Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1368, 133. löggjafarþing 277. mál: opinber innkaup (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 84 30. mars 2007.

Lög um opinber innkaup.


1. ÞÁTTUR
Almenn ákvæði.
I. KAFLI
Tilgangur, orðskýringar og gildissvið.

1. gr.

Tilgangur laganna.
     Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.

2. gr.

Orðskýringar.
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
 1. Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem yfirvöld hafa sérstaklega falið einu eða fleiri fjarskiptafyrirtækjum að veita.
 2. Almennt fjarskiptanet: Kerfi fyrir almenn fjarskipti sem gerir kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
 3. Almennt útboð: Innkaupaferli þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur lagt fram tilboð.
 4. Bjóðandi: Fyrirtæki sem lagt hefur fram tilboð í útboði, svo sem í almennu eða lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum.
 5. Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að hluta eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um almenna fjarskiptanetið með fjarskiptaaðferðum öðrum en hljóðvarpi eða sjónvarpi.
 6. Fyrirtæki: Samheiti, notað til einföldunar, yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjónustu.
 7. Gagnvirkt innkaupakerfi: Fyllilega rafrænt ferli við algeng innkaup sem mögulegt er að gera á almennum markaði þannig að kröfum kaupanda sé fullnægt, enda sé ferlið tímabundið og, meðan á því stendur, opið öllum fyrirtækjum sem fullnægja skilyrðum fyrir þátttöku í kerfinu og lagt hafa fram kynningarboð í samræmi við skilmála.
 8. Hönnunarsamkeppni: Ferli sem gerir kaupanda kleift að afla áætlunar eða hönnunar, einkum á sviði skipulags lands og bæja, húsagerðarlistar og verkfræði eða gagnavinnslu, sem valin hefur verið af dómnefnd eftir samkeppni sem farið hefur fram með eða án verðlauna.
 9. Lokað útboð: Innkaupaferli þar sem aðeins þau fyrirtæki sem valin hafa verið af kaupanda geta lagt fram tilboð en hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í.
 10. Miðlæg innkaupastofnun: Opinber aðili skv. 3. gr. sem aflar vöru og/eða þjónustu fyrir aðra kaupendur eða gerir verksamninga eða rammasamninga um verk, vörur eða þjónustu ætlaða öðrum kaupendum.
 11. Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar eru fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
 12. Opinber aðili eða kaupandi: Ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og samtök og aðrir opinberir aðilar skv. 3. gr.
 13. Opinberir samningar: Allir samningar sem falla undir 1. mgr. 4. gr.
 14. Rafrænar aðferðir: Notkun rafræns búnaðar til að vinna (þar á meðal með stafrænni samþjöppun) og geyma gögn sem eru send, er miðlað og tekið við með rafþræði, útvarpi, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
 15. Rafrænt uppboð: Endurtekið ferli þar sem ný og lægri verð, og/eða ný verðgildi fyrir ákveðin atriði í tilboðum, eru sett fram með rafrænum hætti, eftir að kaupandi hefur tekið fulla afstöðu til þeirra í upphafi, þannig að unnt er að meta þau með sjálfvirkum aðferðum.
 16. Rammasamningur: Samningur sem einn eða fleiri kaupendur skuldbinda sig til að gera við eitt eða fleiri fyrirtæki í þeim tilgangi að slá föstum skilmálum einstakra samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og fyrirhugað magn, ef við á.
 17. Ritaður eða skriflegur: Hvers konar tjáning sem samanstendur af orðum eða tölum sem lesa má, kalla má fram og miðla, þar á meðal upplýsingar sem miðlað er og varðveittar eru með rafrænum aðferðum.
 18. Sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV): Tilvísunarflokkunarkerfi sem gildir um opinbera samninga og var samþykkt með reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (EB) nr. 2195/2002 ásamt því sem samræmi við aðrar gildandi skrár var tryggt. Ef upp kemur mismunandi túlkun um gildissvið laga þessara vegna ósamræmis milli þessarar skrár og NACE-skrárinnar, sbr. I. viðauka tilskipunarinnar, eða vegna ósamræmis milli skrárinnar og CPC-skrárinnar, sbr. II. viðauka tilskipunarinnar, skulu NACE-skráin og CPC-skráin hafa forgang.
 19. Samkeppnisviðræður: Innkaupaferli sem hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í og felst í því að kaupandi stýrir viðræðum við þau fyrirtæki sem valin hafa verið til að taka þátt í ferlinu, allt með það að markmiði að þróa einn eða fleiri valkosti sem mætt geta kröfum hans, enda séu þessar kröfur lagðar til grundvallar þegar umsækjendum er boðið að leggja fram tilboð.
 20. Samningskaup: Þegar kaupandi ræðir við fyrirtæki sem hann hefur valið samkvæmt fyrirframákveðnu ferli og semur um skilmála samnings við eitt eða fleiri fyrirtæki.
 21. Sérleyfissamningur um verk: Verksamningur þar sem endurgjald fyrir verk felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér verkið eða í rétti til að nýta sér verkið ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
 22. Sérleyfissamningur um þjónustu: Þjónustusamningur þar sem endurgjald fyrir þjónustu felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér þjónustuna eða í rétti til að nýta sér þjónustuna ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
 23. Staðall: Forskrift sem samþykkt er af viðurkenndri staðlastofnun og beita má endurtekið og að staðaldri án þess að skylt sé að fara eftir henni. Staðall er opinbert skjal og ætlaður til frjálsra afnota.
 24. Tilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga frá 31. mars 2004, eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006 sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2006.
 25. Verksamningar eða opinberir verksamningar: Allir samningar sem falla undir 2. mgr. 4. gr.
 26. Verktaki, seljandi vöru og veitandi þjónustu: Einstaklingur eða lögaðili, þar á meðal opinberir aðilar, eða hópur slíkra einstaklinga og/eða aðila sem bjóða fram á markaði framkvæmd verks, vöru og/eða þjónustu.
 27. Vörusamningar eða opinberir vörusamningar: Allir samningar sem falla undir 3. mgr. 4. gr.
 28. Þátttakandi: Fyrirtæki sem leitar eftir því að taka þátt í lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum.
 29. Þjónustusamningar eða opinberir þjónustusamningar: Allir samningar sem falla undir 4. mgr. 4. gr.
 30. Örútboð: Innkaupaferli þar sem kaupandi leitar, með hæfilegum fyrirvara, skriflegra tilboða meðal tiltekinna rammasamningshafa um skilmála sem ekki hefur verið mælt fyrir um í viðkomandi rammasamningi og lýkur jafnan með samningi við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli þeirra valforsendna sem fram koma í útboðsskilmálum rammasamningsins.


3. gr.

Opinberir aðilar sem lögin taka til.
     Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.
     Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
 1. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.
 2. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
 3. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.

     Þeir opinberu aðilar sem taldir eru upp í 1. viðbæti ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti Stjórnartíðinda ESB nr. 44/2006, skulu allir teljast opinberir aðilar í skilningi þessarar greinar.

4. gr.

Samningar sem lögin taka til.
     Lög þessi taka til skriflegra samninga um fjárhagslegt endurgjald sem einn eða fleiri kaupendur skv. 3. gr. gera við eitt eða fleiri fyrirtæki og hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu í skilningi laganna.
     Til verksamninga teljast samningar sem hafa að markmiði framkvæmd, eða framkvæmd og hönnun, á þeim verkum sem annars vegar greinir í I. viðauka tilskipunarinnar en hins vegar verkum, eða framkvæmd verks, með hvers konar aðferðum sem svara eiga til krafna sem kaupandi hefur sett fram. Með verki í þessum skilningi er átt við afrakstur mannvirkjagerðar eða verkfræðilegra aðferða sem getur, sem slíkur, þjónað efnahagslegu eða tæknilegu hlutverki.
     Til vörusamninga teljast aðrir samningar en ræðir um í 2. mgr. sem hafa að markmiði kaup, leigu eða fjármögnunarleigu, með eða án kaupréttar, á vörum. Samningur sem felur í sér tilfallandi ísetningu eða uppsetningu vöru telst vörusamningur.
     Til þjónustusamninga teljast samningar sem ekki eru verk- eða vörusamningar og hafa að markmiði veitingu þjónustu sem tilgreind er í II. viðauka tilskipunarinnar. Ef samningur nær bæði til kaupa á vöru og þjónustu í skilningi II. viðauka tilskipunarinnar skal hann teljast þjónustusamningur ef sá þáttur samningsins sem lýtur að þjónustu nemur hærri fjárhæð en vöruþátturinn. Samningur sem hefur að markmiði veitingu þjónustu í skilningi II. viðauka tilskipunarinnar og felur í sér tilfallandi verk í skilningi I. viðauka tilskipunarinnar, með hliðsjón af meginmarkmiði samningsins, skal teljast þjónustusamningur.

5. gr.

Samningar á sviði varnarmála.
     Lög þessi gilda um samninga á sviði varnarmála skv. 123. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef ekki er kveðið á um annað í lögum.

6. gr.

Samningar sem sérstaklega eru undanskildir gildissviði laganna.
     Lögin taka ekki til þjónustusamninga er varða:
 1. Kaup eða leigu, gegn hvers konar fjárhagslegu endurgjaldi, á jörð, byggingum sem þegar hafa verið reistar eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir þeim. Samningar um fjármálaþjónustu sem gerðir eru fyrir, eftir eða samhliða samningnum um kaup eða leigu á fasteign falla þó undir gildissvið laganna.
 2. Kaup, þróun og framleiðslu á dagskrárefni fyrir útvarp og sjónvarp eða samninga um útsendingartíma.
 3. Gerðardóma og sáttameðferðir.
 4. Fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum gögnum og þjónustu seðlabanka.
 5. Vinnusamninga.
 6. Rannsókn og þróun á þjónustu, að frátöldum samningum þar sem kaupendur bera allan kostnað af þjónustunni og hafa einkarétt á að njóta góðs af árangrinum í starfsemi sinni.

     Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hagi innkaupum sínum samkvæmt lögum þessum einnig við gerð þeirra samninga sem greinir í 1. mgr.

7. gr.

Samningar stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu.
     Lögin taka ekki til samninga sem undanþegnir eru tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sbr. 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti Stjórnartíðinda ESB nr. 44/2006, sbr. 2. mgr. 5. gr., 19. gr., 26. gr. og 30. gr. sömu tilskipunar.
     Ákvæði XIV. og XV. kafla laga þessara gilda um samninga sem þeir kaupendur gera sem reka eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar sem um ræðir í 1. mgr. og eru gerðir vegna reksturs þeirrar starfsemi. Að öðru leyti taka lögin ekki til innkaupa þessara aðila.
     Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um innkaup þeirra aðila sem greinir í 1. mgr., til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum milliríkjasamningum.

8. gr.

Samningar á sviði fjarskipta.
     Lögin taka ekki til samninga sem hafa það að meginmarkmiði að stofna til eða reka almennt fjarskiptanet eða bjóða almenningi eina eða fleiri tegundir fjarskiptaþjónustu.

9. gr.

Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana.
     Lögin taka ekki til samninga sem lýstir eru leynilegir eða ef sérstökum öryggisráðstöfunum verður að beita við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess.

10. gr.

Samningar sem gerðir eru á grundvelli milliríkjasamninga.
     Lögin taka ekki til samninga sem lúta öðrum reglum um opinber innkaup og gerðir eru á grundvelli milliríkjasamnings íslenska ríkisins við eitt eða fleiri ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, um kaup á vörum eða verkum til sameiginlegra framkvæmda eða hagnýtingar verka ríkjanna eða kaup á þjónustu sem ætluð er til sameiginlegra framkvæmda eða hagnýtingar áætlunar ríkjanna, enda sé slíkur samningur tilkynntur Eftirlitsstofnun EFTA.
     Lögin taka ekki til samninga á grundvelli milliríkjasamnings um setu herliðs þegar í hlut eiga fyrirtæki með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í öðrum ríkjum.
     Lögin taka ekki til samninga sem gerðir eru samkvæmt sérstökum reglum alþjóðlegra stofnana um innkaup.

11. gr.

Sérleyfissamningar um þjónustu.
     Að undanskilinni 14. gr. laganna gilda þau ekki um sérleyfissamninga um þjónustu. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð að setja reglur um gerð sérleyfissamninga um þjónustu að því er varðar ríkið og ríkisstofnanir.

12. gr.

Samningar sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar.
     Lögin taka ekki til þjónustusamninga sem gerðir eru við aðila eða félag aðila sem sjálfir teljast kaupendur eða á grundvelli einkaréttar sem þeir njóta samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem eru í samræmi við reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

13. gr.

Kostnaðarþátttaka opinberra aðila.
     Fylgja skal ákvæðum laga þessara við gerð samninga að jafnvirði 6.242.000 evra eða meira, án virðisaukaskatts, sem kaupendur niðurgreiða meira en 50% þegar um er að ræða samninga um húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð í skilningi I. viðauka tilskipunarinnar og einnig þegar samningur felur í sér byggingarframkvæmdir fyrir sjúkrahús, íþrótta- og tómstundaiðkun, skóla og háskóla og opinbera stjórnsýslu.
     Þegar um er að ræða þjónustusamninga að jafnvirði 249.000 evra eða meira, án virðisaukaskatts, sem kaupendur niðurgreiða meira en 50% og tengjast verksamningi sem fellur undir 1. mgr. skal einnig fylgja ákvæðum laga þessara.
     Hlutaðeigandi opinber aðili skal tryggja að farið sé að lögum þessum þegar annar aðili gerir samning sem fellur undir 1. eða 2. mgr. Sama á við ef opinber aðili gerir samning fyrir hönd slíks aðila eða hefur umsjón með gerð samnings.

II. KAFLI
Almennar reglur.

14. gr.

Jafnræði fyrirtækja við gerð samninga.
     Gæta skal jafnræðis og gagnsæis við opinber innkaup. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
     Það telst ekki andstætt jafnræði að áskilja að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á málefnalegum ástæðum.

15. gr.

Þeir sem njóta réttar samkvæmt lögunum.
     Réttar samkvæmt lögum þessum njóta fyrirtæki með staðfestu í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Þessi fyrirtæki skulu þó aldrei njóta lakari réttar en fyrirtæki frá öðrum ríkjum. Réttar samkvæmt lögum þessum njóta einnig fyrirtæki frá öðrum ríkjum að því marki sem þau eiga að njóta slíkra réttinda á grundvelli milliríkjasamnings sem íslenska ríkið hefur gert.
     Í reglugerð er heimilt að setja reglur til innleiðingar samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup og annarra milliríkjasamninga um opinber innkaup sem íslenska ríkið kann að gerast aðili að.

16. gr.

Bann við mismunun við veitingu sérréttar.
     Ef öðrum aðila en kaupanda í skilningi laga þessara er veittur sér- eða einkaréttur til að veita opinbera þjónustu skal tryggja með þeirri athöfn sem kveður á um réttinn, svo sem í viðkomandi lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða stjórnsýslusamningi, að aðilinn virði regluna um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis við gerð vörusamninga í tengslum við starfrækslu þjónustunnar.

17. gr.

Trúnaðarskylda.
     Kaupanda er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef annað leiðir af fyrirmælum laganna, sbr. einkum þau ákvæði sem kveða á um skyldu til að birta opinberlega tilkynningu um gerð samnings á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar, og upplýsa þátttakendur og bjóðendur um tiltekin atriði, sbr. 41. og 71. gr. tilskipunarinnar, sem og skyldu til að veita kærunefnd útboðsmála upplýsingar, sbr. 5. mgr. 95. gr.
     Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.

18. gr.

Samningar bundnir við ákveðna hópa.
     Heimilt er að takmarka rétt til þátttöku í útboði við verndaða vinnustaði eða miða samning við að framkvæmd hans fari fram samkvæmt áætlun um verndaða vinnustaði þar sem flestir starfsmenn eru fatlaðir þannig að þeir geta ekki sinnt starfi á venjulegum vinnumarkaði vegna starfsorkuskerðingar.
     Ef innkaup eru yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 3. þátt, skal vísa til 19. gr. tilskipunarinnar í tilkynningu um innkaup.

2. ÞÁTTUR
Opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
III. KAFLI
Gildissvið þessa þáttar.

19. gr.

     Ákvæði þessa þáttar taka til opinberra innkaupa undir þeim viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins sem birtar eru í reglugerð skv. 78. gr.
     Ákvæði þessa þáttar taka ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr., eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér. Þessum aðilum er þrátt fyrir þetta ávallt heimilt að beita reglum þessa þáttar í heild eða að hluta við innkaup sín. Sveitarfélög skulu setja sér reglur um innkaup sín, enda hafi þau ekki ákveðið að kaupa inn samkvæmt reglum þessa þáttar í heild.
     Ákvæði þessa þáttar taka ekki til gerðar sérleyfissamninga undir þeim viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins sem birtar eru í reglugerð skv. 78. gr. Ráðherra er þó heimilt í reglugerð að setja reglur um gerð sérleyfissamninga undir þessum viðmiðunarfjárhæðum, m.a. ákveða að þá skuli gera að undangengnu tilteknu innkaupaferli. Um gerð sérleyfissamninga yfir framangreindum viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins gilda ákvæði 80. gr. og þær reglur sem þar er vísað til.
     Um framkvæmd hönnunarsamkeppni gilda ákvæði 37. gr.

IV. KAFLI
Innlendar viðmiðunarfjárhæðir.

20. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir.
     Öll innkaup á vörum yfir 5.000.000 kr. og kaup á þjónustu og verkum yfir 10.000.000 kr. skal bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í V. kafla.
     Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, í fyrsta sinn 1. janúar 2009. Heimilt skal að færa fjárhæðir þessar upp þannig að þær standi á heilu þúsundi. Ráðherra skal með hæfilegum fyrirvara auglýsa opinberlega þær breytingar sem verða á viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt þessari grein.

21. gr.

Þjónusta sem undanskilin er útboðsskyldu.
     Samninga um kaup á þjónustu sem tilgreind er í II. viðauka B tilskipunarinnar er ekki skylt að bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um í V. kafla laganna. Við kaup á þessari þjónustu skal þó ávallt gæta jafnræðisreglu 14. gr. svo og ákvæða 40. gr. um tækniforskriftir.
     Nú hefur samningur það að markmiði að afla þjónustu sem tilgreind er bæði í II. viðauka B tilskipunarinnar og í II. viðauka A tilskipunarinnar og er þá skylt að fylgja ákvæðum laga þessara um útboð og aðrar innkaupsaðferðir ef sá þáttur samningsins sem fellur undir II. viðauka A tilskipunarinnar er verðmætari en sá þáttur samningsins sem fellur undir II. viðauka B tilskipunarinnar. Að öðrum kosti er aðeins skylt að gæta ákvæða 40. gr. um tækniforskriftir svo og jafnræðisreglu 14. gr.
     Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum sé skylt að bjóða út innkaup sín eða gera þau í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um V. kafla laganna.

22. gr.

Innkaup undir innlendum viðmiðunarfjárhæðum.
     Við innkaup undir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem birtar eru í auglýsingu skv. 20. gr. skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður bréflega eða með rafrænni aðferð. Við þessi innkaup skal virða jafnræðisreglu 14. gr. svo og ákvæði 40. gr. um tækniforskriftir.

23. gr.

Útreikningur virðis samninga, rammasamninga og gagnvirkra innkaupakerfa.
     Við útreikning á áætluðu virði samnings skal miða við þá heildarfjárhæð sem kaupandi kemur til með að greiða fyrir innkaup, að frátöldum virðisaukaskatti. Við þennan útreikning skal taka tillit til heildarfjárhæðar, þar á meðal hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings.
     Ef kaupandi gerir ráð fyrir því að inna af hendi viðbótargreiðslu (bónus) eða greiða þátttakendum eða bjóðendum aukalega skal taka tillit til þess við útreikning á áætluðu virði samnings.
     Útreikningur skal miðast við þann tíma þegar tilkynning er send til opinberrar birtingar eða þegar kaupandi hefst handa við innkaupaferli við þær aðstæður að ekki er skylt að tilkynna opinberlega um innkaup.
     Óheimilt er að skipta upp verki eða innkaupum á vöru og/eða þjónustu í því skyni að innkaup verði undir viðmiðunarfjárhæðum.

24. gr.

Útreikningur virðis verksamninga.
     Við útreikning á áætluðu virði verksamnings skal miða við kostnað við verkið auk verðmætis aðfanga sem kaupandi lætur bjóðanda í té við verkið.

25. gr.

Útreikningur virðis vörusamninga.
     Við útreikning á áætluðu virði vörusamnings skal telja kostnað vegna flutnings vöru með í vöruverði. Ef vara er keypt „frí á skipsfjöl“ (fob) í erlendri höfn skal þó ekki telja flutning með í vöruverði.
     Þegar um er að ræða samninga um fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu á vörum skal reikna virði með eftirfarandi hætti:
 1. Þegar samningur er tímabundinn til 12 mánaða eða skemur skal miða við heildarsamningsfjárhæð. Þegar samningur er bundinn til lengri tíma skal miðað við heildarfjárhæð auk virðis varanna við lok samningstímans.
 2. Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.


26. gr.

Útreikningur virðis þjónustusamninga.
     Þegar um er að ræða tryggingarþjónustu skal miða virði samnings við fjárhæð iðgjalda og aðra þóknun sem greidd er. Þegar um er að ræða banka- og fjármálaþjónustu skal miða við fjárhæð gjalda, umboðslauna og vaxta auk annarrar þóknunar. Þegar um er að ræða samninga um hönnun skal miðað við fjárhæð gjalda, umboðslauna og aðra þóknun sem greidd er.
     Þegar um er að ræða samninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind skal reikna virði út með eftirfarandi hætti:
 1. Þegar samningur er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma skal miða við áætlaða samningsfjárhæð allan gildistíma samningsins.
 2. Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.


27. gr.

Innkaup sem skipt er upp.
     Þar sem innkaupum á verki eða þjónustu er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga, sem gerðir eru samtímis, skal miða við samanlagt virði allra samninganna. Sama á við þegar innkaupum á vöru af sömu tegund er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga sem gerðir eru samtímis. Sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skal líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarmörkum.
     Þegar heildarvirði samninga sem greinir í 1. mgr. er yfir viðmiðunarfjárhæðum er þrátt fyrir ákvæði málsgreinarinnar heimilt að gera einstaka samninga án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð samnings.

28. gr.

Útreikningur virðis viðvarandi eða endurnýjanlegra vöru- og þjónustusamninga.
     Þegar um er að ræða viðvarandi samninga eða samninga sem endurnýja á innan tiltekins tíma skal reikna áætlað virði út með eftirfarandi hætti:
 1. Annaðhvort með hliðsjón af heildarfjárhæð áþekkra samninga á undangengnu fjárhagsári eða síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til breytinga á magni og verði fyrir næstkomandi 12 mánuði.
 2. Eða með hliðsjón af áætluðum kostnaði fyrir næstu 12 mánuði, eða lengra tímabil ef því er að skipta, frá því að vara eða þjónusta er fyrst innt af hendi.

     Óheimilt er að nota sérstakar aðferðir við útreikning í því skyni að komast hjá útboðsskyldu.

29. gr.

Áætlun virðis rammasamninga og gagnvirkra innkaupakerfa.
     Þegar um er að ræða rammasamning eða gagnvirkt innkaupakerfi skal miða virði við heildarfjárhæð allra samninga, án virðisaukaskatts, sem gert er ráð fyrir að gera á gildistíma rammasamnings eða gagnvirks innkaupakerfis.

V. KAFLI
Innkaupaferli.

30. gr.

Meginreglan um almennt eða lokað útboð.
     Í öllum öðrum tilvikum en greinir í 31.–33. gr. skulu innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum 20. gr. fara fram á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs samkvæmt nánari reglum VI., VII., VIII. og IX. kafla. Einnig er heimilt að kaupa inn á grundvelli rammasamnings skv. 34. gr. og gagnvirks innkaupakerfis skv. 35. gr. þótt innkaup séu yfir viðmiðunarfjárhæðum.

31. gr.

Samkeppnisviðræður.
     Þegar um er að ræða sérlega flókna samninga og kaupandi telur að notkun almenns eða lokaðs útboðs sé því til fyrirstöðu að unnt sé að gera samning er heimilt að beita ákvæðum þessarar greinar. Um „sérlega flókinn samning“ í skilningi þessarar greinar er að ræða þegar ekki er mögulegt með hlutlægum hætti að skilgreina þau tæknilegu atriði sem fullnægt geta þörfum eða markmiðum kaupanda, sbr. b-, c- og d-lið 3. mgr. 40. gr., og/eða kaupandi getur ekki skilgreint lagalega eða fjárhagslega gerð framkvæmdar. Ákvörðun um gerð samnings skal eingöngu tekin á grundvelli forsendna fyrir vali fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.
     Kaupandi skal birta opinberlega útboðsauglýsingu þar sem fram koma þarfir og kröfur kaupanda, en þessi atriði skal skilgreina nánar í auglýsingunni sjálfri og/eða skýringargögnum.
     Kaupandi hefur viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið til þátttöku í samræmi við ákvæði VII. kafla og 56. gr., með það fyrir augum að slá föstu með hvaða hætti þörfum hans verður best fullnægt. Í þessum viðræðum er heimilt að ræða öll atriði væntanlegs samnings við útvalda þátttakendur.
     Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt meðal þátttakenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upplýsingar sem gera stöðu sumra þátttakenda betri en annarra. Kaupanda er óheimilt að upplýsa þátttakanda um lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem annar þátttakandi hefur sett fram, án samþykkis viðkomandi.
     Kaupandi getur ákveðið að ferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka þeim lausnum sem fjallað er um. Slík fækkun lausna skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða skýringargögnum. Taka skal fram í tilkynningu eða skýringargögnum að þessi háttur kunni að vera hafður á.
     Kaupandi skal halda viðræðum áfram þar til hann hefur afmarkað þá lausn eða þær lausnir sem geta fullnægt þörfum hans, eftir atvikum eftir að hafa borið þær saman, ef það reynist nauðsynlegt.
     Þegar kaupandi hefur lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt það þátttakendum skal hann gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð með hliðsjón af þeirri lausn eða lausnum sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll þau atriði sem nauðsynleg eru til að hrinda samningi í framkvæmd. Heimilt er þátttakendum að skýra, skilgreina og laga til tilboð sín eftir beiðni kaupanda. Slíkar skýringar, skilgreiningar og lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs, eða tilkynningu til bjóðenda um að gera tilboð, þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
     Kaupandi skal meta tilboð á grundvelli þeirra forsendna fyrir vali tilboðs sem fram komu í upphaflegri útboðsauglýsingu eða skýringargögnum og skal velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 72. gr. Kaupanda er heimilt að óska eftir því að sá þátttakandi sem átt hefur hagkvæmasta boð skýri atriði í tilboði sínu eða staðfesti tilteknar skuldbindingar sem þar hafa komið fram, enda leiði það ekki til þess að grundvallarþáttum í tilboðinu, eða útboðsauglýsingu, sé breytt þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
     Kaupanda er heimilt að kveða á um verðlaun eða greiða þátttakendum fyrir þátttöku sína í viðræðum.

32. gr.

Samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu.
     Ef ekkert lögmætt tilboð berst í almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum, öll tilboð eru óaðgengileg eða þátttakendum eða bjóðendum er vísað frá á grundvelli ákvæða VII. kafla er heimilt að viðhafa samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu, enda sé upphaflegum skilmálum útboðsins ekki breytt í verulegum atriðum. Þó þarf ekki að birta útboðsauglýsingu ef öllum þátttakendum eða bjóðendum, sem uppfylltu skilyrði VII. kafla og lögðu fram gild tilboð í áður auglýstu útboði, er boðið að taka þátt í samningskaupum.
     Samningskaup að undangenginni opinberri birtingu útboðsauglýsingar eru einnig heimil í eftirfarandi tilvikum:
 1. Þegar ómögulegt er að áætla heildarkostnað fyrir fram vegna eðlis verks, þjónustu eða vöru eða áhættu samfara innkaupum sem gerir áætlun kostnaðar ómögulega.
 2. Þegar um er að ræða þjónustu, einkum þjónustu á sviði hugverka eða rannsókna og þróunar, að svo miklu leyti sem ekki er unnt að skilgreina kröfur til hins keypta með það mikilli nákvæmni að mögulegt sé að gera upp á milli tilboða samkvæmt þeim reglum sem gilda í almennu eða lokuðu útboði.
 3. Þegar um er að ræða verk sem eingöngu eru unnin vegna rannsókna, tilrauna eða þróunar og ekki í ágóðaskyni eða til þess að mæta kostnaði vegna rannsókna og þróunarverkefna.

     Þegar um er að ræða samningskaup sem grundvallast á 1. eða 2. mgr. skal kaupandi ræða við þátttakendur um þau tilboð sem þeir hafa lagt fram með það fyrir augum að laga þau að þeim kröfum sem gerðar eru í tilkynningu, tækniforskriftum og öðrum útboðsgögnum, ef um þau er að ræða, og velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 72. gr.
     Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt milli þátttakenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upplýsingar sem gera stöðu ákveðinna þátttakenda betri en annarra.
     Kaupandi getur ákveðið að samningskaupaferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka þátttakendum. Slík fækkun skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum. Taka skal fram í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum að þessi háttur kunni að vera hafður á.

33. gr.

Samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar.
     Samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar eru heimil í eftirfarandi tilvikum án tillits til þess hvort um er að ræða innkaup á verki, vöru eða þjónustu:
 1. Þegar engin tilboð, engin gild tilboð eða engar tilkynningar um þátttöku berast vegna almenns eða lokaðs útboðs, enda sé í endanlegum samningi ekki vikið í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum útboðsgagna.
 2. Þegar aðeins eitt fyrirtæki kemur til greina af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um lögverndaðan einkarétt er að ræða.
 3. Þegar innkaup eru algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti í almennu útboði, lokuðu útboði eða samningskaupum skv. 32. gr. Þær aðstæður sem vísað er til sem aðkallandi neyðarástands mega ekki undir neinum kringumstæðum vera á ábyrgð kaupanda.

     Þegar um er að ræða innkaup á vörum eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil í eftirfarandi tilvikum:
 1. Þegar um er að ræða vörur sem eingöngu eru framleiddar vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar. Þetta nær þó ekki til fjöldaframleiðslu sem ætlað er að skila hagnaði eða endurheimta rannsóknar- og þróunarkostnað.
 2. Þegar um er að ræða viðbótarvörur sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru aukning á venjulegum birgðum eða búnaði og val á nýjum bjóðanda mundi skuldbinda kaupanda til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða leiddu til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald. Slíkir samningar, svo og endurnýjaðir samningar, skulu að jafnaði ekki gilda lengur en þrjú ár.
 3. Þegar um er að ræða vörur sem skráðar eru og keyptar í kauphöll.
 4. Þegar um er að ræða vörur sem eru á sérlega góðum kjörum, annaðhvort frá seljanda sem er að hætta starfsemi eða frá skiptastjóra þrotabús eða fyrirtæki sem er í greiðslustöðvun eða nauðasamningum.

     Þegar um er að ræða innkaup á þjónustu eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil þegar gera á samning eftir samkeppni um hönnun þar sem kveðið er á um að skylt væri að semja við þá þátttakendur, einn eða fleiri, sem sigruðu í keppninni. Ef um fleiri sigurvegara er að ræða er skylt að bjóða öllum sem sigra í hönnunarsamkeppni að taka þátt í viðræðum.
     Þegar um er að ræða innkaup á verki eða þjónustu eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil í eftirfarandi tilvikum:
 1. Þegar um er að ræða viðbótarverk eða viðbótarþjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í áður umsömdu verki og nauðsynlegt er, vegna áður ófyrirsjáanlegra aðstæðna, að sami aðili sjái um, enda sé ekki unnt að skilja verkið eða þjónustuna frá áður umsömdu verki af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum án stórfelldra vandkvæða fyrir kaupanda. Sama á við ef viðbótarverk eða viðbótarþjónusta er óhjákvæmileg til að ljúka áður umsömdu verki eða þjónustu. Samanlagt verðgildi samninga um viðbótarverk eða viðbótarþjónustu skal ekki nema hærri fjárhæð en helmingi af upphaflegri samningsfjárhæð.
 2. Þegar um er að ræða nýtt verk eða þjónustu sem felur í sér endurtekningu á sambærilegu verki eða þjónustu og sami kaupandi hefur áður samið um við fyrirtæki í almennu eða lokuðu útboði, enda séu þessi verk eða þjónusta í samræmi við þá upprunalegu áætlun sem upphaflegi samningurinn kvað á um. Þegar útboð fer fram á grundvelli upprunalegrar áætlunar skal taka fram að þessari aðferð við innkaup kunni að verða beitt og skal taka mið af áætluðum kostnaði við þessi verk eða þjónustu þegar viðmiðunarfjárhæð er reiknuð út, sbr. IV. kafla. Þessari innkaupsaðferð má aðeins beita innan þriggja ára frá því að upphaflegur samningur var gerður.


34. gr.

Rammasamningar.
     Rammasamninga skal gera í samræmi við þau innkaupaferli sem mælt er fyrir um í lögum þessum. Val á samningsaðilum í rammasamningsútboði skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs, sbr. 72. gr. Í rammasamningi er heimilt að ákveða að kaupendur séu ekki skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings við þau innkaup sem samningur tekur til, enda séu slík frávik tilgreind í útboðsgögnum.
     Við einstök innkaup á grundvelli rammasamnings skal fylgja ákvæðum 3. og 4. mgr. Aðeins er heimilt að gera einstaka samninga á grundvelli rammasamnings við þau fyrirtæki sem upphaflega voru aðilar rammasamnings. Við gerð einstakra samninga á grundvelli rammasamnings er óheimilt að gera verulegar breytingar á skilmálum rammasamnings, einkum þegar um er að ræða rammasamning sem um ræðir í 4. mgr.
     Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en fjögur ár nema í undantekningartilvikum sem helgast af málefnalegum ástæðum, einkum þeim sem tengjast efni rammasamningsins. Kaupanda er óheimilt að misnota rammasamning eða nota hann til að koma í veg fyrir, takmarka eða hindra samkeppni.
     Ef rammasamningur er gerður við eitt fyrirtæki skulu einstakir samningar á grundvelli rammasamnings rúmast innan skilmála rammasamningsins. Við gerð einstakra samninga er kaupanda heimilt að ráðfæra sig skriflega við rammasamningshafa og óska eftir viðbótum við tilboð hans ef það er nauðsynlegt.
     Ef rammasamningur er gerður við fleiri en eitt fyrirtæki skulu rammasamningshafar vera a.m.k. þrír, enda séu fyrir hendi nægilega mörg fyrirtæki í rammasamningsútboði sem fullnægja hæfisskilyrðum og/eða tilboð sem fullnægja skilmálum rammasamningsútboðsins.
     Ef skilmálar rammasamnings eru ákveðnir er heimilt að gera einstaka samninga við rammasamningshafa í samræmi við ákvæði rammasamnings. Ef skilmálar rammasamnings eru að einhverju leyti óákveðnir skal fara fram örútboð milli rammasamningshafa, eftir atvikum eftir að skilmálar eða tæknilegar kröfur hafa verið skýrðar nánar, allt í samræmi við eftirfarandi reglur:
 1. Við gerð hvers einstaks samnings skal kaupandi ráðfæra sig skriflega við þá rammasamningshafa sem efnt gætu samninginn.
 2. Kaupandi skal ákveða tilboðsfrest sem er nægilega langur til að rammasamningshafar geti gert tilboð vegna þess samnings sem um er að ræða. Við mat á lengd frests skal taka tillit til hversu flókið efni samningsins er svo og sendingartíma.
 3. Tilboð rammasamningshafa skulu vera skrifleg og efni þeirra skal vera trúnaðarmál þar til tilboðsfrestur hefur runnið út.
 4. Kaupandi skal velja á milli tilboða rammasamningshafa á grundvelli valforsendna sem fram hafa komið í skilmálum rammasamnings.


35. gr.

Gagnvirk innkaupakerfi.
     Gagnvirku innkaupakerfi skal einungis koma á fót að undangengnu almennu útboði í samræmi við þær reglur sem um slík útboð gilda. Allir bjóðendur sem fullnægt hafa skilyrðum skv. VII. kafla og sett hafa fram kynningarboð í samræmi við útboðsskilmála og önnur hugsanleg útboðsgögn skulu eiga rétt á aðild að gagnvirku innkaupakerfi. Lagfæra má kynningarboð hvenær sem er, enda fullnægi það útboðsskilmálum. Þegar gagnvirku innkaupakerfi er komið á fót skal eingöngu stuðst við rafrænar aðferðir í samræmi við 2.–5. mgr. 68. gr.
     Þegar gagnvirku innkaupakerfi er komið á fót skal kaupandi:
 1. Birta opinberlega útboðsauglýsingu þar sem fram kemur að um gagnvirkt innkaupakerfi sé að ræða.
 2. Tilgreina m.a. í útboðsskilmálum eðli innkaupa samkvæmt kerfinu auk nauðsynlegra upplýsinga um kerfið, þann rafræna búnað sem nota á ásamt tæknilegu fyrirkomulagi varðandi tengingu við kerfið og tækniforskriftir í því sambandi.
 3. Veita með rafrænum hætti ótakmarkaðan, beinan og fullan aðgang að útboðsskilmálum og öðrum hugsanlegum útboðsgögnum frá og með birtingu útboðsauglýsingar til og með þess tíma er kerfið fellur úr gildi. Kaupandi skal í tilkynningu tilgreina vefslóð þar sem hægt er að nálgast umrædd gögn.

     Meðan á gildistíma gagnvirks innkaupakerfis stendur skal kaupandi gefa öllum fyrirtækjum kost á að setja fram kynningarboð og fá aðgang að innkaupakerfi með þeim skilyrðum sem um ræðir í 1. mgr. Kaupandi skal hafa tekið afstöðu til bjóðanda innan 15 daga frá því að kynningarboð var sett fram. Heimilt er að framlengja þennan frest svo framarlega sem engin tilboð berist á sama tíma. Kaupandi skal tilkynna bjóðanda sem sækir um aðild að innkaupakerfi eins fljótt og kostur er um aðild hans að kerfinu eða höfnun á kynningarboði hans.
     Gerð sérhvers samnings í gagnvirku innkaupakerfi skal fara fram á grundvelli tilkynningar þar sem óskað er eftir tilboðum. Áður en endanleg útboðsauglýsing er gefin út skal kaupandi gefa út einfaldaða útboðsauglýsingu þar sem öllum áhugasömum fyrirtækjum er boðið að leggja fram kynningarboð skv. 3. mgr. innan frests sem skal ekki vera skemmri en 15 dagar frá sendingardegi. Kaupandi skal ekki halda útboði áfram fyrr en afstaða hefur verið tekin til allra kynningarboða sem borist hafa innan þessa frests.
     Kaupandi skal gefa öllum bjóðendum sem aðild hafa fengið að gagnvirku innkaupakerfi kost á að leggja fram tilboð vegna tiltekins samnings sem gera á innan kerfisins. Kaupandi skal í þessu skyni tiltaka frest til að leggja fram tilboð. Kaupandi skal grundvalla val tilboðs á hagkvæmasta tilboði samkvæmt forsendum fyrir vali tilboðs sem fram komu í útboðstilkynningu vegna stofnunar innkaupakerfisins. Þessar forsendur má skilgreina nánar í sérstakri útboðsauglýsingu vegna tiltekins samnings.
     Gildistími gagnvirks innkaupakerfis má ekki vera lengri en fjögur ár nema í undantekningartilvikum sem helgast af málefnalegum ástæðum. Kaupanda er óheimilt að misnota gagnvirkt innkaupakerfi eða nota það til að koma í veg fyrir, takmarka eða hindra samkeppni. Ekki er heimilt að heimta gjald vegna umsókna um aðild að innkaupakerfi eða aðildar að því.

36. gr.

Samningar um hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis á vegum hins opinbera.
     Þegar um er að ræða hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis, þar sem umfang, tími og eðli verksins gerir það nauðsynlegt að skipulagning sé frá upphafi byggð á nánu samstarfi innan verkefnahóps, sem í eiga sæti fulltrúar hins opinbera, sérfræðingar og verktakar, er heimilt að velja bjóðanda samkvæmt sérstöku útboðsferli sem hafi það að markmiði að sá sem best fellur inn í verkefnahópinn verði fyrir valinu.
     Kaupandi skal setja fram lýsingu á verki í útboðsauglýsingu með eins nákvæmum hætti og unnt er með það fyrir augum að áhugasöm fyrirtæki geti gert sér raunhæfa hugmynd um framkvæmdina. Jafnframt skal kaupandi, í samræmi við ákvæði VII. kafla um val á bjóðendum, setja fram kröfur um persónulegt, tæknilegt, efnahagslegt og fjárhagslegt hæfi þátttakenda.

37. gr.

Tilhögun hönnunarsamkeppni.
     Ákvæði þessarar greinar gilda um hönnunarsamkeppni þar sem samanlagt virði verðlauna og/eða annarra greiðslna til þátttakanda er yfir viðmiðunarfjárhæðum vegna þjónustukaupa skv. 20. gr.
     Þegar hönnunarsamkeppni er haldin sem liður í kaupum á þjónustu skal taka tillit til heildarvirðis samnings, án virðisaukaskatts, auk þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. mgr. Þegar hönnunarsamkeppni er haldin og kaupandi hefur ekki afsalað sér heimild til að gera þjónustusamning með samningskaupum skv. 3. mgr. 33. gr. að aflokinni hönnunarsamkeppni skal einnig taka tillit til heildarvirðis mögulegs þjónustusamnings, án virðisaukaskatts, auk þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. mgr. Um hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum, sem fram koma í reglugerð skv. 78. gr., fer skv. 81. gr. og þeim reglum sem þar er vísað til.
     Óheimilt er að takmarka aðgang að hönnunarsamkeppni með vísan til þjóðernis eða búsetu á ákveðnu svæði eða einskorða aðgang við annaðhvort lögaðila eða einstaklinga.
     Kaupandi sem hyggst halda hönnunarsamkeppni skal birta opinberlega auglýsingu um hana. Í auglýsingu eða skýringargögnum, sem vísað er til í auglýsingu, skulu koma fram upplýsingar um tilhögun keppninnar, forsendur fyrir vali þátttakenda, ef fjöldi þeirra er takmarkaður, og forsendur fyrir vali áætlunar eða tillögu. Við gerð auglýsingar og birtingu skal að öðru leyti farið eftir reglum um útboðsauglýsingar og birtingu þeirra, eftir því sem við á.
     Tilkynna skal þátttakendum í hönnunarsamkeppni um niðurstöður keppninnar. Ef birting upplýsinga mundi hindra löggæslu, vera andstæð almannahagsmunum eða stofna í hættu lögmætum viðskiptahagsmunum tiltekins fyrirtækis, hvort heldur er einkarekins eða í opinberri eigu, eða gæti hindrað samkeppni milli veitenda þjónustu er ekki skylt að birta upplýsingar.
     Ef ákveðið er að takmarka fjölda þátttakenda í hönnunarsamkeppni við ákveðinn fjölda skal gæta jafnræðis með því að setja fram málefnalegar forsendur fyrir vali þátttakenda. Fjöldi þátttakenda skal alltaf vera nægilegur til að tryggja raunhæfa samkeppni.
     Dómnefnd skal aðeins skipuð einstaklingum sem eru óháðir þátttakendum í samkeppni. Þar sem tiltekinnar menntunar eða starfshæfni er krafist af þátttakendum skal a.m.k. einn þriðji hluti dómnefndarmanna hafa þá menntun eða sambærilega starfshæfni.
     Dómnefnd skal vera sjálfstæð í ákvörðunum og áliti sínu. Hún skal kanna áætlanir og tillögur, sem þátttakendur leggja fram, eingöngu á grundvelli forsendna sem eru tilgreindar í tilkynningu um samkeppni, sbr. 4. mgr. Dómnefnd skal færa fundargerð, sem allir dómnefndarmenn skulu undirrita, þar sem fram kemur mat á hverri tillögu ásamt athugasemdum eða atriðum sem talin eru þarfnast skýringar. Heimilt er að gefa þátttakendum kost á að svara spurningum sem dómnefnd hefur áður fært til bókar í því skyni að skýra atriði í tillögu. Spurningar dómnefndar og svör þátttakenda skulu koma fram í endanlegri fundargerð dómnefndar.

