Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 556, 135. löggjafarþing 163. mál: vátryggingarsamningar (afmörkun á heimild til upplýsingaöflunar).
Lög nr. 156 20. desember 2007.

Lög um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.


1. gr.

     82. gr. laganna orðast svo:
     Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Í þeim tilgangi er félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin óháð því hvernig sjúkdómur hefur greinst. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör eftir bestu vitund við spurningum félagsins. Vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skal staðfesta að þær upplýsingar sem hann veitir um sjúkdóma foreldra eða systkina sinna séu veittar með þeirra samþykki, enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað slíks samþykkis. Afli vátryggingafélag upplýsinga um sjúkdóma vátryggingartaka eða vátryggðs frá öðrum en honum skal, áður en þeirra er aflað, liggja fyrir skriflegt upplýst samþykki hans. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félaginu óheimilt fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm. Félaginu er einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar.
     Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað.
     Félagið skal halda saman upplýsingum um fjölda þeirra sem er synjað um töku tryggingar eða er gert að greiða hærri iðgjöld vegna áhættumats sem byggist á lagagrein þessari.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2007.