Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 512, 135. löggjafarþing 206. mál: erfðafjárskattur (fasteignir í eigu erlendra dánarbúa o.fl.).
Lög nr. 172 21. desember 2007.

Lög um breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Af öllum fasteignum hér á landi, sem eigendaskipti verða að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs, skal greiða skatt eftir lögum þessum án tillits til þess hvort aðilar að ráðstöfuninni séu búsettir hér á landi eða erlendis.

2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Nú hafnar maður, sem undanþeginn er erfðafjárskatti, eða afsalar sér arfi eftir annan mann og skal þá erfingi, sem við arfsafsalið fær stærri arfshluta en hann ella hefði fengið, greiða erfðafjárskatt af hinum aukna arfi. Hafni maður eða afsali sér arfi beint eða óbeint til hagsbóta fyrir aðila sem undanþeginn er erfðafjárskatti skal sá erfingi sem þannig fær við arfsafsalið stærri arfshluta en hann ella hefði fengið greiða erfðafjárskatt af þeim arfshluta.

3. gr.

     Í stað 4. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar. Sama gildir um eignir í öðrum félögum.

4. gr.

     5. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skulu koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem fellur á búið vegna ráðstafana skv. 17.– 21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skal einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sætir opinberum skiptum eða einkaskiptum. Þessir liðir skulu sundurliðaðir á erfðafjárskýrslu og studdir gögnum. Erfðafjárskattur samkvæmt lögum þessum er ekki frádráttarbær.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2007.