Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1295, 133. löggjafarþing 576. mál: vísitala neysluverðs (viðmiðunartími, EES-reglur).
Lög nr. 27 23. mars 2007.

Lög um breyting á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995.


1. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Vísitala neysluverðs skal reiknuð í mánuði hverjum miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð. Heimilt er að safna verðupplýsingum yfir lengra tímabil ef verðlag vöru breytist ört. Ef ekki er unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar eða sé það ekki talið eiga við er Hagstofu Íslands heimilt að miða við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á. Vísitalan skal svo sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Í janúarmánuði 2008 skal Hagstofa Íslands reikna og birta vísitölu neysluverðs miðað við verðlag tvo fyrstu daga mánaðarins og einnig miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan mánuðinn. Hagstofunni er jafnframt heimilt að reikna vísitöluna miðað við verðlag tvo fyrstu daga febrúarmánaðar 2008 sé það talið nauðsynlegt vegna notkunar vísitölunnar til verðtryggingar.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2007.