Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1410, 133. löggjafarþing 686. mál: vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (metangasbifreiðar).
Lög nr. 77 30. mars 2007.

Lög um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.


1. gr.

     Orðin „metangas eða“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum falla brott.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Bifreiðar sem gjaldskyldar eru skv. 3. gr. laganna og búnar eru vélum og öðrum búnaði sem miðast við að bifreið nýti metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu skulu vera undanþegnar vörugjaldi samkvæmt lögum þessum til 31. desember 2008.
     Tilgreina skal í ökutækjaskrá ef vörugjald hefur verið fellt niður skv. 1. mgr. svo og stærð eldsneytisgeyma.
     Óheimilt er að breyta bifreiðum skv. 1. mgr. með brottnámi metangasbúnaðar eða með breytingum á eldsneytisgeymum.
     Ef brotið er gegn 3. mgr. skal skráður eigandi bifreiðar, sem notið hefur niðurfellingar vörugjalds skv. 1. mgr., greiða til tollstjóra fullt vörugjald skv. 3. gr. ásamt 50% álagi.
     Tollstjórar hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis og geta gert þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að kanna hvort gerðar hafi verið breytingar á bifreið andstætt 3. mgr., þar á meðal að skoða eldsneytisgeyma og vél ökutækis.
     Fjármálaráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem nánari skilgreiningu á því hvaða skilyrði vél bifreiðar og búnaður að öðru leyti þarf að uppfylla til þess að bifreið teljist nýta metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu skv. 1. mgr., um gögn sem leggja þarf fram með umsókn um undanþágu á grundvelli þess ákvæðis og um eftirlitið.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.