Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1303, 135. löggjafarþing 477. mál: vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (hækkun gjalds fyrir veiðikort).
Lög nr. 56 7. júní 2008.

Lög um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Í stað lokamálsliðar 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skal veiðikortshafi skrá og skila þar til gerðri skýrslu um undangengið veiðiár sem telst frá 1. janúar til 31. desember. Ef veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili hefur ekki verið skilað er útgáfa nýs veiðikorts óheimil. Ef veiðiskýrsla berst eftir lögmæltan skiladag hækkar gjald fyrir útgáfu nýs veiðikorts í 5.000 kr.
  2. Fyrsti málsliður 3. mgr. orðast svo: Gjald fyrir veiðikort skal vera 3.500 kr. fyrir hvert veiðiár.


2. gr.

     Á eftir 2. málsl. 9. mgr. 14. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í því skyni er Umhverfisstofnun rétt að halda námskeið fyrir þá sem vilja gerast leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Er Umhverfisstofnun heimil gjaldtaka vegna kostnaðar sem stendur í eðlilegum tengslum við sérhvert slíkt námskeið.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.