Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1387, 133. löggjafarþing 466. mál: staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar (eignarhald prestssetra, skipan sóknarpresta).
Lög nr. 82 29. mars 2007.

Lög um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997.


1. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt framlag á grundvelli samninga um kirkjueignir og prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.
     Launagreiðslum til starfandi presta þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna hennar skal hagað samkvæmt því sem greinir í 60. gr.

2. gr.

     4. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     37. gr. laganna orðast svo:
     Biskup Íslands skipar í embætti sóknarprests sem og í önnur prestsembætti, sbr. 35., 36., 44. og 45. gr.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Biskup Íslands veitir þeim embætti sóknarprests eða prests sem hlotið hefur bindandi val eða kosningu, samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.
  3. 4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Kjósi meiri hluti kjörmanna að embættið verði auglýst skal sú samþykkt send biskupi Íslands til samþykktar.


5. gr.

     1. málsl. 41. gr. laganna orðast svo: Hafi enginn sótt um prestakall eða embætti er biskupi Íslands heimilt að setja prest í embættið í allt að eitt ár.

6. gr.

     62. gr. laganna orðast svo:
     Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
     Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem prestssetrasjóður tók við yfirstjórn á frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.
     Kirkjuþing setur nánari ákvæði um prestssetur í starfsreglur, sbr. 59. gr.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2007 fyrir utan ákvæði 3.–5. gr. sem öðlast gildi 1. desember 2007.
     Þá falla lög um prestssetur, nr. 137 31. desember 1993, úr gildi 1. júní 2007.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.