Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1314, 133. löggjafarþing 643. mál: veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi (ólöglegar veiðar).
Lög nr. 22 23. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.


1. gr.

     Í stað 2.–3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir sem orðast svo: Sama gildir um erlend skip sem stunda veiðar eða vinnslu á afla sem brýtur í bága við samninga um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að, þar með talið skip sem hafa verið skráð hjá svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum, og sigla ekki undir fána aðildarríkja þeirra, fyrir brot gegn reglum settum á grundvelli slíkra samninga. Komist skip sem um ræðir í þessari málsgrein til íslenskrar hafnar er þeim óheimilt að landa eða umskipa afla í höfn og skal án tafar vísa þeim úr höfn eftir að þau hafa verið skoðuð af eftirlitsaðilum og eftir atvikum veitt neyðaraðstoð. Óheimilt er að veita skipum sem um ræðir í þessari málsgrein, skipum sem flytja afla þeirra, skipum sem þjónusta þau, sem og útgerðum þessara skipa, þjónustu, þar með talið í íslenskum höfnum, í fiskveiðilandhelgi Íslands og utan hennar. Kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum er skylt að láta sjávarútvegsráðuneytinu eða Fiskistofu í té, ókeypis og í því formi sem þessi stjórnvöld ákveða, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd framangreindra ákvæða.

2. gr.

     3. málsl. 6. gr. laganna orðast svo: Óheimilt er að gefa út leyfi til erlendra skipa sem notuð hafa verið til brota gegn lögum þessum, öðrum lögum um fiskveiðar, stjórnvaldsreglum settum með heimild í þeim, reglum svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana og/eða milliríkjasamninga.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2007.