VI. KAFLI
Útboðsgögn.

38. gr.

Almennir skilmálar.
     Útboðsgögn skulu innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til að bjóðanda sé unnt að gera tilboð. Eftirfarandi atriði skulu koma fram í útboðsgögnum eftir því sem við á:
 1. Lýsing á útboðinu þar sem kveðið er á um magn og annað sem máli skiptir.
 2. Nafn kaupanda og allar upplýsingar um samskipti við umsjónaraðila útboðsins.
 3. Framsetning tilboða.
 4. Upptalning á útboðsgögnum.
 5. Tilboðstími og hvar og hvenær tilboð verða opnuð.
 6. Afhendingar- eða framkvæmdatími.
 7. Gildistími tilboða.
 8. Greiðslur, verðbætur og tryggingar ef því er að skipta.
 9. Gögn til sönnunar á fjárhagslegri og tæknilegri getu sem bjóðandi skal leggja fram eða kann að verða krafinn um, sbr. 49. og 50. gr.
 10. Meðhöndlun fyrirspurna frá væntanlegum bjóðendum.
 11. Afhendingarskilmálar.
 12. Á hvaða tungumáli eða tungumálum skila skuli tilboðum.
 13. Forsendur fyrir vali tilboða.
 14. Hvort leyfilegt sé að bjóða í aðeins hluta af fyrirhuguðum innkaupum.
 15. Hvort frávikstilboð séu heimil og þá hver séu skilyrði fyrir gerð þeirra, þar á meðal hverjar séu þær lágmarkskröfur sem slík tilboð þurfi að fullnægja.
 16. Frestur kaupanda til að taka tilboði.

     Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um gerð og frágang útboðsgagna.

39. gr.

Tilboðsblað.
     Tilboðsblað skal vera hluti útboðsgagna og skal það vera þannig úr garði gert að tilboð séu sett fram á sama hátt og þannig samanburðarhæf.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um gerð og frágang tilboðsblaða.

40. gr.

Tækniforskriftir.
     Tækniforskriftir eins og þær eru nánar skilgreindar í 1. lið VI. viðauka tilskipunarinnar skulu koma fram í útboðsgögnum, svo sem útboðsauglýsingu, útboðsskilmálum eða fylgigögnum með þeim. Þar sem því verður við komið skal skilgreina þessar forskriftir þannig að tekið sé tillit til viðmiða um aðgengi fatlaðra eða miðað við hönnun fyrir hvers konar notendur.
     Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jöfn tækifæri. Þær mega ekki leiða til ómálefnalegra hindrana á samkeppni við opinber innkaup.
     Að svo miklu leyti sem annað kemur ekki fram í óundanþægum innlendum reglum, sem eru í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, skal kveða á um tækniforskriftir á einhvern eftirgreindan hátt:
 1. Með tækniforskrift eins og það hugtak er skilgreint í VI. viðauka tilskipunarinnar ásamt tilvísun til einhvers af eftirfarandi í þeirri forgangsröð sem hér greinir:
  1. innlendra staðla sem fela í sér innleiðingu á evrópskum stöðlum,
  2. evrópsks tæknisamþykkis,
  3. sameiginlegra tækniforskrifta,
  4. alþjóðlegra staðla,
  5. annarra tæknilegra tilvísunarkerfa sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót.
  Ef framangreind gögn eru ekki fyrir hendi er heimilt að vísa til íslenskra staðla, íslensks tæknisamþykkis eða íslenskra tækniforskrifta sem tengjast hönnun, útreikningi og framkvæmd verks og notkun vöru. Hverri tilvísun skal fylgja orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.
 2. Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, þar á meðal kröfum til eiginleika sem tengjast umhverfinu. Slík viðmið verða þó að vera nægilega nákvæm til að gera bjóðendum kleift að gera sér grein fyrir efni samnings og gera kaupanda mögulegt að gera upp á milli tilboða.
 3. Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, sbr. b-lið, þó þannig að tækniforskriftir sem fjallað er um í a-lið séu notaðar til að kanna hvort kröfum um þessi atriði sé fullnægt.
 4. Með því að vísa til forskrifta, sbr. a-lið, um suma eiginleika og með því að vísa til frammistöðu eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið, um aðra.

     Ef kaupandi nýtir heimild í a-lið 3. mgr. getur hann ekki vísað frá tilboði á þeim grundvelli að vara eða þjónusta sem boðin er fram sé í ósamræmi við tækniforskriftir, enda sýni bjóðandi fram á, með einhverjum viðeigandi hætti, að lausnir hans fullnægi með sambærilegum hætti þeim kröfum sem leitast er við að fullnægja með hlutaðeigandi tækniforskriftum. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
     Ef kaupandi nýtir sér heimild í 3. mgr. til að slá föstum tækniforskriftum með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar getur hann ekki vísað frá tilboði í verk eða þjónustu sem er í samræmi við innlenda staðla sem innleiða evrópska staðla eða í samræmi við evrópskt tæknisamþykki, sameiginlegar tækniforskriftir, alþjóðlegan staðal eða önnur tæknileg tilvísunarkerfi sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, enda fjalli þessar forskriftir um þá virkni eða kröfur um hagnýtingu sem kaupandi hefur slegið fastri. Í tilboði sínu verður bjóðandi að sýna fram á það með viðeigandi hætti, þannig að kaupandi telji það fullnægjandi, að verk, vara eða þjónusta sem er í samræmi við staðal fullnægi kröfum kaupanda um frammistöðu og hagnýtingu. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
     Ef kaupandi gerir kröfu um eiginleika sem tengjast umhverfinu með tilliti til virkni eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið 3. mgr., getur hann notast við sérstakar tækniforskriftir, eða hluta slíkra forskrifta, sem skilgreindar eru með evrópskum, alþjóðlegum eða innlendum umhverfismerkjum eða öðrum umhverfismerkingum, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
 1. Að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem er efni samnings.
 2. Að þær kröfur sem liggja til grundvallar umhverfismerki byggist á vísindalegum upplýsingum.
 3. Að umhverfismerking sé veitt á grundvelli málsmeðferðar sem allir sem eiga hagsmuna að gæta, svo sem ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifendur og umhverfissamtök, geta tekið þátt í.
 4. Að umhverfismerking sé aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum.

     Kaupandi getur kveðið svo á að gert sé ráð fyrir að vara og þjónusta sem hefur umhverfismerkingu fullnægi tækniforskrift sem fram kemur í útboðsskilmálum. Kaupandi verður þó einnig að taka til greina aðra sönnun um að þessum kröfum sé fullnægt, svo sem tæknilega lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
     Með viðurkenndum stofnunum í skilningi þessarar greinar er átt við rannsóknar- og kvörðunarstofur og vottunar- og eftirlitsstofnanir sem fullnægja þeim evrópsku stöðlum sem við eiga. Kaupandi skal taka til greina vottorð frá viðurkenndri stofnun í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
     Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar gerðar, framleiðanda, sérstakrar vinnslu, vörumerkja, einkaleyfa, tegundar, uppruna eða framleiðslu með þeim afleiðingum að hlutur ákveðinna fyrirtækja er gerður betri en annarra eða ákveðin fyrirtæki eru útilokuð frá þátttöku í opinberum innkaupum, enda helgist slík tilvísun ekki beinlínis af efni samnings. Í undantekningartilvikum er tilvísun sem þessi heimil þegar lýsing á efni samnings er ekki möguleg skv. 3. og 4. mgr., enda fylgi slíkri tilvísun orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.

41. gr.

Frávikstilboð.
     Ef kaupandi hyggst meta tilboð á grundvelli fjárhagslegrar hagkvæmni, en ekki eingöngu verðs, er kaupanda heimilt að leyfa bjóðendum að gera frávikstilboð.
     Kaupandi skal taka fram í útboðsauglýsingu hvort frávikstilboð eru heimil, sbr. einnig o- lið 1. mgr. 38. gr., en að öðrum kosti eru frávikstilboð óheimil. Aðeins frávikstilboð sem fullnægja lágmarkskröfum kaupanda samkvæmt útboðsgögnum, sbr. o-lið 1. mgr. 38. gr., er heimilt að taka til umfjöllunar.
     Þegar um er að ræða vöru og þjónustukaup er kaupanda sem hefur leyft frávikstilboð óheimilt að hafna frávikstilboði á þeirri forsendu einni að samningur, ef hann yrði gerður, yrði þjónustusamningur í stað vörusamnings eða vörusamningur í stað þjónustusamnings.

42. gr.

Undirverktaka.
     Heimilt er að krefjast þess í útboðsgögnum að bjóðandi upplýsi hvaða hluta samnings hann hyggst láta þriðja aðila framkvæma sem undirverktaka og hvaða undirverktaka sá aðili hyggst nota. Upplýsingar bjóðanda um undirverktaka skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð bjóðanda gagnvart kaupanda.

43. gr.

Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings.
     Kaupanda er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði, einkum varðandi félagsleg og umhverfisleg atriði, sem tengjast framkvæmd samnings, enda séu þessi skilyrði í samræmi við reglur EES-samningsins og hafi verið tilgreind í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum.

44. gr.

Skyldur sem tengjast sköttum, umhverfisvernd, réttindum launþega og vinnuvernd.
     Kaupanda er heimilt að upplýsa í útboðsskilmálum hjá hvaða stofnun eða stofnunum þátttakendur eða bjóðendur geta aflað sér upplýsinga um skyldur sínar varðandi skatta, umhverfisvernd, réttindi launþega og vinnuvernd og önnur skilyrði fyrir starfsemi á Íslandi eða því sveitarfélagi þar sem verk á að vinnast eða þjónustu á að inna af hendi á samningstímanum.
     Kaupandi sem veitt hefur þær upplýsingar sem greinir í 1. mgr. skal óska eftir því við þátttakendur eða bjóðendur að þeir taki fram að þeir hafi tekið tillit til skyldna sinna varðandi réttindi launþega, vinnuvernd og önnur skilyrði fyrir starfsemi á Íslandi eða því sveitarfélagi þar sem verk á að vinnast eða þjónustu á að inna af hendi þegar þeir gerðu tilboð sitt.
     Ákvæði 1. mgr. er ekki því til fyrirstöðu að beitt sé ákvæðum 73. gr. um óeðlilega lág tilboð.

45. gr.

Forsendur kaupanda fyrir vali tilboðs.
     Forsendur fyrir vali tilboðs skulu annaðhvort miðast eingöngu við lægsta verð eða fjárhagslega hagkvæmni frá sjónarhóli kaupanda. Forsendur sem liggja til grundvallar mati á fjárhagslegri hagkvæmni skulu tengjast efni samnings, t.d. gæðum, verði, tæknilegum eiginleikum, útliti, notkunareiginleikum, umhverfislegum eiginleikum, rekstrarkostnaði, rekstrarhagkvæmni, viðhaldsþjónustu, afhendingardegi og afhendingartímabili eða lokum framkvæmdar samnings.
     Í útboðsauglýsingu, útboðsgögnum eða skýringargögnum, eða þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, skal tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs eins nákvæmlega og framast er unnt. Í forsendum má ekki vísa til annarra atriða en staðreynd verða á grundvelli gagna sem bjóðendur leggja fram eða með öðrum hlutlægum hætti.
     Í þeim gögnum sem greinir í 2. mgr. skal tilgreina hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali tilboðs. Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum. Ef ómögulegt er að tilgreina tiltekið vægi forsendna af ástæðum sem hægt er að sýna fram á skal raða forsendum í röð eftir mikilvægi.

VII. KAFLI
Hæfi þátttakenda og bjóðenda í opinberum innkaupum.

46. gr.

Almennar reglur um fyrirtæki.
     Óheimilt er að vísa frá þátttakanda eða bjóðanda með vísan til þess að innlendar reglur áskilji að veitandi þjónustu þurfi að vera annaðhvort einstaklingur eða lögaðili, enda sé þátttakandanum eða bjóðandanum heimilt að veita þá þjónustu sem til stendur að kaupa samkvæmt lögum staðfesturíkis síns. Þegar um er að ræða þjónustusamninga, eða verksamninga ásamt vörusamningum sem fela einnig í sér þjónustu og/eða eftirlit og uppsetningu, er heimilt að krefjast þess af lögaðila að hann tilgreini í tilboði eða þátttökutilkynningu nöfn og starfsmenntun þeirra starfsmanna sem munu sjá um framkvæmd samningsins.
     Fleiri fyrirtækjum er heimilt að standa að tilboði eða þátttökutilkynningu sameiginlega, enda teljast þau þá bera sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Óheimilt er kaupanda að krefjast þess að slíkur hópur fyrirtækja stofni til sérstaks lögákveðins rekstrarforms nema það sé nauðsynlegt fyrir fullnægjandi framkvæmd samnings. Kaupanda er þó heimilt að krefjast þess að eitt fyrirtæki komi fram fyrir hönd hinna við framkvæmd samnings og standi kaupanda öll skil.

47. gr.

Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda.
     Þátttakandi eða bjóðandi sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir eftirtalin afbrot skal útilokaður frá gerð opinbers samnings:
 1. þátttöku í skipulögðum brotasamtökum,
 2. spillingu,
 3. sviksemi,
 4. peningaþvætti.
Eftir því sem við á skulu kaupendur óska eftir því að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram gögn um þau atriði sem greinir í a–d-lið. Hafi kaupandi efasemdir um persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda er honum heimilt að beina fyrirspurn til þar til bærra yfirvalda í því skyni að fá nauðsynlegar upplýsingar um þessi atriði. Ef upplýsingar varða þátttakanda eða bjóðanda frá öðru ríki er heimilt að óska eftir samvinnu við þar til bær yfirvöld í viðkomandi ríki. Með hliðsjón af lögum þess ríkis skal fyrirspurn beinast að einstaklingum og/eða lögaðilum, þar á meðal, ef við á, forstjórum fyrirtækja og hvers konar einstaklingum sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvörðunartöku eða stjórnunar viðkomandi þátttakanda eða bjóðanda.
     Heimilt er að útiloka fyrirtæki frá opinberum samningi sem eitthvað af eftirfarandi á við:
 1. Bú fyrirtækis er undir gjaldþrotaskiptum eða félagi hefur verið slitið, það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
 2. Óskað hefur verið gjaldþrotaskipta eða slita á fyrirtæki, það hefur leitað heimildar til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
 3. Fyrirtæki hefur með endanlegum dómi verið fundið sekt um refsivert brot í starfi.
 4. Fyrirtæki hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi sem kaupanda er unnt að sýna fram á.
 5. Fyrirtæki er í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld.
 6. Fyrirtæki er í vanskilum með opinber gjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld.
 7. Fyrirtæki hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.
Við mat á því hvort a–g-liður á við um fyrirtæki skal litið til þess hvort um sé að ræða sömu rekstrareiningu, með sömu eða nær sömu eigendur í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi á sama markaði, án tillits til þess hvort fyrirtækið hafi skipt um kennitölu eða verið stofnað að nýju. Í þessu skyni er heimilt að kanna viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda.
     Ef fyrirtæki er krafið um sönnun um þau atriði sem greinir í 1. mgr. eða a-, b-, c-, e- eða f-lið 2. mgr. skal eftirfarandi metið sem fullnægjandi sönnun:
 1. Að því er varðar skilyrði 1. mgr. og a-, b- og c-liðar 2. mgr., framlagning sakavottorðs, vottorðs dómstóls eða, ef þessi vottorð eru ekki tiltæk, sambærilegs vottorðs frá stjórnvaldi eða dómstóli í uppruna- eða heimaríki viðkomandi fyrirtækis sem sýnir að umræddum skilyrðum sé fullnægt.
 2. Að því er varðar e- og f-lið 2. mgr., vottorð gefið út af þar til bæru stjórnvaldi í viðkomandi ríki.

     Ef heimaríki fyrirtækis gefur ekki út skjöl eða vottorð sem þessi, eða slík skjöl og vottorð ná ekki yfir öll þau tilvik sem greinir í 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr., skal þess í stað meta fullgildan eið eða drengskaparheit sem bjóðandi hefur unnið um umrædd atriði fyrir dómara eða yfirvaldi, lögbókanda eða þar til bæru fagfélagi í heimaríki sínu.
     Fjármálaráðuneytið skal útbúa skrá yfir þau innlendu stjórnvöld og stofnanir sem bær eru til að gefa út þau skjöl, vottorð eða yfirlýsingar sem um ræðir í 3. mgr. og senda hana Eftirlitsstofnun EFTA. Slík tilkynning skal ekki fara í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

48. gr.

Starfsréttindi.
     Þess má krefjast að innlent fyrirtæki sýni fram á að það sé skráð í fyrirtækjaskrá. Þegar um er að ræða fyrirtæki frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu má krefjast þess að fyrirtæki sýni fram á fullnægjandi skráningu í heimaríki sínu með eiði eða vottorði skv. IX. viðauka A tilskipunarinnar þegar um er að ræða verksamninga, IX. viðauka B tilskipunarinnar þegar um er að ræða vörusamninga og IX. viðauka C tilskipunarinnar þegar um er að ræða þjónustusamninga.
     Þegar um er að ræða gerð þjónustusamninga og bjóðendur eða þátttakendur þurfa að hafa sérstakt leyfi eða vera meðlimir í tilteknum samtökum til að mega veita hlutaðeigandi þjónustu í heimaríki sínu er heimilt að krefjast þess að þeir sýni fram á að þeir hafi viðeigandi leyfi eða séu félagar í viðeigandi samtökum.

49. gr.

Fjárhagsstaða bjóðanda.
     Fjárhagsstaða fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Ekki skal krefjast frekari gagna um sönnun á fjárhagslegri getu en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðra innkaupa. Að jafnaði getur fyrirtæki fært sönnur á fjárhagslega getu sína með því að leggja fram ein eða fleiri eftirfarandi gagna:
 1. Viðeigandi upplýsingar frá bönkum eða, þar sem það á við, gögn um verktryggingu eða aðra tryggingu fyrir skaðleysi kaupanda af hugsanlegum vanefndum fyrirtækis.
 2. Endurskoðaða ársreikninga fyrri ára eða útdrátt úr þeim ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt lögum staðfesturíkis fyrirtækis.
 3. Yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækis og, eftir því sem við á, hlutdeild þeirrar vöru, þjónustu eða verks sem fellur undir samning, vegna þriggja undangenginna fjárhagsára, þó þannig að taka ber tillit til þess hvenær fyrirtæki var stofnsett eða hvenær það hóf starfsemi og að hvaða marki þessar upplýsingar eru aðgengilegar.

     Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á fjárhagslegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa nauðsynlega fjármuni til ráðstöfunar, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sameiginlega sérstakt félag í þessu skyni.
     Með sömu skilyrðum og greinir í 46. gr. geta fleiri fyrirtæki sem standa að þátttökutilkynningu eða tilboði byggt sameiginlega á fjárhagslegri getu þeirra.
     Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gagna skv. 1. mgr. krafist er að fyrirtæki leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðið um að leggja fram. Einnig skal tilgreina önnur gögn um fjárhagslega getu ef því er að skipta.
     Þegar bjóðandi er ófær um að leggja fram þau gögn sem greinir í 1. mgr. er honum heimilt að sýna fram á fjárhagslega getu sína með öðrum gögnum sem kaupandi telur fullnægjandi.

50. gr.

Tæknileg geta.
     Tæknileg geta fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Eftir því sem nauðsynlegt er vegna eðlis, umfangs, mikilvægis eða ætlaðrar notkunar verks, þjónustu eða vöru getur fyrirtæki fært sönnur á tæknilega getu sína með eftirfarandi gögnum:

      a. i.     Með lista yfir þau verk sem fyrirtæki hefur annast síðastliðin fimm ár ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir stærstu verksamninga þegar um er að ræða innkaup á verki. Í þessum vottorðum skal koma fram virði, dagsetning og staðsetning verks ásamt upplýsingum um hvort verk var unnið fagmannlega og lokið með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal það stjórnvald sem gefur út vottorð senda það milliliðalaust til kaupanda.
 1. Með lista yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið síðastliðin þrjú ár ásamt upplýsingum um virði vöru eða þjónustu, viðtakendur, hvort sem þeir eru opinberir eða einkaaðilar, þegar um er að ræða innkaup á þjónustu og vörum. Þegar viðtakandi vöru eða þjónustu hefur verið opinber aðili skal sönnun um afhendingu vörunnar eða þjónustunnar gefin með vottorði sem viðkomandi kaupandi gefur út eða staðfestir með áritun sinni. Þegar viðtakandi vöru eða þjónustu hefur verið einkaaðili skal sönnun um afhendingu vörunnar eða þjónustunnar gefin með vottorði viðkomandi einkaaðila eða, ef þetta er ekki unnt, yfirlýsingu fyrirtækisins sjálfs.
 1. Með tilvísun til þeirra tæknimanna eða tæknilegu aðila, hvort sem þeir heyra beinlínis undir fyrirtæki eða ekki, sem koma munu að framkvæmd samnings, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og framkvæmd verks þegar um er að ræða verksamninga.
 2. Með lýsingu á tæknibúnaði, aðferðum til að tryggja gæði og aðstöðu til athugana og rannsókna.
 3. Þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem er margbrotin eða sem aflað er í sérstökum tilgangi: með skoðun kaupanda á framleiðslugetu seljanda vöru eða tæknilegri getu veitanda þjónustu ásamt skoðun á rannsóknaraðstöðu og gæðaeftirliti bjóðanda ef nauðsyn ber til. Þar til bær opinber aðili í staðfesturíki fyrirtækis getur annast umrædda skoðun fyrir hönd kaupanda í samræmi við þær reglur sem gilda um slíkan aðila.
 4. Með upplýsingum um menntun og starfsréttindi þjónustuveitanda eða verktaka og/eða starfsmanna fyrirtækis, einkum þeirra sem bera munu ábyrgð á viðkomandi þjónustu eða vinnu við verk.
 5. Þegar um er að ræða verksamninga og þjónustusamninga í þeim tilvikum þar sem það á við: með upplýsingum um þær umhverfisstjórnunaraðgerðir sem fyrirtæki getur beitt við framkvæmd samnings.
 6. Með yfirlýsingu um meðalfjölda starfsmanna og fjölda manna í stjórnunarstöðum hjá þjónustuveitanda eða verktaka síðastliðin þrjú ár.
 7. Með yfirlýsingu um þau tæki, verksmiðju eða tæknibúnað sem þjónustuveitandi eða verktaki hefur aðgang að til framkvæmdar samnings.
 8. Með upplýsingum um það hlutfall samnings sem þjónustuveitandi eða verktaki hyggst fela öðrum aðila.
 9. Þegar um er að ræða vöru: með sýnishornum, lýsingum eða ljósmyndum þannig að unnt sé að staðreyna að vara sé fullnægjandi eða með vottun frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndri stofnun um að vara sé í samræmi við þær tækniforskriftir eða staðla sem vísað hefur verið til.

     Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á tæknilegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa aðgang að nauðsynlegri tækni fyrir framkvæmd samningsins, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sameiginlega sérstakt félag í þessu skyni.
     Með sömu skilyrðum og greinir í 46. gr. geta fleiri fyrirtæki sem standa að þátttökutilkynningu eða tilboði byggt sameiginlega á tæknilegri getu þeirra.
     Þegar um er að ræða vörusamninga sem fela í sér ísetningu og uppsetningu, veitingu þjónustu og/eða framkvæmd verks er heimilt að meta sérstaklega getu fyrirtækis til þess að veita þjónustuna, sjá um uppsetninguna eða vinna verkið, einkum með hliðsjón af hæfni, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.
     Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gagna skv. 1. mgr. krafist er að fyrirtæki leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðið um að leggja fram.

51. gr.

Gæðastaðlar.
     Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum gæðavottunarstöðlum skal vísað til evrópskra gæðavottunarkerfa sem grundvallast á viðeigandi evrópskum stöðlum, enda hafi þessir staðlar verið staðfestir af stofnun sem fullnægir skilyrðum evrópskra staðla til slíkrar staðfestingar. Kaupendur skulu taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til gæðakrafna.

52. gr.

Umhverfisstaðlar.
     Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum umhverfisstjórnunarstöðlum, sbr. f-lið 1. mgr. 50. gr., skal vísað til umhverfisstjórnunarkerfis Bandalagsins (EMAS) eða til umhverfisstjórnunarstaðla sem grundvallast á viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum, sem staðfestir hafa verið af stofnunum sem samræmast reglum EES-samningsins, eða viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum um vottun. Kaupendur skulu taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til umhverfisstjórnunar.

53. gr.

Framlagning viðbótargagna og upplýsinga.
     Kaupanda er heimilt að gefa fyrirtæki færi á því að auka við framkomin gögn skv. 47.–52. gr. eða skýra þau á hvaða stigi útboðs sem er.

54. gr.

Opinberir listar um viðurkennd fyrirtæki og vottorð opinberra og einkaréttarlegra stofnana.
     Fyrirtæki, sem skráð eru á opinberum listum yfir viðurkennda verktaka, seljendur eða þjónustuveitendur eða vottuð sem slík af opinberum eða einkaréttarlegum stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða ríkjum stofnsamnings EFTA, geta, með staðfestri skráningu á viðkomandi lista eða vottorði, fært sönnur á að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt, enda sé ekki annað leitt í ljós:
 1. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 1. mgr. og a-, d- og g-liðar 2. mgr. 47. gr.
 2. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 48. gr.
 3. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum b- og c-liðar 1. mgr. 49. gr.
 4. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum i. liðar a-liðar og b-, e- og g-liðar 1. mgr. 50. gr. svo og h-liðar sömu málsgreinar að því er varðar verktaka.
 5. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum ii. liðar a-liðar og b-, c-, d- og j-liðar 1. mgr. 50. gr. að því er varðar seljendur vöru.
 6. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum ii. liðar a-liðar og c–i-liðar 1. mgr. 50. gr. að því er varðar veitendur þjónustu.

     Óheimilt er að vefengja upplýsingar sem skráning á lista eða vottorð ber með sér án sérstakrar ástæðu. Að því er varðar greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda og skatta má þó hvenær sem er krefjast viðbótarvottorðs af skráðu fyrirtæki.
     Kaupendur skulu beita 1. og 2. mgr. til hagsbóta þeim fyrirtækjum sem staðfestu hafa í einhverju ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og skráð eru á lista þar.

VIII. KAFLI
Framkvæmd opinberra innkaupa.

55. gr.

Auglýsing útboða.
     Skylt er að auglýsa almennt útboð, þar á meðal almennt rammasamningsútboð, með áberandi hætti þannig að öll áhugasöm fyrirtæki geti tekið þátt í útboði. Í útboðsauglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að fyrirtæki geti tekið afstöðu til þess hvort þau hyggjast taka þátt í útboði.
     Samtímis því, eða eftir að auglýst er, getur kaupandi hvatt tiltekna aðila til þátttöku í útboði. Ekki má þó veita slíkum aðilum aðrar upplýsingar en fram koma í tilkynningu um útboð.

56. gr.

Forval við lokuð útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup.
     Við lokað útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup að undangenginni opinberri auglýsingu skal velja þátttakendur með forvali í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
     Auglýsa skal tilkynningu um forval með áberandi hætti þannig að öll áhugasöm fyrirtæki geti tekið þátt í forvali. Í auglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að fyrirtæki geti tekið afstöðu til þess hvort þau hyggjast taka þátt í forvali og eftirfarandi útboði.
     Í forvali er heimilt að takmarka fjölda þeirra sem valdir eru til að taka þátt í útboði, samkeppnisviðræðum eða samningskaupum, enda hafi nægilega margir þátttakendur tekið þátt í forvali. Í tilkynningu um forval skulu koma fram þau málefnalegu og óhlutdrægu skilyrði eða reglur sem leggja á til grundvallar við val þátttakenda í forvali, lágmarksfjölda þeirra svo og hámarksfjölda þeirra ef það á við.
     Í forvali vegna lokaðs útboðs skulu þátttakendur sem valdir eru til að leggja fram tilboð ekki vera færri en fimm. Í forvali vegna samningskaupa eftir opinbera birtingu útboðsauglýsingar og vegna samkeppnisviðræðna skulu þátttakendur ekki vera færri en þrír. Fjöldi þátttakenda sem valdir eru skal ætíð vera nægilegur til að tryggja raunverulega samkeppni.
     Kaupandi skal gefa a.m.k. jafnmörgum þátttakendum kost á að taka þátt í útboði og svarar til þess lágmarksfjölda sem hann hefur áður tiltekið. Ef ekki er fyrir hendi nægjanlegur fjöldi þátttakenda sem fullnægir skilyrðum forvals til að vera valinn, eða ekki er fyrir hendi nægjanlegur fjöldi þátttakenda sem fullnægir kröfum um getu, er kaupanda heimilt að halda útboði áfram með því að gefa þeim sem fullnægðu þessum kröfum kost á að taka þátt í útboði. Ekki er heimilt að gefa fyrirtækjum sem ekki tóku þátt í forvali kost á að taka þátt í útboði á þessu stigi. Sama á við um þá þátttakendur sem ekki fullnægðu kröfum um hæfi.
     Þegar kaupendur nýta sér heimildir til að fækka tilboðum eða fjölda þátttakenda í samkeppnisviðræðum eða samningskaupum að undangenginni opinberri birtingu tilkynningar, sbr. 31. og 32. gr., skal ákvörðun um slíkt grundvallast á valforsendum sem fram hafa komið í útboðsauglýsingu, skilmálum eða skýringargögnum. Á lokastigi slíkra innkaupa skal fjöldi þátttakenda vera nægilega mikill til að tryggja raunhæfa samkeppni að svo miklu leyti sem um nægilegan fjölda tilboða eða hæfra þátttakenda er að ræða.

57. gr.

Frestur til að skila tilboðum.
     Frestur til að skila tilboðum skal vera nægjanlega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð.

58. gr.

Frestur í almennu útboði.
     Frestur til að leggja fram tilboð í almennu útboði skal vera minnst fimmtán almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboðsauglýsing er birt að meðtöldum opnunardegi. Allir almanaksdagar eru taldir með.

59. gr.

Frestir í lokuðu útboði, samkeppnisviðræðum og samningskaupum.
     Frestur til að skila þátttökubeiðnum í forvali vegna lokaðs útboðs, samkeppnisviðræðna eða samningskaupa að undangenginni opinberri birtingu útboðsauglýsingar skal vera minnst fimmtán almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboðsauglýsing er birt að meðtöldum opnunardegi.
     Þeim sem valdir hafa verið í forvali vegna lokaðs útboðs skal gefa minnst tíu almanaksdaga frest til að leggja fram tilboð. Frestur reiknast frá þeim degi þegar útboðsgögn eru send út. Að öðru leyti gilda sömu reglur um ákvörðun frests og við almenn útboð.

60. gr.

Hraðútboð.
     Ef nauðsynlegt er að hraða útboði af ástæðum sem kaupanda verður ekki um kennt er heimilt að víkja frá þeim frestum sem greinir í 58. og 59. gr. Frestur til að skila tilboðum skal þó aldrei vera skemmri en sjö almanaksdagar frá birtingu auglýsingar.

61. gr.

Afhending gagna.
     Útboðsgögn skulu vera tilbúin til afhendingar innan þriggja daga frá birtingu útboðsauglýsingar.

62. gr.

Vettvangsskoðun.
     Ef ekki er unnt að gera tilboð án þess að bjóðendur eða þátttakendur skoði vettvang, eða ef boðið er upp á vettvangsskoðun, skal lengja tilboðsfrest sem nemur eðlilegum tíma til vettvangsskoðunar ef þess er óskað af bjóðendum eða þátttakendum.

63. gr.

Fyrirspurnir og athugasemdir á tilboðstíma.
     Ef óskað er eftir ítarlegri gögnum eða nánari skilgreiningu á útboðsgögnum eða öðrum gögnum tengdum útboði skal fyrirspurn vera komin til kaupanda eða umsjónarmanns útboðs, ef um hann er að ræða, eigi síðar en sjö almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út.
     Telji kaupandi tilefni til að senda ný gögn eða svara fyrirspurn skv. 1. mgr. skal senda gögnin eða fyrirspurnina ásamt svörum við henni til allra sem hafa óskað eftir og fengið send útboðsgögn. Ný gögn eða skýringar skulu vera komin til bjóðenda eða þátttakenda eigi síðar en fjórum almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út.
     Allar fyrirspurnir, athugasemdir við útboð og tilkynningar skulu vera skriflegar, sbr. þó 68. gr.

64. gr.

Tilboð afturkölluð.
     Bjóðandi getur afturkallað tilboð sitt áður en tilboð eru opnuð, enda sé það gert skriflega eða með öðrum jafntryggum hætti.

65. gr.

Opnun tilboða frestað.
     Þurfi að fresta opnun tilboða skal það gert með að minnsta kosti fjögurra almanaksdaga fyrirvara. Séu færri en fjórir dagar fram að opnun er óheimilt að boða frestun heldur skal haldinn opnunarfundur og skráð hverjir skila inn tilboði, án þess að opna tilboðin. Þeim sem skila tilboði verður einum boðin áframhaldandi þátttaka.

66. gr.

Afhending tilboða.
     Skriflegum tilboðum skal skilað í lokuðu umslagi og þarf nafn og aðsetur bjóðanda að koma fram á umslaginu ásamt heiti útboðs og númeri ef því er að skipta. Um tilboð sem gerð eru með rafrænum aðferðum fer skv. 68. gr.
     Séu tilboð send með pósti eða í símbréfi er bjóðandi ábyrgur fyrir því að þau komist í réttar hendur fyrir opnun tilboða.
     Leyfilegt er að skila eingöngu inn heildartilboðsupphæð ef einingarverð og önnur tilskilin gögn fylgja í lokuðu umslagi eða eru sannanlega komin í póst degi áður en tilboð eru opnuð. Bjóðandi getur síðan óskað eftir því að einingarverð verði ekki tekin til skoðunar nema tilboð hans komi til álita.
     Tilboð skal vera undirritað af þar til bærum aðila.

67. gr.

Gerð frávikstilboða.
     Sé frávikstilboð gert skal geta þess sérstaklega á tilboðsblaði að um slíkt tilboð sé að ræða. Með frávikstilboði skal fylgja skýr og greinargóð lýsing á því í hvaða atriðum vikið sé frá tæknilegri lýsingu útboðsgagna.

68. gr.

Form tilboða og annarra samskipta kaupanda og bjóðenda.
     Öll samskipti og upplýsingagjöf sem vísað er til í þessari grein má fara fram með pósti, símbréfi, rafrænum aðferðum skv. 4. og 5. mgr., símleiðis við þær aðstæður sem um ræðir í 6. mgr. eða með samsetningu þessara miðla, allt eftir ákvörðun kaupanda.
     Þær samskiptaaðferðir sem kaupandi velur skulu vera almennt aðgengilegar og ekki hindra aðgang fyrirtækis að útboði.
     Samskipti, miðlun og geymsla upplýsinga skal fara fram með þeim hætti að tryggt sé að gögn séu óbreytt frá upprunalegri gerð. Auk þess skal tryggt að nafnleynd tilboða eða tilkynninga um þátttöku sé ekki rofin og kaupandi geti aðeins kynnt sér efni tilboða eða þátttökutilkynninga eftir að tilboðsfrestur eða frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu er liðinn.
     Sá búnaður sem notaður er við rafræn samskipti, svo og tæknilegir eiginleikar búnaðar, skal vera almennt aðgengilegur og samhæfður við þá upplýsinga- og miðlunartækni sem er í almennri notkun. Búnaðurinn má ekki vera þess eðlis að hann leiði til mismununar fyrirtækja.
     Eftirfarandi reglur gilda um tæki sem notuð eru fyrir rafræna sendingu og móttöku tilboða og þátttökutilkynninga:
 1. Upplýsingar um skilyrði fyrir rafrænni sendingu tilboða og þátttökutilkynninga, þar á meðal upplýsingar um dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum áhugasömum aðilum. Þessi tæki skulu einnig fullnægja þeim kröfum sem fram koma í X. viðauka tilskipunarinnar.
 2. Heimilt er í samræmi við lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, að gera kröfu um að tilboði fylgi fullgild rafræn undirskrift.
 3. Áður en tilboðsfrestur eða frestur til að skila þátttökutilkynningu rennur út skulu bjóðendur eða þátttakendur leggja fram þau gögn sem greinir í 47.–52. gr. og 54. gr. ef þau eru ekki til í rafrænu formi.

     Eftirfarandi reglur gilda um sendingu þátttökutilkynningar:
 1. Tilkynningu um þátttöku í útboði má gera skriflega eða símleiðis.
 2. Ef tilkynning um þátttöku er gerð símleiðis skal senda skriflega staðfestingu áður en frestur fyrir móttöku tilkynningar er liðinn.
 3. Kaupandi getur krafist að þátttökutilkynning sem berst með símbréfi eða rafrænum hætti sé staðfest þegar slíkt er nauðsynlegt til þess að fyrir liggi lögfull sönnun að þessu leyti. Allar slíkar kröfur, ásamt frestum til að senda staðfestingu með pósti eða rafrænum hætti, skulu koma fram í útboðsauglýsingu.


69. gr.

Opnun tilboða.
     Bjóðendum skal vera heimilt að vera við opnun tilboða og eiga þeir rétt á að eftirfarandi upplýsingar séu lesnar upp eftir því sem þær koma fram í tilboðum:
 1. Nafn bjóðanda.
 2. Heildartilboðsupphæð.
 3. Hvort tilboð sé sett fram sem frávikstilboð.

     Nú eru tilboð lögð fram með rafrænum hætti og er þá nægilegt að bjóðendum sé tilkynnt um þau atriði sem greinir í 1. mgr. eftir lok tilboðsfrests.
     Tilboð sem berast of seint skulu send bjóðendum óopnuð ásamt skýringu á ástæðum þess að þau eru endursend.
     Ráðherra getur með reglugerð sett sérstakar reglur um opnun tilboða sem sett eru fram með rafrænum hætti, enda sé gætt þeirra reglna sem fram koma í 68. gr.

70. gr.

Rafræn uppboð.
     Kaupanda er heimilt að kaupa inn með rafrænu uppboði samkvæmt nánari ákvæðum þessarar greinar.
     Þegar um er að ræða almennt eða lokað útboð eða samningskaup skv. 1. mgr. 32. gr. og unnt er að slá útboðsskilmálum föstum með nákvæmni getur kaupandi ákveðið að samningur verði gerður með rafrænu uppboði. Að uppfylltum sömu skilyrðum er heimilt að notast við rafrænt uppboð þegar samkeppni fer fram milli fleiri rammasamningshafa skv. 4. mgr. 34. gr. og við útboð í gagnvirku innkaupakerfi skv. 35. gr. Rafrænt uppboð skal miðast annaðhvort við verð, þegar forsendur fyrir vali tilboðs eru lægsta verð, eða verð og/eða önnur atriði í tilboði sem fram hafa komið í útboðsskilmálum, þegar forsendur fyrir vali tilboðs eru fjárhagslega hagkvæmasta boð.
     Kaupandi sem ákveður að halda rafrænt uppboð skal lýsa þeirri fyrirætlun sinni í útboðsauglýsingu. Í útboðsskilmálum skulu m.a. koma fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
 1. Verðgildi þeirra atriða sem uppboðið lýtur að, enda séu þessi atriði þess eðlis að unnt sé að meta vægi þeirra með tölum eða hlutföllum.
 2. Hvers konar takmörk á verðgildi þeirra atriða sem heimilt er að vísa til í tilboði samkvæmt útboðsskilmálum varðandi hið keypta.
 3. Upplýsingar sem bjóðendum munu verða veittar meðan á rafrænu uppboði stendur og hvenær þær verða veittar, eftir því sem við á.
 4. Viðeigandi upplýsingar um hið rafræna uppboðskerfi.
 5. Skilyrði fyrir tilboðum bjóðenda, einkum varðandi lágmarksbreytingu á nýju tilboði bjóðanda ef um slíkt skilyrði er að ræða.
 6. Viðeigandi upplýsingar um þann rafræna búnað sem notaður er ásamt upplýsingum um hvernig og að uppfylltum hvaða tæknilegum kröfum bjóðandi getur tengst rafrænu uppboðskerfi.

