Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1074, 135. löggjafarþing 362. mál: eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins (EES-reglur).
Lög nr. 50 5. júní 2008.

Lög um breytingu á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57 20. maí 2005, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 5. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Viðskiptahættir eru markaðssetning fyrirtækja eða önnur athöfn, athafnaleysi eða hátterni sem tengist kynningu á vöru eða þjónustu eða viðskiptum með vöru og þjónustu.

2. gr.

     Í stað II. kafla laganna koma fimm nýir kaflar, II. kafli, Bann við óréttmætum viðskiptaháttum, með þremur nýjum greinum, 5.–7. gr., III. kafli, Vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda, með fimm nýjum greinum, 8.–12. gr., IV. kafli, Vernd annarra hagsmuna neytenda en fjárhagslegra, með einni nýrri grein, 13. gr., V. kafli, Háttsemi milli fyrirtækja, með þremur nýjum greinum, 14.–15. gr. a, og VI. kafli, Ábyrgðaryfirlýsingar, trúnaðarskyldur o.fl., með fimm nýjum greinum, 16.–16. gr. d, og breytist töluröð annarra kafla samkvæmt því. Þessar nýju greinar orðast svo:
     
     a. (5. gr.)
     Óréttmætir viðskiptahættir eru bannaðir. Bann þetta gildir áður en, á meðan og eftir að viðskipti með vöru fara fram eða þjónusta er veitt. Í III.–V. kafla er nánar tilgreint hvað teljast óréttmætir viðskiptahættir.
     
     b. (6. gr.)
     Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.
     Auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála.
     Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.
     Fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum eða með öðrum hætti þarf fyrirtæki að geta fært sönnur á.
     
     c. (7. gr.)
     Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim.
     Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.
     Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.
     
     d. (8. gr.)
     Viðskiptahættir eru óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir sem brjóta í bága við ákvæði kafla þessa eru alltaf óréttmætir.
     Ráðherra kveður í reglugerð á um þá viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.
     
     e. (9. gr.)
     Viðskiptahættir eru villandi ef þeir eru líklegir til að blekkja neytendur eða eru með þeim hætti að neytendum eru veittar rangar upplýsingar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti. Hér er átt við rangar upplýsingar um:
 1. eðli vöru eða þjónustu og hvort varan sé til eða þjónustan fyrir hendi,
 2. helstu einkenni vöru eða þjónustu, t.d. notkun, samsetningu eða árangur sem vænta má af notkun hennar,
 3. þjónustu við viðskiptavini, meðferð kvartana, dagsetningu framleiðslu eða aðferð við framleiðslu,
 4. verð vöru eða þjónustu eða aðferð við útreikning á verði og hvort um sértilboð eða annað verðhagræði sé að ræða og hvort það sé háð skilyrðum,
 5. þörf fyrir þjónustu, varahluti, skipti á hlutum og viðgerðir,
 6. réttindi, hæfni eða annað sem varðar aðstæður söluaðila eða fulltrúa hans, stöðu hans á markaði, skyldur, vörumerki og önnur hugverkaréttindi,
 7. lögbundin réttindi neytanda.

     Viðskiptahættir eru villandi ef ekki er greint frá upplýsingum sem telja má að almennt skipti máli fyrir neytendur eða þeim er leynt og þær eru til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytanda um að eiga viðskipti.
     
     f. (10. gr.)
     Ef fyrirtæki hyggst auglýsa eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum vegna tiltekinnar vöru eða þjónustu skal það, eftir því sem við á og að teknu tilliti til auglýsingamiðilsins sem nýttur er, veita upplýsingar um:
 1. helstu eiginleika vörunnar eða þjónustunnar,
 2. nafn og heimilisfang fyrirtækis,
 3. greiðslutilhögun, afhendingu og framkvæmd samnings, víki þessi atriði frá því sem tíðkast í starfsgreininni,
 4. meðferð kvörtunarmála gagnvart fyrirtækinu, víki meðferðin frá því sem tíðkast í starfsgreininni,
 5. rétt til að falla frá kaupum, afpöntun eða skilarétt hafi neytendur slíkan rétt, víki meðferðin frá því sem tíðkast í starfsgreininni,
 6. endanlegt verð, þ.m.t. virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld.

