Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 562, 135. löggjafarþing 204. mál: innflutningur dýra (ákvörðunarvald til yfirdýralæknis).
Lög nr. 141 19. desember 2007.

Lög um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Orðskýringin Búfé verður svohljóðandi: Alifuglar, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripir, sauðfé og svín. Rísi ágreiningur um hvað skuli falla undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr.
  2. Við orðskýringuna Einangrunarstöð bætist: auk svína og erfðaefnis þeirra.
  3. Ný orðskýring bætist við, í réttri stafrófsröð, svohljóðandi: Gæludýr: Dýr af eftirgreindum tegundum og flokkum: Hundar, kettir, kanínur, skrautfiskar, vatnadýr, nagdýr og búrfuglar.


2. gr.

     Á eftir orðunum „dýra og erfðaefnis“ í 4. mgr. 2. gr. laganna kemur: sbr. þó 4. gr. a.

3. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna bætist við ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
     Yfirdýralæknir getur vikið frá því banni sem um getur í 1. mgr. 2. gr. og leyft innflutning á gæludýrum og erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, sbr. 5. gr., enda sé fylgt fyrirmælum sem felast í lögum þessum og reglugerðum er settar eru samkvæmt þeim.
     Meta skal áhættu af innflutningi og er heimilt að krefja innflytjanda um upplýsingar um heilbrigði gæludýrs, þ.m.t. heilbrigðis- og upprunavottorð, sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu, rannsóknir og meðhöndlun gæludýrs eða erfðaefnis fyrir innflutning.
     Heimilt er að krefjast skapgerðarmats á hundum sem sótt er um innflutningsleyfi fyrir, einnig er heimilt að krefjast skapgerðarmats á hundum sem sótt er um leyfi til að flytja inn erfðaefni úr. Ekki skal veita undanþágu til innflutnings á hundum, blendingum af úlfum og hundum, eða öðrum gæludýrum sem hætta getur stafað af.

4. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Innflutt erfðaefni svína má ekki flytja úr einangrunarstöð. Svín sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð má hins vegar flytja þaðan að fengnu leyfi yfirdýralæknis og uppfylltum skilyrðum 1. mgr.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2007.