     Áður en rafrænt uppboð hefst skal kaupandi að fullu taka afstöðu til framkominna tilboða bjóðenda í samræmi við forsendur fyrir vali tilboðs og vægi þeirra. Öllum bjóðendum sem lagt hafa fram gild tilboð skal samtímis gefinn kostur á því að leggja fram ný verð og/eða verðgildi. Í tilkynningu til bjóðenda skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig viðkomandi bjóðandi skal tengjast rafrænu uppboðskerfi ásamt upplýsingum um upphafsdag og upphafstíma rafræns uppboðs. Rafrænu uppboði má skipta í fleiri áfanga. Rafrænt uppboð skal ekki hefjast fyrr en tveimur virkum dögum eftir að tilkynning var send bjóðendum.
     Þegar gera á samning á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs skal fylgja tilkynningu til bjóðanda mat á tilboði hans sem fram hefur farið í samræmi við 72. gr. Í tilkynningu skal einnig koma fram reiknilíkan sem nota á í rafrænu uppboði til að ákveða sjálfkrafa röð tilboða á grundvelli nýrra verða og/eða verðgilda sem boðin hafa verið. Reiknilíkan skal taka tillit til vægis allra forsendna sem skilgreina fjárhagslega hagkvæmasta tilboð eins og þessar forsendur hafa verið tilgreindar í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum. Hugsanleg vikmörk vægis við mat verðgildis sem fram hafa komið í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal skilgreina sem fast verðgildi. Ef frávikstilboð eru heimil skal setja fram sérstakt reiknilíkan fyrir hvert leyfilegt frávik.
     Í hverjum áfanga rafræns uppboðs skal kaupandi láta bjóðendum í té nægilegar upplýsingar svo að þeir geti metið niðurröðun tilboðs síns á hvaða tímamarki sem er. Kaupendur geta einnig upplýst bjóðendur um önnur atriði sem varða verð eða verðgildi sem sett hafa verið fram, enda hafi þetta komið fram í útboðsskilmálum. Kaupendur geta einnig upplýst um fjölda bjóðenda í viðkomandi áfanga uppboðs. Kaupanda er þó ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að upplýsa um nafn bjóðanda á hvaða stigi uppboðs sem er.
     Kaupandi skal ljúka rafrænu uppboði á einn eða fleiri eftirfarandi hátta:
 1. Með því að tilgreina fyrir fram ákveðinn dag og tíma um lok uppboðs í tilkynningu þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði.
 2. Þegar ekki berast fleiri verð eða verðgildi sem fullnægja kröfum um lágmarksbreytingar. Við þessar aðstæður skal taka fram í tilkynningu, þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði, þann frest sem látinn verður líða frá því að síðasta tilboð barst þar til uppboði er lokið.
 3. Þegar þeim áföngum uppboðs sem kveðið var á um í tilkynningu, þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði, hefur verið lokið.
Þegar kaupandi ákveður að ljúka uppboði í samræmi við c-lið, eftir atvikum einnig með vísan til þeirrar aðferðar sem um getur í b-lið, skal tímaáætlun fyrir hvern áfanga uppboðs koma fram í tilkynningu þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði.
     Þegar rafrænu uppboði hefur verið lokið skal kaupandi velja hagkvæmasta tilboð sem fram hefur komið við uppboðið í samræmi við 72. gr. Kaupanda er óheimilt að misnota rafrænt uppboð eða beita því í því skyni að koma í veg fyrir, hindra eða hafa áhrif á samkeppni eða til þess að breyta andlagi samnings eins og það var kynnt bjóðendum í útboðsauglýsingu og skilgreint í útboðsskilmálum.

IX. KAFLI
Val tilboðs.

71. gr.

Þau tilboð sem koma til greina.
     Við ákvörðun kaupanda um gerð samnings skal eingöngu litið til gildra tilboða, þar á meðal gildra frávikstilboða, frá fyrirtækjum, sem ekki hefur verið vísað frá skv. 47. og 48. gr., sem fullnægja kröfum um fjárhagslega stöðu og faglega og tæknilega getu og önnur atriði, sbr. 49.–54. gr., og valin hafa verið til að gera tilboð í samræmi við reglur 56. gr. ef um forval hefur verið að ræða.

72. gr.

Mat á hagkvæmasta boði.
     Við val á tilboði skal gengið út frá hagkvæmasta boði. Hagkvæmasta tilboð er það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum, sbr. 45. gr.
     Óheimilt er að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum, sbr. 45. gr.
     Heimilt er að velja fleiri en eitt tilboð sé kaupum skipt í fleiri sjálfstæða hluta í útboðsgögnum.

73. gr.

Óeðlilega lág tilboð.
     Þegar tilboð virðist óeðlilega lágt með hliðsjón af vöru, verki eða þjónustu sem kaupa á skal kaupandi óska skriflega eftir nánari upplýsingum um grundvöll tilboðs sem hann telur skipta máli. Þessar upplýsingar geta einkum varðað eftirfarandi:
 1. Fjárhagslegar forsendur mannvirkjagerðar, vöruframleiðslu eða þjónustu.
 2. Tæknilegar lausnir sem valdar hafa verið og/eða hvers konar óvenjulega hagstæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, sölu vöru eða veitingu þjónustu.
 3. Frumleika lausna bjóðanda við framkvæmd verks, sölu vöru eða veitingu þjónustu.
 4. Samræmi við reglur um réttindi launþega og vinnuvernd á þeim stað þar sem framkvæmd verks, sala vöru eða veiting þjónustu fer fram.
 5. Möguleika bjóðanda á því að öðlast ríkisstyrki.

     Kaupandi skal ganga úr skugga um forsendur tilboðs á grundvelli þeirra gagna sem bjóðandi hefur lagt fram eftir að hafa ráðfært sig við bjóðanda.
     Þegar kaupandi kemst að þeirri niðurstöðu að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi njóti ríkisstyrkja verður boði hans því aðeins hafnað að bjóðanda hafi ekki tekist, innan hæfilegs frests sem ákveðinn var eftir að bjóðanda var gefinn kostur á að tjá sig, að sýna fram á að ríkisstyrkur hafi verið löglega veittur. Ef tilboði er hafnað af þessum ástæðum skal kaupandi tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um ákvörðun sína.
     Kaupanda er skylt að rökstyðja ákvörðun um að hafna tilboði á þeim grundvelli að það sé óeðlilega lágt. Upplýsingar sem kaupandi fær samkvæmt þessari grein skal fara með sem trúnaðarmál.

74. gr.

Höfnun tilboðs.
     Kaupandi telst hafa hafnað tilboði ef hann er búinn að semja við annan aðila, gildistími tilboðs er liðinn án þess að óskað hafi verið eftir framlengingu tilboðs eða öllum tilboðum hefur verið hafnað formlega.
     Kaupanda er óheimilt að nýta hugmyndir eða tilboð bjóðanda á nokkurn hátt eftir að því hefur verið hafnað.

75. gr.

Tilkynning og rökstuðningur höfnunar tilboðs og annarra ákvarðana.
     Kaupandi skal tilkynna þátttakendum eða bjóðendum um ákvarðanir um gerð rammasamnings, val tilboðs eða aðgang að gagnvirku innkaupakerfi, eins fljótt og mögulegt er. Í tilkynningu skal koma fram, eftir því sem við á, rökstuðningur fyrir ákvörðun um að gera ekki rammasamning, taka engu tilboði þrátt fyrir útboð eða hefja að nýju útboð eða stofna til gagnvirks innkaupakerfis. Þegar val tilboðs hefur grundvallast á öðrum forsendum en verði eingöngu skal í tilkynningu koma fram nafn þess bjóðanda sem var valinn og upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Þennan rökstuðning skal kaupandi veita skriflega ef þess er óskað.
     Eftir beiðni skal kaupandi, eins fljótt og mögulegt er, veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni sem hér segir:
 1. Upplýsa ber þátttakanda, sem ekki hefur verið valinn til að gera tilboð, um ástæður þess að umsókn hans var hafnað.
 2. Upplýsa ber bjóðanda um ástæður þess að tilboði hans var hafnað. Ef tilboði hefur verið hafnað með vísan til þess að tilboð var í ósamræmi við tækniforskriftir, sbr. 4. og 5. mgr. 40. gr., skal rökstyðja hvers vegna tilboð telst ekki fullnægja kröfum tækniforskrifta eða hvers vegna það er ófullnægjandi með tilliti til krafna um virkni og hagnýtingu.
 3. Upplýsa skal bjóðanda, sem lagt hefur fram gilt tilboð, um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi og nafn bjóðanda sem var valinn eða rammasamningshafa.

     Beiðni um rökstuðning skv. 2. mgr. skal bera fram innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun og skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs. Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem vísað er til í 1. mgr. varðandi val tilboðs, gerð rammasamnings eða aðgengi að gagnvirku innkaupakerfi ef upplýsingagjöf gæti torveldað löggæslu. Sama á við ef upplýsingagjöf gengur að öðru leyti gegn almannahagsmunum eða mundi skaða lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, einkarekinna eða opinberra, eða samkeppni milli þeirra.

76. gr.

Samþykki tilboðs.
     Þegar um er að ræða innkaupaferli sem lýkur með vali kaupanda á tilboði skulu líða a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Stytta má þennan frest við hraðútboð skv. 60. gr. og falla frá honum ef mjög brýnt er að gera samning þegar í stað.
     Tilboð skal samþykkja endanlega með skriflegum hætti innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda.
     Heimilt er að gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins eftir að tilboð hefur verið samþykkt, en ekki skal þá breyta grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
     Þegar kominn er á samningur skv. 1. mgr. skal það tilkynnt öllum bjóðendum án tafar.

77. gr.

Gerviverktaka.
     Verktaka og undirverktaka er óheimilt að gera samning um undirverktöku við einstaka starfsmenn eða starfshópa í þeim tilvikum þar sem um ráðningarsamband er að ræða eða það á við samkvæmt venju og eðli máls.

3. ÞÁTTUR
Opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.
X. KAFLI
Gildissvið þessa þáttar, heimild til setningar stjórnvaldsfyrirmæla o.fl.

78. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Ákvæði þessa þáttar og stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið með heimild í ákvæðum hans gilda um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum sem ráðherra skal birta í íslenskum krónum í reglugerð í samræmi við 7., 8. og 9. gr. tilskipunarinnar. Einnig skal í reglugerð birta þær viðmiðunarfjárhæðir sem um ræðir í 1. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar svo og viðmiðunarfjárhæðir vegna gerðar sérleyfissamninga um verk, sbr. 56. og 63. gr. tilskipunarinnar, og viðmiðunarfjárhæðir vegna hönnunarsamkeppni, sbr. 67. gr. tilskipunarinnar. Við ákvörðun viðmiðunarfjárhæða skal taka tillit til breytinga sem kunna að hafa verið gerðar skv. 78. gr. tilskipunarinnar, enda hafi hlutaðeigandi gerðir verið teknar upp í EES-samninginn. Endurskoða skal viðmiðunarfjárhæðir á tveggja ára fresti, í fyrsta sinn 31. janúar 2008.
     Ráðherra setur með reglugerð reglur um útboðsauglýsingar og aðrar tilkynningar vegna innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu til samræmis við þær gerðir sem vísað er til í XVI. viðauka við EES-samninginn. Ráðherra er einnig heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 1. mgr., enda samræmist þær ákvæðum tilskipunarinnar og öðrum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

79. gr.

Framkvæmd opinberra innkaupa yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.
     Við framkvæmd opinberra innkaupa yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 78. gr. skal fylgja ákvæðum 35.–43. gr. tilskipunarinnar og þeim reglum sem þar er vísað til, eftir atvikum eins og þeim kann að hafa verið breytt skv. 79. gr. tilskipunarinnar. Að öðru leyti skal farið að reglum 2. þáttar laganna með eftirtöldum frávikum:
 1. Ef nýta á heimild 2. mgr. 27. gr. til að gera samninga fyrir hluta af innkaupum án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð samnings skal verðgildi hlutans ekki vera hærra en jafngildi 80.000 evra að því er varðar vöru- og þjónustusamninga og 1 milljónar evra að því er varðar verksamninga.
 2. Þegar um er að ræða innkaup á þjónustu skv. II. viðauka B tilskipunarinnar, sbr. 21. og 22. gr. tilskipunarinnar, skal senda skýrslu um gerð samnings samkvæmt nánari ákvæðum 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar.
 3. Skilyrði þess að samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar fari fram, sbr. a- lið 1. mgr. 33. gr., er að tilkynning um notkun þessarar heimildar sé send Eftirlitsstofnun EFTA ef þess er óskað.
 4. Ef nýta á heimild 36. gr. vegna samninga um hönnun og byggingu húsnæðis á vegum hins opinbera skal fylgja ákvæðum 35., 36., 38., 39., 41., 42. og 43. gr. tilskipunarinnar.
 5. Ef skilyrðum er fullnægt til að stytta fresti skv. 8. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar er heimilt að stytta frest skv. 1. mgr. 76. gr. eða falla alfarið frá honum þegar mjög brýnt er að gera samning þegar í stað.

     Þegar um er að ræða samninga sem ekki falla undir 1. mgr. er kaupanda allt að einu heimilt að láta birta útboðsauglýsingu.

XI. KAFLI
Reglur um gerð sérleyfissamninga um verk og hönnunarsamkeppni.

80. gr.

Sérleyfissamningar um verk yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.
     Við gerð sérleyfissamninga um verk að áætluðu verðgildi sem er jafnt eða yfir viðmiðunarfjárhæð vegna slíkra samninga, sbr. reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir sem sett er skv. 78. gr., skal fylgja ákvæðum 56.–65. gr. tilskipunarinnar.

81. gr.

Hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.
     Við framkvæmd hönnunarsamkeppni vegna verðgildis sem er jafnt eða yfir viðmiðunarfjárhæð vegna slíkrar samkeppni, sbr. reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir sem sett er skv. 78. gr., skal fylgja ákvæðum 66.–74. gr. tilskipunarinnar.

XII. KAFLI
Skýrslur, Eftirlitsstofnun EFTA o.fl.

82. gr.

Skýrslur um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.
     Fjármálaráðuneytið skal útbúa skýrslu í samræmi við 75. og 76. gr. tilskipunarinnar og senda hana Eftirlitsstofnun EFTA. Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um hvaða aðilar skuli senda fjármálaráðuneytinu skýrslur um innkaup sín og hvaða upplýsingar skuli koma fram í skýrslunum.

83. gr.

Rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA.
     Telji Eftirlitsstofnun EFTA að um augljóst brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins um opinber innkaup sé að ræða getur hún hafið rannsókn á ætluðu broti. Innan 30 daga frá tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA um ástæður fyrir því áliti að augljóst brot hafi átt sér stað skal kaupandi senda Eftirlitsstofnuninni staðfestingu á því að bætt hafi verið úr brotinu, greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar eða tilkynningu um að innkaupaferli og gerð samnings hafi verið stöðvuð um stundarsakir. Fjármálaráðherra getur stöðvað um stundarsakir útboð eða gerð samnings í tilefni af tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt þessari grein.
     Þegar kaupandi hefur tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA um að innkaupaferli hafi verið stöðvað um stundarsakir skal kaupandi tilkynna stofnuninni um það þegar stöðvun er aflétt eða innkaupaferli vegna sömu innkaupa, að hluta eða í heild, er hafið á ný. Í þessari tilkynningu skal greint frá því að úrbætur hafi verið gerðar eða færðar fram ástæður fyrir því hvers vegna það hefur ekki verið gert.

4. ÞÁTTUR
Stjórnsýsla, meðferð kærumála, o.fl.
XIII. KAFLI
Yfirstjórn opinberra innkaupa og starfsemi innkaupastofnunar.

84. gr.

Yfirstjórn opinberra innkaupa.
     Opinber innkaup heyra undir fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd laga þessara.

85. gr.

Ríkiskaup.
     Á vegum ríkisins skal rekin miðlæg innkaupastofnun, Ríkiskaup. Stofnunin annast innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsakar sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beitir sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Einnig skal stofnunin láta í té aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur. Komi upp ágreiningur um ákvörðun við val á tilboðum milli Ríkiskaupa sem umsjónaraðila útboðs og kaupanda er heimilt að vísa ágreiningnum til fjármálaráðuneytisins.
     Ríkiskaup ráðstafa eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra.
     Ríkiskaup gera rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annast útboð og önnur innkaupaferli sem fram fara á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa, hvort heldur er yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 20. eða 78. gr. Fjármálaráðherra getur þó heimilað einstökum ríkisstofnunum að annast eigin innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum.

86. gr.

Lögmæti innkaupa og ábyrgð á innkaupum sem fram fara á vegum Ríkiskaupa.
     Kaupandi sem aflað hefur verks, vöru eða þjónustu í gegnum Ríkiskaup telst hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem Ríkiskaup hafa gert það.
     Áður en innkaupaferli hefst á vegum Ríkiskaupa er stofnuninni heimilt að krefjast þess að fyrir liggi samningur þar sem m.a. er kveðið á um ákvörðunartöku og skaðabótaábyrgð vegna innkaupaferlis.

87. gr.

Markmið í rekstri Ríkiskaupa.
     Ríkiskaup skulu leitast við að tryggja hagkvæmni við innkaup ríkisins. Markmiði þessu skal náð með því að:
 1. þróa hágæðaþjónustustofnun á sviði opinberra innkaupa með starfsfólki sem býr yfir þekkingu og reynslu á sviði innkaupa fyrir ríkisstofnanir,
 2. þróa verklag við útboð og innkaup sem tryggir jafnræði bjóðenda og virka samkeppni,
 3. auka framleiðni og einföldun í opinberum innkaupum með nútímalegu innkaupakerfi, útboðum og samræmdum innkaupum,
 4. auðvelda viðskiptatengsl milli birgja og ríkisstofnana,
 5. miðla þekkingu og reynslu til ríkisstofnana til að fullnægja sem best viðskiptalegum þörfum ríkisins.


88. gr.

Forstjóri Ríkiskaupa.
     Fjármálaráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Forstjóri annast daglegan rekstur Ríkiskaupa, ber ábyrgð á fjárreiðum stofnunarinnar og reikningshaldi. Forstjóri gerir fjárhagsáætlun stofnunarinnar og mótar stefnu um helstu áherslur, verkefni og starfshætti stofnunarinnar. Forstjóri ræður starfslið stofnunarinnar.

89. gr.

Gjaldskrá Ríkiskaupa.
     Ríkiskaup selja ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur, að fengnum tillögum forstjóra Ríkiskaupa. Gjaldskráin skal miðast við að tekjur standi undir rekstri stofnunarinnar.

90. gr.

Ábyrgðarmaður innkaupa.
     Ráðuneyti og stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins skulu skipa sérstakan starfsmann sem skal vera ábyrgðarmaður innkaupa. Honum ber að fylgjast með að innkaup viðkomandi ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtækis séu í samræmi við gildandi lög og reglur um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins.

XIV. KAFLI
Kærunefnd útboðsmála.

91. gr.

Hlutverk og skipan kærunefndar útboðsmála.
     Í kærunefnd útboðsmála eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum laga til að gegna embætti héraðsdómara. Aðrir nefndarmenn skulu hafa alhliða reynslu og þekkingu á viðskiptum. Nefndarmenn skulu vera óháðir hagsmunum ríkis eða annarra opinberra aðila. Við skipan nefndarinnar skal ráðherra hafa samráð við helstu samtök sem hafa hagsmuna að gæta við framkvæmd laganna.
     Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögum þessum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum, og reglum settum samkvæmt þeim.
     Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðum hennar og ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.
     Að beiðni fjármálaráðuneytis eða tiltekins kaupanda er kærunefnd útboðsmála heimilt að gefa ráðgefandi álit á tilteknum innkaupum þótt engin kæra hafi borist.

92. gr.

Sérfræðileg ráðgjöf.
     Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Skulu þeir aðilar starfa með kærunefndinni eftir nánari ákvörðun formanns eða varaformanns sem ákveður þeim þóknun fyrir starfann.

93. gr.

Málskotsréttur.
     Heimild til að skjóta málum til nefndarinnar hafa þau fyrirtæki sem njóta réttinda samkvæmt lögum þessum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.
     Heimilt er kæranda að framselja kæruheimild sína til félags eða samtaka sem gæta hagsmuna hans.

94. gr.

Kærufrestur.
     Kæra skal borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur skv. 75. gr. er veittur. Fyrir hverja kæru skal kærandi greiða kærugjald að fjárhæð 50.000 kr.
     Í kæru skulu koma fram upplýsingar um kæranda, þann aðila sem kæra beinist að (varnaraðila) og ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem er kærð. Í kæru skulu koma fram kröfur kæranda ásamt stuttri lýsingu málsatvika og málsástæðna og rökstuðningur. Kröfugerð kæranda skal lúta að úrræðum nefndarinnar skv. 96. og 97. gr.
     Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 2. mgr. skal kærunefndin beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði kærandi ekki við því skal kærunefndin vísa kærunni frá.
     Kærunefnd er jafnan heimilt að beina því til kæranda að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar máli til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst og setja honum ákveðinn frest í því skyni.

95. gr.

Meðferð kæru og gagnaöflun.
     Nú er kæra tæk til efnismeðferðar skv. 94. gr. og gefur nefndin þá varnaraðila kost á að tjá sig um efni kærunnar. Ef Ríkiskaup eða önnur miðlæg innkaupastofnun í skilningi laga þessara hefur annast innkaup telst sú stofnun varnaraðili við meðferð máls fyrir nefndinni.
     Nú hefur annað fyrirtæki, svo sem annar bjóðandi í útboði eða þátttakandi í forvali vegna lokaðs útboðs, samkeppnisviðræðum eða samningskaupum, beinna og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu máls hjá nefndinni og skal þá einnig gefa þessum aðila kost á að tjá sig um efni kærunnar.
     Kæranda skal jafnan gefinn stuttur frestur til að tjá sig um athugasemdir varnaraðila og annarra sem gefinn hefur verið kostur á að tjá sig.
     Málflutningur skal vera skriflegur, en heimilt er nefndinni að gefa aðilum kost á að færa fram athugasemdir munnlega.
     Nefndin getur krafist þess að málsaðilar leggi fram öll þau gögn og aðrar upplýsingar sem málið varðar. Sinni kærandi ekki slíkri kröfu er heimilt að vísa kæru hans frá þegar í stað. Sinni varnaraðili ekki slíkri kröfu má meta tómlæti hans honum í óhag við úrlausn málsins.
     Afl atkvæða nefndarmanna ræður niðurstöðu máls. Minnihlutaatkvæði skal fylgja nefndaráliti ef því er að skipta. Formaður eða varaformaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru eigi sammála um niðurstöðu ræður meiri hluti niðurstöðu máls. Ef nefndin þríklofnar í afstöðu sinni, eða niðurstaða getur eigi ráðist af atkvæðamagni, ræður atkvæði formanns.
     Kærunefnd skal kveða upp úrskurð um kæru eins fljótt og auðið er og eigi síðar en einum mánuði eftir að henni hafa borist athugasemdir kæranda skv. 3. mgr. ef því er að skipta.
     Um meðferð kærumála fyrir nefndinni fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

96. gr.

Stöðvun innkaupaferlis eða samningsgerðar um stundarsakir.
     Nú telur nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum þessum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum, eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup, og getur hún þá, eftir kröfu kæranda, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
     Varnaraðila skal að jafnaði gefinn skammur frestur til að tjá sig um hugsanlega stöðvun innkaupaferlis eða stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Víkja má frá þessu ef um er að ræða skýrt og augljóst brot.
     Aðili máls getur krafist þess að nefndin rökstyðji ákvörðun samkvæmt þessari grein skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.

97. gr.

Úrræði kærunefndar útboðsmála.
     Nefndin getur með úrskurði fellt úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa að hluta eða í heild, sbr. þó 100. gr. Nefndin getur lagt fyrir kaupanda að bjóða út tiltekin innkaup, auglýsa útboð á nýjan leik eða að fella niður tiltekna ólögmæta skilmála í útboðsgögnum.
     Nefndin getur látið uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda, en tjáir sig ekki um fjárhæð skaðabóta.
     Nefndin getur ákveðið að varnaraðili greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa getur nefndin úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
     Ef ekki er farið að úrskurði nefndarinnar skv. 1. mgr. er henni heimilt að ákveða að leggja dagsektir á þann sem úrskurður beinist að. Sektir geta numið allt að 500.000 kr. fyrir hvern dag sem líður án þess að farið sé að úrskurði nefndarinnar. Ef úrskurði er skotið til dómstóla byrja dagsektir ekki að falla á fyrr en dómur er endanlegur.
     Dagsektir skv. 4. mgr. renna í ríkissjóð. Gera má aðför, án undangengins dóms, til fullnustu dagsekta og úrskurðar um málskostnað skv. 3. mgr.

98. gr.

Dómsmál til ógildingar á úrskurðum kærunefndar útboðsmála.
     Nú vill kærandi, varnaraðili eða annar aðili sem lögvarinna hagsmuna á að gæta ekki una úrskurði kærunefndar útboðsmála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðilinn fékk eða mátti fá vitneskju um ákvörðun kærunefndar.
     Ef mál er höfðað til ógildingar á úrskurði kærunefndar útboðsmála skal kærunefndinni ekki stefnt til varnar. Að öðru leyti fer um varnaraðild að slíkum málum samkvæmt almennum reglum.

99. gr.

Starfsreglur fyrir kærunefnd útboðsmála o.fl.
     Kærunefnd útboðsmála getur sett nánari reglur, sem ráðherra staðfestir, um framlagningu gagna, málsmeðferð fyrir nefndinni og birtingu úrskurða.

XV. KAFLI
Gildi samninga og skaðabætur.

100. gr.

Ógilding samninga.
     Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. er kominn á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.
     Nú gerir kaupandi samning þótt innkaupaferli, útboð eða samningsgerð hafi verið stöðvuð skv. 96. gr. og er þá allt að einu heimilt að ógilda samninginn og beita þeim úrræðum sem greinir í 97. gr.
     Um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögum þessum, fer að öðru leyti eftir almennum reglum fjármunaréttar.

101. gr.

Skaðabótaskylda.
     Kaupandi er skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögum þessum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum, og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði.
     Um skaðabætur vegna brota á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim fer að öðru leyti eftir almennum reglum.

XVI. KAFLI
Lagaskil, gildistaka, brottfall laga o.fl.

102. gr.

Innleiðing tilskipunarinnar.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006 sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2006.

103. gr.

Afstaða stjórnsýslulaga til opinberra innkaupa.
     Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um hæfi gilda um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögum þessum. Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög ekki um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögum þessum.

104. gr.

Almenn heimild til setningar stjórnvaldsfyrirmæla.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

105. gr.

Lagaskil vegna opinberra innkaupa.
     Um innkaup sem hafa verið auglýst fyrir gildistöku laga þessara fer samkvæmt lögum nr. 94/2001, um opinber innkaup. Miða skal við opinbera birtingu útboðsauglýsingar eða áætlaða móttöku þátttakenda á tilkynningu ef um er að ræða innkaupaferli þar sem útboðsauglýsingar eru ekki birtar opinberlega.

106. gr.

Lagaskil vegna starfsemi kærunefndar útboðsmála.
     Lög þessi gilda um meðferð kærunefndar útboðsmála á kærum sem berast nefndinni eftir gildistöku laga þessara.
     Skipanir núverandi nefndarmanna í kærunefnd útboðsmála skulu haldast þrátt fyrir gildistöku laga þessara. Starfsreglur kærunefndar útboðsmála skulu einnig halda gildi sínu þar til nýjar starfsreglur kærunefndarinnar hafa tekið gildi.

107. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi lög nr. 94/2001, um opinber innkaup, með síðari breytingum.
     Ákvæði 2. og 3. málsl. 2. mgr. 19. gr. skulu öðlast gildi 1. janúar 2008.


Fylgiskjal.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/18/EB
     
frá 31. mars 2004
     
um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 47. gr. (2. mgr.), 55. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( Stjtíð. EB C 29 E, 30.1.2001, bls. 11 og Stjtíð. EB C 203 E, 27.8.2002, bls. 210.),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( Stjtíð. EB C 193, 10.7.2001, bls. 7.),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( Stjtíð. EB C 144, 16.5.2001, bls. 23.),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( Álit Evrópuþingsins frá 17. janúar 2002 (Stjtíð. EB C 271 E, 7.11.2002, bls. 176), sameiginleg afstaða ráðsins frá 20 mars 2003 (Stjtíð. ESB C 147 E, 24.6.2003, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 2. júlí 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Lagaleg ályktun Evrópuþingsins frá 29. janúar 2004 og ákvörðun ráðsins frá 2. febrúar 2004.) á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 9. desember 2003,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:

    1)    Í tengslum við nýjar breytingar sem gera þarf á tilskipunum ráðsins 92/50/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu ( Stjtíð. EB L 209, 24.7.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB (Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1).), 93/36/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup ( Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.) og 93/37/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga ( Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 54. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.), en þessar breytingar eru nauðsynlegar til að mæta kröfum þeim um einföldun og nútímavæðingu sem bæði samningsyfirvöld og rekstraraðilar settu fram í andsvörum sínum við grænbókinni sem framkvæmdastjórnin samþykkti 27. nóvember 1996, skal, til glöggvunar, endursemja tilskipanirnar og steypa þeim saman í einn texta. Þessi tilskipun er byggð á dómaframkvæmd dómstólsins, einkum að því er varðar forsendur fyrir vali tilboðs, sem skýrir möguleika samningsyfirvalda á því að uppfylla þarfir almennings sem málið varðar, t.d. á sviði umhverfis- og/eða félagsmála, að því tilskildu að slíkar forsendur tengist efni samningsins, veiti samningsyfirvaldi ekki ótakmarkað valfrelsi, séu skýrt orðaðar og í samræmi við grundvallarreglurnar sem nefndar eru í 2. forsendu.

    2)    Samningar, sem eru gerðir í aðildarríkjunum fyrir hönd ríkisins eða svæðis- eða staðaryfirvalda og annarra aðila sem lúta stjórn opinberra lögaðila, falla undir meginreglur sáttmálans, einkum meginregluna um frjálsa vöruflutninga, meginregluna um staðfesturétt og meginregluna um frelsi til að veita þjónustu og reglur sem af þeim leiða, t.d. meginreglurnar um jafna meðferð, bann við mismunun, gagnkvæma viðurkenningu, meðalhófsregluna og meginregluna um gagnsæi. Sé um að ræða opinbera samninga sem fara yfir tiltekið verðmæti er þó rétt að setja ákvæði, sem eru byggð á þessum meginreglum, um að samræma, á vettvangi Bandalagsins, reglur um útboð og gerð samninga í einstökum ríkjum í Bandalaginu til að tryggja áhrif meginreglnanna og sjá til þess að opnað sé fyrir samkeppni í opinberum innkaupum. Þessi samræmingarákvæði ber því að túlka bæði samkvæmt fyrrgreindum meginreglum og öðrum reglum sáttmálans.

    3)    Slík samræmingarákvæði skal laga, eftir því sem unnt er, að núgildandi reglum og starfsvenjum í hverju einstöku aðildarríki.

    4)    Ef aðili, sem heyrir undir opinberan rétt, tekur þátt í útboðsferli opinbers samnings sem bjóðandi skulu aðildarríkin tryggja að það valdi engri röskun á samkeppni gagnvart einkaaðilum sem eru jafnframt bjóðendur.

    5)    Samkvæmt 6. gr. sáttmálans ber að fella kröfur um umhverfisvernd inn í skilgreiningu og framkvæmd á stefnu Bandalagsins og starfsemi, sem um getur í 3. gr. sáttmálans, einkum með það fyrir augum að efla sjálfbæra þróun. Í þessari tilskipun er því skýrt hvernig samningsyfirvöld geta stuðlað að vernd umhverfisins og sjálfbærri þróun og jafnframt tryggt að besta hlutfall milli gæða og verðs náist í samningum.

    6)    Ekkert í þessari tilskipun á að koma í veg fyrir að gerðar verði ráðstafanir eða framfylgt verði ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar til að vernda allsherjarreglu, almennt siðgæði, almannaöryggi, heilbrigði, líf manna og dýra eða varðveita plöntur, einkum með tilliti til sjálfbærrar þróunar, að því tilskildu að þessar ráðstafanir samrýmist sáttmálanum.

    7)    Með ákvörðun ráðsins 94/800/EB frá 22. desember 1994 um samþykki af hálfu Evrópubandalagsins, að því er varðar málefni sem falla undir valdsvið þess, á samningunum sem náðust í Úrúgvælotu marghliða samningaviðræðnanna (1986 til 1994) ( Stjtíð. EB L 336, 23.12.1994, bls. 1.) var einkum samþykktur samningurinn um opinber innkaup, sem gerður var innan vébanda Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hér á eftir nefndur „samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar“, en hann er gerður í þeim tilgangi að setja marghliða ramma um jafnvæg réttindi og skyldur í tengslum við opinbera samninga með það fyrir augum að auka frelsi í alþjóðaviðskiptum og efla þau.
 • Í ljósi alþjóðlegra réttinda og skuldbindinga Bandalagsins, sem leiðir af samþykkt samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, gildir það fyrirkomulag sem þar er skilgreint um bjóðendur og vörur frá þriðju löndum sem hafa undirritað þann samning. Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur ekki bein áhrif. Samningsyfirvöld, sem eru bundin af samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem fara að þessari tilskipun og beita ákvæðum hennar gagnvart rekstraraðilum í þriðju löndum sem hafa undirritað samninginn, skulu því uppfylla ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Einnig er rétt að þessi samræmingarákvæði tryggi rekstraraðilum í Bandalaginu þátttökuskilyrði í opinberum innkaupum sem eru allt eins hagstæð og þau skilyrði sem bjóðast rekstraraðilum í þriðju löndum sem hafa undirritað samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

 •     8)    Áður en útboðsferli samnings hefst geta samningsyfirvöld, með tæknilegum skoðanaskiptum, leitað ráða eða þegið ráð sem geta komið að gagni við gerð útboðsskilmála en þó því aðeins að slík ráðgjöf verði ekki til þess að hindra samkeppni.

      9)    Í ljósi þess hve opinberir verksamningar eru fjölbreytilegir skulu samningsyfirvöld geta valið um hvort þau gera samning um hönnun og framkvæmd verks aðgreint eða sameiginlega. Þessari tilskipun er ekki ætlað að segja fyrir um hvort gera skuli samning sameiginlega eða aðgreint. Ákvörðun um hvort samningur skuli gerður aðgreint eða sameiginlega skal tekin með tilliti til gæðaviðmiðana og hagrænna viðmiðana sem kunna að vera ákveðnar í landslögum.

      10)    Samningur skal því aðeins teljast opinber verksamningur að efni hans varði sérstaklega framkvæmd þeirra verka sem tilgreind eru í I. viðauka, jafnvel þótt samningurinn taki til annarrar þjónustu sem er nauðsynleg til að unnt sé að vinna þessi verk. Opinberir þjónustusamningar geta við ákveðnar aðstæður náð yfir verk, einkum þegar um er að ræða rekstur fasteigna. Ef slík verk tengjast meginefni samningsins, og eru því hugsanlega afleiðing af eða viðbót við hann, telst það þó ekki gild ástæða fyrir því að flokka samninginn sem opinberan verksamning að hann taki til slíkra verka.

      11)    Setja skal fram skilgreiningu Bandalagsins á rammasamningum ásamt sérstökum reglum um rammasamninga sem eru gerðir í tengslum við samninga sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar. Þegar samningsyfirvald gerir rammasamning í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar, einkum að því er varðar auglýsingar, tímafresti og skilyrði fyrir framlagningu tilboða, getur það, samkvæmt þessum reglum, gengið til samninga á grundvelli og innan gildistíma slíks rammasamnings, annaðhvort með því að nota skilmála rammasamningsins eða, ef ekki hafa allir skilmálar verið ákveðnir fyrir fram í rammasamningnum, með því að bjóða aðilum að rammasamningnum að leggja á ný fram tilboð varðandi þá skilmála sem ekki voru ákveðnir áður. Ef óskað er eftir nýjum tilboðum skal fara að ákveðnum reglum sem hafa þann tilgang að tryggja nauðsynlegan sveigjanleika og að almennar meginreglur séu virtar, einkum meginreglan um jafna meðferð. Af sömu ástæðu gilda skilmálar rammasamningsins ekki lengur en í fjögur ár nema í tilvikum sem samningsyfirvöld geta fært gild rök fyrir.

      12)    Stöðugt er unnið að því að þróa nýja rafræna innkaupatækni. Slík tækni stuðlar að aukinni samkeppni og hagræðingu í opinberum innkaupum, einkum vegna þess að notkun hennar sparar bæði tíma og fjármuni. Samningsyfirvöld geta nýtt sér rafræna innkaupatækni, að því tilskildu að slík not samrýmist reglunum sem settar eru með þessari tilskipun og meginreglunum um jafna meðferð, bann við mismunun og gagnsæi. Í því samhengi getur tilboð, sem bjóðandi leggur fram, einkum þegar óskað er eftir nýjum tilboðum í tengslum við rammasamning eða virkt innkaupakerfi, verið í formi rafræns vörulista bjóðanda ef bjóðandinn nýtir sér þær samskiptaaðferðir sem samningsyfirvald hefur valið í samræmi við 42. gr.

      13)    Í ljósi hinnar öru útbreiðslu rafrænna innkaupakerfa ber að setja viðeigandi reglur nú þegar til að gera samningsyfirvöldum kleift að nýta til fulls þá möguleika sem slík kerfi bjóða upp á. Með þetta í huga er nauðsynlegt að skilgreina fyllilega rafrænt, virkt innkaupakerfi fyrir algeng innkaup og mæla fyrir um sérstakar reglur um uppsetningu og rekstur slíks kerfis til að tryggja réttláta meðferð allra rekstraraðila sem vilja taka þátt. Sérhverjum rekstraraðila, sem leggur fram kynningarboð í samræmi við útboðsskilmála og uppfyllir forsendur fyrir vali, skal vera heimilt að nýta sér slíkt kerfi. Þessi innkaupatækni gerir samningsyfirvaldi kleift, með því að koma upp skrá yfir bjóðendur sem þegar hafa verið valdir og gefa nýjum bjóðendum kost á því að taka þátt, að velja úr sérlega breiðum hópi bjóðenda með notkun hins rafræna búnaðar og tryggja um leið hámarksnýtingu opinbers fjármagns með víðtækri samkeppni.

      14)    Þar sem líkur eru á því að notkun rafrænna uppboða fari vaxandi er rétt að setja fram skilgreiningu Bandalagsins á þeim og að um þau gildi sérstakar reglur til að tryggja að þau fari fram í fullu samræmi við meginreglurnar um jafna meðferð, bann við mismunun og gagnsæi. Því er æskilegt að sett verði ákvæði um að slík rafræn uppboð verði aðeins notuð þegar um er að ræða verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga sem hægt er að ákvarða nákvæmar forskriftir fyrir. Þetta á einkum við um endurnýjaða vöru- verk- og þjónustusamninga. Af sömu ástæðu skal einnig vera hægt að ákveða viðeigandi flokkun bjóðenda á öllum stigum rafræns uppboðs. Þegar kostur gefst á því að nota rafræn uppboð gerir það samningsyfirvöldum kleift að hvetja bjóðendur til að bjóða nýtt og lægra verð og, þegar tilboð er valið á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs, að fara fram á úrbætur í öðrum þáttum tilboðsins en verðinu. Til að tryggja samræmi við meginregluna um gagnsæi má einungis taka með í rafrænt uppboð þá þætti sem hægt er að meta sjálfvirkt með rafrænum aðferðum án allra afskipta og/eða samþykkis samningsyfirvalds, þ.e. aðeins þá þætti sem setja má fram sem magn svo að unnt sé að tilgreina þá í tölum eða sem hlutfall. Hins vegar skal ekki taka með í rafrænum uppboðum þau svið tilboða sem varða þætti sem ekki er hægt að setja fram í tölum. Þar af leiðandi skal ekki halda rafræn uppboð þegar um er að ræða tiltekna verksamninga og þjónustusamninga sem fela í sér framkvæmd á sviði hugverka, svo sem hönnun verka.

      15)    Í aðildarríkjunum hafa þróast tilteknar, miðstýrðar innkaupaaðferðir. Ýmis samningsyfirvöld hafa það hlutverk að annast innkaup og gerð opinberra samninga eða rammasamninga fyrir önnur samningsyfirvöld. Vegna hins mikla innkaupamagns ættu þessar aðferðir að leiða til aukinnar samkeppni og hagræðingar í opinberum innkaupum. Þess vegna ber að ákveða skilgreiningu Bandalagsins á miðlægum innkaupastofnunum sem samningsyfirvöld nýta sér. Einnig ber að skilgreina hvaða skilyrði samningsyfirvöld, sem kaupa verk, vörur og/eða þjónustu með milligöngu miðlægrar innkaupastofnunar, skulu uppfylla svo að þau teljist hafa farið að ákvæðum þessarar tilskipunar, að teknu tilliti til meginreglnanna um bann við mismunun og jafna meðferð.

      16)    Svo að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna í aðildarríkjunum er aðildarríkjunum það í sjálfsvald sett hvort þau veita samningsyfirvöldum heimild til að nýta sér rammasamninga, miðlægar innkaupastofnanir, virk innkaupakerfi, rafræn uppboð eða samkeppnisviðræður eins og skilgreint er og kveðið á um í þessari tilskipun.

      17)    Því fleiri viðmiðunarfjárhæðir sem notaðar eru við beitingu samræmingarákvæðanna, því meiri vandkvæði hefur það í för með sér fyrir samningsyfirvöld. Með tilliti til myntbandalagsins skal enn fremur setja þessar viðmiðunarfjárhæðir fram í evrum. Í samræmi við það skal setja viðmiðunarfjárhæðir fram í evrum á þann hátt að það einfaldi beitingu slíkra ákvæða og tryggi um leið að farið sé að ákvæðum um viðmiðunarfjárhæðir sem mælt er fyrir um í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og tilgreindar eru sem sérstök dráttarréttindi (SDR). Í þessu sambandi er einnig rétt að setja ákvæði um reglubundna endurskoðun á viðmiðunarfjárhæðum sem eru settar fram í evrum til að laga þær, eftir atvikum, að hugsanlegum breytingum á gengi evru gagnvart sérstökum dráttarréttindum.

      18)    Með tilliti til beitingar útboðsreglna þessarar tilskipunar og vegna eftirlits er best að skipta þjónustusviðinu í flokka sem svara til tiltekinnar flokkunar í sameiginlegu flokkunarkerfi og raða þeim í tvo viðauka, II. viðauka A og II. viðauka B, eftir því hvaða kerfi þeir falla undir. Að því er varðar þjónustu í II. viðauka B skulu ákvæði þessarar tilskipunar ekki hafa áhrif á beitingu Bandalagsreglna sem gilda sérstaklega um viðkomandi þjónustu.

      19)    Að því er varðar opinbera þjónustusamninga skal full beiting þessarar tilskipunar takmarkast, á aðlögunartímabili, við samninga þar sem ákvæði tilskipunarinnar gera kleift að nýta alla möguleika á auknum viðskiptum yfir landamæri. Fylgjast skal með samningum um aðra þjónustu á þessu aðlögunartímabili áður en ákvörðun er tekin um að beita þessari tilskipun til fulls. Því er nauðsynlegt að skilgreina fyrirkomulag á slíku eftirliti. Það fyrirkomulag skal jafnframt gera hlutaðeigandi aðilum kleift að fá aðgang að viðeigandi upplýsingum.

      20)    Opinberir samningar, gerðir af samningsyfirvöldum sem starfa á sviði vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og sem varða slíka starfsemi, falla undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu ( Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 1.). Samningar, sem samningsyfirvöld gera í tengslum við þjónustustarfsemi vegna sjó- og strandflutninga og flutninga á ám og vötnum, skulu þó falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.