     Hafi vara eða þjónusta þá eiginleika að ekki sé hægt að gefa upp verð fyrir fram á einfaldan hátt verður að upplýsa hvernig verðið sé fundið út. Þar sem það á við skal veita allar upplýsingar um kostnað við frakt, afhendingu eða flutningsgjald, en sé það ekki hægt á einfaldan hátt þarf að upplýsa um að þessi kostnaður geti bæst við verð.
     
     g. (11. gr.)
     Útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, má því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Þess skal gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.
     
     h. (12. gr.)
     Viðskiptahættir teljast ágengir ef valfrelsi eða athafnafrelsi neytanda við ákvörðun um viðskipti með vöru er takmarkað með ótilhlýðilegum hætti, t.d. þvingunum eða hótunum, og þeir eru til þess fallnir að hafa þau áhrif að hann taki ákvörðun sem hann hefði ella ekki tekið.
     
     i. (13. gr.)
     Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda.
     1. mgr. gildir um aðra viðskiptahætti en þá sem III. kafli tekur til.
     
     j. (14. gr.)
     Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar gagnvart keppinautum, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem lög þessi taka til.
     
     k. (15. gr.)
     Samanburðarauglýsingar eru allar þær auglýsingar þar sem beint eða óbeint er vísað til keppinautar eða vöru eða þjónustu sem keppinautur býður.
     Samanburðarauglýsingar skulu, að því er samanburð varðar, leyfðar að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
 1. þær séu ekki villandi,
 2. samanburðurinn taki til vöru eða þjónustu sem fullnægir sömu þörfum eða er ætluð til sömu nota,
 3. gerður sé samanburður á einum eða fleiri áþreifanlegum, viðeigandi, sannreynanlegum og dæmigerðum eiginleika eða eiginleikum vöru eða þjónustu, að meðtöldu verði ef vill,
 4. á markaðnum verði ekki villst á auglýsanda og keppinaut hans eða á vörumerkjum eða vöruheitum auglýsanda og keppinautar, öðrum auðkennum, vöru- eða þjónustutegundum,
 5. ekki sé kastað rýrð á vörumerki, vöruheiti, önnur auðkenni, vöru, þjónustu, starfsemi eða aðstæður keppinautar, eða þeim sýnd lítilsvirðing,
 6. ef um er að ræða vöru með upprunatáknum skal í öllum tilvikum bera saman vörur með sömu táknum,
 7. ekki sé með ósanngjörnum hætti hagnýttur orðstír vörumerkis, vöruheitis eða annarra auðkenna keppinautar eða upprunatáknunar samkeppnisvöru,
 8. vara eða þjónusta sé ekki kynnt sem eftirlíking eða eftirgerð vöru eða þjónustu sem ber verndað vörumerki eða vöruheiti.

     Sé getið um sértilboð í samanburði skal tiltaka skýrt og ótvírætt á hvaða degi sértilboðinu ljúki eða, þar sem við á, að sértilboðið sé háð framboði á vörunni eða þjónustunni og, hafi sértilboðið enn ekki tekið gildi, á hvaða degi byrjað verði að bjóða sérstakt verð eða önnur sérkjör.
     Ákvæði þetta á einnig við um aðrar svipaðar viðskiptaaðferðir og auglýsingar.
     
     l. (15. gr. a.)
     Óheimilt er að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.
     
     m. (16. gr.)
     Nú er vara, þjónusta eða annað það sem í té er látið og lög þessi taka til þannig úr garði gert að leiðbeininga er þörf við mat á eiginleikum þess, t.d. notagildi og endingu, svo og meðferð og hættu sem af vöru eða öðru getur stafað, og ber þá að veita fullnægjandi skriflegar leiðbeiningar þegar tilboð er gefið, samningur gerður eða eftir atvikum við afhendingu.
     Leiðbeiningarnar skulu vera á íslensku eða öðru Norðurlandamáli, þó ekki finnsku, eða ensku og miðaðar við tegund og gerð viðkomandi vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið.
     Almennir skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða neytendum þjónustu sína hér á landi, skulu vera á íslensku.
     
