Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1380, 133. löggjafarþing 436. mál: fjarskipti (öryggi í fjarskiptum og aukin neytendavernd).
Lög nr. 39 27. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.


1. gr.

     Við 14. tölul. 3. gr. laganna bætist: þ.m.t. tölvupóstþjónusta og netaðgangur.

2. gr.

     Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 2. málsl. 16. gr. og 2. málsl. 1. mgr 17. gr. laganna kemur: Samkeppniseftirlitið.

3. gr.

     Við 6. mgr. 21. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ef slíkur aðskilnaður er ekki fyrir hendi skal Póst- og fjarskiptastofnun hafna umsókn fjarskiptafyrirtækis um fjárframlag.

4. gr.

     Á eftir 1. mgr. 37. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
     Óheimilt er í samningi að kveða á um lengri binditíma áskrifenda en sex mánuði. Eftir þann tíma er áskrifanda heimilt að segja upp samningi með eins mánaðar fyrirvara. Ákveði áskrifandi að færa viðskipti sín til annars fjarskiptafyrirtækis skal vera tryggt að þjónustuflutningur gangi greiðlega fyrir sig. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett nánari reglur um þjónustuflutning.

5. gr.

     Orðin „eftir þjónustu“ í 1. mgr. 38. gr. laganna falla brott.

6. gr.

     Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Fjarskiptafyrirtæki skulu viðhafa ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd, virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjónustu. Er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að setja reglur um slíkar ráðstafanir þar sem nánar er mælt fyrir um:
 1. lágmarksgrunnþjónustu og mismunandi þjónustustig,
 2. ákvæði í þjónustusamningum,
 3. leiðir er auðvelda mat á gæðum þjónustunnar og verðsamanburð,
 4. viðeigandi ráðstafanir í tölvupóstþjónustu og annarri IP-fjarskiptaþjónustu,
 5. vernd og stjórnun IP-fjarskiptaneta og IP-umferðar,
 6. vernd notendatenginga,
 7. ferli við meðhöndlun öryggisatvika og umbætur.


7. gr.

     2. mgr. 43. gr. laganna orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki án samþykkis notanda senda, án endurgjalds, upplýsingar samkvæmt þessari grein, að því marki sem er tæknilega gerlegt, til félaga og stofnana sem annast neyðarþjónustu og eru opinberlega viðurkennd sem slík, þ.m.t. löggæslu-, sjúkraflutninga- og slökkvilið. Notkun upplýsinganna er einungis heimil í þeim tilgangi að staðsetja neyðarsímtöl.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „tölvupósts“ í 1. mgr. kemur: þ.m.t. hvers konar rafrænna skilaboða (SMS og MMS).
 2. 5. mgr. orðast svo:
 3.      Þeir sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar símhringingar í símanúmer sitt. Áskrifandi á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu til grundvallar.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Verja skal upplýsingar sem fara um fjarskiptanet gegn því að þær glatist, skemmist eða breytist fyrir slysni eða að óviðkomandi fái aðgang að þeim.
 2. Á eftir 1. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
 3.      Fjarskiptafyrirtæki skulu skjalfesta skipulag upplýsingaöryggis með því að setja sér öryggisstefnu, gera áhættumat og ákveða öryggisráðstafanir á grundvelli þess. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum þar sem nánar er mælt fyrir um þær kröfur sem gerðar eru til skipulags upplýsingaöryggis. Skulu reglurnar m.a. kveða á um:
  1. hvernig skjalfesta skuli skipulag upplýsingaöryggis,
  2. hlítingu við tiltekna staðla,
  3. framkvæmd innra eftirlits,
  4. helstu öryggisráðstafanir sem viðhafa skal,
  5. tilkynningar vegna öryggisrofs,
  6. eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar.

       Gerðar skulu sérstakar ráðstafanir til að tryggja samfelldan og órofinn rekstur almennra fjarskiptaneta. Póst- og fjarskiptastofnun setur sérstakar reglur um virkni almennra fjarskiptaneta. Skulu reglurnar m.a. kveða á um:
  1. gerð skriflegrar neyðaráætlunar,
  2. hlítingu við tiltekna staðla,
  3. raunlæga vernd almennra fjarskiptaneta,
  4. afkastagetu og flæði umferðar um almenn fjarskiptanet,
  5. stjórn almennra fjarskiptaneta,
  6. virkni tölvupóstkerfa,
  7. tilkynningar vegna þjónusturofs,
  8. eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar.

       Óheimil er hlustun, upptaka, geymsla eða hlerun fjarskipta með öðrum hætti nema hún fari fram með samþykki notanda eða samkvæmt heimild í lögum.
       Notkun njósnahugbúnaðar, vefhlerunarbúnaðar eða annars slíks búnaðar sem komið er fyrir í endabúnaði notanda til þess að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans er einungis heimil í lögmætum tilgangi og með vitund hlutaðeigandi notanda. Notanda er rétt að hafna notkun slíks búnaðar.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 73. gr. laganna:
 1. Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: skv. 5. mgr. 74. gr.
 2. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 3. 4. mgr. fellur brott.


11. gr.

     Í stað orðanna „að fella niður skráningu fyrirtækisins, afturkalla réttindi, bæta við skilyrðum eða beita dagsektum sem nemi 50.000–500.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið“ í 5. mgr. 74. gr. laganna kemur: að fella niður skráningu fyrirtækisins, afturkalla réttindi eða bæta við skilyrðum.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.