      21)    Vegna virkrar markaðssamkeppni í fjarskiptageiranum í kjölfar þess að Bandalagsreglur, sem miða að því að auka frelsi í þeim geira, eru komnar til framkvæmda skal undanskilja opinbera samninga á því sviði frá gildissviði þessarar tilskipunar svo fremi að þeir séu fyrst og fremst gerðir til að samningsyfirvöld geti stundað tiltekna starfsemi í fjarskiptageiranum. Slík starfsemi er skilgreind í samræmi við skilgreiningar sem notaðar eru í 1., 2. og 8. gr. tilskipunar ráðsins 93/38/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti ( Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 84. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB (Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1).), á þann hátt að þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem hafa verið undanþegnir gildissviði tilskipunar 93/38/EBE skv. 8. gr. hennar.

      22)    Gera þarf ráð fyrir tilvikum þar sem hægt er að láta hjá líða að beita samræmingaraðgerðum af ástæðum sem tengjast ríkisöryggi eða ríkisleynd eða vegna sérstakra reglna um gerð samninga, sem byggja á milliríkjasamningum varðandi herstöðvar, eða reglna sem gilda sérstaklega um alþjóðastofnanir.

      23)    Samkvæmt 163. gr. sáttmálans ber að hvetja til rannsókna og tækniþróunar til að renna stoðum undir vísinda- og tæknigrundvöll iðnaðar í Bandalaginu og með því að opna aðgang að opinberum þjónustusamningum er stuðlað að því að þetta markmið náist. Þessi tilskipun gildir ekki um sameiginlega fjármögnun rannsóknar- og þróunarverkefna: rannsóknar- og þróunarsamningar falla því ekki undir þessa tilskipun nema þeir komi einungis samningsyfirvöldum til góða í eigin starfsemi og að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu.

      24)    Á sviði þjónustu hafa samningar um kaup eða leigu á fasteignum, eða rétt til slíkrar eignar, séreinkenni sem valda því að óheppilegt er að beita reglum um opinber innkaup.

      25)    Við gerð opinberra samninga um tiltekna hljóð- og myndmiðlunarþjónustu fyrir hljóðvarp og sjónvarp skal taka tillit til menningarlegra og félagslegra þátta sem valda því að ekki er heppilegt að beita reglum um opinber innkaup. Af þeim sökum skal gera undantekningu vegna opinberra þjónustusamninga um kaup, þróun, framleiðslu eða sameiginlega framleiðslu á efni sem er tilbúið til notkunar og aðra undirbúningsþjónustu, t.d. varðandi handrit eða listræna framkvæmd, sem nauðsynleg er fyrir framleiðslu efnisins, svo og vegna samninga varðandi útsendingartíma. Þessi undantekning skal þó ekki gilda um afhendingu tæknilegs búnaðar sem er nauðsynlegur fyrir framleiðslu, sameiginlega framleiðslu og útsendingu slíks efnis. Með útsendingu er átt við sendingu og miðlun um einhvers konar rafrænt net.

      26)    Gerðardóms- og sáttameðferð er vanalega veitt af aðilum eða einstaklingum sem eru tilnefndir eða valdir á einhvern þann hátt sem ekki getur fallið undir reglur um innkaup.

      27)    Í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar nær fjármálaþjónusta, sem fellur undir þessa tilskipun, ekki til gerninga sem varða peninga- eða gengisstefnu, ríkisskuldir, stjórnun opinberra sjóða eða annað sem varðar viðskipti í verðbréfum eða aðra fjármálagerninga; einkum á það við um viðskipti samningsyfirvalda í því skyni að afla fjár eða eiginfjár. Samningar, sem tengjast útgáfu, kaupum, sölu eða framsali verðbréfa eða annarra fjármálagerninga, falla því ekki undir hana. Þjónusta seðlabanka er einnig undanþegin gildissviði hennar.

      28)    Atvinna og störf eru grundvallaratriði þegar tryggja á jöfn tækifæri fyrir alla og stuðla að félagslegum samruna. Í því sambandi eru verndaðir vinnustaðir og áætlanir um verndaða vinnu mikill stuðningur við aðlögun eða enduraðlögun fatlaðs fólks á vinnumarkaðnum. Hins vegar er hugsanlegt að slíkir vinnustaðir nái ekki samningum við venjulegar samkeppnisaðstæður. Þess vegna er rétt að setja ákvæði um að aðildarríkin geti bundið réttinn til þátttöku í útboði vegna opinberra samninga slíkum vinnustöðum eða bundið framkvæmd samninga áætlunum um verndaða vinnu.

      29)    Tækniforskriftirnar, sem opinberir innkaupsaðilar setja fram, skulu veita ráðrúm til þess að opna fyrir samkeppni í opinberum innkaupum. Þess vegna á að vera hægt að leggja fram tilboð þar sem gefinn er kostur á fjölbreyttum, tæknilegum lausnum. Því ætti að vera unnt að setja fram tækniforskriftir sem kröfur um nothæfi og hagnýtingu og samningsyfirvöld skulu, þegar vísað er til Evrópustaðla eða, þegar þeir eru ekki til, landsstaðla, taka gild tilboð sem eru byggð á jafngildu fyrirkomulagi. Leyfa skal bjóðendum að leggja fram hvers konar sönnunargögn til að sýna að tilboð séu jafngild. Samningsyfirvöld skulu geta rökstutt allar ályktanir þess efnis að ekki hafi verið um jafngild tilboð að ræða í tilteknu tilviki. Samningsyfirvöld, sem vilja hafa ákveðnar umhverfiskröfur í tækniforskriftum tiltekins samnings, geta mælt fyrir um eiginleika er varða umhverfið, svo sem tiltekna framleiðsluaðferð, og/eða tiltekin umhverfisáhrif vöru- eða þjónustuhópa. Þau geta notað, en eru ekki skyldug til þess að nota, viðeigandi forskriftir sem eru skilgreindar í umhverfismerkjum á borð við evrópska umhverfismerkið, (fjöl-)þjóðleg umhverfismerki eða hvaða önnur umhverfismerki sem er, að því tilskildu að kröfur varðandi merkið séu settar fram og samþykktar á grundvelli vísindalegra gagna og notuð málsmeðferð sem hagsmunaaðilar, svo sem stofnanir ríkisins, neytendur, framleiðendur, dreifingaraðilar og umhverfisstofnanir, geta nýtt sér og að því tilskildu að merkið sé aðgengilegt og tiltækt öllum hlutaðeigandi aðilum. Samningsyfirvöld skulu, þegar unnt er, mæla fyrir um tækniforskriftir á þann hátt að tekið sé tillit til viðmiðana um aðgang fatlaðra eða hönnun sem hæfir öllum notendum. Tækniforskriftirnar skulu settar fram á skýran hátt svo að öllum bjóðendum sé það ljóst hvað felst í þeim kröfum sem samningsyfirvöld gera.

      30)    Frekari upplýsingar varðandi samninga skulu, samkvæmt venju í aðildarríkjum, veittar í útboðsgögnum fyrir hvern samning eða í jafngildu skjali.

      31)    Það getur reynst ógerlegt fyrir samningsyfirvöld, sem vinna að mjög flóknum verkefnum, án þess að þau hafi gert nokkur mistök, að skilgreina leiðir til að uppfylla þarfir sínar eða meta hvað í boði er á markaðnum af tæknilegum og/eða fjárhagslegum og lagalegum lausnum. Þessi staða getur einkum komið upp við framkvæmd mikilvægra, samþættra verkefna á sviði grunnvirkja í flutningum, stórra tölvuneta eða verkefna sem fela í sér flókna og skipulagsbundna fjármögnum þar sem ekki er hægt að skilgreina fjármálahliðina og lagalegu hliðina fyrir fram. Sé ekki hægt að gera slíka samninga sem almenna eða lokaða útboðssamninga skal kveða á um sveigjanlega útboðsaðferð sem bæði tryggir samkeppni á milli rekstraraðila og kemur einnig til móts við þá þörf að samningsyfirvöld ræði allar hliðar samningsins við hvern og einn þátttakanda. Þessa aðferð má þó ekki nota á þann hátt að það takmarki eða raski samkeppni, t.d. með því að breyta einhverjum grunnþáttum tilboðanna, setja fram nýjar, mikilvægar kröfur á hendur bjóðandanum, sem verður fyrir valinu, eða með því að velja einhvern annan bjóðanda en þann sem leggur fram fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið.

      32)    Rétt er að setja ákvæði um undirverktöku til að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að taka þátt í opinberum innkaupum.

      33)    Skilyrði varðandi framkvæmd samnings eru samrýmanleg þessari tilskipun að því tilskildu að þau hafi ekki, beint eða óbeint, mismunun í för með sér og séu tilgreind í útboðstilkynningu eða í útboðsgögnum. Þau geta m.a. verið sett í þeim tilgangi að stuðla að starfsþjálfun á vinnustað, ráðningu starfsfólks sem á í sérstökum erfiðleikum með að komast á vinnumarkaðinn, baráttu gegn atvinnuleysi eða umhverfisvernd. Til dæmis má nefna kröfur, sem gilda meðan á framkvæmd samningsins stendur, um að ráða umsækjendur sem hafa verið lengi atvinnulausir eða gera ráðstafanir til að þjálfa atvinnulaust eða ungt fólk, um að fylgja í meginatriðum ákvæðum grundvallarsamninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), að því gefnu að slík ákvæði hafi ekki verið leidd í landslög, og að ráða fleiri fatlaða einstaklinga en kveðið er á um í landslögum.

      34)    Gildandi lög, reglur og kjarasamningar, bæði innan lands og á vettvangi Bandalagsins, á sviði ráðningarskilmála og öryggis í starfi, gilda meðan á framkvæmd opinbers samnings stendur, að því tilskildu að slíkar reglur og beiting þeirra sé í samræmi við lög Bandalagsins. Varðandi starfsemi, sem teygir sig yfir landamæri, þar sem starfsmenn frá einu aðildarríki veita þjónustu í öðru aðildarríki í tengslum við framkvæmd opinbers samnings er mælt fyrir um lágmarksskilyrði, sem gistilandið þarf að virða í tengslum við slíka útsenda starfsmenn, í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu ( Stjtíð. EB L 18, 21.1.1997, bls. 1.). Ef ákvæði eru um þetta í innlendum lögum má líta á það sem alvarlegt misferli eða brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila ef ákvæðin eru ekki virt og getur það valdið því að hann verði útilokaður frá útboðsferli opinbers samnings.

      35)    Í ljósi nýrrar þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni og þess að hún getur einfaldað birtingu samninga og aukið skilvirkni og gagnsæi innkaupaferlisins skulu rafrænar aðferðir settar jafnfætis hefðbundnum aðferðum í fjarskiptum og upplýsingaskiptum. Þær aðferðir og sú tækni, sem valið er að nota, skal, eftir því sem unnt er, vera samrýmanleg þeirri tækni sem notuð er í öðrum aðildarríkjum.

      36)    Til að tryggja þróun virkrar samkeppni á sviði opinberra samninga er nauðsynlegt að útboðstilkynningar samningsyfirvalda aðildarríkja séu birtar alls staðar í Bandalaginu. Upplýsingarnar í þessum tilkynningum skulu gera rekstraraðilum í Bandalaginu kleift að meta hvort þeir hafi áhuga á fyrirhuguðum samningum. Þess vegna ber að veita þeim nægilegar upplýsingar um viðfang samningsins og skilyrði sem honum fylgja. Því ber að tryggja á viðeigandi hátt að opinberar tilkynningar verði sýnilegri, t.d. með því að nota stöðluð eyðublöð fyrir útboðstilkynningar og sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV) sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2195/2002 ( Stjtíð. EB L 340, 16.12.2002, bls. 1.) að skuli vera tilvísunarflokkunarkerfi fyrir opinbera samninga. Í lokuðum útboðum er tilgangur auglýsinga einkum sá að gera verktökum í aðildarríkjum kleift að lýsa áhuga sínum á samningum með því að leita eftir boði samningsyfirvalda um að leggja fram tilboð samkvæmt settum skilyrðum.

      37)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB frá 13. desember 1999 um ramma Bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir ( Stjtíð. EB L 13, 19.1.2000, bls. 12.) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) ( Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.) skulu, í samhengi þessarar tilskipunar, gilda um flutning upplýsinga með rafrænum aðferðum. Í reglum um opinber innkaup og gildandi reglum um þjónustusamkeppni eru gerðar strangari kröfur um öryggi og þagnarskyldu en í þessum tilskipunum. Samkvæmt því skal búnaður fyrir rafræna móttöku tilboða, þátttökutilkynninga, áætlana og verkefna uppfylla tilteknar viðbótarkröfur. Af þeim sökum ber að hvetja til notkunar rafrænna undirskrifta, einkum háþróaðra, rafrænna undirskrifta, eftir því sem unnt er. Auk þess geta valfrjáls faggildingarkerfi myndað heppilegan ramma um bætta vottunarþjónustu fyrir þennan búnað.

      38)    Notkun rafrænna aðferða sparar tíma. Þess vegna ber að setja ákvæði um styttingu lágmarksfrests ef rafrænum aðferðum er beitt, þó með því skilyrði að þau samrýmist sérstökum ákvæðum um flutningsaðferðir sem notaðar verða í Bandalaginu.

      39)    Athugun á hæfi bjóðenda í almennum útboðum og þátttakenda í lokuðum útboðum og samningskaupum að undangenginni birtingu útboðstilkynningar og í samkeppnisviðræðum og við val bjóðenda og þátttakenda, skal fara fram við gagnsæ skilyrði. Þess vegna skal tilgreina hvaða viðmiðanir um bann við mismunun samningsyfirvöld geta stuðst við þegar þau velja samkeppnisaðila og hvaða aðferðir rekstraraðilar geta notað til að sanna að þeir hafi uppfyllt þessar viðmiðanir. Með tilliti til gagnsæis skal einnig krefjast þess að samningsyfirvöld tilgreini, um leið og samningur er boðinn út, hvaða valforsendur þau muni nota og þá sérstöku hæfni sem hugsanlegt er að þau krefjist af rekstraraðilum svo að þeir geti tekið þátt í útboðinu.

      40)    Samningsyfirvöld geta takmarkað fjölda þátttakenda í lokuðum útboðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og einnig í samkeppnisviðræðum. Slík takmörkun á fjölda þátttakenda skal vera á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem eru tilgreindar í útboðstilkynningunni. Þessar hlutlægu viðmiðanir gefa ekki endilega til kynna vægi. Þegar um er að ræða viðmiðanir, sem tengjast persónulegri stöðu rekstraraðila, getur nægt að í útboðstilkynningunni sé almennt vísað til þeirra atriða sem um getur í 45. gr.

      41)    Í samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, skulu samningsyfirvöld, í ljósi þess sveigjanleika sem kann að vera þörf á og mikils kostnaðar við slíkar innkaupaaðferðir, hafa leyfi til að láta innkaupin fara fram í nokkrum áföngum til að fækka smám saman, á grundvelli fyrirfram tilgreindra valforsendna, þeim tilboðum sem þau þurfa áfram að ræða eða semja um. Þessi fækkun skal, að svo miklu leyti sem fjöldi viðeigandi tilboða eða þátttakenda leyfir, tryggja raunverulega samkeppni.

      42)    Viðeigandi Bandalagsreglur um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina, vottorða eða annarra sönnunargagna um formlega menntun og hæfi gilda þegar krafist er sönnunar á sérstakri menntun og hæfi vegna þátttöku í innkaupaferli eða hönnunarsamkeppni.

      43)    Forðast skal að gera opinbera samninga við rekstraraðila sem hafa tekið þátt í glæpasamtökum eða hafa verið fundnir sekir um spillingu eða sviksemi, sem hefur beinst gegn fjárhagslegum hagsmunum Evrópubandalaganna, eða fundnir sekir um peningaþvætti. Ef við á skulu samningsyfirvöld krefjast þess að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram viðeigandi skjöl og ef þau hafa efasemdir varðandi persónulega stöðu þátttakanda eða bjóðanda geta þau leitað eftir samstarfi við þar til bær yfirvöld í viðkomandi aðildarríki. Slíkir rekstraraðilar skulu útilokaðir um leið og samningsyfirvöld fá vitneskju um úrskurð sem hefur fallið vegna slíkra brota í samræmi við innlend lög og hefur því dómsígildi. Ef ákvæði eru um það í landslögum má líta á það sem brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila eða alvarlegt misferli ef hann fer ekki að umhverfislögum eða lögum um ólögmætt samkomulag í opinberum samningum og það hefur verið staðfest með endanlegum úrskurði eða jafngildri ákvörðun.
 • Sé ekki farið að innlendum ákvæðum til framkvæmdar tilskipunum ráðsins 2000/78/EB (Tilskipun ráðsins 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennan ramma um jafna meðferð með tilliti til atvinnu og starfa (Stjtíð. EB L 303, 2.12.2000, bls. 16).) og 76/207/EBE (Tilskipun ráðsins 76/207/EBE frá 9. febrúar 1976 um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkun, sem og varðandi starfskjör (Stjtíð. EB L 39, 14.2.1976, bls. 40). Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/73/EB (Stjtíð. EB L 269, 5.10.2002, bls. 15).) um jafna meðferð starfsmanna, og það hefur verið staðfest með endanlegum úrskurði eða jafngildri ákvörðun, getur það talist brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila eða alvarlegt misferli.

 •     44)    Í tilvikum þar sem verkið eða þjónustan er þess eðlis að það gefur ástæðu til að beita ráðstöfunum eða kerfum umhverfisstjórnar á meðan á framkvæmd opinbers samnings stendur er hægt að krefjast þess að slíkum ráðstöfunum eða kerfum sé beitt. Umhverfisstjórnunarkerfi, hvort sem þau eru skráð samkvæmt Bandalagsgerningum, eins og t.d. reglugerð (EB) nr. 761/2001 ( Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 761/2001 frá 19. mars 2001 um að heimila frjálsa aðild fyrirtækja/stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS) (Stjtíð. EB L 114, 24.4.2001, bls. 1).) (EMAS) eða ekki, geta sýnt hvort rekstraraðilinn hefur tæknilega getu til að framkvæma samninginn. Auk þess skal samþykkja lýsingu á þeim ráðstöfunum, sem rekstraraðili framkvæmir til að tryggja sama stig umhverfisverndar, sem sönnun sem kemur í stað skráðra umhverfisstjórnunarkerfa.

      45)    Þessi tilskipun gerir aðildarríkjunum kleift að koma upp opinberri skrá yfir verktaka, birgja og þjónustuveitendur eða vottunarkerfi opinberra aðila eða einkaaðila og þar eru sett ákvæði um áhrif slíkrar skráningar eða vottunar á útboðsferli í öðru aðildarríki. Að því er varðar opinberar skrár yfir samþykkta rekstraraðila er mikilvægt að taka tillit til dómaframkvæmdar dómstólsins í tilvikum þar sem rekstraraðili, sem tilheyrir ákveðnum hópi, vitnar til efnahagslegrar, fjárhagslegrar eða tæknilegrar getu annarra fyrirtækja í hópnum til stuðnings umsókn sinni um skráningu. Í því tilviki þarf rekstraraðilinn að sanna að hann hafi í raun aðgang að þessum tilföngum allan gildistíma skráningarinnar. Að því er þessa skráningu varðar getur aðildarríki því ákveðið hvaða kröfur þurfi að uppfylla og einkum, ef verktakinn vitnar t.d. til fjárhagsstöðu annars fyrirtækis í hópnum, getur aðildarríkið krafist þess að það fyrirtæki taki á sig ábyrgð, ef nauðsyn krefur einn fyrir alla og allir fyrir einn.

      46)    Val tilboða skal fara fram á grundvelli hlutlægra forsendna sem tryggja að farið sé að meginreglunum um gagnsæi, bann við mismunun og jafna meðferð og sem tryggja að tilboð séu metin á grundvelli virkrar samkeppni. Þess vegna er rétt að leyfa aðeins notkun tveggja valforsendna: „lægsta verð“ og „fjárhagslega hagkvæmasta tilboð“.
 • Til að tryggja að farið sé að meginreglunni um jafna meðferð við val á tilboði ber að mæla fyrir um þá skyldu – í samræmi við dómaframkvæmd – að tryggja nauðsynlegt gagnsæi svo að unnt sé að veita öllum bjóðendum eðlilegar upplýsingar um forsendur og fyrirkomulag við mat á því hvaða tilboð sé fjárhagslega hagkvæmast. Það er því skylda samningsyfirvalda að gefa upp forsendur fyrir vali á tilboði og hlutfallslegt vægi hverrar forsendu með nægilegum fyrirvara svo að bjóðendur viti af því þegar þeir semja tilboð sín. Samningsyfirvöld geta gert undantekningu frá því að tilgreina vægi forsendna fyrir vali á tilboði þegar gildar ástæður eru fyrir því, sem þau verða að geta rökstutt, og ekki er unnt að meta vægið fyrir fram, einkum þegar um er að ræða flókna samninga. Í slíkum tilvikum verða þau að tilgreina forgangsröð forsendna eftir mikilvægi þeirra.
 • Ef samningsyfirvöld ákveða að gera samning við þann sem leggur fram fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið skulu þau meta tilboðin með tilliti til þess hvaða tilboð felur í sér besta hlutfallið á milli gæða og verðs. Með þetta í huga skulu þau ákvarða fjárhagslegar forsendur og gæðaforsendur sem eiga að gera kleift að ákvarða hvaða tilboð sé fjárhagslega hagkvæmast fyrir samningsyfirvöld, á heildina litið. Ákvörðun þessara forsendna er háð efni samningsins því að á grundvelli þeirra á að vera hægt að meta þá framkvæmd sem felst í hverju tilboði í ljósi þess hvert efni samningsins er, eins og skilgreint er í tækniforskriftunum, og einnig að ákvarða hlutfallið milli gæða og verðs hjá hverjum bjóðanda.
 • Til að tryggja jafna meðferð skulu forsendur fyrir vali tilboðs vera þannig að hægt sé að bera saman tilboð og meta þau hlutlægt. Ef þessi skilyrði eru uppfyllt geta fjárhagslegar forsendur og gæðaforsendur fyrir vali tilboðs, t.d. það að uppfylla umhverfiskröfur, gert samningyfirvaldi kleift að uppfylla þarfir almennra borgara, sem málið varðar, eins og tekið er fram í skilmálum samningsins. Samkvæmt sömu skilyrðum getur samningsyfirvald notað forsendur, einkum til að koma til móts við þarfir sem eru skilgreindar í skilmálum samningsins, sem eiga að uppfylla félagslegar kröfur sérlega illa settra hópa fólks sem viðtakendur eða notendur verksins, vörunnar eða þjónustunnar, sem samningurinn er gerður um, tilheyra.

 •     47)    Þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga mega valforsendur ekki hafa áhrif á beitingu innlendra ákvæða um þóknun fyrir tiltekna þjónustu, t.d. þjónustu sem arkitektar, verkfræðingar eða lögfræðingar veita og, að því er opinbera vörusamninga varðar, beitingu innlendra ákvæða um fast verð á skólabókum.

      48)    Samþykkja þarf tiltekin tæknileg skilyrði, einkum að því er varðar tilkynningar og tölulegar skýrslur og einnig flokkunarkerfið sem er notað og skilyrði fyrir tilvísun í það flokkunarkerfi, og breyta þeim í samræmi við breyttar tæknikröfur. Einnig þarf að uppfæra skrána yfir samningsyfirvöld í viðaukunum. Því er rétt að komið verði á fót sveigjanlegu og hröðu samþykktarferli í þessum tilgangi.

      49)    Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu gerðar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.).

      50)    Reglugerð ráðsins (EBE, KBE) nr. 1182/71 frá 3. júní 1971 sem setur reglur um hvernig reikna ber tímabil, dagsetningar og fresti ( Stjtíð. EB L 124, 8.6.1971, bls. 1.) gildir við útreikning á frestum sem fjallað er um í þessari tilskipun.

      51)    Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skyldur aðildarríkjanna að því er varðar fresti, sem settir eru í XI. viðauka, til lögleiðingar og beitingar tilskipunum 92/50/EBE, 93/36/EBE og 93/37/EBE.
  SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

  EFNISYFIRLIT
  I. BÁLKUR
  Skilgreiningar og meginreglur
  1. gr. — Skilgreiningar
  2. gr. — Meginreglur um val tilboða
  3. gr. — Veiting sérstakra réttinda eða einkaréttar: ákvæðið um bann við mismunun
  II. BÁLKUR
  Reglur um opinbera samninga
  I. KAFLI
  Almenn ákvæði
  4. gr. — Rekstraraðilar
  5. gr. — Skilyrði í tengslum við samninga sem eru gerðir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar
  6. gr. — Trúnaðarkvaðir
  II. KAFLI
  Gildissvið
  1. þáttur — Viðmiðunarfjárhæðir
  7. gr. — Viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinbera samninga
  8. gr. — Samningar sem samningsyfirvöld niðurgreiða um meira en 50%
  9. gr. — Aðferðir til að reikna út áætlað verðmæti opinberra samninga, rammasamninga og virkra innkaupakerfa
  2. þáttur — Sérstakar aðstæður
  10. gr. — Innkaup til varnarmála
  11. gr. — Opinberir samningar og rammasamningar, gerðir af miðlægum innkaupastofnunum
  3. þáttur — Samningar sem falla ekki undir tilskipunina
  12. gr. — Samningar á sviði vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu
  13. gr. — Sérstakar undantekningar á fjarskiptasviðinu
  14. gr. — Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana
  15. gr. — Samningar sem eru gerðir samkvæmt alþjóðareglum
  16. gr. — Sérstakar undantekningar
  17. gr. — Sérleyfissamningar um þjónustu
  18. gr. — Þjónustusamningar sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar
  4. þáttur — Sérstakt fyrirkomulag
  19. gr. — Samningar sem eru bundnir við ákveðna hópa
  III. KAFLI
  Reglur um opinbera þjónustusamninga
  20. gr. — Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka A
  21. gr. — Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka B
  22. gr. — Blandaðir þjónustusamningar sem varða bæði þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka A og II. viðauka B
  IV. KAFLI
  Sérstakar reglur sem gilda um útboðsskilmála og útboðsgögn
  23. gr. — Tækniforskriftir
  24. gr. — Frávikstilboð
  25. gr. — Undirverktaka
  26. gr. — Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings
  27. gr. — Skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuskilyrði
  V. KAFLI
  Útboðsaðferðir
  28. gr. — Almennt útboð, lokað útboð, samningskaup og samkeppnisviðræður
  29. gr. — Samkeppnisviðræður
  30. gr. — Samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar
  31. gr. — Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar
  32. gr. — Rammasamningar
  33. gr. — Virk innkaupakerfi
  34. gr. — Opinberir verksamningar: sérstakar reglur um byggingu félagslegs húsnæðis
  VI. KAFLI
  Reglur um birtingu og gagnsæi
  1. þáttur — Birting tilkynninga
  35. gr. — Tilkynningar
  36. gr. — Form og aðferð við birtingu tilkynninga
  37. gr. — Birting án skyldu
  2. þáttur — Frestur
  38. gr. — Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
  39. gr. — Almenn útboð: útboðsskilmálar, viðbótargögn og upplýsingar
  3. þáttur — Efni upplýsinga og sendingaraðferðir
  40. gr. — Boð um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða gera samning
  41. gr. — Upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda
  4. þáttur — Samskipti
  42. gr. — Reglur um samskipti
  5. þáttur — Skýrslur
  43. gr. — Efni skýrslna
  VII. KAFLI
  Framkvæmd útboðs
  1. þáttur — Almenn ákvæði
  44. gr. — Athugun á hæfi og vali þátttakenda og vali tilboða
  2. þáttur — Forsendur fyrir hæfismiðuðu vali
  45. gr. — Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda
  46. gr. — Starfsréttindi
  47. gr. — Efnahagsleg og fjárhagsleg staða
  48. gr. — Tæknileg og fagleg geta
  49. gr. — Gæðastaðlar
  50. gr. — Umhverfisstjórnunarstaðlar
  51. gr. — Viðbótargögn og upplýsingar
  52. gr. — Opinber skrá yfir samþykkta rekstraraðila og vottun frá opinberum og einkaréttarlegum stofnunum
  3. þáttur — Val tilboðs
  53. gr. — Forsendur fyrir vali tilboðs.
  54. gr. — Rafræn uppboð
  55. gr. — Óeðlilega lág tilboð
  III. BÁLKUR
  Reglur um opinbera sérleyfissamninga um verk
  I. KAFLI
  Gildandi reglur um opinbera sérleyfissamninga um verk
  56. gr. — Gildissvið
  57. gr. — Samningar sem eru undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar
  58. gr. — Birting tilkynninga um opinbera sérleyfissamninga um verk
  59. gr. — Frestur
  60. gr. — Undirverktakar
  61. gr. — Viðbótarverk sem samið er um við sérleyfishafa
  II. KAFLI
  Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er samningsyfirvald
  62. gr. — Gildandi reglur
  III. KAFLI
  Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er ekki samningsyfirvald
  63. gr. — Reglur um birtingu: viðmiðunarfjárhæðir og undantekningar
  64. gr. — Birting tilkynninga
  65. gr. — Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
  IV. BÁLKUR
  Reglur um hönnunarsamkeppni
  66. gr. — Almenn ákvæði
  67. gr. — Gildissvið
  68. gr. — Starfsemi sem er undanþegin gildissviði tilskipunarinnar
  69. gr. — Tilkynningar
  70. gr. — Form og aðferð við birtingu tilkynninga um samkeppni
  71. gr. — Samskiptaaðferðir
  72. gr. — Val samkeppnisaðila
  73. gr. — Samsetning dómnefndar
  74. gr. — Ákvarðanir dómnefndar
  V. BÁLKUR
  Skyldan að veita tölulegar upplýsingar, framkvæmdarvald og lokaákvæði
  75. gr. — Skyldan að veita tölulegar upplýsingar
  76. gr. — Efni tölulegra skýrslna
  77. gr. — Ráðgjafarnefnd
  78. gr. — Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða
  79. gr. — Breytingar
  80. gr. — Framkvæmd
  81. gr. — Eftirlitskerfi
  82. gr. — Niðurfelling
  83. gr. — Gildistaka
  84. gr. — Viðtakendur
  VIÐAUKAR
  I. viðauki — Skrá yfir starfsemi sem um getur í b-lið 2. mgr. 1. gr.
  II. viðauki — Þjónusta sem um getur í d-lið 2. mgr. 1. gr.
  II. viðauki A
  II. viðauki B
  III. viðauki — Skrá yfir stofnanir og flokka stofnana sem heyra undir opinberan rétt eins og um getur í annarri undirgrein 9. mgr. 1. gr.
  IV. viðauki — Yfirvöld á vegum ríkisins
  V. viðauki — Skrá yfir vörur sem um getur í 7. gr. með tilliti til samninga sem samningsyfirvöld gera á sviði varnarmála
  VI. viðauki — Skilgreining tiltekinna tækniforskrifta
  VII. viðauki: — Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum
  VII. viðauki A — Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum um opinber útboð
  VII. viðauki B — Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum um sérleyfi varðandi opinber verk
  VII. viðauki C — Upplýsingar sem eiga að koma fram í útboðstilkynningum sérleyfishafa, sem eru ekki samningsyfirvöld, vegna verksamninga
  VII. viðauki D — Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum um hönnunarsamkeppni
  VIII. viðauki — Atriði varðandi birtingu
  IX. viðauki — Skrár
  IX. viðauki A — Opinberir verksamningar
  IX. viðauki B — Opinberir vörusamningar
  IX. viðauki C — Opinberir þjónustusamningar
  X. viðauki — Kröfur varðandi búnað fyrir rafræna móttöku tilboða, þátttökutilkynninga og áætlana og verkefna í hönnunarsamkeppni
  XI. viðauki — Frestur til lögleiðingar og beitingar (80. gr.) [Sleppt.]
  XII. viðauki — Samsvörunartafla [Sleppt.]


  I. BÁLKUR
  SKILGREININGAR OG MEGINREGLUR
  1. gr.
  Skilgreiningar
  1. Í þessari tilskipun gilda skilgreiningarnar sem settar eru fram í 2.–15. mgr.

      2. a)    „opinberir samningar“: skriflegir samningar, fjárhagslegs eðlis, sem einn eða fleiri rekstraraðilar og eitt eða fleiri samningsyfirvöld gera sín á milli og eru verksamningar, vörusamningar eða þjónustusamningar í skilningi þessarar tilskipunar,

      b)    „opinberir verksamningar“: opinberir samningar sem fjalla annaðhvort um framkvæmd eða bæði hönnun og framkvæmd verka sem tengjast einhverri þeirri starfsemi sem um getur í I. viðauka eða verk eða hvers konar framkvæmd verks sem svarar til þeirra krafna sem samningsyfirvaldið setur fram. „Verk“ er heildarafrakstur af byggingarframkvæmdum eða mannvirkjagerð sem getur, sem slíkt, þjónað fjárhagslegu eða tæknilegu hlutverki,

      c)    „opinberir vörusamningar“: opinberir samningar, aðrir en þeir sem um getur í b-lið, um kaup, langtíma- eða skammtímaleigu eða kaupleigu á vörum, með eða án kaupréttar.
 • Opinber samningur um vöruafhendingu, sem einnig felur í sér tilfallandi ísetningu og uppsetningu, skal teljast „opinber vörusamningur“,

 •     d)    „opinberir þjónustusamningar“: opinberir samningar, aðrir en opinberir verk- og vörusamningar, sem varða veitingu þeirrar þjónustu sem um getur í II. viðauka.
 • Opinber samningur, sem varðar bæði vörur og þjónustu í skilningi II. viðauka, skal teljast „opinber þjónustusamningur“ ef verðmæti viðkomandi þjónustu er meira en verðmæti vörunnar sem samningurinn nær til.
 • Opinber samningur, sem varðar þjónustu skv. II. viðauka og felur í sér starfsemi skv. I. viðauka, sem er einungis tilfallandi viðbót við meginefni samningsins, skal teljast opinber þjónustusamningur.
 • 3. „Opinber sérleyfissamningur um verk“: samningur sömu tegundar og opinber verksamningur, að því undanskildu að endurgjald fyrir verk, sem á að vinna, felst annaðhvort eingöngu í rétti til að hagnýta verkið eða í þeim rétti ásamt greiðslu fjár.
  4. „Sérleyfissamningur um þjónustu“: samningur sömu tegundar og opinber þjónustusamningur, að því undanskildu að endurgjald fyrir þjónustu, sem á að veita, felst annaðhvort eingöngu í rétti til að hagnýta þjónustuna eða í þeim rétti ásamt greiðslu fjár.
  5. „Rammasamningur“: samningur eins eða fleiri samningsyfirvalda við einn eða fleiri rekstraraðila sem er gerður í þeim tilgangi að ákveða skilmála samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og, ef við á, fyrirhugað magn.
  6. „Virkt innkaupakerfi“: fyllilega rafrænt ferli við algeng innkaup, búið eiginleikum sem almennt eru fyrir hendi á markaðnum og uppfylla kröfur samningsyfirvaldsins, sem er tímabundið og allan gildistímann opið öllum rekstraraðilum sem uppfylla valforsendur og hafa lagt fram kynningarboð í samræmi við skilmála.
  7. „Rafrænt uppboð“: endurtekið ferli þar sem nýtt og lægra verð og/eða nýtt verðmæti tiltekinna þátta í tilboðum er sett fram með rafrænum hætti, sem hefst eftir að full afstaða hefur verið tekin til tilboðanna í upphafi og gerir mögulegt að flokka þau með sjálfvirkum matsaðferðum.
  Þar af leiðandi skal ekki halda rafræn uppboð þegar um er að ræða tiltekna þjónustusamninga og verksamninga sem fela í sér framkvæmd á sviði hugverka, svo sem hönnun verka.
  8. Hugtökin „verktaki“, „birgir“ og „þjónustuveitandi“ merkja hvern þann einstakling, lögaðila eða opinberan aðila eða hóp slíkra aðila og/eða stofnana sem bjóða framkvæmd verka og/eða verk, vörur og þjónustu á markaðnum.
  Hugtakið „rekstraraðili“ er notað jafnt um verktaka, birgja og þjónustuveitendur. Það er einungis notað til einföldunar.
  Rekstraraðili, sem hefur lagt fram tilboð, nefnist „bjóðandi“. Sá sem hefur leitað eftir boði um að taka þátt í lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum nefnist „þátttakandi“.
  9. „Samningsyfirvöld“: ríkis-, svæðis- eða staðaryfirvöld, stofnanir, sem heyra undir opinberan rétt og samtök sem eru mynduð af einu eða fleiri slíkum yfirvöldum eða einni eða fleiri stofnunum sem heyra undir opinberan rétt.
  „Stofnun, sem heyrir undir opinberan rétt,“ er stofnun:

      a)    sem komið er á fót í þeim sérstaka tilgangi að fullnægja þörfum almennings en starfar hvorki á sviði iðnaðar né viðskipta,

      b)    sem hefur réttarstöðu lögaðila og

      c)    er fjármögnuð að mestu leyti af ríkis-, svæðis- eða staðaryfirvöldum, eða öðrum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt, eða stofnunum þar sem starfsemin er undir eftirliti slíkra stofnana, eða stofnunin hefur stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af ríkis-, svæðis- eða staðaryfirvöldum eða öðrum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt.
  Í III. viðauka er að finna skrár, þó ekki tæmandi, yfir stofnanir og flokka stofnana sem heyra undir opinberan rétt og uppfylla forsendurnar sem um getur í a-, b- og c-lið annarrar undirgreinar. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni reglulega um allar breytingar á skrám sínum yfir stofnanir og flokka stofnana.
  10. „Miðlæg innkaupastofnun“: samningsyfirvald sem:

      —    aflar vöru og/eða þjónustu fyrir samningsyfirvöld eða

      —    gerir opinbera samninga eða rammasamninga um verk, vöru eða þjónustu fyrir samningsyfirvöld.

