Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 684, 133. löggjafarþing 397. mál: Póst- og fjarskiptastofnun (tekjugrunnur).
Lög nr. 172 20. desember 2006.

Lög um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.


1. gr.

     Í stað 1. og 2. málsl. 12. gr. laganna kemur einn málsliður sem orðast svo: Þegar fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi fer ekki að ákvæðum laga þessara, laga um fjarskipti eða laga um póstþjónustu, skilyrðum almennrar heimildar, skilyrðum sérstakra réttinda eða einstökum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar eða veitir ekki þær upplýsingar sem honum er skylt að afhenda stofnuninni er henni heimilt að leggja á og innheimta dagsektir sem nemi 50.000–500.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. Í stað „0,20%“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 0,30%.
  2. 12. mgr. orðast svo:
  3.      Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið að veita samkvæmt lögum þessum, lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Heimilt er að taka gjald, sem miðast við kostnað, fyrir eftirfarandi þætti: skráningu fyrirtækja, útgáfu leyfisbréfa og skírteina, mælingar, innsiglanir og skoðun fjarskiptabúnaðar. Auk þess er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að taka gjald fyrir aðra þjónustu sem aðilar óska eftir. Við ákvörðun gjalda samkvæmt þessari grein skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu, auk ferða og uppihalds sem af því leiðir.


3. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 14. gr. a og orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gjald fyrir tíðninotkun.
     Þeir aðilar sem fengið hafa heimild til að nota tíðnir til þráðlausra fjarskipta skulu greiða árlegt gjald til Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt því sem hér segir:
  1. Radíóstöðvar með skipa- og flugtíðnum.
    1. Með milli- og stuttbylgju (MF/HF)   6.400 kr.
    2. Án milli- og stuttbylgju (aðeins VHF)   4.100 kr.
  2. Farstöðvarásir.
    1. Fyrir hver 25 kHz á gjaldsvæði 1   63.000 kr.
    2. Fyrir hver 25 kHz á gjaldsvæði 2 eða 3   12.600 kr.
    3. Fyrir samnýttar rásir greiðist 25% af gjaldi skv. a- og b-lið eftir því sem við á.
    4. Aðilar að landssamtökum björgunarsveita greiða 25% af gjaldi skv. a- og b-lið.
  3. Jarðstöðvar.
    1. Jarðstöðvar með sendiafl meira en 50 dBW   25.100 kr.
    2. Jarðstöðvar fyrir almenn fjarskiptanet   25.100 kr.
  4. Fastasambönd.
    1. Grunngjald fyrir hvert fastasamband   10.000 kr.
    2. Að auki fyrir hvert MHz   830 kr.
  5. Almenn farsímanet (t.d. NMT, GSM, 3G). Fyrir hvert MHz   256.500 kr.
  6. TETRA neyðar- og öryggisnet. Fyrir hvert MHz   64.100 kr.
  7. Þráðlaus aðgangsnet.
    1. Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 1   33.800 kr.
    2. Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 2   22.500 kr.
    3. Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 3   2.300 kr.
  8. Fyrir hverja rás í sjónvarpssendi.
    1. Gjaldsvæði 2, sendiafl 1 kW og meira   119.000 kr.
    2. Gjaldsvæði 2, sendiafl 100–999 W   89.000 kr.
    3. Gjaldsvæði 2, sendiafl minna en 100 W   59.300 kr.
    4. Gjaldsvæði 3, sendiafl 1 kW og meira   29.700 kr.
    5. Gjaldsvæði 3, sendiafl 100–999 W   22.200 kr.
    6. Gjaldsvæði 3, sendiafl minna en 100 W   14.800 kr.
         Ef sama rás er notuð í fleiri en einum sendi á sama gjaldsvæði ræður samanlagt sendiafl. Ekki skal taka gjald fyrir starfrækslu sjónvarpssenda með afl minna en 2W sem þjóna svæðum með færri en 100 íbúa.
  9. Fyrir hverja rás í hljóðvarpssendi.
    1. Gjaldsvæði 2, sendiafl 1 kW og meira   29.600 kr.
    2. Gjaldsvæði 2, sendiafl 100–999 W   22.200 kr.
    3. Gjaldsvæði 2, sendiafl minna en 100 W   14.800 kr.
    4. Gjaldsvæði 3, sendiafl 1 kW og meira   7.400 kr.
    5. Gjaldsvæði 3, sendiafl 100–999 W   5.600 kr.
    6. Gjaldsvæði 3, sendiafl minna en 100 W   3.700 kr.
         Ef sama rás er notuð í fleiri en einum sendi á sama gjaldsvæði ræður samanlagt sendiafl. Ekki skal taka gjald fyrir starfrækslu hljóðvarpssenda með afl minna en 2W sem þjóna svæðum með færri en 100 íbúa.

     Gjaldsvæði sem tilgreind eru í 1. mgr. skulu afmörkuð sem hér segir:
  1. Gjaldsvæði 1: Allt landið.
  2. Gjaldsvæði 2: Suðvesturland frá Suðurnesjum til Akraness.
  3. Gjaldsvæði 3: Einstök svæði utan gjaldsvæðis 2.

     Gjalddagi gjalda samkvæmt þessari grein er 1. mars ár hvert fyrir notkun tíðna á því sama ári. Handhafi heimildar til tíðninotkunar á gjalddaga er ábyrgur fyrir greiðslunni.
     Miða skal greiðslu árlegra tíðnigjalda við þann dag þegar heimild til tíðninotkunar tekur gildi, óháð því hvenær viðkomandi tíðni er tekin í notkun.
     Ef heimild til tíðninotkunar er gefin út eftir 1. mars ber að greiða árlegt tíðnigjald við útgáfu heimildarinnar og skal þá greiða í hlutfalli við það sem eftir er af árinu og telst útgáfumánuður heimildarinnar með sem heill mánuður.
     Fyrir heimild sem gildir skemur en sex mánuði skal taka hálft árlegt gjald og fyrir heimild til að nota tíðnir til tilrauna greiðast 50.000 kr. Gjöld samkvæmt þessari málsgrein greiðast við útgáfu heimildar.
     Allar tekjur samkvæmt þessari grein skulu renna óskiptar til Póst- og fjarskiptastofnunar sem annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.