Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 519, 135. löggjafarþing 162. mál: greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks (fjölgun greiðsludaga).
Lög nr. 152 19. desember 2007.

Lög um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðsins „hámarksdagpeninga“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: óskertra grunnatvinnuleysisbóta.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir takmarkanir á fjölda greiðsludaga skv. 4. mgr. 1. gr. skal fjöldi greiðsludaga sem heimilt er að greiða í senn vera að hámarki 30 dagar en þó aldrei fleiri en 60 dagar á hverju almanaksári. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. gr.
     Starfsmanni sem fær greidd föst laun fyrir dagvinnu frá vinnuveitanda í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu, sbr. einnig 2. gr., er heimilt að sækja um mismun fastra dagvinnulauna og tekjutengdra atvinnuleysisbóta sem hann ætti ella rétt á skv. 32. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, hefði hann skráð sig án atvinnu hjá Vinnumálastofnun þann tíma sem vinnslustöðvunin varir. Skilyrði er að starfsmaður hafi fengið greidd föst laun fyrir dagvinnu frá vinnuveitanda í tímabundinni vinnslustöðvun í tíu virka daga samtals eftir 1. janúar 2008. Fyrsta dag næsta mánaðar skulu greiðslur Vinnumálastofnunar samkvæmt þessari málsgrein inntar af hendi í einu lagi eftir að tímabundinni vinnslustöðvun lýkur, enda hafi vinnslustöðvun lokið og umsókn starfsmannsins borist Vinnumálastofnun fyrir 23. dag mánaðarins á undan. Ljúki vinnslustöðvun síðar eða ef umsókn berst síðar skulu greiðslur inntar af hendi fyrsta dag næsta mánaðar þar á eftir. Sá tími sem starfsmaður fær greiddan mismun fastra dagvinnulauna og tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt þessari málsgrein dregst ekki frá því tímabili sem starfsmaður kann að eiga rétt á atvinnuleysisbótum skv. VI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
     Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2009.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2007.