      11. a)    „Almennt útboð“: ferli þar sem öllum rekstraraðilum, sem hafa áhuga, er heimilt að gera tilboð.

      b)    „Lokað útboð“: ferli þar sem allir rekstraraðilar geta óskað eftir þátttöku en aðeins þeir rekstraraðilar, sem samningsyfirvald býður þátttöku, geta lagt fram tilboð.

      c)    „Samkeppnisviðræður“: ferli, þar sem allir rekstraraðilar geta tilkynnt um þátttöku, þar sem samningsyfirvald á viðræður við þá þátttakendur sem hafa fengið aðgang að ferlinu með það fyrir augum að finna einn eða fleiri heppilega kosti, sem uppfylla kröfur þess, sem lagðir eru til grundvallar þegar völdum þátttakendum er boðið að leggja fram tilboð.
 • Varðandi notkun ferlisins, sem nefnt er í fyrstu undirgrein, telst opinber samningur vera „sérlega flókinn“ þegar samningsyfirvöld:

      —    geta ekki á hlutlægan hátt skilgreint tæknilegar leiðir í samræmi við b-, c- eða d-lið 3. mgr. 23. gr. sem geta uppfyllt þarfir þeirra eða markmið, og/eða

 •     —    geta ekki á hlutlægan hátt ákvarðað lagalegan og/eða fjárhagslegan ramma um verkefnið.

      d)    „Samningskaup“: ferli þar sem samningsyfirvöld hafa samráð við rekstraraðila sem þau hafa valið og semja um samningsskilmála við einn eða fleiri þeirra.

      e)    „Hönnunarsamkeppni“: ferli sem gerir samningsyfirvaldi kleift að fá til afnota áætlun eða hönnun, einkum á sviði borgar- og landsbyggðarskipulags, byggingarlistar og mannvirkjagerðar eða gagnavinnslu, sem valin er af dómnefnd eftir að efnt hefur verið til samkeppni með eða án verðlauna.
  12. „Skriflegt“: hvers konar tjáning með orðum eða tölum sem hægt er að lesa, endurgera og miðla. Þar með má telja upplýsingar sem hægt er að senda og geyma með rafrænum aðferðum.
  13. „Rafrænar aðferðir“: notkun rafræns búnaðar til vinnslu (þ.m.t. með stafrænni samþjöppun) og geymslu gagna sem eru send, flutt og móttekin með rafþræði, þráðlaust, með ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
  14. „Sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV)“: tilvísunarflokkunarkerfi sem gildir fyrir opinbera samninga eins og það var samþykkt með reglugerð (EB) nr. 2195/2002 en jafnframt gætt samsvörunar við önnur flokkunarkerfi sem fyrir eru.
  Ef upp kemur mismunandi túlkun á gildissviði þessarar tilskipunar vegna ósamræmis á milli flokkunarkerfanna CPV og NACE, (atvinnugreinaflokkun EB), sem fjallað er um í I. viðauka, eða á milli flokkunarkerfanna CPV og CPC (aðalvöruflokkun Sameinuðu þjóðanna) (bráðabirgðaútgáfa), sem tilgreind eru í II. viðauka, skulu NACE-kerfið og CPC-kerfið hafa forgang.
  15. Í 13. gr., a-lið 57. gr. og b-lið 68. gr. er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

      a)    „almennt fjarskiptanet“: grunnvirki almennra fjarskipta sem gerir kleift að flytja merki á milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum,

      b)    „nettengipunktur“ allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net,

      c)    „almenn fjarskiptaþjónusta“: fjarskiptaþjónusta sem aðildarríkin hafa sérstaklega falið einni eða fleiri fjarskiptastofnunum,

      d)    „fjarskiptaþjónusta“: þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að senda og beina merkjum um almenna fjarskiptanetið með fjarskiptaaðferðum, öðrum en hljóðvarpi eða sjónvarpi.
  2. gr.
  Meginreglur um val tilboða
  Rekstraraðilar skulu fá jafna meðferð, án mismununar og á gagnsæjan hátt, hjá samningsyfirvöldum.
  3. gr.
  Veiting sérstakra réttinda eða einkaréttar: ákvæði um bann við mismunun
  Ef samningsyfirvald veitir öðrum aðila en samningsyfirvaldi sérstök réttindi eða einkarétt til að veita opinbera þjónustu skal kveðið á um það í þeim lögum sem slíkur réttur er byggður á að sá aðili fari að meginreglunni um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis þegar hann gerir samning við þriðja aðila í tengslum við þá þjónustu.
  II. BÁLKUR
  REGLUR UM OPINBERA SAMNINGA
  I. KAFLI
  Almenn ákvæði
  4. gr.
  Rekstraraðilar
  1. Ekki skal hafna þátttakendum eða bjóðendum, sem eiga rétt á að veita viðeigandi þjónustu samkvæmt lögum aðildarríkisins þar sem þeir hafa staðfestu, af þeirri ástæðu einni að þess er krafist í lögum aðildarríkisins þar sem samningurinn er gerður að þátttakendur eða bjóðendur einskorðist við annaðhvort einstaklinga eða lögaðila.
  Ef um er að ræða opinbera þjónustu- og verksamninga svo og opinbera vörusamninga, sem taka að auki til þjónustu og/eða ísetningar- eða uppsetningarstarfs, er hægt að krefjast þess að lögaðilar tilgreini, í tilboði eða þátttökutilkynningu, nöfn og faglegt hæfi starfsmanna sem eiga að bera ábyrgð á framkvæmd viðkomandi samnings.
  2. Hópar rekstraraðila geta lagt fram tilboð eða leitað eftir þátttöku. Samningsyfirvöld geta ekki krafist þess að þessir hópar taki upp ákveðið rekstrarform að lögum til að geta lagt fram tilboð eða þátttökutilkynningu en þó er hægt að krefjast þess að hópur, sem hefur verið valinn og gerður við hann samningur, taki upp ákveðið rekstrarform að lögum ef það er nauðsynlegt til að unnt sé að framkvæma samninginn á fullnægjandi hátt.
  5. gr.
  Skilyrði í tengslum við samninga sem eru gerðir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar
  Þegar samningsyfirvöld velja úr tilboðum skulu aðildarríkin beita skilyrðum sín á milli sem eru jafnhagstæð þeim skilyrðum sem þau setja rekstraraðilum í þriðju löndum við framkvæmd samningsins um opinber innkaup (hér á eftir nefndur samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar) sem gerður var í Úrúgvælotu marghliða samningaviðræðnanna. Í því skyni skulu aðildarríkin hafa samráð sín á milli, innan ráðgjafarnefndarinnar um opinbera samninga sem um getur í 77. gr., um það hvaða ráðstafanir beri að gera samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
  6. gr.
  Trúnaðarkvaðir
  Með fyrirvara um ákvæði þessarar tilskipunar, einkum ákvæði um tilkynningaskyldu í tengslum við niðurstöður útboðs og upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda, sem getið er í 4. mgr. 35. gr. og 41. gr., og í samræmi við landslög sem samningsyfirvaldið heyrir undir, skal samningsyfirvaldið ekki afhenda upplýsingar sem það hefur fengið frá rekstraraðilum ef þeir hafa merkt þær sem trúnaðarmál. Slíkar upplýsingar fela einkum í sér tæknileg leyndarmál eða viðskiptaleyndarmál og þá þætti tilboða sem eru trúnaðarmál.
  II. KAFLI
  Gildissvið
  1. þáttur
  Viðmiðunarfjárhæðir
  7. gr.
  Viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinbera samninga
  Þessi tilskipun gildir um opinbera samninga sem falla ekki undir undantekningarákvæðin, sem kveðið er á um í 10. og 11. gr. og 12.–18. gr., og þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en eftirfarandi viðmiðunarfjárhæðir:

      a)    162 000 evrur þegar um er að ræða opinbera vöru- og þjónustusamninga, aðra en þá sem falla undir þriðja undirlið b-liðar, gerða af samningsyfirvöldum sem eru skráð sem yfirvöld á vegum ríkisins í IV. viðauka, en sé um að ræða opinbera vörusamninga, gerða af samningsyfirvöldum sem starfa á sviði varnarmála, skal þetta aðeins gilda um samninga varðandi vörur sem falla undir V. viðauka,

      b)    249 000 evrur

      —    þegar um er að ræða opinbera vöru- og þjónustusamninga sem eru gerðir af öðrum samningsyfirvöldum en þeim sem eru tilgreind í IV. viðauka,

      —    þegar um er að ræða opinbera vörusamninga sem eru gerðir af samningsyfirvöldum, sem eru tilgreind í IV. viðauka og starfa á sviði varnarmála, ef þessir samningar varða vörur sem eru ekki tilgreindar í V. viðauka,

      —    þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga sem eru gerðir af samningsyfirvaldi og varða þjónustu sem tilgreind er í 8. flokki í II. viðauka A, fjarskiptaþjónustu í 5. flokki, sem hefur samsvarandi stöðu í CPV-flokkuninni og CPC-tilvísunarnúmerin 7524, 7525 og 7526, og/eða þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka B,

      c)    6 242 000 evrur þegar um er að ræða opinbera verksamninga.
  8. gr.
  Samningar sem samningsyfirvöld niðurgreiða um meira en 50%
  Tilskipun þessi gildir um útboð og gerð:

      a)    samninga sem eru niðurgreiddir beint af samningsyfirvöldum um meira en 50% og áætlað verðmæti þeirra, án virðisaukaskatts, er 6 242 000 evrur eða meira,

      —    ef mannvirkjagerð í skilningi I. viðauka er innifalin í þessum samningum,

      —    ef þessir samningar ná til byggingaframkvæmda sem eru sjúkrahús, íþrótta- og tómstundamannvirki, skólar og háskólar og opinberar byggingar,

      b)    þjónustusamninga sem eru niðurgreiddir beint af samningsyfirvöldum um meira en 50% og áætlað verðmæti þeirra, án virðisaukaskatts, er 249 000 evrur eða meira og sem tengjast verksamningi í skilningi a-liðar.
  Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samningsyfirvöld, sem niðurgreiða slíka samninga, tryggi að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar ef einn eða fleiri aðrir aðilar gera samning og að samningsyfirvöld hlíti jafnframt sjálf ákvæðum þessarar tilskipunar ef þau gera samning fyrir hönd annars aðila.
  9. gr.
  Aðferðir til að reikna út áætlað verðmæti opinberra samninga, rammasamninga og virkra innkaupakerfa
  1. Útreikningur á áætluðu verðmæti opinbers samnings skal byggjast á heildarfjárhæð, sem samningsyfirvald áætlar að beri að greiða, án virðisaukaskatts. Við þennan útreikning skal taka tillit til áætlaðrar heildarfjárhæðar, þ.m.t. til hvers konar valréttar og hugsanlegra ákvæða um endurnýjun samningsins.
  Þegar samningsyfirvald ákveður verðlaun eða greiðslur til þátttakenda eða bjóðenda skal það taka tillit til þeirra við útreikning á áætluðu verðmæti samningsins.
  2. Þessi áætlun skal vera í gildi á þeim tíma þegar útboðstilkynning er send, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 35. gr., eða, í tilvikum þar sem slíkrar tilkynningar er ekki krafist, á þeim tíma þegar samningsyfirvaldið hefur útboðsferlið.
  3. Óheimilt er að skipta upp framkvæmdum eða fyrirhuguðum innkaupum á tilteknu magni vöru og/eða þjónustu til að komast hjá beitingu þessarar tilskipunar.
  4. Varðandi opinbera verksamninga skal, við útreikning á áætluðu verðmæti, taka tillit bæði til kostnaðar við verkið og áætlaðs heildarverðmætis vara sem eru nauðsynlegar til að framkvæma verkið og samningsyfirvöld fá verktakanum til ráðstöfunar.

      5. a)    Þegar hægt er að skipta fyrirhugaðri framkvæmd eða fyrirhuguðum kaupum á þjónustu í aðgreinda hlutasamninga, sem eru gerðir samtímis, skal taka tillit til áætlaðs heildarverðmætis allra slíkra hlutasamninga.
 • Ef samanlagt verðmæti hlutasamninganna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 7. gr., eða meira skal þessi tilskipun gilda um hvern samningshluta.
 • Samningsyfirvöld geta þó gert undanþágu frá slíkri beitingu ef áætlað verðmæti hlutasamninganna, án virðisaukaskatts, er minna en 80 000 evrur fyrir þjónustu eða 1 milljón evrur fyrir framkvæmdir, að því tilskildu að samanlagt verðmæti þessara hlutasamninga fari ekki yfir 20% af samanlögðu verðmæti allra hlutasamninganna.

 •     b)    Þegar hægt er að skipta tilboði um kaup á líkum vörum í aðgreinda hlutasamninga, sem eru gerðir samtímis, skal taka tillit til áætlaðs heildarverðmætis allra slíkra hlutasamninga við beitingu a- og b-liðar 7. gr.
 • Ef samanlagt verðmæti hlutasamninganna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 7. gr., eða meira skal þessi tilskipun gilda um hvern samningshluta.
 • Samningsyfirvöld geta þó gert undanþágu frá slíkri beitingu ef áætlað verðmæti hlutasamninganna, án virðisaukaskatts, er minna en 80 000 evrur, að því tilskildu að samanlagt verðmæti þessara hlutasamninga fari ekki yfir 20% af samanlögðu verðmæti allra hlutasamninganna.
 • 6. Varðandi opinbera vörusamninga í tengslum við langtíma- eða skammtímaleigu eða kaupleigu á vörum skal leggja eftirfarandi verðmæti til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:

      a)    þegar um er að ræða tímabundna samninga, áætlað heildarverðmæti opinberra samninga, sem gilda í 12 mánuði eða skemur, eða, ef samningur gildir lengur en í 12 mánuði, heildarverðmætið auk áætlaðs verðmætis eftirstöðva,

      b)    verðmæti hvers mánaðar, margfaldað með 48, þegar um er að ræða ótímabundna, opinbera samninga eða samninga sem ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega.
  7. Sé um að ræða opinbera vöru- eða þjónustusamninga, sem eru gerðir með reglulegu millibili eða sem á að endurnýja innan tiltekins tíma, skal leggja eftirfarandi til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:

      a)    annaðhvort samanlagt raunvirði sams konar samninga, sem hafa verið gerðir í áföngum á síðustu 12 mánuðum eða á síðasta fjárhagsári, leiðrétt, ef unnt er, með tilliti til magn- eða verðbreytinga sem gætu orðið á 12 mánuðum eftir að fyrsti samningurinn er gerður,

      b)    eða áætlað heildarverðmæti síðari samninga sem eru gerðir á 12 mánuðum eftir fyrstu afhendingu eða á fjárhagsárinu ef það er lengra en 12 mánuðir.
  Ekki má velja aðferð við útreikning áætlaðs verðmætis opinbers samnings í þeim tilgangi að samningurinn verði undanþeginn gildissviði þessarar tilskipunar.
  8. Varðandi opinbera þjónustusamninga skal leggja eftirfarandi verðmæti til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:

      a)    fyrir þjónustu á eftirfarandi sviðum:

      i)    vátryggingaþjónusta: greidd iðgjöld og aðrar greiðslur,

      ii)    bankastarfsemi og önnur fjármálaþjónusta: þóknun, umboðslaun, vextir og aðrar greiðslur,

      iii)    hönnunarsamningar: þóknun, umboðslaun og aðrar greiðslur,

      b)    fyrir þjónustusamninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind:

      i)    ef um er að ræða tímabundinn samning sem er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma: heildarverðmæti samningsins allan gildistímann,

      ii)    þegar um er að ræða ótímabundna samninga eða samninga sem gilda lengur en í 48 mánuði: verðmæti hvers mánaðar, margfaldað með 48.
  9. Varðandi rammasamninga og virk innkaupakerfi skal verðmætið, sem miðað er við, vera áætlað hámarksverðmæti allra samninga, án virðisaukaskatts, sem fyrirhugað er að gera á gildistíma rammasamningsins eða virka innkaupakerfisins.
  2. þáttur
  Sérstakar aðstæður
  10. gr.
  Innkaup til varnarmála
  Tilskipun þessi gildir um opinbera samninga sem samningsyfirvöld gera á sviði varnarmála, sbr. þó [123. gr. EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006].
  11. gr.
  Opinberir samningar og rammasamningar, gerðir af miðlægum innkaupastofnunum
  1. Aðildarríkin geta mælt fyrir um að samningsyfirvöldum sé heimilt að kaupa verk, vörur og/eða þjónustu frá miðlægri innkaupastofnun eða með milligöngu hennar.
  2. Samningsyfirvöld, sem kaupa verk, vörur og/eða þjónustu frá miðlægri innkaupastofnun eða með milligöngu hennar, í tilvikum sem um getur í 10. mgr. 1. gr., teljast hafa farið að ákvæðum þessarar tilskipunar svo fremi að miðlæga innkaupastofnunin hafi farið að ákvæðum hennar.
  3. þáttur
  Samningar sem falla ekki undir tilskipunina
  12. gr.
  Samningar á sviði vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu
  Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga, sem eru gerðir samkvæmt tilskipun 2004/17/EB af samningsyfirvöldum, sem reka eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, og eru gerðir vegna reksturs þeirrar starfsemi, og ekki heldur um opinbera samninga sem eru undanþegnir gildissviði þeirrar tilskipunar skv. 5. gr. (2. mgr.) og 19., 26. og 30. gr. hennar.
  Þessi tilskipun gildir þó áfram um opinbera samninga, sem gerðir eru af samningsyfirvöldum sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 6. gr. tilskipunar 2004/17/EB, og sem eru gerðir vegna þeirrar starfsemi, svo fremi að viðkomandi aðildarríki nýti sér þann kost, sem um getur í annarri undirgrein 71. gr. tilskipunarinnar, að fresta beitingu hennar.
  13. gr.
  Sérstakar undantekningar á fjarskiptasviðinu
  Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga þar sem megintilgangurinn er að veita samningsyfirvöldum leyfi til að bjóða fram almenn fjarskiptanet eða nýta sér þau eða veita almenningi eina eða fleiri tegundir fjarskiptaþjónustu.
  14. gr.
  Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana
  Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga sem aðildarríki lýsir yfir að séu leynilegir, þegar beita verður sérstökum öryggisráðstöfunum við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórnsýslufyrirmæli í viðkomandi aðildarríki eða þegar þess er krafist til að vernda grundvallarhagsmuni í því aðildarríki.
  15. gr.
  Samningar sem eru gerðir samkvæmt alþjóðareglum
  Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga sem falla undir aðrar útboðsreglur og eru gerðir:

      a)    á grundvelli milliríkjasamnings á milli aðildarríkis og eins eða fleiri þriðju landa, sem gerður er í samræmi við sáttmálann og tekur til vöru eða verks, sem áformað er að undirritunarlöndin noti við sameiginlega framkvæmd eða hagnýtingu verks, eða þjónustu, sem áformað er að undirritunarlöndin noti við sameiginlega framkvæmd eða hagnýtingu verkefnis; tilkynna skal um alla samninga til framkvæmdastjórnarinnar sem getur ráðfært sig við ráðgjafarnefndina um opinbera samninga sem um getur í 77. gr.,

      b)    á grundvelli milliríkjasamnings í tengslum við setu herliðs þegar í hlut eiga fyrirtæki í aðildarríki eða þriðja landi,

      c)    á grundvelli sérstakra reglna alþjóðastofnunar.
  16. gr.
  Sérstakar undantekningar
  Tilskipun þessi gildir ekki um opinbera þjónustusamninga sem varða:

      a)    kaup eða leigu lands, bygginga eða annarra fasteigna, óháð fjármögnunarleiðum, eða rétt til þeirra; tilskipun þessi gildir þó um samninga um fjármálaþjónustu, í hvaða formi sem er, sem eru gerðir fyrir, eftir eða samhliða samningi um kaup eða leigu,

      b)    kaup, þróun, framleiðslu eða sameiginlega framleiðslu útvarpsrekenda á dagskrárefni til útsendingar né heldur um samninga sem varða útsendingartíma,

      c)    gerðardóms- og sáttagerðarþjónustu,

      d)    fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða framsal verðbréfa eða annarra fjármálagerninga, einkum þegar um er að ræða viðskipti samningsyfirvalda í því skyni að afla fjár eða eigin fjár og þjónustu seðlabanka,

      e)    ráðningarsamninga og

      f)    aðra rannsóknar- og þróunarþjónustu en þá sem er eingöngu til hagsbóta fyrir samningsyfirvöld í þeirra eigin starfsemi, að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu.
  17. gr.
  Sérleyfissamningar um þjónustu
  Þessi tilskipun gildir ekki um sérleyfissamninga um þjónustu skv. 4. mgr. 1. gr., sbr. þó 3. gr.
  18. gr.
  Þjónustusamningar sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar
  Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera þjónustusamninga sem samningsyfirvald gerir við annað samningsyfirvald eða við samtök samningsyfirvalda á grundvelli einkaréttar sem þessir aðilar hafa samkvæmt lögum eða stjórnsýslufyrirmælum sem hafa verið birt og samrýmast sáttmálanum.
  4. þáttur
  Sérstakt fyrirkomulag.
  19. gr.
  Samningar sem eru bundnir við ákveðna hópa
  Aðildarríkin geta bundið réttinn til að taka þátt í opinberu útboðsferli við verndaða vinnustaði eða kveðið á um að slíkir samningar skuli framkvæmdir innan ramma áætlana um verndaða vinnu ef flestir starfsmennirnir eru fatlaðir einstaklingar sem geta ekki, vegna þess hvers eðlis eða hve alvarleg fötlunin er, stundað störf við venjulegar aðstæður.
  Vísa skal í þetta ákvæði í útboðstilkynningu.
  III. KAFLI
  Reglur um opinbera þjónustusamninga
  20. gr.
  Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka A
  Samningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem tilgreind er í II. viðauka A, skulu gerðir í samræmi við 23.–55. gr.
  21. gr.
  Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka B
  Samningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem tilgreind er í II. viðauka B, skulu einungis heyra undir 23. gr. og 4. mgr. 35. gr.
  22. gr.
  Blandaðir þjónustusamningar sem varða bæði þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka A og II. viðauka B
  Samningar, sem varða bæði þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka A og II. viðauka B, skulu gerðir skv. 23.–55. gr. þegar verðmæti þjónustunnar, sem tilgreind er í II. viðauka A, er meira en verðmæti þjónustunnar sem tilgreind er í II. viðauka B. Í öðrum tilvikum skulu samningar gerðir skv. 23. gr. og 4. mgr. 35. gr.
  IV. KAFLI
  Sérstakar reglur sem gilda um útboðsskilmála og útboðsgögn
  23. gr.
  Tækniforskriftir
  1. Tækniforskriftirnar, sem eru skilgreindar í 1. lið VI. viðauka, skulu koma fram í útboðsskjölum, svo sem útboðstilkynningum, útboðsgögnum eða viðbótargögnum. Þegar unnt er skal skilgreina þessar tækniforskriftir á þann hátt að tekið sé tillit til forsendna um aðgang fatlaðra eða hönnun sem hæfir öllum notendum.
  2. Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jafna aðgangsmöguleika og skulu ekki fela í sér órökstuddar hindranir í vegi fyrir því að opinber innkaup séu opnuð fyrir samkeppni.
  3. Með fyrirvara um lögboðnar, innlendar tæknireglur, svo fremi að þær samrýmist lögum Bandalagsins, skulu tækniforskriftirnar settar fram á eftirfarandi hátt:

      a)    með tilvísun til tækniforskrifta, sem eru skilgreindar í VI. viðauka, og, í eftirfarandi forgangsröð, til landsstaðla sem hafa verið settir til lögleiðingar Evrópustöðlum, evrópsks tæknisamþykkis, sameiginlegra tækniforskrifta, alþjóðlegra staðla, annarra tæknilegra tilvísunarkerfa, sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, eða, þegar ekkert af þessu er fyrir hendi, til landsstaðla, innlends tæknisamþykkis eða innlendra tækniforskrifta um hönnun, útreikning og framkvæmd verks og notkun vöru. Orðin „eða jafngilt“ skulu fylgja hverri tilvísun,

      b)    eða sem kröfur um nothæfi eða hagnýtingu; hið síðarnefnda getur náð til umhverfiseiginleika. Slíkar breytur verða þó að vera nægilega nákvæmar til að bjóðendur geti gert sér grein fyrir inntaki samningsins og samningsyfirvöld geti gert samning,

      c)    eða sem kröfur um nothæfi eða hagnýtingu, eins og getið er um í b-lið, og vísað til forskriftanna, sem getið er um í a-lið, til að sýna að reiknað sé með að þessar kröfur um nothæfi eða hagnýtingu hafi verið uppfylltar,

      d)    eða með því að vísa til forskriftanna, sem getið er um í a-lið, fyrir tiltekna eiginleika og til krafna um nothæfi eða hagnýtingu, sem getið er um í b- lið, fyrir aðra eiginleika.
  4. Ef samningsyfirvald nýtir þann kost að vísa til forskriftanna, sem um getur í a-lið 3. mgr., getur það ekki vísað frá tilboði af þeirri ástæðu að varan og þjónustan, sem er boðin, sé í ósamræmi við forskriftirnar, sem það vísaði til, ef bjóðandinn færir sönnur á það í tilboði sínu, með einhverjum viðeigandi hætti sem er fullnægjandi að mati samningsyfirvaldsins, að lausnir þær sem hann leggur til uppfylli á jafngildan hátt kröfurnar sem eru ákvarðaðar í tækniforskriftunum.
  Sönnun með viðeigandi hætti getur falist í tækniskjölum frá framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
  5. Ef samningsyfirvald nýtir þann kost, sem kveðið er á um í 3. mgr., að mæla fyrir um kröfur um nothæfi eða hagnýtingu getur það ekki vísað frá tilboði um verk, vörur eða þjónustu sem er í samræmi við landsstaðal til lögleiðingar Evrópustaðli, evrópskt tæknisamþykki, sameiginlega tækniforskrift, alþjóðlegan staðal eða tæknilegt tilvísunarkerfi sem evrópsk staðlastofnun hefur komið á fót ef þessar forskriftir varða kröfurnar um nothæfi eða hagnýtingu sem yfirvaldið hefur mælt fyrir um.
  Í tilboði sínu verður bjóðandi að sanna, með einhverjum viðeigandi hætti sem er fullnægjandi að mati samningsyfirvaldsins, að verkið, varan eða þjónustan, sem er í samræmi við staðalinn, uppfylli kröfur samningsyfirvaldsins um nothæfi eða hagnýtingu.
  Sönnun með viðeigandi hætti getur talist vera tækniskjöl frá framleiðanda eða prófunarskýrsla frá viðurkenndri stofnun.
  6. Ef samningsyfirvöld mæla fyrir um umhverfiseiginleika í formi krafna um nothæfi eða hagnýtingu, eins og um getur í b-lið 3. mgr., geta þau notað nákvæmar forskriftir eða, ef nauðsyn krefur, hluta þeirra eins og skilgreint er fyrir evrópsk eða (fjöl-)þjóðleg umhverfismerki eða einhver önnur umhverfismerki, að því tilskildu:

      —    að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem samningurinn fjallar um,

      —    að kröfur, sem liggja að baki merkinu, byggist á vísindalegum upplýsingum,

      —    að umhverfismerkin séu samþykkt á grundvelli málsmeðferðar sem allir hagsmunaaðilar, svo sem ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifingaraðilar og umhverfisstofnanir, geta tekið þátt í og

      —    að umhverfismerkin séu aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum.
  Samningsyfirvöld geta mælt fyrir um að vörur og þjónusta, sem hafa fengið umhverfismerki, teljist uppfylla tækniforskriftirnar sem mælt er fyrir um í útboðsgögnum; þau skulu samþykkja hvers konar önnur viðeigandi sönnunargögn, svo sem tæknileg skjöl frá framleiðanda eða prófunarskýrslur frá viðurkenndri stofnun.
  7. „Viðurkenndar stofnanir“ í skilningi þessarar greinar eru prófunar- og kvörðunarstofur og vottunar- og skoðunaraðilar sem fullnægja gildandi Evrópustöðlum.
  Samningsyfirvöld skulu samþykkja vottorð frá viðurkenndum stofnunum með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.
  8. Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar tegundar eða grunns eða tiltekins vinnsluferlis né heldur til vörumerkja, einkaleyfa, gerða eða sérstaks uppruna eða framleiðslu með það fyrir augum að halda fram eða útiloka tiltekin fyrirtæki eða tilteknar vörur, sé ekki rökstuðningur fyrir því í efni samningsins. Í undantekningartilvikum er slík tilvísun leyfð ef nægilega nákvæm og skiljanleg lýsing á efni samningsins skv. 3. og 4. mgr. er ekki möguleg; orðin „eða jafngilt“ skulu fylgja slíkri tilvísun.
  24. gr.
  Frávikstilboð
  1. Ef forsenda fyrir samningsgerð er fjárhagslega hagstæðasta tilboðið geta samningsyfirvöld heimilað bjóðendum að leggja fram frávikstilboð.
  2. Samningsyfirvöld skulu geta þess í útboðstilkynningu hvort þau heimila frávikstilboð eða ekki: sé það ekki gert eru frávikstilboð óheimil.
  3. Samningsyfirvöld, sem heimila frávikstilboð, skulu, í útboðsgögnum, gera grein fyrir lágmarkskröfum sem þarf að uppfylla í frávikstilboðum og öllum sérkröfum varðandi framlagningu þeirra.
  4. Samningsyfirvöld skulu einungis taka til greina frávikstilboð sem uppfylla tilskildar lágmarkskröfur.
  Í útboðum vegna opinberra vöru- eða þjónustusamninga geta samningsyfirvöld, sem hafa heimilað frávikstilboð, ekki vísað frávikstilboði frá af þeirri ástæðu einni að ef það tilboð yrði fyrir valinu yrði annaðhvort gerður þjónustusamningur fremur en vörusamningur eða vörusamningur fremur en þjónustusamningur.
  25. gr.
  Undirverktakar
  Í útboðsgögnum getur samningsyfirvald óskað eftir því, eða óskað eftir því að kröfu aðildarríkis, að bjóðandi tilgreini í tilboði sínu hvaða hluta samningsins hann hyggst láta þriðju aðila framkvæma sem undirverktaka og hverjir það eru.
  Þessar upplýsingar skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð rekstraraðilans sem er aðalverktaki.
  26. gr.
  Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings
  Samningsyfirvöld geta mælt fyrir um sérstök skilyrði varðandi framkvæmd samnings, að því tilskildu að þau samrýmist lögum Bandalagsins og séu tilgreind í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum. Skilyrði um framkvæmd samnings geta einkum varðað félagsleg málefni og umhverfismál.
  27. gr.
  Skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuskilyrði
  1. Samningsyfirvald getur tilgreint í útboðsgögnum, eða tilgreint að kröfu aðildarríkis, þá stofnun eða stofnanir sem þátttakandi eða bjóðandi getur fengið viðeigandi upplýsingar hjá um skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði sem gilda í aðildarríkinu, á svæðinu eða á staðnum þar sem framkvæma á verkið eða veita þjónustuna og sem eiga að gilda um verk sem eru framkvæmd á byggingarstað eða um þjónustu sem er veitt meðan á framkvæmd samningsins stendur.
  2. Samningsyfirvald, sem veitir upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., skal óska eftir því við bjóðendur eða þátttakendur í útboðsferli að þeir staðfesti að þeir hafi, í tilboði sínu, tekið tillit til skyldna varðandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði sem gilda á staðnum þar sem verkið verður framkvæmt eða þjónustan veitt.
  Fyrsta undirgreinin er með fyrirvara um beitingu ákvæða 55. gr. um rannsókn á óeðlilega lágum tilboðum.
  V. KAFLI
  Útboðsaðferðir
  28. gr.
  Almennt útboð, lokað útboð, samningskaup og samkeppnisviðræður
  Þegar gera á opinbera samninga skulu samningsyfirvöld beita innlendum útboðsaðferðum sem eru lagaðar að efni þessarar tilskipunar.
  Þau skulu gera þessa samninga á grundvelli almennra eða lokaðra útboða. Við sérstakar aðstæður, sem skýrt er kveðið á um í 29. gr., geta samningsyfirvöld gert opinbera samninga á grundvelli samkeppnisviðræðna. Í þeim sérstöku tilvikum og við þær aðstæður sem sérstaklega er getið um í 30. og 31. gr. geta þau gengið til samningskaupa með eða án útboðstilkynningar.
  29. gr.
  Samkeppnisviðræður
  1. Ef um er að ræða sérlega flókna samninga geta aðildarríkin kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt, ef þau telja að ekki sé hægt að gera samning á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs, að gera hann á grundvelli samkeppnisviðræðna í samræmi við þessa grein.
  Opinber samningur skal gerður eingöngu á grundvelli valforsendu um fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið.
  2. Samningsyfirvöld skulu birta útboðstilkynningu þar sem fram koma þarfir þeirra og kröfur sem þau skulu skilgreina í tilkynningunni og/eða í skýringargögnum.
  3. Samningsyfirvöld skulu hefja viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið í samræmi við viðeigandi ákvæði 44.–52. gr., með það að markmiði að finna og skilgreina heppilegustu aðferðirnar við að uppfylla þarfir sínar. Í þessum viðræðum geta þau rætt öll atriði samningsins við valda þátttakendur.
  Í viðræðunum skulu samningsyfirvöld tryggja að allir bjóðendur fái jafna meðferð. Einkum skulu þau gæta þess að veita ekki upplýsingar á þann hátt að bjóðendum sé mismunað þannig að staða sumra þeirra verði betri en annarra.
  Samningsyfirvöldum er óheimilt að upplýsa aðra þátttakendur um fyrirhugaðar lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar, sem þátttakandi í viðræðunum hefur veitt, án samþykkis hans.
  4. Samningsyfirvöld geta ákveðið að samningsferlið fari fram í nokkrum áföngum til að fækka þeim lausnum sem fjalla þarf um í samningsviðræðum; það má gera á grundvelli valforsendna í útboðstilkynningu eða skýringargögnum. Tekið skal fram, í útboðstilkynningu eða skýringargögnum, að unnt sé að nýta þennan kost.
  5. Samningsyfirvaldið skal halda áfram slíkum viðræðum þar til fundist hefur lausn eða lausnir sem geta uppfyllt þarfir þeirra og lausnirnar hafa verið bornar saman ef það er nauðsynlegt.
  6. Þegar samningsyfirvöld hafa lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt þátttakendum um það skulu þau gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð á grundvelli þeirrar lausnar eða lausna sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll atriði sem krafist er og eru nauðsynleg fyrir framkvæmd verkefnisins.
  Þessi tilboð má skýra, skilgreina og lagfæra ef samningsyfirvaldið fer þess á leit. Slíkar skýringar, skilgreiningar, lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs eða boðs um að leggja fram tilboð þar eð slík frávik eru líkleg til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun.
  7. Samningsyfirvöld skulu meta tilboð, sem þeim berast á grundvelli valforsendna, sem mælt er fyrir um í útboðstilkynningu eða skýringargögnum og skulu þau velja fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið í samræmi við 53. gr.
  Samningsyfirvaldi er heimilt að óska eftir því að bjóðandi, sem hefur lagt fram fjárhagslega hagstæðasta tilboðið, skýri ákveðin atriði í tilboðinu eða staðfesti skuldbindingar sem felast í tilboðinu, að því tilskildu að það hafi ekki í för með sér breytingar á veigamiklum atriðum í tilboðinu eða boðinu um að leggja fram tilboð og að ekki sé hætta á að það raski samkeppni eða ýti undir mismunun.
  8. Samningsyfirvöldum er heimilt að ákveða verðlaun eða greiðslur til þátttakenda í viðræðunum.
  30. gr.
  Samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar
  1. Samningsyfirvöld geta gert opinbera samninga á þann hátt að ganga til samningskaupa að undangenginni birtingu útboðstilkynningar í eftirfarandi tilvikum:

      a)    þegar um er að ræða ófullnægjandi tilboð, sem lögð eru fram í tengslum við almenn eða lokuð útboð eða samkeppnisviðræður, eða tilboð sem eru óviðunandi samkvæmt innlendum ákvæðum, sem samrýmast 4., 24., 25., 27. gr. og VII. kafla, að því tilskildu að upphaflegum skilmálum samningsins sé ekki breytt í veigamiklum atriðum.
 • Samningsyfirvöld þurfa ekki að birta útboðstilkynningu ef þau taka með í samningskaupum alla þá bjóðendur, og enga aðra, sem uppfylla forsendur 45.–52. gr. og sem lögðu fram tilboð í samræmi við formlegar kröfur um tilboðsferli í undanfarandi almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum,

 •     b)    í undantekningartilvikum, þegar verk, vara eða þjónusta er af því tagi eða fylgir slík áhætta að ekki reynist unnt að áætla heildarkostnað fyrir fram,

      c)    þegar um er að ræða þjónustu, m.a. þjónustu í 6. flokki II. viðauka A og hugverk, t.d. hönnun verka, ef þjónustan, sem veita á, er þess eðlis að ekki er unnt að skilgreina útboðsskilmála af nægilegri nákvæmni til að hægt sé að gera samning á grundvelli besta tilboðs samkvæmt reglum um almenn eða lokuð útboð,

      d)    þegar um er að ræða opinbera verksamninga um verk sem eru eingöngu unnin vegna rannsókna, tilrauna eða þróunar og ekki í ágóðaskyni eða til þess að mæta kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.
  2. Í tilvikum, sem um getur í 1. mgr., skulu samningsyfirvöld ræða við bjóðendur um þau tilboð sem þeir hafa lagt fram með það fyrir augum að laga þau að kröfunum sem samningsyfirvöld hafa sett fram í útboðstilkynningu, útboðsskilmálum og viðbótargögnum, ef einhver eru, og leita besta tilboðsins í samræmi við 1. mgr. 53. gr.
  3. Í viðræðunum skulu samningsyfirvöld tryggja að jafnræðis sé gætt meðal allra bjóðenda. Einkum skulu þau gæta þess að veita ekki upplýsingar á þann hátt að bjóðendum sé mismunað þannig að staða sumra þeirra verði betri en annarra.
  4. Samningsyfirvöld geta ákveðið að samningsferlið fari fram í nokkrum áföngum til að fækka þeim tilboðum, sem fjalla þarf um í samningsviðræðum, með því að beita valforsendunum í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum. Taka skal fram í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum hvort unnt sé að nýta þennan kost.
  31. gr.
  Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar
  Samningsyfirvöld geta gert opinbera samninga með samningskaupum án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar í eftirfarandi tilvikum:

      1)    að því er varðar opinbera verksamninga, opinbera vörusamninga og opinbera þjónustusamninga:

      a)    ef engin tilboð eða engin gild tilboð eða engar umsóknir hafa borist vegna almenns eða lokaðs útboðs, að því tilskildu að ekki hafi verið vikið frá upphaflegum samningsskilmálum í veigamiklum atriðum og að framkvæmdastjórninni sé send skýrsla, ef hún óskar eftir því,

      b)    þegar aðeins er unnt að gera samning við einn tiltekinn rekstraraðila af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða þegar vernda þarf einkarétt,

      c)    ef það er algerlega nauðsynlegt og ekki er hægt, af knýjandi ástæðum sem viðkomandi samningsyfirvöld gátu ekki séð fyrir, að standa við fresti sem gilda við almenn eða lokuð útboð eða samningkaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, eins og um getur í 30. gr. Aðstæðurnar, sem skírskotað er til sem knýjandi, mega ekki undir neinum kringumstæðum skrifast á reikning samningsyfirvalds,

      2)    að því er varðar opinbera vörusamninga:

      a)    þegar um er að ræða vörur sem eru eingöngu framleiddar vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar; þetta ákvæði nær ekki til fjöldaframleiðslu sem er ætlað að skila hagnaði eða mæta kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna,

      b)    þegar um er að ræða viðbótarvörur frá upphaflegum birgi sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru viðbót við venjulegar birgðir eða búnað og val á nýjum birgi myndi skuldbinda samningsyfirvald til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og leiddu því til ósamhæfis eða óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald; slíkir samningar, svo og endurnýjaðir samningar, skulu að jafnaði ekki gilda lengur en í þrjú ár,

      c)    þegar um er að ræða vörur sem eru skráðar og keyptar á vörumarkaði,

      d)    þegar um er að ræða kaup á vörum á sérlega góðum kjörum, annaðhvort hjá birgi sem er að hætta starfsemi sinni eða bústjóra eða skiptastjóra við þrotabúsmeðferð, nauðasamninga eða svipaða málsmeðferð samkvæmt innlendum lögum eða reglum,

      3)    að því er varðar opinbera þjónustusamninga, þegar viðkomandi samningur er gerður að lokinni samkeppni um hönnun og skylt er, samkvæmt gildandi reglum, að semja við sigurvegarann eða einn sigurvegaranna í keppninni verður, í síðarnefnda tilvikinu, að bjóða öllum sigurvegurunum að taka þátt í samningaviðræðum,

      4)    að því er varðar opinbera verksamninga og opinbera þjónustusamninga:

      a)    þegar um er að ræða viðbótarverk eða -þjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í verkefninu sem var upphaflega áætlað eða í upphaflegum samningi en sem hafa, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, orðið nauðsynleg fyrir framkvæmd verksins eða þjónustunnar sem þar er lýst, að því tilskildu að samningurinn sé gerður við rekstraraðilann sem annast framkvæmd þessa verks eða þjónustu:

      —    þegar ekki er unnt að aðskilja slíkt viðbótarverk eða -þjónustu frá upphaflega samningnum af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum án þess að valda samningsyfirvöldum miklum óþægindum,
 • eða

 •     —    þegar slík viðbótarverk eða þjónusta eru alveg nauðsynleg fyrir framkvæmd upphaflega samningsins þótt unnt sé að aðskilja verkið eða þjónustuna frá honum.
 • Samanlagt verðmæti samninga, sem gerðir eru vegna viðbótarverka eða viðbótarþjónustu, má þó ekki fara yfir 50% af verðmæti upphaflega samningsins,

 •     b)    þegar um er að ræða nýtt verk eða þjónustu sem felur í sér endurtekningu á svipuðu verki eða þjónustu og sama samningsyfirvald samdi upphaflega um við sama rekstraraðila, að því tilskildu að slíkt verk eða þjónusta sé í samræmi við grunnverkefnið sem upphaflegi samningurinn var gerður um á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs.
 • Þegar fyrra verkefnið er boðið út skal taka fram að þessari aðferð kunni að verða beitt og samningsyfirvöld skulu taka tillit til áætlaðs heildarkostnaðar síðari verka eða þjónustu þegar þau beita ákvæðum 7. gr.
 • Þessari aðferð má aðeins beita innan þriggja ára frá gerð upphaflega samningsins.
 • 32. gr.
  Rammasamningar
  1. Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt að gera rammasamninga.
  2. Hafi samningsyfirvöld í hyggju að gera rammasamning skulu þau fylgja starfsreglunum, sem um getur í þessari tilskipun, á öllum stigum fram að gerð samnings sem er byggður á rammasamningnum. Við val á aðilum að rammasamningum skal beita valforsendunum sem eru ákveðnar í samræmi við 53. gr.
  Samningar, sem eru byggðir á rammasamningi, skulu gerðir í samræmi við aðferðirnar sem mælt er fyrir um í 3. og 4. mgr. Einungis má beita þessum aðferðum í samningum á milli samningsyfirvalda og rekstraraðila sem voru upphaflega aðilar að rammasamningnum.
  Þegar gerðir eru samningar á grundvelli rammasamnings mega samningsaðilar undir engum kringumstæðum gera verulegar breytingar á skilmálunum, sem mælt er fyrir um í þeim rammasamningi, og alls ekki í tilvikum sem um getur í 3. mgr.
  Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en fjögur ár nema í undantekningartilvikum sem eiga sér m.a. gilda stoð í efni rammasamningsins.
  Samningsyfirvöld mega ekki misnota rammasamninga eða nota þá á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni.
  3. Ef rammasamningur er gerður við einn rekstraraðila skulu samningar, sem eru byggðir á þeim samningi, gerðir innan ramma þeirra skilmála sem mælt er fyrir um í rammasamningnum.
  Við gerð slíkra samninga geta samningsyfirvöld ráðfært sig skriflega við rekstraraðila rammasamningsins og óskað eftir viðbótum við tilboð hans ef þörf krefur.
  4. Ef rammasamningur er gerður við fleiri en einn rekstraraðila verða þeir að vera a.m.k. þrír talsins, að því tilskildu að fyrir hendi séu nægilega margir rekstraraðilar sem uppfylla valforsendur og/eða nægilega mörg fullnægjandi tilboð.
  Samninga, sem eru byggðir á rammasamningi við fleiri en einn rekstraraðila, má gera annaðhvort:

      —    með þeim skilmálum, sem mælt er fyrir um í rammasamningnum, án þess að nýtt boð um að leggja fram tilboð sé sent eða

