Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1283, 135. löggjafarþing 129. mál: raforkulög (neyðarsamstarf og fjárhæð eftirlitsgjalds).
Lög nr. 67 9. júní 2008.

Lög um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
 1. Neyðarsamstarf raforkukerfisins: Samvinnuvettvangur vinnslufyrirtækja, flutningsfyrirtækis, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila á Íslandi vegna vár sem steðjar að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku og/eða stórnotendum. Nánar er kveðið á um starfsemina í samstarfsgrunni neyðarsamstarfs raforkukerfisins.
 2. Neyðarstjórnun: Skipulag sem lýsir stjórnun í vá.
 3. Vá: Atburður sem ógnar almannahag, öryggi fólks, mannvirkja og starfsemi, og kallar á að neyðarstjórnun verði gerð virk. Atburðurinn getur valdið stórfelldum truflunum á raforkuflutningi, framleiðslu eða dreifingu raforku á tilteknu svæði.
 4. Viðbragðsáætlun: Áætlun sem gerir grein fyrir aðgerðum og tengiliðum viðkomandi aðila í vá. Nánar er kveðið á um efni hennar í reglugerð.


2. gr.

     Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Vinnslufyrirtæki skulu hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá.

3. gr.

     5. tölul. 4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Hafa tiltækar viðbragðsáætlanir og annast samræmingu neyðaraðgerða í flutningskerfinu, bregðast við í vá og ef einhver aðili að neyðarsamstarfi raforkukerfisins óskar þess og tryggja tengsl við yfirstjórn almannavarna.

4. gr.

     5. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
     Sama gjaldskrá skal vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal innmötunargjaldið renna til dreifiveitunnar. Greiða skal úttektargjald vegna framleiðslu slíkrar virkjunar til flutningsfyrirtækisins sem hér segir:
 1. Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1,42 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
 2. Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1,42–3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 60% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
 3. Vegna orku frá virkjun sem er 3,1–7 MW skal greiða 60% fulls úttektargjalds.


5. gr.

     Á eftir 4. mgr. 16. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Dreifiveitur skulu hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá og taka þátt í neyðarsamstarfi raforkukerfisins þegar við á.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
 1. Í stað „0,3 aurum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,2 aurum.
 2. Í stað „0,7 aurum“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 0,5 aurum.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Orkustofnun skal annast innheimtu gjalda þessara fyrir ríkissjóð. Gjalddagi skal vera 1. mars ár hvert vegna þess almanaksárs og byggjast á rauntölum vegna liðins árs. Aðför má gera til fullnustu kröfum um gjaldið án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar.


7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.