsbundinn flytjandi gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að upplýsa farþega um breytinguna eins fljótt og auðið er. Í öllum tilvikum skal farþegi upplýstur við innritun eða við för um borð í loftfarið þar sem innritunar er ekki krafist vegna tengiflugs.
     Flugrekandi eða ferðaskrifstofa, eftir atvikum, skal tryggja að samningsbundinn flytjandi sé upplýstur um nafn hins eiginlega flytjanda eða flytjenda eins fljótt og auðið er, sérstaklega ef breyting er gerð á nafni eiginlegs flytjanda.
     Ef söluaðili hefur ekki fengið upplýsingar um nafn eiginlegs flytjanda skal hann ekki sæta ábyrgð skv. 1.–3. mgr. þessarar greinar.
     Skylda samningsbundins flytjanda skal koma fram í ferðaskilmálum farsamnings.

10. gr.

     Á eftir 126. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (126. gr. a.)
     Hefjist flutningur í lofti frá Íslandi og
  1. frá brottfararstað hér á landi eða;
  2. frá brottfararstað í þriðja ríki til Íslands eða;
  3. frá brottfararstað í þriðja ríki til áfangastaðar í þriðja ríki;
skal farþegi eiga rétt til endurgreiðslu úr hendi samningsbundins flytjanda eða breytingar á flugleið sé hinum eiginlega flytjanda sem starfrækja á flugið óheimil starfræksla loftfars innan Evrópska efnahagssvæðisins, enda kjósi farþegi að nýta sér ekki farmiða sinn og flugið hefur ekki verið fellt niður.
     
     b. (126. gr. b.)
     Flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa skal ekki synja farþega á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar um:
  1. farskráningu í flug til eða frá flugvelli hér á landi,
  2. að fara um borð í loftfar á flugvelli hér á landi, enda hafi farþegi gilda farskráningu og farseðil.

     Þrátt fyrir 1. mgr. er flugrekanda, umboðsmanni hans eða ferðaskrifstofu heimilt að synja um farskráningu í flug eða að heimila farþega að fara um borð í loftfar á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar:
  1. þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess;
  2. þegar stærð loftfarsins eða dyr þess við för um borð í loftfarið og meðan á flutningi stendur koma í veg fyrir það.

     Þegar synja þarf farþega um flutning á grundvelli a- eða b-liðar 2. mgr. skal flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa gera viðhlítandi ráðstafanir til að leggja farþega til viðunandi kost á flutningi.
     Nánar skal kveðið á um réttindi farþega sem synjað er um flutning á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar, kröfur um fylgd farþega á grundvelli flugöryggissjónarmiða og upplýsingamiðlun til farþega með reglugerð.
     Ákvæði þetta tekur einnig til flugrekenda með útgefið flugrekstrarleyfi á Íslandi við brottför loftfars frá þriðja ríki til ríkja á EES-svæðinu.

11. gr.

     5. mgr. 131. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

     1. mgr. 138. gr. laganna orðast svo:
     Skráðum umráðanda loftfars, eftirlitsskyldum aðilum og aðilum er reka starfsemi samkvæmt skírteini, heimild, leyfi eða viðurkenningu samkvæmt lögum þessum, reglum settum samkvæmt þeim eða lögum um Flugmálastjórn Íslands er skylt að láta í té þær upplýsingar sem Flugmálastjórn krefst.

13. gr.

     Á eftir 146. gr. a laganna kemur ný grein, 146. gr. b, svohljóðandi:
     Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæma viðurkenningu réttinda, skírteina, heimilda, starfsleyfa og vottunar á sviði loftflutninga.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. 4. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2008.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.