      —    ef ekki hefur verið mælt fyrir um alla skilmála í rammasamningnum, eftir að aðilarnir hafa lagt fram ný tilboð á grundvelli sömu skilmála, sem skulu skýrðir nánar ef það er nauðsynlegt, og, eftir atvikum, á grundvelli annarra skilyrða sem um getur í útboðsskilmálum rammasamningsins í samræmi við eftirfarandi reglur:

      a)    við gerð hvers samnings skulu samningsyfirvöld ráðfæra sig skriflega við þá rekstraraðila sem hafa burði til að framkvæma samninginn,

      b)    samningsyfirvöld skulu ákveða tilboðsfrest sem er hæfilega langur til að bjóðendur geti lagt fram tilboð vegna hvers einstaks samnings, að teknu tilliti til þess hve flókið efni samningsins er, hve langan tíma það tekur að leggja fram tilboð og annarra slíkra þátta,

      c)    tilboð skulu vera skrifleg og efni þeirra skal vera trúnaðarmál þar til tilgreindur frestur til að svara þeim er útrunninn,

      d)    samningsyfirvöld skulu gera samning við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli þeirra valforsendna sem koma fram í útboðsskilmálum rammasamningsins.
  33. gr.
  Virk innkaupakerfi
  1. Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt að nýta sér virk innkaupakerfi.
  2. Þegar samningsyfirvöld koma á fót virku innkaupakerfi skulu þau fara að reglum um almenn útboð á öllum stigum fram til þess að gerður er samningur samkvæmt því kerfi. Allir bjóðendur, sem uppfylla valforsendur og hafa lagt fram kynningarboð í samræmi við útboðsskilmála og önnur möguleg viðbótargögn, skulu hafa aðgang að kerfinu; endurbæta má kynningarboð hvenær sem er, að því tilskildu að þau samrýmist áfram útboðsskilmálum. Þegar kerfinu er komið á fót og gerðir samningar samkvæmt því skulu samningsyfirvöld eingöngu nýta sér rafrænar aðferðir í samræmi við 2.–5. mgr. 42. gr.
  3. Þegar virku innkaupakerfi er komið á fót skulu samningsyfirvöld:

      a)    birta útboðstilkynningu þar sem skýrt er tekið fram að um virkt innkaupakerfi sé að ræða,

      b)    tilgreina m.a. í útboðsskilmálum hvers konar innkaup séu fyrirhuguð samkvæmt þessu innkaupakerfi og einnig nauðsynlegar upplýsingar um kerfið, rafeindabúnaðinn sem er notaður og tæknilegt fyrirkomulag og forskriftir varðandi tengingar við kerfið,

      c)    veita með rafrænum hætti, ótakmarkaðan, beinan og fullan aðgang að útboðsskilmálum og öllum viðbótargögnum frá og með birtingu útboðstilkynningar og fram að þeim tíma þegar kerfinu er lokað og skulu tilgreina, í tilkynningunni, veffang þar sem hægt er að nálgast umrædd gögn.
  4. Samningsyfirvöld skulu, allan þann tíma sem aðgangur að virka innkaupakerfinu er opinn, gefa öllum rekstraraðilum kost á því að leggja fram kynningartilboð og fá aðgang að kerfinu með þeim skilyrðum sem um getur í 2. mgr. Þau skulu ljúka mati sínu innan 15 daga frá því að kynningarboðið er lagt fram. Þau geta þó framlengt frestinn, að því tilskildu að ekkert útboð fari fram á meðan.
  Samningsyfirvöld skulu upplýsa bjóðandann, sem um getur í fyrstu undirgrein, eins fljótt og unnt er, um það hvort hann hafi fengið aðgang að virka innkaupakerfinu eða hvort kynningarboði hans hafi verið hafnað.
  5. Hver einstakur samningur skal gerður á grundvelli útboðs. Áður en útboð fer fram skulu samningsyfirvöld birta einfaldaða útboðstilkynningu þar sem öllum hlutaðeigandi rekstraraðilum er boðið að leggja fram kynningarboð í samræmi við 4. mgr. innan frests sem má ekki vera skemmri en 15 dagar, reiknað frá þeim degi er einfaldaða tilkynningin var send út. Samningsyfirvöld geta ekki haldið áfram með tilboðið fyrr en þau hafa lokið mati á öllum kynningarboðum sem hafa borist fyrir þann tíma.
  6. Samningsyfirvöld skulu bjóða öllum bjóðendum, sem hafa fengið aðgang að kerfinu, að leggja fram tilboð fyrir hvern einstakan samning sem gera á innan kerfisins. Í þessu skyni skulu þau setja frest til að leggja fram tilboð.
  Þau skulu gera samning við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli valforsendna, sem koma fram í útboðstilkynningunni, þar sem tilkynnt er að virku innkaupakerfi hafi verið komið á fót. Þessar forsendur má skilgreina nánar, ef við á, í boðinu sem um getur í fyrstu undirgrein.
  7. Virkt innkaupakerfi má ekki hafa lengri gildistíma en fjögur ár nema í vel rökstuddum undantekningartilvikum.
  Samningsyfirvöld mega ekki nota þetta kerfi til að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni.
  Ekki má leggja nein gjöld á hlutaðeigandi rekstraraðila eða þá sem eiga aðild að kerfinu.
  34. gr.
  Opinberir verksamningar: sérstakar reglur um byggingu félagslegs húsnæðis
  Þegar um er að ræða opinbera samninga í tengslum við hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis og nauðsynlegt er, vegna þess hve verkið er umfangsmikið, flókið og tekur langan tíma, að áætlanir séu frá upphafi byggðar á nánu samstarfi hóps, sem í eru fulltrúar samningsyfirvalda, sérfræðingar og verktakinn sem á að bera ábyrgð á framkvæmd verksins, er hægt að samþykkja sérstakt útboðsferli svo að unnt sé að velja þann verktaka sem er líklegastur til að falla inn í hópinn.
  Í útboðstilkynningunni skulu samningsyfirvöld einkum lýsa verkinu, sem á að framkvæma, eins nákvæmlega og unnt er til að áhugasamir verktakar geti gert sér rétta hugmynd um framkvæmdina. Enn fremur skulu samningsyfirvöld setja fram kröfur um persónulegt, tæknilegt, efnahagslegt og fjárhagslegt hæfi þátttakenda í útboðstilkynningu í samræmi við forsendur fyrir hæfismiðuðu vali sem um getur í 45.–52. gr.
  Þegar slíkt ferli er samþykkt skulu samningsyfirvöld beita 2., 35., 36., 38., 39., 41., 42., 43. og 45.–52. gr.
  VI. KAFLI
  Reglur um birtingu og gagnsæi
  1. þáttur
  Birting tilkynninga
  35. gr.
  Tilkynningar
  1. Samningsyfirvöld skulu veita upplýsingar um eftirfarandi í kynningartilkynningu, sem framkvæmdastjórnin birtir eða samningsyfirvöld birta sjálf í „upplýsingaskrá kaupanda“, eins og lýst er í b-lið 2. liðar VIII. viðauka:

      a)    varðandi vörur, áætlað heildarverðmæti samninganna eða rammasamninganna fyrir hvert vörusvið sem þau hyggjast gera samning um næstu 12 mánuði þar sem áætlað heildarverðmæti, að teknu tilliti til ákvæða 7. og 9. gr., er 750 000 evrur eða meira.
 • Samningsyfirvöld ákvarða vörusvið með tilvísun til CPV-flokkunarkerfisins,

 •     b)    varðandi þjónustu, áætlað heildarverðmæti samninganna eða rammasamninganna fyrir hvern þjónustuflokk, sem er skráður í II. viðauka A, sem þau hyggjast gera samning um næstu 12 mánuði, þar sem áætlað heildarverðmæti, að teknu tilliti til ákvæða 7. og 9. gr., er 750 000 evrur eða meira,

      c)    varðandi verk, helstu einkenni samnings eða rammasamnings, sem þau hyggjast gera, þar sem áætlað verðmæti er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni sem er tilgreind í 7. gr. eða meira, að teknu tilliti til 9. gr.
  Senda skal tilkynningarnar, sem um getur í a- og b- lið, til framkvæmdastjórnarinnar eða birta þær í upplýsingaskrá kaupanda eins fljótt og unnt er eftir að nýtt fjárhagsár er hafið.
  Senda skal tilkynninguna, sem um getur í c-lið, til framkvæmdastjórnarinnar eða birta hana í upplýsingaskrá kaupanda eins fljótt og unnt er eftir að samþykkt hefur verið áætlun um fyrirhugaða verksamninga eða rammasamninga samningsyfirvalda.
  Samningsyfirvöld, sem birta kynningartilkynningu í upplýsingaskrá kaupanda, skulu senda framkvæmdastjórninni rafræna tilkynningu um birtingu kynningartilkynningar í upplýsingaskrá kaupanda í samræmi við það snið og þær sérstöku aðferðir við sendingu tilkynninga sem settar eru fram í 3. lið VIII. viðauka.
  Birting tilkynninga, sem um getur í a-, b- og c-lið, er einungis skyldubundin þegar samningsyfirvöld nýta heimild sína til að stytta tilboðsfrest eins og mælt er fyrir um í 4. mgr. 38. gr.
  Þessi málsgrein gildir ekki um samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar.
  2. Samningsyfirvöld, sem hyggjast gera opinberan samning eða rammasamning á grundvelli almenns útboðs, lokaðs útboðs eða, við aðstæður sem mælt er fyrir um í 30. gr., á grundvelli samningskaupa, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar eða á grundvelli samkeppnisviðræðna með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 29. gr., skulu láta vita af fyrirætlun sinni með útboðstilkynningu.
  3. Samningsyfirvöld, sem hyggjast koma á fót virku innkaupakerfi, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með útboðstilkynningu.
  Samningsyfirvöld, sem hyggjast gera samning á grundvelli virks innkaupakerfis, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með einfaldaðri útboðstilkynningu.
  4. Samningsyfirvöld, sem hafa gert opinberan samning eða rammasamning, skulu senda tilkynningu um niðurstöður útboðs eigi síðar en 48 dögum eftir að tilboð er valið eða rammasamningur gerður.
  Þegar um er að ræða rammasamning, sem er gerður í samræmi við 32. gr., ber samningsyfirvöldum ekki skylda til að senda tilkynningu um niðurstöður útboðs fyrir hvern samning sem er byggður á þeim rammasamningi.
  Samningsyfirvöld skulu senda tilkynningu um niðurstöður útboðs, sem grundvallast á virku innkaupakerfi, innan 48 daga frá því að niðurstöður liggja fyrir. Þau hafa þó heimild til að safna slíkum tilkynningum saman og senda þær ársfjórðungslega. Í því tilviki skulu þau senda samsafnaðar tilkynningar innan 48 daga frá lokum hvers ársfjórðungs.
  Þegar um er að ræða opinbera samninga um þjónustu, sem er tilgreind í II. viðauka B, skulu samningsyfirvöld tilgreina, í tilkynningunni, hvort þau samþykkja birtingu þeirra. Þegar um slíka þjónustusamninga er að ræða skal framkvæmdastjórnin setja reglur um vinnslu tölulegra skýrslna á grundvelli slíkra tilkynninga og um birtingu slíkra skýrslna í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 77. gr.
  Heimilt er að halda eftir tilteknum upplýsingum um gerð samnings eða rammasamnings ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna rekstraraðila eða réttmæta samkeppni þeirra á milli.
  36. gr.
  Form og aðferð við birtingu tilkynninga
  1. Í tilkynningum skulu koma fram upplýsingarnar, sem getið er um í VII. viðauka A, og, eftir því sem við á, hvers konar upplýsingar aðrar, sem samningsyfirvöld telja gagnlegar, á stöðluðu eyðublaði sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 77. gr.
  2. Tilkynningar, sem samningsyfirvöld senda framkvæmdastjórninni, skulu sendar annaðhvort með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, eða á annan hátt. Þegar um er að ræða hraðútboð, sem fjallað er um í 8. mgr. 38. gr., skal senda tilkynningar annaðhvort með símbréfi eða með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka.
  Tilkynningar skulu birtar í samræmi við tæknilegar kröfur um birtingu sem settar eru fram í a- og b-lið 1. liðar VIII. viðauka.
  3. Tilkynningar, sem eru samdar og sendar með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, skulu birtar eigi síðar en fimm dögum eftir að þær eru sendar.
  Tilkynningar, sem eru ekki sendar með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, skulu birtar eigi síðar en 12 dögum eftir að þær eru sendar eða, þegar um er að ræða hraðútboð sem um getur í 8. gr. 38. gr., eigi síðar en fimm dögum eftir að þær eru sendar.
  4. Útboðstilkynningar skulu birtar í fullri lengd á opinberu tungumáli Bandalagsins sem samningsyfirvald velur og skal einungis sá texti, sem er birtur á þessu upprunalega tungumáli, vera gildur texti. Birta skal samantekt á mikilvægum þáttum hverrar tilkynningar á öðrum, opinberum tungumálum Bandalagsins.
  Bandalagið ber kostnað af birtingu framkvæmdastjórnarinnar á slíkum tilkynningum.
  5. Óheimilt er að birta tilkynningar og efni þeirra á innlendum vettvangi fyrir þann dag sem þær eru sendar til framkvæmdastjórnarinnar.
  Tilkynningar, sem eru birtar á innlendum vettvangi, skulu ekki innihalda aðrar upplýsingar en þær sem koma fram í tilkynningum, sem eru sendar til framkvæmdastjórnarinnar, eða í upplýsingaskrá kaupanda samkvæmt fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr. en í þeim skal getið um það hvaða dag tilkynningin er send til framkvæmdastjórnarinnar eða hvenær hún birtist í upplýsingaskrá kaupanda.
  Ekki má birta kynningartilkynningu í upplýsingaskrá kaupanda fyrr en tilkynning hefur verið send til framkvæmdastjórnarinnar um að birting verði í því formi; í henni skal getið um sendingardag.
  6. Tilkynningar, sem eru ekki sendar með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, skulu ekki vera lengri en u.þ.b. 650 orð.
  7. Samningsyfirvöld verða að geta sannað hvaða dag tilkynningar eru sendar.
  8. Framkvæmdastjórnin skal gefa samningsyfirvöldum staðfestingu á því að upplýsingarnar, sem sendar voru, hafi verið birtar og tiltaka daginn sem þær birtust. Slík staðfesting skal vera sönnunargagn um birtingu.
  37. gr.
  Birting án skyldu
  Samningsyfirvöld geta, í samræmi við 36. gr., birt tilkynningar um opinbera samninga sem falla ekki undir kröfur um birtingu sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
  2. þáttur
  Frestur
  38. gr.
  Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
  1. Þegar samningsyfirvöld setja tilboðsfrest og frest til að leggja fram þátttökutilkynningar skulu þau einkum taka tillit til þess hve flókið efni samningsins er og hve langan tíma þarf til að semja tilboð, sbr. þó lágmarksfrest sem kveðið er á um í þessari grein.
  2. Þegar um er að ræða almenn útboð skal tilboðsfrestur vera að lágmarki 52 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar.
  3. Þegar um er að ræða lokuð útboð, samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar sem um getur í 30. gr., og samkeppnisviðræður:

      a)    skal skilafrestur þátttökutilkynninga vera að lágmarki 37 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar.

      b)    skal tilboðsfrestur í lokuðu útboði vera að lágmarki 40 dagar frá sendingardegi boðs um að leggja fram tilboð.
  4. Ef samningsyfirvöld hafa birt kynningartilkynningu er almenna reglan sú að heimilt er að stytta lágmarksfrest til að leggja fram tilboð skv. 2. mgr. og b-lið 3. mgr. í 36 daga en aldrei svo mikið að hann verði styttri en 22 dagar.
  Í almennu útboði reiknast frestur frá sendingardegi útboðstilkynningar og í lokuðu útboði frá sendingardegi boðs um að leggja fram tilboð.
  Leyfa skal styttan frest, sem um getur í fyrstu undirgrein, að því tilskildu að kynningartilkynningin hafi að geyma allar upplýsingar, sem krafist er í VII. viðauka A að séu í útboðstilkynningunni, svo fremi að þær upplýsingar séu tiltækar á þeim tíma sem tilkynningin er birt og að kynningartilkynningin hafi verið send til birtingar minnst 52 dögum og mest 12 mánuðum fyrir sendingardag útboðstilkynningarinnar.
  5. Ef tilkynningar eru samdar og sendar með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir, sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, er heimilt að stytta tilboðsfrest í almennum útboðum, sem um getur í 2. og 4. mgr., og frest til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem um getur í a-lið 3. mgr., í lokuðum útboðum, samningskaupum og samkeppnisviðræðum, um sjö daga.
  6. Heimilt er að stytta tilboðsfrest, sem um getur í 2. mgr. og b-lið 3. mgr., um fimm daga ef samningsyfirvald býður ótakmarkaðan, beinan og fullan, rafrænan aðgang að útboðsgögnum og öllum viðbótargögnum frá og með birtingardegi tilkynningarinnar, í samræmi við VIII. viðauka, og í texta tilkynningarinnar kemur fram veffangið þar sem hægt er að nálgast þessi gögn.
  Heimilt er að bæta þessari styttingu á fresti við styttinguna sem um getur í 5. mgr.
  7. Ef útboðsskilmálar og fylgiskjöl eða viðbótarupplýsingar eru af einhverjum ástæðum ekki afhent innan þeirra tímamarka, sem eru sett í 39. og 40. gr., þótt beðið hafi verið um þessi gögn með góðum fyrirvara, eða, ef ekki er unnt að gera tilboð fyrr en að lokinni vettvangsskoðun eða athugun á fylgiskjölum útboðsgagna á vettvangi, skal lengja tilboðsfrest svo að allir viðkomandi rekstraraðilar geti kynnt sér allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við gerð tilboðs.
  8. Þegar um að ræða lokuð útboð og samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar sem um getur í 30. gr., og ógerlegt er að veita frest sem mælt er fyrir um í þessari grein, vegna tímaskorts, geta samningsyfirvöld sett:

      a)    frest til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem má ekki vera styttri en 15 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningarinnar og ekki styttri en 10 dagar ef tilkynningin er send með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka,

      b)    og, ef um er að ræða lokuð útboð, tilboðsfrest sem skal ekki vera skemmri en 10 dagar, reiknað frá dagsetningu boðs um að leggja fram tilboð.
  39. gr.
  Almenn útboð: útboðsskilmálar, viðbótargögn og upplýsingar
  1. Í almennum útboðum, þar sem samningsyfirvöld veita ekki ótakmarkaðan, beinan og fullan, rafrænan aðgang, í samræmi við 6. mgr. 38. gr., að útboðsskilmálum og fylgiskjölum, skal senda útboðsskilmála og fylgiskjöl til rekstraraðila innan sex daga frá því að þátttökutilkynning berst, að því tilskildu að tilkynningin hafi verið lögð fram hæfilega löngu fyrir síðasta skiladag tilboða.
  2. Samningsyfirvöld eða þar til bærar stofnanir skulu láta í té viðbótarupplýsingar sem tengjast útboðsskilmálum og öll fylgiskjöl eigi síðar en sex dögum fyrir síðasta skiladag tilboða, að því tilskildu að beðið hafi verið um þessar upplýsingar með góðum fyrirvara.
  3. þáttur
  Efni upplýsinga og sendingaraðferðir
  40. gr.
  Boð um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða gera samning
  1. Í lokuðum útboðum, samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar í skilningi 30. gr., skulu samningsyfirvöld bjóða völdum þátttakendum, samtímis og skriflega, að leggja fram tilboð sín eða ganga til samninga eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, að taka þátt í viðræðunum.
  2. Boð til þátttakenda skal hafa að geyma annaðhvort:

      —    afrit af útboðsskilmálum eða skýringargögnum ásamt öllum fylgiskjölum eða

      —    vísun í aðgang að útboðsskilmálum og öðrum gögnum sem eru tilgreind í fyrsta undirlið ef beinn aðgangur er veittur að þeim með rafrænum aðferðum í samræmi við 6. mgr. 38. gr.
  3. Ef annar aðili en samningsyfirvaldið, sem ber ábyrgð á útboðinu, hefur útboðsskilmála, skýringargögn og/eða fylgiskjöl af einhverju tagi undir höndum skal koma fram, í boðinu, hvar hægt er að fá þessa skilmála, skýringargögn og fylgiskjöl og, ef við á, frestur til að leggja fram beiðni um þessi gögn og hvaða fjárhæð ber að greiða fyrir þau, svo og greiðsluskilmálar. Þar til bær stofnun skal þegar í stað senda þessi gögn til rekstraraðilans sem óskar eftir þeim.
  4. Samningsyfirvöld eða þar til bær stofnun skal senda viðbótarupplýsingar um útboðsskilmála, skýringargögn eða fylgiskjöl eigi síðar en sex dögum fyrir síðasta skiladag tilboða, að því tilskildu að beðið hafi verið um þessar upplýsingar með góðum fyrirvara. Sé um að ræða lokað útboð eða hraðútboð skal þessi frestur vera fjórir dagar.
  5. Auk þess verður a.m.k. að koma fram í boði um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða ganga til samninga:

      a)    tilvísun til útboðstilkynningar sem hefur verið birt,

      b)    síðasti skiladagur tilboða, heimilisfangið sem senda á tilboðin til og upplýsingar um á hvaða tungumáli eða tungumálum þau skuli vera,

      c)    sé um að ræða samkeppnisviðræður, dagsetning og heimilisfangið þar sem viðræður hefjast og tungumálið eða tungumálin sem eru notuð,

      d)    upplýsingar um það hvaða skjöl eigi hugsanlega að láta fylgja með, annaðhvort til stuðnings yfirlýsingum, sem unnt er að sannreyna og sem bjóðandi hefur sett fram, í samræmi við 44. gr., eða til að auka við upplýsingar, sem um getur í þeirri grein, og samkvæmt skilyrðum sem mælt er fyrir um í 47. og 48. gr.,

      e)    hlutfallslegt vægi forsendna fyrir gerð samnings eða, ef við á, forgangsröð slíkra forsendna ef það er ekki tilgreint í útboðstilkynningu, útboðsskilmálum eða skýringargögnum.
  Ef samningur er gerður samkvæmt reglunum, sem mælt er fyrir um í 29. gr., skulu upplýsingarnar, sem um getur í b-lið hér að framan, þó ekki koma fram í boði um að taka þátt í viðræðum en þær skulu koma fram í boði um að leggja fram tilboð.
  41. gr.
  Upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda
  1. Samningsyfirvöld skulu, eins fljótt og unnt er, upplýsa þátttakendur og bjóðendur um ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi gerð rammasamnings, val tilboðs eða aðgang að virku innkaupakerfi, þ.m.t. ástæður fyrir ákvörðun um að gera ekki rammasamning eða samning þótt útboð hafi farið fram eða hefja útboðsferli á nýjan leik eða að koma á fót virku innkaupakerfi; samningsyfirvöld skulu veita þessar upplýsingar skriflega að fenginni beiðni.
  2. Að fenginni beiðni viðkomandi aðila skal samningsyfirvald, eins fljótt og unnt er, upplýsa:

      —    hvern og einn þátttakanda um ástæður fyrir því ef umsókn hans er hafnað,

      —    hvern og einn bjóðanda um ástæður fyrir því ef tilboði hans er hafnað, þ.m.t., í tilvikum sem um getur í 4. og 5. mgr. 23. gr., ástæður fyrir því ef það ákvarðar að jafngildisákvæðið sé ekki uppfyllt eða að verk, vörur eða þjónusta uppfylli ekki kröfur er varða nothæfi eða hagnýtingu,

      —    hvern og einn bjóðanda sem hefur gert fullnægjandi tilboð, um eiginleika og hlutfallslega kosti tilboðsins sem er valið og einnig nafn þess bjóðanda sem varð fyrir valinu eða nöfn aðila að rammasamningnum.
  Þetta má undir engum kringumstæðum taka lengri tíma en 15 daga frá móttöku skriflegrar beiðni.
  3. Samningsyfirvöld geta þó ákveðið að halda eftir tilteknum upplýsingum, sem um getur í 1. gr., um gerð samnings eða rammasamnings eða aðgang að virku innkaupakerfi ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna rekstraraðila eða réttmæta samkeppni á milli þeirra.
  4. þáttur
  Samskipti
  42. gr.
  Reglur um samskipti
  1. Öll samskipti og upplýsingaskipti, sem um getur í þessum bálki, mega fara fram með pósti, símbréfum, rafrænum aðferðum skv. 4. og 5. mgr., símleiðis, í þeim tilvikum og við þær aðstæður sem um getur í 6. mgr., eða með samsetningu þessara miðla að vali samningsyfirvalds.
  2. Samskiptamiðlarnir, sem valdir eru, skulu vera almennt aðgengilegir og skulu ekki hindra aðgang rekstraraðila að útboðsferlinu.
  3. Samskipti og miðlun og geymsla upplýsinga skal vera með þeim hætti að heilleiki gagna og leynd tilboða og þátttökutilkynninga sé varðveitt og að samningsyfirvöld kanni ekki efni tilboða og þátttökutilkynninga fyrr en fresturinn til að leggja þau fram er runninn út.
  4. Búnaður, sem er notaður í rafrænum samskiptum, svo og tæknilegir eiginleikar hans, skal vera þannig að engum sé mismunað og vera almennt aðgengilegur og innbyrðis samhæfður þeirri upplýsinga- og fjarskiptatækni sem er almennt í notkun.
  5. Eftirfarandi reglur gilda um tæki sem notuð eru fyrir rafræna sendingu og móttöku tilboða og um tæki fyrir rafræna móttöku þátttökutilkynninga:

      a)    Upplýsingar um forskriftir, sem eru nauðsynlegar fyrir rafræna framlagningu tilboða og þátttökutilkynninga, þ.m.t. dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum hlutaðeigandi aðilum. Tæki fyrir rafræna móttöku tilboða og þátttökutilkynninga skulu enn fremur vera í samræmi við kröfur sem koma fram í X. viðauka.

      b)    Aðildarríkjum er heimilt, samkvæmt 5. gr. tilskipunar 1999/93/EB, að krefjast þess að rafrænum tilboðum fylgi fullgild rafræn undirskrift í samræmi við 1. mgr. þeirrar greinar.

      c)    Aðildarríkin geta innleitt valfrjáls faggildingarkerfi eða viðhaldið þeim með það fyrir augum að bæta vottunarþjónustu fyrir þessi tæki.

      d)    Áður en tilboðsfrestur eða frestur til að skila þátttökutilkynningu rennur út skulu bjóðendur eða þátttakendur leggja fram skjöl, vottorð og yfirlýsingar sem um getur í 45.–50. gr. og 52. gr. ef þau eru ekki til í rafrænu formi.
  6. Eftirfarandi reglur gilda um sendingu þátttökutilkynninga:

      a)    tilkynna má skriflega eða símleiðis um þátttöku í opinberu útboði,

      b)    ef tilkynnt er um þátttöku í síma skal senda skriflega staðfestingu áður en skilafrestur tilkynninga er útrunninn,

      c)    samningsyfirvöld geta krafist þess að þátttökutilkynning, sem berst með símbréfi, sé staðfest með pósti eða með rafrænum hætti ef það er nauðsynlegt vegna lögfullrar sönnunar. Samningsyfirvald skal láta vita um allar slíkar kröfur í útboðstilkynningu og um frest til að senda staðfestingu með pósti eða með rafrænum hætti.
  5. þáttur
  Skýrslur
  43. gr.
  Efni skýrslna
  Fyrir hvern samning, hvern rammasamning og hvert virkt innkaupakerfi, sem er komið á fót, skulu samningsyfirvöld semja skriflega skýrslu þar sem koma skal fram a.m.k. eftirfarandi:

      a)    nafn og heimilisfang samningsyfirvalds og efni og verðmæti samningsins, rammasamningsins eða virka innkaupakerfisins,

      b)    nöfn þeirra þátttakenda eða bjóðenda sem urðu fyrir valinu og ástæðurnar fyrir vali þeirra,

      c)    nöfn þeirra þátttakenda eða bjóðenda sem vísað var frá og ástæðurnar fyrir frávísun þeirra,

      d)    ástæður fyrir frávísun tilboða sem reynast vera óeðlilega lág,

      e)    nafn þess bjóðanda sem varð fyrir valinu og ástæðurnar fyrir því að tilboð hans var valið og hvaða hluta samningsins eða rammasamningsins bjóðandinn, sem valinn var, hyggst fá þriðju aðila til að vinna sem undirverktaka, ef það er vitað,

      f)    við samningskaup, aðstæðurnar sem um getur í 30. og 31. gr. og eru rökstuðningur fyrir notkun þessa innkaupaferlis,

      g)    að því er varðar samkeppnisviðræður, aðstæðurnar sem mælt er fyrir um í 29. gr. og eru rökstuðningur fyrir notkun þessa innkaupaferlis,

      h)    ef nauðsyn krefur, ástæðurnar fyrir því að samningsyfirvöld hafa ákveðið að gera ekki samning eða rammasamning eða koma á fót virku innkaupakerfi.
  Samningsyfirvöld skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að skrá framkvæmd rafrænna aðferða við val tilboða.
  Skýrslan eða meginefni hennar skal send til framkvæmdastjórnarinnar ef hún óskar eftir því.
  VII. KAFLI
  Framkvæmd útboðs
  1. þáttur
  Almenn ákvæði
  44. gr.
  Athugun á hæfi og vali þátttakenda og vali tilboða
  1. Tilboð skulu valin á grundvelli forsendna, sem mælt er fyrir um í 53. og 55. gr., að teknu tilliti til 24. gr., eftir að samningsyfirvöld hafa athugað hæfi rekstraraðilanna, sem voru ekki undanskildir skv. 45. og 46. gr., í samræmi við forsendur um efnahagslega og fjárhagslega stöðu, faglega og tæknilega þekkingu eða getu sem um getur í 47.–52. gr. og, þar sem við á, reglur um bann við mismunun og forsendur sem um getur í 3. mgr.
  2. Samningsyfirvöld geta krafist þess að þátttakendur og bjóðendur uppfylli kröfur um lágmarksgetu í samræmi við 47. og 48. gr.
  Umfang upplýsinganna, sem um getur í 47. og 48. gr., og sú lágmarksgeta sem krafist er vegna tiltekins samnings, skal vera í tengslum við og í réttu hlutfalli við efni samningsins.
  Þetta lágmark skal tilgreint í útboðstilkynningunni.
  3. Við lokað útboð, samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar og samkeppnisviðræður geta samningsyfirvöld takmarkað fjölda hæfra þátttakenda sem þau bjóða að leggja fram tilboð eða að ganga til samninga eða viðræðna, að því tilskildu að hæfir þátttakendur séu nógu margir. Í útboðstilkynningu skulu samningsyfirvöld tilgreina þær hlutlægu og óhlutdrægu forsendur eða reglur sem þau hyggjast beita, lágmarksfjölda þátttakenda sem þau hyggjast bjóða og, ef við á, hámarksfjölda. Í lokuðu útboði skulu þátttakendur ekki vera færri en fimm. Við samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og í samkeppnisviðræðum skulu þátttakendur ekki vera færri en þrír. Þátttakendur skulu ætíð vera nægilega margir til að tryggja raunverulega samkeppni.
  Samningsyfirvöld skulu bjóða a.m.k. jafnmörgum aðilum þátttöku í útboði og sá lágmarksfjöldi er sem áður var tiltekinn. Ef þátttakendur, sem standast valforsendur og lágmarkskröfur um getu, eru færri en tiltekinn lágmarksfjöldi þátttakenda geta samningsyfirvöld haldið útboðsferli áfram á þann hátt að gefa þeim þátttakanda eða þátttakendum, sem uppfylla kröfur, kost á að leggja fram tilboð. Samningsyfirvöldum er óheimilt að gefa fyrirtækjum, sem óskuðu ekki eftir þátttöku í útboðsferli eða uppfylla ekki kröfur um getu, kost á að leggja fram tilboð í því sama útboðsferli.
  4. Ef samningsyfirvöld nýta sér heimild til að fækka þeim lausnum sem ræða þarf, eða tilboðum sem samið er um, eins og kveðið er á um í 4. mgr. 29. gr. og 4. mgr. 30. gr., skulu þau gera það með því að beita valforsendum sem koma fram í útboðstilkynningu, útboðsskilmálum eða skýringargögnum. Á lokastigi ferlisins skal fjöldi þátttakenda vera nægilega mikill til að tryggja raunverulega samkeppni að svo miklu leyti sem um er að ræða nægilegan fjölda tilboða eða hæfra þátttakenda.
  2. þáttur
  Forsendur fyrir hæfismiðuðu vali
  45. gr.
  Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda
  1. Þátttakandi eða bjóðandi, sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi sem samningsyfirvaldi er kunnugt um, af einni eða fleiri af þeim ástæðum sem fram koma hér á eftir, skal útilokaður frá því að gerður sé við hann opinber samningur:

      a)    þátttöku í glæpasamtökum eins og skilgreint er í 1. mgr. 2. gr. sameiginlegrar aðgerðar ráðsins 98/733/DIM ( Stjtíð. EB L 351, 29.12.1998, bls. 1.),

      b)    spillingu eins og skilgreint er í 3. gr. gerðar ráðsins frá 26. maí 1997 ( Stjtíð. EB C 195, 25.6.1997, bls. 1.) annars vegar og 1. mgr. 3. gr. sameiginlegrar gerðar ráðsins 98/742/DIM ( Stjtíð. EB L 358, 31.12.1998, bls. 2.) hins vegar,

      c)    sviksemi í skilningi 1. gr. samningsins um vernd fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna ( Stjtíð. EB C 316, 27.11.1995, bls. 48.),

      d)    peningaþvætti eins og það er skilgreint í 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/308/EBE frá 10. júní 1991 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til að stunda peningaþvætti ( Stjtíð. EB L 166, 28.6.1991, bls. 77. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 (Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 76).).
  Aðildarríkin skulu skilgreina framkvæmdarákvæði fyrir þessa grein í samræmi við landslög og með hliðsjón af lögum Bandalagsins.
  Þau geta ákveðið undanþágur frá kröfunum, sem um getur í fyrstu undirgrein, vegna forgangskrafna í þágu almennings.
  Varðandi þessa málsgrein skulu samningsyfirvöld, ef við á, biðja þátttakendur eða bjóðendur um að leggja fram skjölin, sem um getur í 3. mgr., og geta einnig, ef þau hafa efasemdir um persónulegar aðstæður þátttakendanna eða bjóðendanna, leitað til þar til bærra yfirvalda um upplýsingar, sem þau telja nauðsynlegar og sem varða persónulegar aðstæður viðkomandi þátttakenda eða bjóðenda. Ef upplýsingarnar varða þátttakanda eða bjóðanda, sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki en samningsyfirvaldið, getur samningsyfirvaldið leitað eftir samstarfi við þar til bær yfirvöld í því ríki. Með hliðsjón af landslögum í aðildarríkinu þar sem þátttakendur eða bjóðendur hafa staðfestu varða slíkar fyrirspurnir lögaðila og/eða einstaklinga, þ.m.t., ef við á, forstjóra fyrirtækja og aðra aðila sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvarðanatöku eða stjórnunar í fyrirtæki þátttakanda eða bjóðanda.
  2. Heimilt er að útiloka rekstraraðila frá þátttöku í útboði:

      a)    ef fyrirtæki rekstraraðila er gjaldþrota eða félagi hefur verið slitið, ef bú þess hefur verið tekið til skiptameðferðar, ef það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar, ef það hefur lagt niður starfsemi tímabundið eða er í sambærilegri stöðu vegna álíka meðferðar samkvæmt innlendum lögum og reglum,

      b)    ef óskað hefur verið gjaldþrotaskipta, slita á fyrirtæki eða skiptameðferðar eða ef leitað hefur verið eftir heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða ef óskað er eftir álíka meðferð samkvæmt innlendum lögum eða reglum,

      c)    ef fyrirtækið hefur verið fundið sekt um refsivert brot á siðareglum í starfsgreininni með úrskurði, sem hefur dómsígildi, í samræmi við lagaákvæði í landinu þar sem brotið er framið,

      d)    ef fyrirtækið hefur gerst sekt um alvarlegt misferli í starfgrein sinni sem samningsyfirvaldi er unnt að sýna fram á,

      e)    ef fyrirtækið hefur ekki staðið skil á greiðslum til almannatrygginga eins og því ber samkvæmt lögum landsins þar sem það hefur staðfestu eða lögum í landi samningsyfirvalds,

      f)    ef fyrirtækið hefur ekki staðið skil á skattgreiðslum samkvæmt lögum landsins þar sem það hefur staðfestu eða lögum í landi samningsyfirvalds,

      g)    ef fyrirtækið hefur gerst sekt um alvarlegar rangfærslur við veitingu upplýsinganna sem krafist er samkvæmt þessum þætti eða hefur ekki veitt upplýsingarnar. Aðildarríkin skulu skilgreina framkvæmdarákvæði fyrir þessa grein í samræmi við landslög og með hliðsjón af lögum Bandalagsins.
  3. Samningsyfirvöld skulu samþykkja eftirfarandi sem fullnægjandi sönnun þess að ekkert af þeim tilvikum, sem eru tilgreind í 1. mgr. eða a-, b-, c-, e- eða f-lið 2. mgr., eigi við um fyrirtæki rekstraraðila:

      a)    að því er varðar 1. mgr. og a-, b-, og c-lið 2. mgr., framlagning sakavottorðs eða, að öðrum kosti, jafngilds skjals sem er gefið út af þar til bæru dóms- eða stjórnvaldi í upprunalandi eða heimalandi fyrirtækisins, sem sýnir að þessum kröfum er fullnægt,

      b)    að því er varðar e- og f-lið 2. mgr., vottorð sem þar til bært yfirvald í viðkomandi aðildarríki gefur út.
  Ef slík skjöl eða vottorð eru ekki gefin út í viðkomandi ríki, eða ef þau ná ekki yfir öll þau tilvik sem tilgreind eru í 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr. getur eiðsvarin yfirlýsing viðkomandi aðila komið í stað þeirra eða, í þeim aðildarríkjum þar sem ekki er kveðið á um slíka eiðsvarna yfirlýsingu, drengskaparheit sem viðkomandi gefur í viðurvist þar til bærs dóms- eða stjórnvalds eða, þar sem við á, lögbókanda eða hjá þar til bærri fag- eða viðskiptastofnun í heimalandi eða síðasta dvalarlandi þess aðila.
  4. Aðildarríkin skulu tilnefna þar til bær yfirvöld og stofnanir til að gefa út skjölin, vottorðin og yfirlýsingarnar, sem um getur í 3. mgr., og tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Slíkar tilkynningar eru með fyrirvara um lög um gagnavernd.
  46. gr.
  Starfsréttindi
  Heimilt er að krefjast þess að hver rekstraraðili, sem hyggst taka þátt í opinberu útboði, sýni fram á að hann sé skráður í firmaskrá eða verslunarskrá, eins og mælt er fyrir um í aðildarríkinu þar sem það hefur staðfestu, eða gefi eiðsvarna yfirlýsingu eða vottorð eins og lýst er í IX. viðauka A varðandi opinbera verksamninga, í IX. viðauka B varðandi opinbera vörusamninga og í IX. viðauka C varðandi opinbera þjónustusamninga.
  Þegar um er að ræða opinberra þjónustusamninga, og þátttakendur og bjóðendur þurfa að hafa sérstaka heimild eða vera félagar í tilteknum samtökum til að mega veita viðkomandi þjónustu í heimalandi sínu, getur samningsyfirvaldið krafist þess að þeir sýni fram á að þeir hafi slíka heimild eða séu félagar í slíkum samtökum.
  47. gr.
  Efnahagsleg og fjárhagsleg staða
  1. Að jafnaði skal vera hægt að færa sönnur á efnahagslega og fjárhagslega stöðu rekstraraðila með einni eða fleiri eftirfarandi aðferðum:

      a)    með viðeigandi yfirlýsingu frá bönkum eða, þar sem við á, sönnunargögnum um viðeigandi starfsábyrgðartryggingu,

      b)    með því að framvísa efnahagsreikningi eða útdrætti úr honum ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt landslögum í landinu þar sem rekstraraðilinn hefur staðfestu,

      c)    með yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækisins og, eftir því sem við á, veltuna á því sviði sem fellur undir samninginn á síðustu þremur fjárhagsárum að hámarki, eftir því hvaða dag fyrirtækið var stofnað eða rekstur hafinn, ef þessar upplýsingar um veltu eru tiltækar.
  2. Rekstraraðili getur, eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings, byggt á getu annarra aðila án tillits til þess hver lagaleg tengsl hans eru við þessa aðila. Í því tilviki skal rekstraraðilinn sýna samningsyfirvaldinu fram á að hann muni hafa yfir að ráða nauðsynlegum tilföngum, t.d. með því að leggja fram skuldbindingu frá þessum aðilum þar að lútandi.
  3. Með sömu skilyrðum getur hópur rekstraraðila, sem um getur í 4. gr., byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila.
  4. Samningsyfirvöld skulu tilgreina, í útboðstilkynningu eða boði um að leggja fram tilboð, hvaða gögn skv. 1. mgr. þau gera kröfu um og hvaða annarra gagna kunni að verða krafist.
  5. Ef rekstraraðili getur ekki, af einhverri gildri ástæðu, lagt fram þau gögn sem samningsyfirvöld krefjast getur hann sýnt fram á efnahagslega og fjárhagslega stöðu sína með öðrum gögnum sem samningsyfirvaldið telur fullnægjandi.
  48. gr.
  Tæknileg og fagleg geta
  1. Tæknileg og fagleg geta fyrirtækja skal metin og prófuð í samræmi við 2. og 3. mgr.
  2. Rekstraraðili getur sannað tæknilega getu sína með einni eða fleiri af eftirfarandi aðferðum, allt eftir eðli, magni, mikilvægi eða fyrirhugaðri notkun verksins, vörunnar eða þjónustunnar:

      a) i)    með skrá yfir þau verk sem unnin hafa verið á undanförnum fimm árum ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir mikilvægustu verksamninganna. Í þessum vottorðum skal koma fram verðmæti, dagsetning og staðsetning verka ásamt upplýsingum um hvort þau hafi verið unnin í samræmi við faglegar reglur og lokið með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal þar til bært yfirvald afhenda samningsyfirvaldi þessi vottorð milliliðalaust,

      ii)    með skrá yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið á þremur undanförnum árum ásamt upplýsingum um fjárhæðir, dagsetningar og viðtakendur, hvort heldur um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila. Sönnun um afhendingu vöru og þjónustu skal veitt:

      —    ef viðtakandinn er opinbert samningsyfirvald, í formi vottorðs sem þar til bært yfirvald gefur út eða staðfestir með áritun,