     n. (16. gr. a.)
     Yfirlýsingu um ábyrgð má því aðeins gefa að ábyrgðaryfirlýsingin veiti viðtakanda meiri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum.
     Ábyrgðaryfirlýsing er lagalega bindandi fyrir ábyrgðaraðila á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í ábyrgðarskilmálum og auglýsingum hans.
     
     o. (16. gr. b.)
     Ef ábyrgðaryfirlýsing er veitt skal seljandi vöru eða þjónustu upplýsa neytanda á skýran og greinargóðan hátt um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett til þess að neytandi geti borið fyrir sig ábyrgðina. Jafnframt skal seljandi upplýsa neytanda á skýran hátt um þau ófrávíkjanlegu réttindi sem hann nýtur samkvæmt ákvæðum laga og ábyrgðaryfirlýsingin hefur engin áhrif á. Ef neytandi óskar þess ber seljanda að afhenda honum skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ritaða á pappír eða á öðrum varanlegum miðli sem er neytandanum aðgengilegur. Skriflegar ábyrgðaryfirlýsingar skulu vera á íslensku.
     
     p. (16. gr. c.)
     Óheimilt er í atvinnustarfsemi er lög þessi taka til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar.
     Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., má ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið.
     Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.
     Nú hefur upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli verið aflað á þann hátt að brotið hefur verið gegn ákvæðum 1.–3. mgr. og er þá þeim sem brotlegur er eða þeim sem fengið hafa upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt.
     
     q. (16. gr. d.)
     Óheimilt er að selja eða hafa á boðstólum vörur sem merktar eru sjálfar eða á miða eða umbúðir eða með tilsvarandi heitum, alþjóðamerki hjúkrunar- og mannúðarstarfsemi eða öðrum hliðstæðum auðkennum, svo og að nota slík merki, auðkenni eða nöfn í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.
     Við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið og lög þessi taka til er óheimilt að nota íslenska ríkisskjaldarmerkið, þá er óheimilt að nota í heimildarleysi íslensk byggðamerki, svo og erlend ríkis- eða byggðamerki.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á V. kafla laganna, er verður IX. kafli:
 1. Á undan 22. gr. kemur ný grein, 21. gr. b, svohljóðandi:
 2.      Neytendastofa getur sett nánari reglur til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar séu villandi eða óhæfilegar gagnvart neytendum, svo og almennar reglur um beitingu ákvæða II.–V. kafla. Neytendastofa skal eftir því sem kostur er ráðgast við hlutaðeigandi aðila eða samtök þeirra áður en slíkar reglur eru settar.
       Neytendastofa getur gripið til aðgerða gegn viðskiptaháttum sem brjóta í bága við ákvæði II.–VI. kafla og ákvæði VII. og VIII. kafla eftir því sem við getur átt. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði.
 3. 1. mgr. 22. gr. orðast svo:
 4.      Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn:
  1. ákvæðum laga þessara, og reglum settum samkvæmt þeim um bann við óréttmætum viðskiptaháttum, sbr. II.–V. kafla,
  2. stjórnvaldsreglum og ákvörðunum Neytendastofu gegn viðskiptaháttum sem brjóta í bága við ákvæði II.–VIII. kafla og fyrirmælum Neytendastofu, sbr. 21. gr. b,
  3. reglum og fyrirmælum Neytendastofu um ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði, sbr. 18. gr.

 5. Fyrirsögn kaflans verður: Viðurlög o.fl.


4. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum og um breytingu á tilskipun ráðsins 84/450/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB, 98/27/EB og 2002/65/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 (Tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti).

Samþykkt á Alþingi 22. maí 2008.