      —    ef viðtakandinn er kaupandi sem er einkaaðili, með vottorði kaupanda eða, ef það er ekki unnt, með yfirlýsingu rekstraraðilans sjálfs,

      b)    með tilvísun til tæknimanna eða þeirra tæknilegu aðila sem koma að málinu, hvort sem þeir heyra beint undir fyrirtæki rekstraraðilans eða ekki, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og, þegar um er að ræða opinbera verksamninga, þeirra sem verktaki getur leitað til vegna framkvæmdar verksins,

      c)    með lýsingu á tæknibúnaði og þeim ráðstöfunum sem birgir eða þjónustuveitandi hefur gert til að tryggja gæði ásamt lýsingu á aðstöðu fyrirtækisins til athugana og rannsókna,

      d)    þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem er margbrotin eða, í undantekningartilvikum, er veitt í sérstökum tilgangi, með athugun á framleiðslugetu birgis eða tæknilegri getu þjónustuveitanda og, ef þörf krefur, á aðstöðu hans til athugana og rannsókna og ráðstöfunum hans til gæðaeftirlits og annast samningsyfirvöld þessa athugun eða, fyrir hönd þeirra, þar til bær, opinber aðili í landinu þar sem birgir eða þjónustuveitandi hefur staðfestu, með fyrirvara um samþykki þess aðila,

      e)    með upplýsingum um menntun og faglegt hæfi þjónustuveitandans eða verktakans og/eða stjórnenda fyrirtækisins, einkum hæfi þess eða þeirra aðila sem bera ábyrgð á veitingu þjónustunnar eða stjórn verksins,

      f)    þegar um er að ræða opinbera verksamninga og þjónustusamninga, og einungis þegar það á við, með tilvísun til þeirra umhverfisstjórnunaraðgerða sem rekstraraðilinn getur beitt við framkvæmd samningsins,

      g)    með yfirlýsingu um árlegan meðalfjölda starfsmanna hjá þjónustuveitanda eða verktaka og fjölda manna í stjórnunarstöðum á undanförnum þremur árum,

      h)    með yfirlýsingu um þau tæki, vélakost og tæknibúnað sem þjónustuveitandi eða verktaki hefur til umráða við framkvæmd samnings,

      i)    með tilvísun til þess hlutfalls samnings sem þjónustuveitandi mun hugsanlega fela undirverktaka,

      j)    að því er varðar vöru:

      i)    með sýnishornum, lýsingum og/eða ljósmyndum sem unnt á að vera að votta ef samningsyfirvald krefst þess,

      ii)    með vottorðum frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndri stofnun sem staðfestir að varan, sem er skýrt skilgreind með tilvísunum í tilteknar forskriftir og staðla, sé í samræmi við þessar forskriftir og staðla.
  3. Rekstraraðili getur, eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings, byggt á getu annarra aðila án tillits til þess hver lagaleg tengsl hans eru við þessa aðila. Í því tilviki skal hann sýna samningsyfirvaldinu fram á að hann muni hafa yfir að ráða þeim tilföngum sem eru nauðsynleg fyrir framkvæmd samningsins, t.d. með þeim hætti að aðilarnir stofni sameiginlega sérstakt fyrirtæki til að rekstraraðilinn hafi aðgang að nauðsynlegum tilföngum.
  4. Með sömu skilyrðum getur hópur rekstraraðila byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila eins og um getur í 4. gr.
  5. Þegar um er að ræða opinbera vörusamninga sem fela í sér ísetningu eða uppsetningu, þjónustu og/eða framkvæmd verks er heimilt að meta getu rekstraraðila, til að veita þjónustuna eða annast uppsetninguna eða verkið, einkum með hliðsjón af færni þeirra, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.
  6. Samningsyfirvöld skulu tiltaka, í útboðstilkynningu eða boði um að leggja fram tilboð, hvaða gögn skv. 2. mgr. þau óska að lögð verði fram.
  49. gr.
  Gæðastaðlar
  Ef samningsyfirvöld krefjast þess að lögð séu fram vottorð frá óháðum aðila, sem staðfestir að rekstraraðilinn uppfylli tiltekna gæðastaðla, skulu þau vísa til gæðakerfa sem grundvallast á viðeigandi kerfi Evrópustaðla sem hefur fengið vottun stofnunar sem stenst kröfur um vottun samkvæmt Evrópustaðlakerfinu. Samningsyfirvöld skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Þau skulu einnig samþykkja önnur sönnunargögn frá rekstraraðilum um sambærilegar ráðstafanir til að tryggja gæði.
  50. gr.
  Umhverfisstjórnunarstaðlar
  Ef samningsyfirvöld krefjast þess, í tilvikum sem um getur í f-lið 2. mgr. 48. gr., að lögð séu fram vottorð frá óháðum aðila, sem staðfestir að rekstraraðilinn uppfylli tiltekna umhverfisstjórnunarstaðla, skulu þau vísa til umhverfisstjórnunarkerfis Bandalagsins (EMAS) eða til umhverfisstjórnunarstaðla sem grundvallast á viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum sem eru vottaðir af stofnunum sem starfa í samræmi við lög Bandalagsins eða viðeigandi evrópska eða alþjóðlega vottunarstaðla. Þau skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Samningsyfirvöld skulu einnig samþykkja önnur sönnunargögn um sambærilegar ráðstafanir varðandi umhverfisstjórnun, sem rekstraraðilar leggja fram.
  51. gr.
  Viðbótargögn og upplýsingar
  Samningsyfirvald getur krafist þess að rekstraraðilinn bæti við eða skýri vottorð og skjöl sem eru lögð fram samkvæmt 45.–50. gr.
  52. gr.
  Opinber skrá yfir samþykkta rekstraraðila og vottun frá opinberum og einkaréttarlegum stofnunum
  1. Aðildarríkin geta innleitt annaðhvort opinberar skrár yfir samþykkta verktaka, birgja eða þjónustuveitendur eða vottun frá opinberum eða einkaréttarlegum vottunaraðilum.
  Aðildarríkin skulu laga skilyrðin fyrir skráningu í þessar skrár, ásamt skilyrðum fyrir útgáfu vottorða frá vottunaraðilum, að ákvæðum 45. gr. (1. mgr.), 45. gr. (a–d-liðar og g-liðar 2. mgr.), 46. gr., 47. gr. (1., 4. og 5. mgr.), 48. gr. (1., 2., 5. og 6. mgr.), 49. gr. og, ef við á, 50. gr.
  Aðildarríkin skulu einnig laga þau að 47. gr. (2. mgr.) og 48. gr. (3. mgr.) þegar um er að ræða skráningarumsóknir frá rekstraraðilum sem eru hluti af hópi og sem sýna fram á að þeir ráði yfir tilföngum sem hin fyrirtækin í hópnum hafa fengið þeim til ráðstöfunar. Í þeim tilvikum skulu þessir rekstraraðilar sanna fyrir yfirvaldinu, sem innleiðir opinberu skrána, að þeir ráði yfir þessum tilföngum út allan gildistíma vottorðs sem staðfestir að þeir séu skráðir í opinberu skrána og að allt það tímabil muni þessi fyrirtæki uppfylla áfram kröfur um hæfismiðað val sem mælt er fyrir um í greinunum, sem um getur í annarri undirgrein, sem rekstraraðilar bera fyrir sig í tengslum við skráningu sína.
  2. Rekstraraðilar, sem eru skráðir í opinberar skrár eða hafa fengið vottorð, geta, í hverju útboði, afhent samningsyfirvaldi vottorð um skráningu sem er gefið út af þar til bæru yfirvaldi eða vottorð sem þar til bær vottunaraðili gefur út. Í þessum vottorðum skulu koma fram þær upplýsingar sem gerðu þeim kleift að fá skráningu eða vottorð og flokkun samkvæmt skránni.
  3. Samningsyfirvöld annarra aðildaríkja skulu ekki ganga út frá því að vottuð skráning þar til bærra aðila í opinberum skrám eða vottorð, gefið út af vottunaraðila, sé til marks um hæfi nema að því er varðar 45. gr. (1. mgr. og a–d-lið og g-lið 2. mgr.), 46. gr. 47. gr. (b- og c-lið 1. mgr.) og 48. gr. (i-lið a- liðar, b-lið, e-lið, g-lið og h-lið 2. mgr.) þegar um er að ræða verktaka, (ii-lið a-liðar, b-lið, c-lið, d-lið og j-lið 2. mgr.), þegar um er að ræða birgja og (ii-lið a- liðar og c–i-lið 2. mgr.) þegar um er að ræða þjónustuveitendur.
  4. Ekki er hægt að vefengja upplýsingar, sem rekja má til skráningar í opinberum skrám eða vottunarskráningar, án rökstuðnings. Að því er varðar greiðslu iðgjalda til almannatrygginga og skatta er þó heimilt að krefjast viðbótarvottorðs frá skráðum rekstraraðilum við hvert útboð.
  Samningsyfirvöld hinna aðildarríkjanna skulu einungis beita 3. mgr. og fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar til hagsbóta þeim rekstraraðilum sem hafa staðfestu í aðildarríkinu þar sem opinbera skráin er haldin.
  5. Ekki er heimilt, varðandi skráningu rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum í opinberri skrá eða vottun sem þeir fá hjá stofnunum sem um getur í 1. mgr. að krefjast frekari sannana eða yfirlýsinga, annarra en þeirra sem innlendir rekstraraðilar eru krafðir um og skulu þær ávallt miðast við það sem kveðið er á um skv. 45.–49. gr. og, ef við á, 50. gr.
  Þó er ekki hægt að skylda rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum til að fá slíka skráningu eða vottun til að geta tekið þátt í opinberu útboði. Samningsyfirvöld skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Þau skulu einnig samþykkja annars konar jafngild sönnunargögn.
  6. Rekstraraðilar geta, hvenær sem er, óskað eftir því að fá skráningu í opinbera skrá eða vottorð. Þeir skulu látnir vita, áður en langt um líður, um ákvörðun yfirvaldsins, sem heldur skrána, eða þar til bærs vottunaraðila.
  7. Vottunaraðilarnir, sem um getur í 1. mgr., skulu fara að evrópskum vottunarstöðlum.
  8. Aðildarríkjum, sem halda opinberar skrár, og vottunaraðilum, sem um getur í 1. mgr., ber skylda til að upplýsa framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin um heimilisfang stofnunarinnar sem senda á umsóknir til.
  3. þáttur
  Val tilboðs
  53. gr.
  Forsendur fyrir vali tilboðs.
  1. Með fyrirvara um innlend lög og stjórnsýslufyrirmæli er varða þóknun fyrir tiltekna þjónustu skulu forsendur, sem samningsyfirvöld byggja á við val þess aðila sem opinber samningur er gerður við, vera annaðhvort:

      a)    þegar fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið er valið að mati samningsyfirvaldsins, ýmsar forsendur sem tengjast efni viðkomandi opinbers samnings, t.d. gæði, verð, tæknileg atriði, útlit og notagildi, umhverfiseiginleikar, rekstrarkostnaður, kostnaðarhagkvæmni, þjónusta eftir verklok og tæknileg aðstoð, afhendingardagur og afhendingartími eða frestur til að ljúka verki, eða

      b)    lægsta verð eingöngu.
  2. Samningsyfirvöld skulu tilgreina í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum, í tilvikum sem um getur í a-lið 1. mgr., eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum, hvert mat þeirra er á hlutfallslegu vægi hverrar forsendu sem valin er til að ákvarða fjárhagslega hagstæðasta tilboðið, sbr. þó ákvæði þriðju undirgreinar.
  Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum.
  Ef samningsyfirvald telur að ekki sé unnt að styðjast við vægi vegna skorts á sönnunum skal yfirvaldið tilgreina forsendurnar í forgangsröð eftir mikilvægi þeirra í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum.
  54. gr.
  Rafræn uppboð
  1. Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt að nota rafræn uppboð.
  2. Þegar um er að ræða almenn eða lokuð útboð eða samningskaup skv. a-lið 1. mgr. 30. gr. geta samningsyfirvöld ákveðið að opinber samningur skuli gerður að undangengnu rafrænu uppboði þegar unnt er að ákvarða útboðsskilmála af nákvæmni.
  Við sömu aðstæður er heimilt að halda rafrænt uppboð þegar aðilar að rammasamningi fá nýtt boð um að leggja fram tilboð eins og kveðið er á um í öðrum undirlið annarrar undirgreinar 4. mgr. 32. gr., og í útboðum þar sem gera á samning samkvæmt virka innkaupakerfinu sem um getur í 33. gr.
  Rafrænt uppboð skal grundvallast:

      —    annaðhvort eingöngu á verði, ef samningur er gerður á grundvelli lægsta verðs,

      —    eða á verði og/eða nýju verðmæti tilboðsþátta sem tilgreint er í útboðsskilmálum, ef samningur er gerður á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.
  3. Samningsyfirvöld, sem ákveða að halda rafrænt uppboð, skulu geta þess í útboðstilkynningu.
  Í útboðsskilmálum skulu meðal annars koma fram upplýsingar um eftirtalin atriði:

      a)    þá þætti þar sem verðmætið liggur til grundvallar í rafrænu uppboði, að því tilskildu að slíkir þættir séu mælanlegir og hægt sé að setja þá fram í tölum eða hundraðshlutum,

      b)    hvers konar takmarkanir sem hægt er að setja á verðmæti á grundvelli mats á skilmálum er varða efni samningsins,

      c)    upplýsingarnar sem bjóðendur eiga að hafa aðgang að á meðan rafræna uppboðið stendur yfir og, eftir því sem við á, hvenær þeir fá aðgang að þeim,

      d)    viðeigandi upplýsingar um rafræna uppboðsferlið,

      e)    skilyrði sem bjóðendur verða að uppfylla til að geta lagt fram tilboð og einkum hvaða lágmarksmunar sé krafist á milli tilboða, eftir því sem við á,

      f)    viðeigandi upplýsingar um rafræna búnaðinn sem notaður er og um fyrirkomulag og tækniforskriftir fyrir tengingu við hann.
  4. Áður en rafrænt uppboð hefst skulu samningsyfirvöld leggja fullt, fyrsta mat á tilboðin í samræmi við forsendu eða forsendur fyrir vali tilboðs og það vægi sem er ákveðið fyrir þær.
  Öllum bjóðendum, sem hafa lagt fram gild tilboð, skal samtímis boðið, með rafrænum hætti, að bjóða nýtt verð og/eða verðmæti; í boðinu skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar varðandi tengingu hvers og eins við rafeindabúnaðinn, sem er notaður, ásamt upplýsingum um upphafsdag og upphafstíma rafræna uppboðsins. Rafræna uppboðinu má skipta í nokkra áfanga sem eru teknir fyrir hver á fætur öðrum. Rafræna uppboðið getur ekki hafist fyrr en tveimur virkum dögum eftir að boðin eru send út.
  5. Ef gera á samning á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs skulu fylgja boðinu niðurstöður úr fullu mati á viðkomandi tilboði sem fer fram í samræmi við það vægi sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein 2. mgr. 53. gr.
  Í boðinu skal einnig koma fram hvaða reiknilíkan á að nota í rafrænu uppboði til að ákvarða sjálfkrafa endurflokkun tilboða á grundvelli nýs verðs og/eða verðmætis. Þetta líkan skal taka tillit til vægis allra forsendna sem eru settar til að ákvarða fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið eins og tilgreint er í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum; í því augnamiði skulu þó hugsanleg vikmörk skilgreind fyrir fram sem föst gildi.
  Ef frávikstilboð eru heimiluð skal hafa sérstakt líkan fyrir hvert frávik.
  6. Í hverjum áfanga rafræns uppboðs skulu samningsyfirvöld þegar í stað láta öllum bjóðendum í té a.m.k. nægilegar upplýsingar til að þeir hafi vitneskju um stöðu sína í flokkuninni hverju sinni. Samningsyfirvöld geta einnig veitt aðrar upplýsingar sem hafa komið fram um önnur atriði varðandi verð og verðmæti, að því tilskildu að þær upplýsingar komi fram í útboðsskilmálum. Þau geta einnig, hvenær sem er, tilkynnt um fjölda bjóðenda í viðkomandi áfanga uppboðs. Þeim er þó aldrei heimilt að upplýsa um nafn bjóðenda á neinu stigi rafræns uppboðs.
  7. Samningsyfirvöld skulu loka rafrænu uppboði með einhverju af eftirfarandi:

      a)    í boði um að taka þátt í uppboði er tilgreindur fyrir fram ákveðinn dagur og tími fyrir lok uppboðs,

      b)    þegar ekki berst lengur nýtt verð eða verðmæti sem uppfyllir kröfur um lágmarksmun. Í því tilviki skulu samningsyfirvöld tiltaka, í boði um að taka þátt í uppboði, þann tíma sem látinn verður líða frá því að tekið er á móti síðasta tilboði og þar til rafræna uppboðinu er lokað,

      c)    þegar þeim áföngum uppboðs, sem hafa verið tilteknir í boði um að taka þátt í uppboði, er lokið.
  Ef samningsyfirvöld hafa ákveðið að loka rafrænu uppboði í samræmi við c-lið, og hugsanlega einnig samkvæmt þeirri aðferð sem mælt er fyrir um í b-lið, skal tímaáætlun fyrir hvern áfanga uppboðsins koma fram í boði um að taka þátt í uppboðinu.
  8. Þegar rafrænu uppboði hefur verið lokað skulu samningsyfirvöld gera samning í samræmi við 53. gr. á grundvelli niðurstaðna úr rafræna uppboðinu.
  Samningsyfirvöld mega ekki nota rafrænt uppboð á ótilhlýðilegan hátt og ekki heldur á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni eða breyti efni samningsins eins og það var sett fram í birtri útboðstilkynningu og skilgreint í útboðsskilmálum.
  55. gr.
  Óeðlilega lág tilboð
  1. Ef tilboð vegna tiltekins samnings virðast óeðlilega lág miðað við vöru, verk eða þjónustu skal samningsyfirvald, áður en það getur vísað þessum tilboðum frá, óska eftir nákvæmri, skriflegri lýsingu á þeim efnisþáttum tilboðsins sem það telur skipta máli.
  Þessar upplýsingar geta einkum varðað:

      a)    hagkvæmni byggingaraðferðar, framleiðsluferlis eða þjónustu,

      b)    tæknilegar lausnir, sem hafa verið valdar, og/eða hvers konar óvenjulega hagstæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, afhendingu vöru eða veitingu þjónustu,

      c)    frumleika í tillögum bjóðanda varðandi verk, vöru eða þjónustu,

      d)    samræmi við gildandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði á staðnum þar sem framkvæmd verks, afhending vöru eða veiting þjónustu fer fram,

      e)    möguleika bjóðanda á því að fá ríkisstyrki.
  2. Samningsyfirvöld skulu sannreyna þessa efnisþætti með viðræðum við bjóðanda, að teknu tilliti til þeirra gagna sem hafa verið lögð fram.
  3. Ef samningsyfirvald kemst að raun um að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi hafi fengið ríkisstyrk er ekki hægt að vísa tilboðinu frá af þeirri ástæðu einni fyrr en samningsyfirvaldið hefur átt viðræður við bjóðanda og hann reynist, að loknum hæfilegum fresti sem samningsyfirvaldið setur, ófær um að sanna að viðkomandi styrkur hafi verið veittur lögum samkvæmt. Ef samningsyfirvald vísar tilboði frá við þessar aðstæður skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um það.
  III. BÁLKUR
  REGLUR UM OPINBERA SÉRLEYFISSAMNINGA UM VERK
  I. KAFLI
  Gildandi reglur um opinbera sérleyfissamninga um verk
  56. gr.
  Gildissvið
  Þessi kafli gildir um alla opinbera sérleyfissamninga um verk sem samningsyfirvöld gera þar sem verðmæti samningsins er 6 242 000 evrur eða meira.
  Verðmætið skal reiknað í samræmi við gildandi reglur um opinbera verksamninga sem skilgreindir eru í 9. gr.
  57. gr.
  Samningar sem eru undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar
  Þessi bálkur gildir ekki um opinbera sérleyfissamninga um verk:

      a)    sem eru gerðir í tilvikum sem um getur í 13., 14. og 15. gr. þessarar tilskipunar varðandi opinbera verksamninga,

      b)    sem eru gerðir af samningsyfirvöldum sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi, sem um getur í 3.–7. gr. tilskipunar 2004/17/EB, þegar þessi sérleyfi eru veitt til að stunda þá starfsemi.
 • Þessi tilskipun gildir þó áfram um opinbera sérleyfissamninga um verk, sem eru gerðir af samningsyfirvöldum, sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 6. gr. tilskipunar 2004/17/EB, og eru gerðir vegna þeirrar starfsemi, svo fremi að viðkomandi aðildarríki nýti sér þann kost sem um getur í annarri undirgrein 71. gr. hennar til að fresta beitingu hennar.
 • 58. gr.
  Birting tilkynninga um opinbera sérleyfissamninga um verk
  1. Samningsyfirvöld, sem hyggjast gera opinberan sérleyfissamning um verk, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu.
  2. Í tilkynningum um opinbera sérleyfissamninga um verk skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í VII. viðauka C, og, eftir því sem við á, hvers konar upplýsingar aðrar, sem samningsyfirvöld telja gagnlegar, í samræmi við stöðluð eyðublöð sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt samkvæmt málsmeðferð sem um getur í 2. mgr. 77. gr.
  3. Tilkynningar skulu birtar í samræmi við 2.–8. mgr. 36. gr.
  4. Ákvæði 37. gr. um birtingu tilkynninga gilda einnig um opinbera sérleyfissamninga um verk.
  59. gr.
  Frestur
  Þegar samningyfirvöld hyggjast gera opinbera sérleyfissamninga um verk skal skilafrestur umsókna um sérleyfi ekki vera styttri en 52 dagar, reiknað frá sendingardegi tilkynningarinnar, að undanteknum þeim tilvikum sem fjallað er um í 5. mgr. 38. gr.
  Beita skal ákvæði 7. mgr. 38. gr.
  60. gr.
  Undirverktakar
  Samningsyfirvaldið getur annaðhvort:

      a)    krafist þess að sérleyfishafi geri samninga við þriðja aðila, sem samsvara minnst 30% af heildarverðmæti verksins sem væntanlegur sérleyfissamningur tekur til, og gefa um leið umsækjendum færi á að hækka það hlutfall; þetta lágmarkshlutfall skal tilgreina í sérleyfissamningnum,

      b)    eða farið fram á að umsækjendur um sérleyfissamninga tilgreini, í tilboði sínu, þann hundraðshluta heildarverðmætis verks þess sem gera á sérleyfissamning um og sem þeir hyggjast fela þriðja aðila.
  61. gr.
  Viðbótarverk sem samið er um við sérleyfishafa
  Þessi tilskipun gildir ekki um viðbótarverk sem hvorki var gert ráð fyrir í upphaflega sérleyfisverkefninu né í upphaflegum samningi en sem hafa, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, orðið nauðsynleg fyrir framkvæmd verksins sem þar er lýst og sem samningsyfirvaldið hefur samið um við sérleyfishafann, að því tilskildu að samningurinn sé gerður við rekstraraðilann sem annast framkvæmd slíks verks:

      —    þegar ekki er unnt að aðskilja slík viðbótarverk frá upphaflega samningnum af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum án þess að valda samningsyfirvöldum miklum óþægindum,

      —    þegar slík verk eru alveg nauðsynleg fyrir framkvæmd upphaflega samningsins þótt unnt sé að aðskilja þau frá honum.
  Samanlagt verðmæti samninga, sem gerðir eru vegna viðbótarverka, má þó ekki fara yfir 50% af fjárupphæð upphaflega sérleyfissamningsins um verk.
  II. KAFLI
  Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er samningsyfirvald
  62. gr.
  Gildandi reglur
  Ef sérleyfishafi er samningsyfirvald, eins og um getur í 9. mgr. 1. gr., skal hann fara að ákvæðum um opinbera verksamninga, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, þegar um er að ræða verk sem þriðju aðilar framkvæma.
  III. KAFLI
  Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er ekki samningsyfirvald
  63. gr.
  Reglur um birtingu: viðmiðunarfjárhæðir og undantekningar
  1. Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að opinberir sérleyfishafar, sem eru ekki samningsyfirvöld, beiti þeim reglum um birtingu sem skilgreindar eru í 64. gr. þegar þeir gera verksamninga við þriðju aðila ef verðmæti slíkra samninga er 6 242 000 evrur eða meira.
  Birting er þó ekki nauðsynleg þegar samningur um opinberar framkvæmdir fullnægir þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 31. gr. þessa samnings.
  Verðmæti samninga skal reiknað í samræmi við gildandi reglur um opinbera verksamninga sem mælt er fyrir um í 9. gr.
  2. Fyrirtækjahópar, sem hafa verið myndaðir með það fyrir augum að fá sérleyfi, eða fyrirtæki í tengslum við þá, skulu ekki teljast til þriðju aðila.
  „Tengt fyrirtæki“ er fyrirtæki sem sérleyfishafi getur haft bein eða óbein yfirráð yfir eða fyrirtæki sem getur öðlast yfirráð yfir sérleyfishafanum eða sem er, ásamt sérleyfishafa, undir yfirráðum annars fyrirtækis á grundvelli eignarhalds, fjárhagslegrar þátttöku eða gildandi reglna. Fyrirtæki telst hafa yfirráð yfir öðru fyrirtæki þegar það, beint eða óbeint:

      a)    á meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki,

      b)    ræður yfir meirihluta atkvæða sem fylgja hlutabréfum sem fyrirtækið gefur út eða

      c)    hefur rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins.
  Tæmandi skrá yfir slík fyrirtæki skal fylgja umsókn um sérleyfi. Skrána skal uppfæra í samræmi við síðari breytingar á tengslum milli fyrirtækjanna.
  64. gr.
  Birting tilkynninga
  1. Sérleyfishafar verksamnings, sem eru ekki samningsyfirvöld en hyggjast gera verksamninga við þriðju aðila, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu.
  2. Í tilkynningum skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í VII. viðauka C, og, eftir því sem við á, hvers konar aðrar upplýsingar, sem sérleyfishafar verksamnings telja gagnlegar, í samræmi við stöðluð eyðublöð sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt samkvæmt málsmeðferð sem um getur í 2. mgr. 77. gr.
  3. Tilkynningin skal birt í samræmi við 2.–8. mgr. 36. gr.
  4. Einnig skal beita ákvæðum 37. gr. um valfrjálsa birtingu tilkynninga.
  65. gr.
  Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
  Í verksamningum, gerðum af sérleyfishöfum sem eru ekki samningsyfirvöld, skal frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem sérleyfishafi ákveður, ekki vera skemmri en 37 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar og tilboðsfrestur ekki skemmri en 40 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar eða boðs um að leggja fram tilboð.
  Beita skal ákvæðum 5., 6. og 7. mgr. 38. gr.
  IV. BÁLKUR
  REGLUR UM HÖNNUNARSAMKEPPNI
  66. gr.
  Almenn ákvæði
  1. Reglur um tilhögun hönnunarsamkeppni skulu vera í samræmi við 66.–74. gr. og skulu sendar þeim sem hafa áhuga á því að taka þátt í keppninni.
  2. Aðgangur að hönnunarsamkeppni má ekki takmarkast við:

      a)    yfirráðasvæði eða hluta af yfirráðasvæði aðildarríkis,

      b)    það að þátttakendur séu annaðhvort einstaklingar eða lögaðilar þótt þess kunni að vera krafist í lögum aðildarríkisins þar sem samkeppnin er haldin.
  67. gr.
  Gildissvið
  1. Eftirtaldir aðilar halda hönnunarsamkeppni í samræmi við ákvæði þessa bálks:

      a)    samningsyfirvöld sem eru skráð sem yfirvöld á vegum ríkisins í IV. viðauka, frá og með viðmiðunarfjárhæð sem skal vera 162 000 evrur eða meira,

      b)    samningsyfirvöld sem eru ekki skráð í IV. viðauka, frá og með viðmiðunarfjárhæð sem skal vera 249 000 evrur eða meira,

      c)    öll samningsyfirvöld, frá og með viðmiðunarfjárhæð sem skal vera 249 000 evrur eða meira þar sem samkeppnin varðar þjónustu í 8. flokki II. viðauka A, fjarskiptaþjónustu í 5. flokki, þar sem CPV-númerin samsvara CPC- tilvísunarnúmerunum 7524, 7525 og 7526. og/eða þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka B,
  2. Þessi bálkur gildir um:

      a)    hönnunarsamkeppni sem efnt er til með það fyrir augum að gera opinberan þjónustusamning,

      b)    hönnunarsamkeppni þar sem þátttakendur fá verðlaun og/eða greiðslur.
  Í tilvikum, sem um getur í a-lið, merkir viðmiðunarfjárhæð áætlað verðmæti opinbera þjónustusamningsins án virðisaukaskatts, þ.m.t. öll verðlaun og/eða greiðslur til þátttakenda.
  Í tilvikum, sem um getur í b-lið, merkir viðmiðunarfjárhæð heildarfjárhæð verðlauna og greiðslna, þ.m.t. áætlað verðmæti opinbers þjónustusamnings án virðisaukaskatts sem kynni að vera gerður síðar skv. 3. mgr. 31. gr. ef samningsyfirvaldið undanskilur ekki slíkan samning í tilkynningu um samkeppnina.
  68. gr.
  Starfsemi sem er undanþegin gildissviði tilskipunarinnar
  Þessi bálkur gildir ekki um:

      a)    hönnunarsamkeppni í skilningi tilskipunar 2004/17/EB sem er haldin af samningsyfirvöldum, sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, og er haldin með tilliti til áframhaldandi rekstrar þeirrar starfsemi, og ekki heldur um samkeppni sem er undanþegin gildissviði þessarar tilskipunar.
 • Þessi tilskipun gildir þó áfram um hönnunarsamkeppni sem haldin er af samningsyfirvöldum, sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 6. gr. tilskipunar 2004/17/EB, og er haldin vegna þeirrar starfsemi, svo fremi að viðkomandi aðildarríki nýti sér þann kost sem um getur í annarri undirgrein 71. gr. hennar til að fresta beitingu hennar,

 •     b)    samkeppni sem er haldin í sömu tilvikum og um getur í 13., 14. og 15. gr. þessarar tilskipunar varðandi opinbera þjónustusamninga.
  69. gr.
  Tilkynningar
  1. Samningsyfirvöld, sem hyggjast halda hönnunarsamkeppni, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu um samkeppnina.
  2. Samningsyfirvöld, sem hafa haldið hönnunarsamkeppni, skulu senda tilkynningu um úrslit samkeppninnar í samræmi við 36. gr. og þau skulu geta fært sönnur á sendingardaginn.
  Ef afhending upplýsinga um niðurstöður hönnunarsamkeppni kynni að hindra framkvæmd laga, ganga gegn almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni tiltekinna, opinberra eða einkarekinna fyrirtækja eða réttmæta samkeppni milli þjónustuveitenda er ekki skylt að birta slíkar upplýsingar.
  3. Ákvæði 37. gr. um birtingu tilkynninga gilda einnig um samkeppni.
  70. gr.
  Form og aðferð við birtingu tilkynninga um samkeppni
  1. Í tilkynningum, sem um getur í 69. gr., skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í VII. viðauka D, í samræmi við staðlað eyðublað tilkynninga sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt í samræmi við málsmeðferð skv. 2. mgr. 77. gr.
  2. Tilkynningarnar skulu birtar í samræmi við 2.–8. mgr. 36. gr.
  71. gr.
  Samskiptaaðferðir
  1. Ákvæði 1., 2. og 4. mgr. 42. gr. gilda um öll samskipti sem tengjast hönnunarsamkeppni.
  2. Samskipti, upplýsingaskipti og geymsla upplýsinga skulu vera með þeim hætti að tryggður sé heilleiki og leynd allra upplýsinga, sem þátttakendur í samkeppni láta í té, og að dómnefnd athugi ekki efni áætlana og tillagna fyrr en eftir að frestur til að leggja þær fram er útrunninn.
  3. Eftirfarandi reglur gilda um búnað til rafrænnar móttöku áætlana og tillagna:

      a)    upplýsingar um forskriftir, sem eru nauðsynlegar fyrir rafræna framlagningu áætlana og tillagna, þ.m.t. dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum aðilum sem málið varðar, tæki fyrir rafræna móttöku áætlana og tillagna skulu enn fremur vera í samræmi við kröfur sem koma fram í X. viðauka,

      b)    aðildarríkin geta innleitt valfrjáls faggildingarkerfi eða viðhaldið þeim með það fyrir augum að bæta vottunarþjónustu fyrir þessi tæki,
  72. gr.
  Val samkeppnisaðila
  Ef hönnunarsamkeppni er bundin við takmarkaðan fjölda þátttakenda skulu samningsyfirvöld mæla fyrir um skýrar valforsendur án mismununar. Þátttakendur skulu ætíð vera nægilega margir til að tryggja raunverulega samkeppni.
  73. gr.
  Samsetning dómnefndar
  Dómnefnd skal aðeins skipuð einstaklingum sem eru óháðir þátttakendum í samkeppninni. Ef tiltekinnar, faglegrar menntunar og hæfis er krafist af þátttakendum í samkeppni skal a.m.k. einn þriðji hluti dómnefndarmanna hafa þá sömu eða sambærilega menntun og hæfi.
  74. gr.
  Ákvarðanir dómnefndar
  1. Dómnefndin skal vera sjálfstæð í ákvörðunum og áliti sínu.
  2. Hún skal rannsaka áætlanir og tillögur, sem þátttakendur leggja fram, undir nafnleynd og eingöngu á grundvelli forsendna sem eru tilgreindar í tilkynningu um samkeppni.
  3. Dómnefndin skal skrá flokkun sína á tillögum eftir kostum þeirra í skýrslu, sem nefndarmenn undirrita, ásamt athugasemdum nefndarinnar og þeim atriðum sem kunna að þarfnast skýringar.
  4. Halda verður nafnleynd þar til álit eða ákvörðun dómnefndar liggur fyrir.
  5. Þátttakendum kann að vera boðið, ef þörf krefur, að svara spurningum sem dómnefndin hefur skráð í fundargerð til að skýra einhverja þætti tillagnanna.
  6. Rita skal ítarlega fundargerð af viðræðum dómnefndarmanna og þátttakenda.
  V. BÁLKUR
  SKYLDAN AÐ VEITA TÖLULEGAR UPPLÝSINGAR, FRAMKVÆMDARVALD OG LOKAÁKVÆÐI
  75. gr.
  Skyldan að veita tölulegar upplýsingar
  Til að unnt sé að meta árangurinn af beitingu þessarar tilskipunar skulu aðildarríkin, eigi síðar en 31. október ár hvert, senda framkvæmdastjórninni tölulega skýrslu sem, í samræmi við 76. gr., er samin sérstaklega fyrir hverja tegund samnings, opinbera vörusamninga, þjónustusamninga og verksamninga sem samningsyfirvöld hafa gert árið áður.
  76. gr.
  Efni tölulegra skýrslna
  1. Í tölulegri skýrslu skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi upplýsingar varðandi hvert og eitt samningsyfirvald sem tilgreint er í IV. viðauka:

      a)    fjöldi og verðmæti samninga sem eru gerðir og falla undir þessa tilskipun,

      b)    fjöldi og heildarverðmæti samninga sem eru gerðir á grundvelli undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
  Sundurliða skal liðina, sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, á eftirfarandi hátt ef unnt er:

      a)    útboðsferli sem notuð eru og

      b)    fyrir hvert ferli, verk sem tilgreind eru í I. viðauka og vörur og þjónusta sem tilgreind er í II. viðauka, sett fram samkvæmt flokkun CPV- flokkunarkerfisins,

      c)    þjóðerni rekstraraðilans sem samningur er gerður við.
  Ef samningarnir hafa verið gerðir á grundvelli samningskaupa skulu upplýsingarnar, sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, einnig sundurliðaðar eftir aðstæðum sem um getur í 30. og 31. gr. og þar skal tilgreina fjölda og verðmæti samninga sem eru gerðir í því aðildarríki eða þriðja landi sem er heimaland verktakans sem varð fyrir valinu.
  2. Í tölulegri skýrslu skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi upplýsingar um hvern flokk samningsyfirvalda sem er ekki tilgreindur í IV. viðauka:

      a)    fjöldi og verðmæti þeirra samninga sem eru gerðir, sundurliðað í samræmi við aðra undirgrein 1. mgr.,

      b)    heildarverðmæti samninga sem eru gerðir á grundvelli undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
  3. Í tölulegri skýrslu skulu koma fram allar aðrar tölulegar upplýsingar sem krafist er samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
  Upplýsingarnar, sem um getur í fyrstu undirgrein, skulu ákvarðaðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr.
  77. gr.
  Ráðgjafarnefnd
  1. Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar ráðgjafarnefndarinnar um opinbera samninga sem stofnuð var með 1. gr. ákvörðunar 71/306/EBE ( Stjtíð. EB L 185, 16.8.1971, bls. 15. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 77/63/EBE (Stjtíð. EB L 13, 15.1.1977, bls. 15).) (hér á eftir kölluð „nefndin“).
  2. Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB í samræmi við ákvæði 8. gr. hennar.
  3. Nefndin setur sér starfsreglur.
  78. gr.
  Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða
  1. Framkvæmdastjórnin skal sannreyna viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í 7. gr., annað hvert ár eftir gildistöku þessarar tilskipunar og skal, ef þörf krefur, endurskoða þær í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr.
  Útreikningur á þessum viðmiðunarfjárhæðum skal byggjast á meðaldaggengi evrunnar, tilgreint sem sérstök dráttarréttindi (SDR), á 24 mánaða tímabili sem lýkur á síðasta degi ágústmánaðarins næst á undan endurskoðuninni sem tekur gildi 1. janúar. Viðmiðunarfjárhæðir, sem eru endurskoðaðar þannig, skulu, ef þörf krefur, jafnaðar niður að næsta þúsundi evra til að tryggja að tekið sé tillit til gildandi viðmiðunarfjárhæða samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem eru tilgreindar sem sérstök dráttarréttindi.
  2. Samtímis endurskoðuninni skv. 1. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr., aðlaga:

      a)    viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í a-lið fyrstu undirgreinar 8. gr., í 56. gr. og í fyrstu undirgrein 1. mgr. 63. gr., að endurskoðuðum viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinbera verksamninga,

      b)    viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í b-lið fyrstu undirgreinar 8. gr. og í a-lið 1. mgr. 67. gr., að endurskoðuðum viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinbera þjónustusamninga sem gerðir eru af samningsyfirvöldum sem um getur í IV. viðauka,

      c)    viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í b- og c-lið 1. mgr. 67. gr., að endurskoðuðum viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinbera þjónustusamninga sem eru gerðir af samningsyfirvöldum sem eru ekki talin með í IV. viðauka.
  3. Viðmiðunarfjárhæðirnar, sem eru ákveðnar skv. 1. mgr. í innlendum gjaldmiðli aðildarríkis, sem er ekki aðili að myntbandalaginu, skulu að jafnaði leiðréttar annað hvert ár frá 1. janúar 2004 að telja. Útreikningur á slíkum viðmiðunarfjárhæðum skal byggjast á meðaldaggengi þess sama gjaldmiðils, tilgreint í evrum, á 24 mánaða tímabili sem lýkur á síðasta degi ágústmánaðarins næst á undan endurskoðuninni sem tekur gildi 1. janúar.
  4. Framkvæmdastjórnin skal birta endurskoðuðu viðmiðunarfjárhæðirnar, sem um getur í 1. mgr., og verðmæti þeirra í innlendum gjaldmiðli, sem um getur í 3. mgr., í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í upphafi næsta nóvembermánaðar eftir endurskoðun.
  79. gr.
  Breytingar
  1. Framkvæmdastjórnin getur breytt eftirfarandi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr.:

      a)    tæknilegri útfærslu á reikniaðferðum sem eru settar fram í annarri undirgrein 1. mgr. 78. gr. og í 3. mgr. 78. gr.,

      b)    reglum um samningu, sendingu, móttöku, þýðingu, söfnun og dreifingu tilkynninga sem um getur í 35., 58., 64. og 69. gr. og tölulegra skýrslna sem kveðið er á um í fjórðu undirgrein 4. mgr. 35. gr. og í 75. og 76. gr.,

      c)    sérstökum reglum um tilvísun, í tilkynningum, til tiltekinnar stöðu í CPV-flokkunarkerfinu,

      d)    skrám yfir aðila og flokka aðila í III. viðauka, sem falla undir opinberan rétt, þegar það er nauðsynlegt á grundvelli tilkynninga frá aðildarríkjunum,

      e)    skrám yfir yfirvöld á vegum ríkisstjórna í IV. viðauka eftir því hvaða aðlaganir eru nauðsynlegar til að samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gildi,

      f)    tilvísunarnúmerum til flokkunarkerfis, sem sett eru fram í I. viðauka, svo fremi að það breyti ekki efnislegu gildissviði þessarar tilskipunar, og reglum um tilvísun, í tilkynningum, til tiltekinnar stöðu í því flokkunarkerfi,

      g)    tilvísunarnúmerum til flokkunarkerfis, sem sett eru fram í II. viðauka, svo fremi að það breyti ekki efnislegu gildissviði þessarar tilskipunar, og reglum um tilvísun í tilkynningum til tiltekinnar stöðu í því flokkunarkerfi innan þjónustuflokka sem skráðir eru í viðaukanum,

      h)    reglum um sendingu og birtingu gagna sem um getur í VIII. viðauka á grundvelli tækniþróunar eða af stjórnunarlegum ástæðum,

      i)    tæknilegum atriðum og eiginleikum búnaðar fyrir rafræna móttöku sem um getur í a-, f- og g-lið X. viðauka.
  80. gr.
  Framkvæmd
  1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. janúar 2006. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
  Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
  2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.
  81. gr.
  Eftirlitskerfi
  Í samræmi við tilskipun ráðsins 89/665/EBE frá 21. desember 1989 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna á reglum um meðferð kæru vegna útboðs og gerðar opinberra vörukaupa- og verksamninga ( Stjtíð. EB L 395, 30.12. 1989, bls. 33. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 92/50/EBE.) skulu aðildarríkin tryggja framkvæmd þessarar tilskipunar með skilvirkum, aðgengilegum og gagnsæjum aðferðum.
  Með það fyrir augum geta þau m.a. tilnefnt eða komið á fót óháðri stofnun.
  82. gr.
  Niðurfelling
  Tilskipun 92/50/EBE, að frátaldri 41. gr., og tilskipanir 93/36/EBE og 93/37/EBE falli úr gildi frá og með þeim degi sem er tilgreindur í 80. gr., með fyrirvara um skyldur aðildarríkjanna varðandi frest til lögleiðingar og beitingar sem eru settar fram í XI. viðauka.
  Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipanirnar sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í XII. viðauka.
  83. gr.
  Gildistaka
  Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
  84. gr.
  Viðtakendur
  Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
  Gjört í Strassborg 31. mars 2004.
  Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
  P. COX D. ROCHE
  forseti. forseti.


  I. VIÐAUKI
  SKRÁ YFIR STARFSEMI SEM UM GETUR Í b-LIÐ 2. MGR. 1. GR. (Ef mismunandi túlkun er á CPV og NACE gildir NACE-flokkunarkerfið.)
  Atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins (1)
  CPV-kóði BÁLKUR F BYGGINGAR-
  Deild Flokkur Grein Efni Athugasemdir STARFSEMI
  45 Byggingarstarfsemi Til þessarar deildar telst:
  smíði nýrra húsa og annarra bygginga, endurbyggingar og almennar viðgerðir
  45000000
  45.1 Undirbúningsvinna á byggingarstað 45100000
  45.11 Niðurrif bygginga og jarðvegsvinna Til þessarar greinar telst:
  – niðurrif bygginga og annarra mannvirkja
  – hreinsun byggingarlóða
  – jarðvegsvinna: uppgröftur, uppfylling, jöfnun lands og sléttun byggingarlóða, skurðgröftur, grjóthreinsun, sprengingar o.s.frv.
  – undirbúningur námusvæðis:
  – t.d. að fjarlægja yfirborðsjarðveg og önnur vinna og undirbúningur námusvæðis
  Til þessarar greinar telst einnig:
  – framræsla byggingarlóða
  – framræsla lands til ræktunar- eða skógarnytja
  45110000
  45.12 Tilraunaboranir og borvinna Til þessarar greinar telst:
  – boranir og taka borkjarna í tilraunaskyni í tengslum við byggingar, jarðeðlisfræðilegar og jarðfræðilegar athuganir eða í öðrum tilgangi
  Til þessarar greinar telst ekki:
  – boranir vegna vinnslu á olíu- eða jarðgasi, sjá 11.20
  – boranir fyrir vatnsbrunnum, sjá 45.25
  – gröftur (shaft sinking), sjá 45.25
  – olíu- og jarðgasleit, rannsóknir á sviði jarðeðlisfræði og jarðfræði- og jarðskjálftarannsóknir, sjá 74.20
  45120000
  45.2 Smíði húsa eða húshluta og önnur mannvirkjagerð 45200000
  45.21 Almenn húsasmíði og mannvirkjagerð Til þessarar greinar telst:
  smíði hvers konar bygginga
  mannvirkjagerð:
  brúarsmíði, þ.m.t. vegna upphækkaðra þjóðvega, tengibrúa, ganga og neðanjarðarganga
  lagning leiðslna, fjarskiptaleiðslna og raflína um langan veg
  lagning leiðslna, fjarskiptaleiðslna og raflína í þéttbýli
  tengd starfsemi í þéttbýli
  samsetning og uppsetning forsmíðaðra bygginga á byggingarlóð.
  Til þessarar greinar telst ekki:
  þjónustustarfsemi sem tengist olíu- og jarðgasvinnslu, sjá 11.20
  uppsetning fullbúinna, forsmíðaðra einingahúsa, ekki úr steinsteypu, sem eru smíðuð úr hlutum, framleiddum í eigin verksmiðju, sjá 20., 26. og 28. deild
  byggingarframkvæmdir, aðrar en húsasmíði, í tengslum við leikvanga, sundlaugar, íþróttahús, tennisvelli, golfvelli og önnur íþróttamannvirki, sjá 45.23
  lagnavinna, sjá 45.3
  frágangur bygginga, sjá 45.4
  starfsemi arkitekta og verkfræðinga, sjá 74.20
  verkefnastjórnun við byggingarframkvæmdir, sjá 74.20
  45210000
  45.22 Vinna við þök Til þessarar greinar telst:
  uppsetning þaks
  þakklæðning
  vatnseinangrun.
  45220000
  45.23 Gerð þjóðvega, vega flugvalla og íþróttamannvirkja Til þessarar greinar telst:
  gerð þjóðvega, gatna, vega og annarra aksturs- og gangbrauta
  lagning járnbrauta
  lagning flugbrauta
  byggingarframkvæmdir, aðrar en húsasmíði, í tengslum við leikvanga, sundlaugar, íþróttahús, tennisvelli, golfvelli og önnur íþróttamannvirki
  merkingar á vegum og bifreiðastæðum.
  Til þessarar greinar telst ekki:
  jarðvegsvinna til undirbúnings, sjá 45.11
  45230000
  45.24 Gerð vatnsmannvirkja Til þessarar greinar telst:
  vinna við:
  vatnaleiðir, hafnir og flóðgarða, smábátahafnir, skipastiga, o.s.frv.
  stíflur og ræsi
  dýpkunarframkvæmd
  vinna undir vatnsyfirborði
  45240000
  45.25 Aðrar byggingarframkvæmdir sem krefjast sérhæfingar Til þessarar greinar telst:
  byggingarstarfsemi sem er sérhæfð á einu sviði, sameiginlegu með ólíkum tegundum bygginga, sem krefst sérstakrar hæfni eða sérstaks búnaðar:
  undirstöðuvinna, þ.m.t. að reka niður burðarstólpa
  borun og bygging vatnsbrunna, gröftur (shaft sinking)
  uppsetning stáleininga sem eru ekki eigin framleiðsla
  að beygja stál
  múrsteinslögn og steinlögn
  að setja upp og taka sundur vinnupalla, þ.m.t. leiga á slíkum pöllum
  uppsetning reykháfa og iðnaðarofna
  Til þessarar greinar telst ekki:
  leiga á vinnupöllum án uppsetningar og sundurtekningar, sjá 71.32
  45250000
  45.3 Lagnavinna 45300000
  45.31 Vinna við raflagnir Til þessarar greinar telst:
  uppsetning í hús og önnur mannvirki:
  raflagnir og raftengi
  fjarskiptakerfi
  rafhitunarkerfi
  loftnet fyrir íbúðarhús
  brunaboðar
  þjófavarnarkerfi
  lyftur og rúllustigar
  eldingarvarar o.s.frv.
  45310000
  45.32 Vinna við einangrun Til þessarar greinar telst:
  uppsetning hita-, hljóð- og titringseinangrunar í hús og önnur mannvirki
  Til þessarar greinar telst ekki:
  lagning vatnseinangrunar, sjá 45.22
  45320000
  45.33 Pípulagnir Til þessarar greinar telst:
  uppsetning í hús og önnur mannvirki:
  pípulagnir og uppsetning hreinlætistækja
  gasbúnaður
  búnaður og rásir fyrir upphitun, loftræstingu, kælingu eða hitajöfnun
  úðakerfi
  Til þessarar greinar telst ekki:
  lagning rafhitunarkerfa, sjá 45.31
  45330000
  45.34 Önnur lagnavinna Til þessarar greinar telst:
  uppsetning lýsingar- og merkjakerfa fyrir vegi, járnbrautir, flugvelli og hafnir
  uppsetning festinga og fylgihluta í byggingum og öðrum mannvirkjum
  45340000
  45.4 Frágangur bygginga 45400000
  45.41 Múrverk Til þessarar greinar telst:
  múrhúðun eða pússning bygginga eða annarra mannvirkja innan eða utan húss, þ.m.t. net eða grindur fyrir múrhúð
  45410000
  45.42 Uppsetning innréttinga Til þessarar greinar telst:
  ísetning hurða og glugga, dyra- og gluggakarma, uppsetning eldhúsinnréttinga, stiga, verslunarinnréttinga og þess háttar, úr viði eða öðrum efnum sem eru ekki framleidd á eigin verkstæði eða verksmiðju
  frágangur innan húss, t.d. vinna við loft, veggklæðningar úr viði, færanlega skilveggi o.s.frv.
  Til þessarar greinar telst ekki:
  lagning parketgólfa og annarra viðargólfa, sjá 45.43
  45420000
  45.43 Lagning gólf- og veggefna Til þessarar greinar telst:
  lagning gólf- og veggefna í hús og önnur mannvirki:
  keramikflísar, steyptar flísar eða skornar steinflísar fyrir veggi og gólf
  parket og önnur viðargólfefni
  teppi og gólfefni úr línóleum, einnig úr gúmmí og plasti
  terrassó-, marmara-, granít- eða steinflögur á gólf eða veggi
  veggfóður
  45430000
  45.44 Málningarvinna og glerjun Til þessarar greinar telst:
  málun bygginga innan húss og utan
  málun mannvirkja
  ísetning glers, spegla, o.s.frv.
  Til þessarar greinar telst ekki:
  ísetning glugga, sjá 45.42
  45440000
  45.45 Annar frágangur bygginga Til þessarar greinar telst:
  lagning einkasundlauga
  gufuhreinsun, sandblástur og áþekk vinna á útveggjum bygginga
  annar lokafrágangur á byggingum, ót.a.
  Til þessarar greinar telst ekki:
  hreinsun á byggingum og öðrum mannvirkjum að innanverðu, sjá 74.70
  45450000
  45.5 Leiga á vinnuvélum eða niðurrifstækjum með stjórnanda 45500000
  45.50 Leiga á vinnuvélum eða niðurrifstækjum með stjórnanda Til þessarar greinar telst ekki:
  leiga á vinnuvélum og tækjum til mannvirkjagerðar og niðurrifs, án stjórnanda, sjá 71.32
  (1) Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3037/90 frá 9. október 1990 um atvinnugreinaflokkun Evrópubandalagsins (Stjtíð. EB L 293, 24.10.1990, bls. 1). Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 761/93 frá 24. mars 1993 (Stjtíð. EB L 83, 3.4.1993, bls. 1).

  II. VIÐAUKI
  ÞJÓNUSTA SEM UM GETUR Í d-LIÐ 2 MGR. 1. GR.
  II. VIÐAUKI A (Ef mismunandi túlkun er á CPV og CPC gildir CPC-flokkunarkerfið.)
  Flokkur nr. Efni CPC-tilvísunarnúmer (1) CPV-tilvísunarnúmer
  1 Viðhalds- og viðgerðarþjónusta 6112, 6122, 633, 886 Frá 50100000 til 50982000 (þó ekki 50310000 til 50324200 og 50116510-9, 50190000-3, 50229000-6, 50243000-0)
  2 Flutningaþjónusta á landi (2), einnig með brynvörðum bifreiðum, og hraðsendingaþjónusta, að frátöldum póstflutningum 712 (þó ekki 71235), 7512, 87304 Frá 60112000-6 til 60129300-1 (þó ekki 60121000 til 60121600, 60122200-1, 60122230-0), og frá 64120000-3 til 64121200-2
  3 Farþega- og vöruflutningar í lofti, að frátöldum póstflutningum 73 (þó ekki 7321) Frá 62100000-3 til 62300000-5 (þó ekki 62121000-6, 62221000-7)
  4 Póstflutningar á landi (3) og í lofti 71235, 7321 60122200-1, 60122230-0 62121000-6, 62221000-7
  5 Fjarskiptaþjónusta 752 Frá 64200000-8 til 64228200-2, 72318000-7 og frá 72530000-9 til 72532000-3
  6 Fjármálaþjónusta
  Vátryggingaþjónusta
  Banka- og fjárfestingaþjónusta (4)
  ekki 81, 812, 814 Frá 66100000-1 til 66430000-3 og frá 67110000-1 til 67262000-1(4)
  7 Tölvuþjónusta og skyld þjónusta 84 Frá 50300000-8 til 50324200-4, frá 72100000-6 til 72591000-4 (þó ekki 72318000-7 og frá 72530000-9 til 72532000-3)
  8 Rannsóknir og þróun (5) 85 Frá 73000000-2 til 73300000-5 (þó ekki 73200000-4, 73210000-7, 7322000-0)
  9 Reikningshald, endurskoðun og bókhald 862 Frá 74121000-3 til 74121250-0
  10 Markaðsrannsóknir og skoðanakannanir 864 Frá 74130000-9 til 74133000-0 og 74423100-1, 74423110-4
  11 Rekstrarráðgjöf (6) og skyld þjónusta 865, 866 Frá 73200000-4 til 73220000-0, Frá 74140000-2 til 74150000-5 (þó ekki 74142200-8) og 74420000-9, 74421000-6, 74423000-0, 74423200-2, 74423210-5, 74871000-5, 93620000-0
  12 Arkitektaþjónusta, verkfræðiþjónusta og samþætt verkfræðiþjónusta, þjónusta á sviði borgar- og landslagsskipulags, vísindaleg og tæknileg ráðgjöf sem tengist þessum greinum, tækniprófanir og greining 867 Frá 74200000-1 til 74276400-8 og frá 74310000-5 til 74323100-0 og 74874000-6
  13 Auglýsingastarfsemi 871 Frá 74400000-3 til 74422000-3 (þó ekki 74420000-9 og 74421000-6)
  14 Ræstingar- og húsvarðaþjónusta 874, 82201 til 82206 Frá 70300000-4 til 70340000-6 og frá 74710000-9 til 74760000-4
  15 Útgáfu- og prentunarþjónusta gegn gjaldi eða samkvæmt samningi 88442 Frá 78000000-7 til 78400000-1
  16 Skólpveitur, sorphreinsun, hreinsunardeildir og skyld starfsemi 94 Frá 90100000-8 til 90320000-6 og 50190000-3, 50229000-6, 50243000-0
  (1) CPC-flokkunarkerfið (bráðabirgðaútgáfa), notað til að skilgreina gildissvið tilskipunar 92/50/EBE.
  (2) Að frátöldum flutningum með járnbrautum sem falla undir 18. flokk.
  (3) Að frátöldum flutningum með járnbrautum sem falla undir 18. flokk.
  (4) Að frátalinni fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða framsal verðbréfa eða annarra fjármálagerninga og þjónustu seðlabanka.
  Einnig er undanskilin þjónusta, sem felur í sér kaup eða leigu lands, bygginga eða annarra fasteigna eða varðar rétt til þeirra, óháð fjármögnunaraðferðum; fjármálaþjónusta sem er veitt samtímis, fyrir eða eftir gerð samnings um kaup eða leigu, í hvaða formi sem er, skal þó falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
  (5) Að frátalinni annarri rannsóknar- og þróunarþjónustu en þeirri sem er eingöngu til hagsbóta fyrir samningsyfirvöld í eigin starfsemi þeirra, að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu.
  (6) Að frátalinni þjónustu vegna gerðardómsmeðferðar og sáttaumleitana,

  II. VIÐAUKI B
  Flokkur nr. Efni CPC-tilvísunarnúmer CPV-tilvísunarnúmer
  17 Hótel- og veitingahúsarekstur 64 Frá 55000000-0 til 55524000-9 og frá 93400000-2 til 93411000-2
  18 Járnbrautarflutningar 711 60111000-9 og frá 60121000-2 til 60121600-8
  19 Flutningar á sjó og vatnaleiðum 72 Frá 61000000-5 til 61530000-9 og frá 63370000-3 til 63372000-7
  20 Stuðnings- og stoðþjónusta í tengslum við flutninga 74 62400000-6, 62440000-8, 62441000-5, 62450000-1, Frá 63000000-9 til 63600000-5 (þó ekki 63370000-3, 63371000-0, 63372000-7) og 74322000-2, 93610000-7
  21 Lögfræðiþjónusta 861 Frá 74110000-3 til 74114000-1
  22 Vinnumiðlun og ráðningarþjónusta (1) 872 Frá 74500000-4 til 74540000-6 (þó ekki 74511000-4) og frá 95000000-2 til 95140000-5
  23 Rannsóknir og öryggisþjónusta, að frátöldum brynvörðum bifreiðum 873 (þó ekki 87304) Frá 74600000-5 til 74620000-1
  24 Menntun og starfsmenntun 92 Frá 80100000-5 til 80430000-7
  25 Heilbrigðisþjónusta og félagsþjónusta 93 74511000-4 og frá 85000000-9 til 85323000-9 (þó ekki 85321000-5 og 85322000-2)
  26 Tómstunda-, menningar- og íþróttastarfsemi 96 Frá 74875000-3 til 74875200-5 og frá 92000000-1 til 92622000-7 (þó ekki 92230000-2)
  27 Önnur þjónusta (2)
  (1) Að frátöldum ráðningarsamningum.
  (2) Að frátöldum samningum um kaup, þróun, framleiðslu eða samframleiðslu á dagskrárefni af hálfu útvarpsrekenda og samningum um útsendingartíma.

  [Í stað III. viðauka kemur hluti I í 1. viðbæti í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sbr. 7. gr. ákvörðunar nefndarinnar.]
  SKRÁ YFIR STOFNANIR OG FLOKKA STOFNANA SEM HEYRA UNDIR OPINBERAN RÉTT EINS OG UM GETUR Í ANNARRI UNDIRGREIN 9. MGR. 1. GR.
  I. Á ÍSLANDI
  Ríkisreknar innkaupastofnanir sem eru ekki á sviði iðnaðar eða viðskipta og heyra undir lög um skipan opinberra framkvæmda [nr. 84/2001, lög um opinber innkaup, nr. 94/2001, og reglugerð nr. 655/2003, með síðari breytingum.] 1
  Stofnanir
  — Ríkiskaup
  — Framkvæmdasýslan
  — Vegagerð ríkisins
  — Siglingastofnun Íslands
  Flokkar
  — Sveitarfélög

  1 Leiðréttar laga- og reglugerðartilvísanir frá hluta I í 1. viðbæti í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006.
  [Í stað IV. viðauka kemur 2. viðbætir í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006.]
  YFIRVÖLD Á VEGUM RÍKISINS (1)
  ÍSLAND
  Ríkisreknar innkaupastofnanir eða fyrirtæki sem eru ekki á sviði iðnaðar eða viðskipta og heyra undir lög um opinber innkaup, nr. 94/2001, með síðari breytingum.
  Ríkiskaup
  Framkvæmdasýslan
  Vegagerð ríkisins

  1 Í þessari tilskipun merkir „yfirvöld á vegum ríkisins“ yfirvöld sem eru tilgreind í þessum viðauka til leiðbeiningar og, hafi leiðréttingar eða breytingar verið gerðar í viðkomandi landi, einingar sem koma í stað þeirra.
  V. VIÐAUKI
  SKRÁ YFIR VÖRUR SEM UM GETUR Í 7. GR., MEÐ TILLITI TIL SAMNINGA SEM SAMNINGSYFIRVÖLD GERA Á SVIÐI VARNARMÁLA
  [V. viðauka er sleppt þar sem um engar vörur er að ræða sem falla undir viðaukann hvað Ísland varðar, sbr. 3. viðbæti í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006.]
  VI. VIÐAUKI
  SKILGREINING TILTEKINNA TÆKNIFORSKRIFTA
       Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

       1. a)    „Tækniforskrift“, þegar um er að ræða opinbera verksamninga: öll tæknileg fyrirmæli, sem einkum skulu tekin fram í útboðsgögnum, þar sem skilgreindir eru tilskildir eiginleikar efnis, vöru eða aðfanga sem gera það kleift að lýsa efninu, vörunni eða aðföngunum á þann hátt að svari til þeirrar notkunar sem samningsyfirvöld hafa fyrirhugað. Þessir eiginleikar skulu taka til tiltekins vistvænleika, hönnunar sem uppfyllir allar kröfur (þ.m.t. aðgengi fyrir fatlaða) og samræmismats, nothæfis, öryggis eða umfangs, þ.m.t. aðferðir við gæðatryggingu, hugtök, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, pökkun, merking og áletranir, framleiðsluferli og -aðferðir. Þeir skulu einnig taka til reglna um hönnun og kostnaðaráætlanir, skilyrði varðandi prófun, eftirlit og samþykki verka og aðferða eða byggingartækni ásamt öllum öðrum tæknilegum skilyrðum sem samningsyfirvaldið getur sett samkvæmt almennum eða sérstökum reglum um verk sem er að fullu lokið og efni og hluta sem til þess teljast,

       b)    „tækniforskrift“, þegar um er að ræða opinbera vöru- eða þjónustusamninga: forskrift í skjali þar sem skilgreindir eru tilskildir eiginleikar vöru eða þjónustu, svo sem tiltekin gæði og vistvænleiki, hönnun sem uppfyllir allar kröfur (þ.m.t. aðgengi fyrir fatlaða) og samræmismat, nothæfi, notkun vörunnar, öryggi eða umfang, þ.m.t. kröfur varðandi viðskiptaheiti, hugtök, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, pökkun, merkingu og áletranir, notendaleiðbeiningar, framleiðsluferli og -aðferðir og aðferðir við samræmismat.
  1. „Staðall“: tækniforskrift sem er samþykkt af staðlastofnun til endurtekinnar eða stöðugrar notkunar, án þess að skylt sé að fylgja henni, og sem fellur undir eftirtalda flokka:

        —    alþjóðlegur staðall: staðall sem er aðlagaður af alþjóðlegri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,

        —    Evrópustaðall: staðall sem er samþykktur af evrópskri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,

        —    landsstaðall: staðall sem er samþykktur af innlendri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi.

  2. „Evrópskt tæknisamþykki“: jákvætt, tæknilegt mat á nothæfi vöru í ákveðnum tilgangi, gefið á grundvelli þess að innbyggðir eiginleikar vörunnar og skilgreind skilyrði um nýtingu og notkun uppfylli grunnkröfur um byggingarframkvæmdir. Evrópskt tæknisamþykki skal gefið út af samþykktaraðila sem aðildarríkið tilnefnir.
  3. „Sameiginleg tækniforskrift“: tækniforskrift sem mælt er fyrir um í samræmi við málsmeðferð sem aðildarríkin viðurkenna og hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
  4. „Tækniviðmiðun“: hvers konar framleiðsla evrópskra staðlastofnana, annað en opinberir staðlar, í samræmi við reglur sem settar eru vegna þróunar á markaðsþörfum.

  VII. VIÐAUKI
  UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM
  VII. VIÐAUKI A
  UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM UM OPINBER ÚTBOÐ
  TILKYNNING UM BIRTINGU KYNNINGARTILKYNNINGAR Í UPPLÝSINGASKRÁ KAUPANDA
  1. Heimaland samningsyfirvalds.
  2. Heiti samningsyfirvalds.
  3. Netfang „upplýsingaskrár kaupanda“ (URL).
  4. CPV-tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.

  KYNNINGARTILKYNNING
  1. Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalds og, ef ástæða er til, samsvarandi upplýsingar um þjónustu þar sem hægt er að fá viðbótarupplýsingar og, þegar um er að ræða þjónustu- og verksamninga, um þjónustu, t.d. heimasíðu viðkomandi stjórnvalds, þar sem hægt er að fá upplýsingar um regluverk fyrir skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuaðstæður sem gildir á staðnum þar sem samningurinn kemur til framkvæmda.
  2. Ef við á skal tilgreina hvort opinberi samningurinn sé bundinn við verndaða vinnustaði eða hvort framkvæmd hans takmarkist við áætlanir um verndaða vinnu.
  3. Þegar um er að ræða opinbera verksamninga: hvers eðlis verkið er og umfang þess og staðinn þar sem það er unnið, helstu eiginleika verkhluta miðað við verkið allt ef skipta á verkinu, áætlað kostnaðarbil fyrirhugaðra verka, ef það liggur fyrir, og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
  4. Ef um er að ræða opinbera vörusamninga: eðli og magn eða verðmæti vörunnar sem á að afhenda, og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
  5. Þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga: heildarfjárhæð fyrirhugaðra kaupa í hverjum og einum þjónustuflokki í II. viðauka A og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
  6. Áætluð dagsetning dagsins þegar útboðsferli samnings eða samninga hefst þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga samkvæmt flokkun.
  7. Ef við á skal tilgreina hvort rammasamningur hafi verið gerður.
  8. Aðrar upplýsingar ef við á.
  9. Sendingardagur kynningartilkynningar eða sendingardagur tilkynningar um birtingu hennar í upplýsingaskrá kaupanda.
  10. Tilgreina skal hvort samningurinn fellur undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

  ÚTBOÐSTILKYNNING
  Almennt útboð og lokað útboð, samkeppnisviðræður, samningskaup:
  1. Nafn, heimilisfang, síma- og bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda.
  2. Ef við á skal tilgreina hvort opinberi samningurinn er bundinn við verndaða vinnustaði eða hvort framkvæmd hans takmarkast við áætlanir um verndaða vinnu.

       3. a)    Útboðsferli sem valið er,

       b)    ef við á, ástæðurnar fyrir notkun hraðútboðs (í lokuðu útboði og samningskaupum),

       c)    ef við á skal tilgreina hvort rammasamningur hafi verið gerður,

       d)    ef virkt, rafrænt innkaupakerfi er notað skal geta um það,

       e)    ef við á skal geta um rafrænt uppboð (þegar um er að ræða almennt útboð, lokað útboð eða samningskaup við aðstæður sem um getur í a-lið 1. mgr. 30. gr.).
  1. Form samningsins.
  2. Framkvæmda- eða vinnslustaður verksins eða afhendingarstaður vöru eða þjónustu.

       6. a)    Opinberir verksamningar:

        —    eðli og umfang verksins og almenn lýsing á starfseminni. Einkum skal tilgreina valkosti um viðbótarverk og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða um nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Ef verkinu eða samningnum er skipt í nokkra verkhluta skal tilgreina stærð hinna ýmsu verkhluta og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis,

        —    upplýsingar um tilganginn með verkinu eða samningnum þegar áætlanagerð er innifalin í samningnum,

        —    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð verksins á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera.

       b)    Opinberir vörusamningar:

        —    eðli vörunnar sem á að afhenda og skal einkum tilgreina hvort leitað er eftir tilboðum um kaup, langtímaleigu, skammtímaleigu eða kaupleigu eða sambland af þessu, svo og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis. Magn vörunnar sem á að afhenda og skal einkum tilgreina valkosti um viðbótarkaup og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða fyrir nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Tilvísunarnúmer flokkunarkerfis,

        —    sé um að ræða tímasetta eða endurnýjanlega samninga á tilteknu tímabili skal einnig tilgreina, ef unnt er, tímatöflu fyrir síðari samninga um kaup á viðkomandi vöru,

        —    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarverðmæti vörunnar á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera.


       c)    Opinberir þjónustusamningar:

        —    flokkur þjónustunnar og lýsing á henni. Tilvísunarnúmer flokkunarkerfis. Umfang þjónustunnar sem á að veita. Einkum skal tilgreina valkosti um kaup á viðbótarþjónustu og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða um nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Sé um að ræða endurnýjanlega samninga á tilteknu tímabili skal tilgreina áætlaðan tímaramma, ef unnt er, fyrir síðari opinbera samninga um kaup á viðkomandi þjónustu,

        —    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð þjónustunnar á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera,

        —    tilgreina skal hvort framkvæmd þjónustunnar er bundin við sérstaka starfsgrein í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,
   1. tilvísun í lög og stjórnsýslufyrirmæli,

   2.     —    tilgreina skal hvort lögaðilar skuli gefa upp nöfn og starfsmenntun og hæfi þeirra starfsmanna sem annast framkvæmd þjónustunnar.

  1. Sé samningum skipt í nokkra hluta skal geta um það hvort unnt er að bjóða í einn hluta, nokkra af hlutunum eða þá alla.
  2. Frestur til að ljúka verksamningi, vörusamningi eða þjónustusamningi eða til hve langs tíma slíkur samningur er gerður; ef unnt er skal einnig tilgreina tímamörkin þegar verk á að hefjast og þegar afhending vöru eða þjónustu á að hefjast.
  3. Samþykki eða bann við frávikstilboðum.
  4. Sé framkvæmd samningsins sérstökum skilyrðum háð skal tilgreina það ef unnt er.
  5. Almenn útboð:

   1.     a)    nafn, heimilisfang, síma- og bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar þar sem hægt er að leggja fram beiðni um útboðsgögn og viðbótargögn,

        b)    ef við á, frestur til að leggja fram slíka beiðni,

        c)    ef við á, verð og greiðsluskilmálar vegna slíkra gagna.

       12. a)    Skilafrestur tilboða eða kynningarboða þar sem virkt innkaupakerfi er notað (almenn útboð),

       b)    skilafrestur þátttökutilkynningar (lokað útboð og samningskaup),

       c)    heimilisfang sem senda á þessar upplýsingar til,

       d)    tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á.
  1. Almenn útboð:

  2.     a)    einstaklingar sem hafa heimild til að vera viðstaddir opnun tilboða,

       b)    dagsetning, staður og stund fyrir slíka opnun.
  1. Ef við á, tryggingarfé og aðrar ábyrgðir sem krafist er.
  2. Helstu skilmálar varðandi fjármögnun og greiðslur og/eða tilvísanir í texta þar sem þetta er að finna.
  3. Eftir því sem við á, hvaða rekstrarform að lögum sá hópur rekstraraðila, sem gera á samning við, skal hafa.
  4. Valforsendur varðandi persónulega stöðu rekstraraðila, sem geta valdið því að þeir verði útilokaðir, og umbeðnar upplýsingar sem sanna að þeir falli ekki undir tilvik sem réttlæta útilokun. Valforsendur og upplýsingar varðandi persónulega stöðu rekstraraðila, upplýsingar og öll, nauðsynleg formsatriði vegna mats á þeirri efnahagslegu og tæknilegu stöðu rekstraraðila sem krafist er. Hugsanlega eru gerðar sérstakar lágmarkskröfur.
  5. Sé um að rammasamning að ræða: fjöldi og, ef við á, fyrirhugaður hámarksfjöldi rekstraraðila, sem geta orðið aðilar að rammasamningnum, gildistími hans og, ef við á, ástæður fyrir lengri gildistíma en fjórum árum.
  6. Sé um að ræða samkeppnisviðræður eða samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar skal tilgreina, ef við á, hvort ferlið fer fram í áföngum með það fyrir augum að fækka smám saman lausnum sem verða ræddar eða tilboðum sem samið verður um.
  7. Þegar um er að ræða lokað útboð, samkeppnisviðræður eða samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar og sá kostur tekinn að takmarka þann fjölda aðila sem boðið er að gera tilboð eða taka þátt í viðræðum eða gera samning: lágmarksfjöldi og, ef við á, fyrirhugaður hámarksfjöldi þátttakenda og hlutlægar viðmiðanir sem nota á við að velja þann fjölda.
  8. Gildistími tilboðs (almenn útboð).
  9. Eftir því sem við á, nöfn og heimilisföng rekstraraðila sem samningsyfirvöld hafa þegar valið (samningskaup).
  10. Forsendur sem um getur í 53. gr. og nota á þegar valið er úr tilboðun: „lægsta verð“ eða „fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið“. Tilgreina skal forsendur fyrir fjárhagslega hagkvæmasta tilboði ásamt vægi þeirra ef þær koma ekki fram í útboðskilmálum eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum.
  11. Nafn og heimilisfang aðilans sem sér um meðferð kærumála og, ef við á, sáttameðferð. Nákvæmar upplýsingar um það hvenær leggja má fram kæru í síðasta lagi eða, ef þörf krefur, nafn heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar sem veitir þessar upplýsingar.
  12. Birtingardagur eða -dagar kynningartilkynningar, í samræmi við tækniforskriftirnar um birtingu sem getið er í VIII. viðauka, eða yfirlýsing um að slík birting hafi ekki átt sér stað.
  13. Sendingardagur tilkynningarinnar.
  14. Tilgreina skal hvort samningurinn fellur undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

  EINFÖLDUÐ ÚTBOÐSTILKYNNING, NOTUÐ Í TENGSLUM VIÐ VIRKT INNKAUPAKERFI
  1. Heimaland samningsyfirvalds.
  2. Nafn og tölvupóstfang samningsyfirvalds.
  3. Tilvísun í birtingu útboðstilkynningar fyrir virka innkaupakerfið.
  4. Tölvupóstfang þar sem tækniforskriftin og viðbótarskjöl varðandi virka innkaupakerfið eru tiltæk.
  5. Efni samnings: lýsing samkvæmt tilvísunarnúmeri eða –númerum CPV-flokkunarkerfisins ásamt magni eða umfangi sem samningurinn á að taka til.
  6. Tímarammi fyrir framlagningu kynningarboða.

  TILKYNNINGAR UM GERÐ SAMNINGS
  1. Nafn og heimilisfang samningsyfirvalds.
  2. Útboðstilhögun sem valin er. Ef samningskaup fara fram án undangenginnar útboðstilkynningar (28. gr.), rökstuðningur fyrir því.
  3. Opinberir verksamningar: eðli og umfang samningsins, almenn lýsing á verkinu.
  4. Opinberir vörusamningar: hvers eðlis varan er, sem á að afhenda, og magn hennar, sundurliðað eftir birgjum ef við á, tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
  5. Opinberir þjónustusamningar: flokkur og lýsing á þjónustunni; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis; magn þjónustunnar.
  6. Dagsetning samningsgerðar.
  7. Forsendur fyrir samningsgerð.
  8. Fjöldi tilboða sem bárust.
  9. Nafn og heimilisfang rekstraraðilans eða rekstraraðilanna sem valdir voru.
  10. Verð eða verðbil (lágmarks-/hámarksverð) sem greitt er.
  11. Fjárhæð tilboðs (tilboða) sem borist hafa eða hæsta og lægsta tilboð sem tekið var tillit til við val samningsaðila.
  12. Ef við á, sá hluti samnings sem líklegt er að verði samið um við þriðja aðila sem undirverktaka og fjárhæð þess hluta.
  13. Birtingardagur útboðstilkynningar í samræmi við tækniskilmála um birtingu í VIII. viðauka
  14. Sendingardagur útboðstilkynningar
  15. Nafn og heimilisfang aðilans sem sér um meðferð kærumála og, ef við á, sáttameðferð. Nákvæmar upplýsingar um það hvenær leggja má fram kæru í síðasta lagi eða, ef þörf krefur, nafn heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar sem veitir þessar upplýsingar.

  VII. VIÐAUKI B
  UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM UM SÉRLEYFI VARÐANDI OPINBER VERK
  1. Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda

  2.     2. a)    Framkvæmdarstaður

       b)    Viðfang sérleyfissamnings, eðli og umfang þjónustunnar

       3. a)    Frestur til að senda inn umsóknir

       b)    Heimilisfang sem umsóknir skulu sendar til

       c)    Tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á
  3. Persónuleg, tæknileg og fjárhagsleg skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla
  4. Forsendur sem verða notaðar við val tilboðs
  5. Ef við á, sá hluti verksins sem verður að lágmarki boðinn út til þriðja aðila
  6. Sendingardagur tilkynningarinnar
  7. Nafn og heimilisfang aðilans sem sér um meðferð kærumála og, ef við á, sáttameðferð. Nákvæmar upplýsingar um það hvenær leggja má fram kæru í síðasta lagi eða, ef þörf krefur, nafn heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar sem veitir þessar upplýsingar.

  VII. VIÐAUKI C
  UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í ÚTBOÐSTILKYNNINGUM SÉRLEYFISHAFA, SEM ERU EKKI SAMNINGSYFIRVÖLD, VEGNA VERKSAMNINGA

       1. a)    Framkvæmdarstaður

       b)    Eðli og umfang þjónustunnar, almenn lýsing á verkinu
  1. Frestur til að ljúka verkinu
  2. Nafn og heimilisfang aðilans þar sem hægt er að leggja fram beiðni um útboðsgögn og viðbótargögn

  3.     4. a)    Skilafrestur umsókna um þátttöku og/eða tilboða

       b)    Heimilisfang sem umsóknir skulu sendar til

       c)    Tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á
  4. Hvers konar kröfur um tryggingarfé eða aðrar ábyrgðir
  5. Efnahagsleg og tæknileg skilyrði sem verktaki verður að uppfylla
  6. Forsendur sem verða notaðar við val tilboðs
  7. Sendingardagur tilkynningarinnar

  VII. VIÐAUKI D
  UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM UM HÖNNUNARSAMKEPPNI
  TILKYNNING UM SAMKEPPNI
  1. Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalds og samsvarandi upplýsingar um þjónustu þar sem hægt er að fá viðbótargögn
  2. Lýsing á verkefninu
  3. Tegund samkeppni: almenn eða lokuð
  4. Þegar um er að ræða almenna samkeppni: frestur til að skila verkefnum
  5. Þegar um er að ræða lokaða samkeppni:

   1.     a)    fjöldi þátttakenda sem reiknað er með

        b)    nöfn þátttakenda sem þegar hafa verið valdir, ef einhverjir eru

        c)    forsendur fyrir vali þátttakenda

        d)    frestur fyrir þátttökutilkynningu
  6. Ef við á skal tilgreina hvort þátttaka takmarkist við sérstaka starfsgrein
  7. Forsendur sem nota á við mat á verkefnunum
  8. Nöfn þeirra sem hafa verið valdir í dómnefnd
  9. Tilgreina skal hvort ákvörðun dómnefndar er bindandi fyrir samningsyfirvald
  10. Fjöldi og verðmæti verðlauna
  11. Greiðslur sem allir þátttakendur fá, ef einhverjar eru
  12. Tilgreina skal hvort einhverjir samningar verða gerðir við sigurvegara að lokinni keppni
  13. Sendingardagur tilkynningarinnar

  TILKYNNING UM ÚRSLIT SAMKEPPNI
  1. Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda
  2. Lýsing á verkefninu
  3. Heildarfjöldi þátttakenda
  4. Fjöldi útlendra þátttakenda
  5. Sigurvegari eða sigurvegarar í samkeppninni
  6. Verðlaun, ef einhver eru
  7. Tilvísun í tilkynningu um samkeppni
  8. Sendingardagur tilkynningarinnar

  VIII. VIÐAUKI
  ATRIÐI VARÐANDI BIRTINGU
       
  1. Birting tilkynninga

   1.     a)    Samningsyfirvöld senda tilkynningar, sem um getur í 35., 58., 64. og 69. gr., til skrifstofu opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalaganna með því sniði sem krafist er í tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB frá 13. september 2001 um notkun staðlaðra eyðublaða við birtingu opinberra útboðstilkynninga ( Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1.). Kynningartilkynning, sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr., sem er birt í upplýsingaskrá kaupanda, eins og lýst er í b-lið 2. liðar, skal vera með sama sniði, svo og tilkynning um slíka birtingu.

        b)    Skrifstofa opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalaganna birtir tilkynningar sem um getur í 35., 58., 64. og 69. gr. en ef um er að ræða kynningartilkynningu, sem birtist í upplýsingaskrá kaupanda í samræmi við fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr., skulu samningsyfirvöld birta hana.
   2. Auk þess geta samningsyfirvöld birt þessar upplýsingar á Netinu í „upplýsingaskrá kaupanda“ eins og um getur í b-lið 2. liðar.

   3.     c)    Skrifstofa opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalagsins sendir samningsyfirvöldum staðfestingu á birtingu sem um getur í 8. mgr. 36. gr.
  2. Birting viðbótarupplýsinga

   1.     a)    Samningsyfirvöld eru hvött til að birta útboðsskilmála og öll viðbótarskjöl á Netinu.

        b)    Í upplýsingaskrá kaupanda geta komið fram kynningartilkynningar eins og um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr., upplýsingar um yfirstandandi boð um að leggja fram tilboð, áformuð innkaup, gerða samninga, útboð sem er aflýst og allar gagnlegar, almennar upplýsingar, svo sem um tengiliði, síma- og bréfasímanúmer, póstföng og tölvupóstföng.
  3. Snið tilkynninga og reglur um sendingu þeirra með rafrænum aðferðum
   1. Upplýsingar um snið tilkynninga og reglur um rafræna sendingu þeirra fást á netfanginu „http://simap.eu.int“.

  IX. VIÐAUKI
  SKRÁR
  IX. VIÐAUKI A (Að því er varðar 46. gr. eru „firma- og viðskiptaskrár“ skrárnar sem eru tilgreinar í þessum viðauka og, ef breytingar hafa verið gerðar í viðkomandi löndum, skrárnar sem hafa komið í þeirra stað.)
  OPINBERIR VERKSAMNINGAR
  Firmaskrár og samsvarandi yfirlýsingar og vottorð fyrir hvert aðildarríki eru:

       —    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“,

       —    í Danmörku: „Erhvervs-og Selskabsstyrelsen“,

       —    í Þýskalandi: „Handelsregister“ og „Handwerksrolle“,

       —    í Grikklandi: „Μητρωο Εργοληπτικων Επιχειρησεων“, MEE., sem heyrir undir ráðuneyti umhverfismála, borgar og landsbyggðarskipulags og opinberra framkvæmda (ΥΠΕΧΩΔΕ),

       —    á Spáni: „Registro Oficial de Empresas Clasificadas del Ministerio de Hacienda“,

       —    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,

       —    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,

       —    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“,

       —    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la chambre des métiers“,

       —    í Hollandi: „Handelsregister“,

       —    Í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“ og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,

       —    í Portúgal: „Instituto dos Mercados de Obras Públicas e Particulares e do Imobiliário“ (IMOPPI),

       —    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,

       —    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,

       —    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem stafestir að viðkomandi aðili hafi gefið eðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

  IX. VIÐAUKI B
  OPINBERIR VÖRUSAMNINGAR
  Viðeigandi firma- og viðskiptaskrár og yfirlýsingar og vottorð þar að lútandi eru:

       —    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“,

       —    í Danmörku: „Erhvervs-og Selskabsstyrelsen“,

       —    í Þýskalandi: „Handelsregister“ og „Handwerksrolle“,

       —    í Grikklandi: „Βιοτεχνικο η Εμπορικο Βιομηχανικο Επιμελητηριο“,

       —    á Spáni: „Registro Mercantil“ eða, ef um er að ræða óskráða einstaklinga, vottorð sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein,

       —    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,

       —    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ um að hann sé skráður þar eða, ef hann er ekki skráður, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni og sérstöku viðskiptaheiti,

       —    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“ og „Registro delle commissioni provinciali per l'artigianato“,

       —    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la chambre des métiers“,

       —    í Hollandi: „Handelsregister“,

       —    Í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“ og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,

       —    í Portúgal: „Registo Nacional das Pessoas Colectivas“,

       —    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,

       —    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,

       —    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ um að hann sé skráður þar eða, ef hann er ekki skráður þar, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni og sérstöku viðskiptaheiti.

  IX. VIÐAUKI C
  OPINBERIR ÞJÓNUSTUSAMNINGAR
  Viðeigandi firma- og viðskiptaskrár eða yfirlýsingar og vottorð eru:

       —    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“ og „Ordres professionels/Beroepsorden“,

       —    í Danmörku: „Erhvervs-og Selskabsstyrelsen“,

       —    í Þýskalandi: „Handelsregister“, „Handwerksrolle“, „Vereinsregister“, „Partnerschaftsregister“ og „Mitgliedsverzeichnisse de Berufskammern der Ländern“,

       —    í Grikklandi: verktakinn kann að verða beðinn að leggja fram eiðsvarna yfirlýsingu hjá lögbókanda um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein; í tilvikum sem kveðið er á um í gildandi landslögum, vegna veitingar rannsóknarþjónustu eins og getið er í I. viðauka A, firmaskráin „Μητρωο Μελετητων“ og „Μητρωο Γραφειων Μελετων“,

       —    á Spáni: „Registro Oficial de Empresas Clasificadas del Ministerio de Hacienda“,

       —    í Frakklandi: „Registre du commerce“ og „Répertoire des métiers“,

       —    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni og sérstöku viðskiptaheiti,

       —    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“, „Registro delle commissioni provinciali per l'artigianato“ eða „Consiglio nazionale degli ordini professionali“,

       —    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la chambre des métiers“,

       —    í Hollandi: „Handelsregister“,

       —    Í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“ og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,

       —    í Portúgal: „Registo Nacional das Pessoas Colectivas“,

       —    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,

       —    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,

       —    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

  X. VIÐAUKI
  KRÖFUR VARÐANDI BÚNAÐ FYRIR RAFRÆNA MÓTTÖKU TILBOÐA, ÞÁTTTÖKUTILKYNNINGA OG ÁÆTLANA OG VERKEFNA Í HÖNNUNARSAMKEPPNI
  Búnaður fyrir rafræna móttöku tilboða, þátttökutilkynninga og áætlana og samkeppnisverkefna skal a.m.k. tryggja, að því er varðar tækni og viðeigandi aðferðir, að:

       a)    rafrænar undirskriftir varðandi tilboð, þátttökutilkynningar og framsendingu áætlana og verkefna séu í samræmi við innlend ákvæði sem eru samþykkt samkvæmt tilskipun 1999/93/EB,

       b)    unnt sé að ákvarða nákvæmlega tímasetningu og dagsetningu fyrir móttöku tilboða, þátttökutilkynninga og fyrir afhendingu áætlana og verkefna,

       c)    unnt sé að tryggja með nokkurri vissu að enginn geti fengið aðgang að gögnum, sem eru flutt samkvæmt þessum kröfum, áður en tilgreindur frestur rennur út,

       d)    ef aðgangsbann er brotið sé unnt að tryggja með nokkurri vissu að auðvelt sé að sjá það,

       e)    aðeins aðilar, sem hafa til þess heimild, geti sett eða breytt dagsetningu á opnun gagna sem berast,

       f)    á hinum ýmsu stigum útboðsferlis eða samkeppni verði einungis hægt að fá aðgang að öllum gögnum sem eru afhent, eða hluta þeirra, með aðgerðum sem aðilar, sem hafa til þess heimild, framkvæma samtímis,

       g)    aðilar, sem hafa heimild til samtímis aðgerða, veiti einungis aðgang að gögnum, sem eru flutt, eftir tilgreinda dagsetningu,

       h)    gögn, sem eru móttekin og opnuð í samræmi við þessar kröfur, verði ekki aðgengileg öðrum aðilum en þeim sem hafa heimild til að kynna sér þau.

  Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.