Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1352, 135. löggjafarþing 522. mál: Póst- og fjarskiptastofnun (eftirlitsúrræði og málskot).
Lög nr. 117 16. september 2008.

Lög um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.


1. gr.

     Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt ákvæðum laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu sem ekki snúa að fjarskiptafyrirtækjum eða póstrekendum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Póst- og fjarskiptastofnun í té allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. Orðin „allir eftir tilnefningu Hæstaréttar“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðsins „átta“ í 2. mgr. kemur: tólf.
 3. 3.–5. mgr. orðast svo:
 4.      Nú vill aðili ekki una úrskurði nefndarinnar og getur hann þá borið úrskurðinn undir dómstóla, en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun getur í undantekningartilfellum borið úrskurð nefndarinnar undir dómstóla enda liggi fyrir samþykki ráðherra. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.
       Aðili getur borið ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar undir dómstóla án þess að mál sé fyrst borið undir úrskurðarnefnd. Slíkt mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um ákvörðun stofnunarinnar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvarðana stofnunarinnar. Málskot til dómstóla hindrar að úrskurðarnefnd sé heimilt að taka kæru til málsmeðferðar.
       Taka skal gjald vegna málskots fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda til úrskurðarnefndar og málsmeðferðar fyrir nefndinni. Gjaldið skal taka mið af kostnaði vegna þóknunar nefndarmanna, reksturs málsins fyrir nefndinni, starfsaðstöðu, sérfræðiaðstoðar og gagnaöflunar. Tapist mál í grundvallaratriðum skal sá málsaðili sem tapar að jafnaði greiða málskostnað. Nefndin kveður á um fjárhæð og skiptingu gjalds í úrskurðarorðum sínum. Ekki er heimilt að gera notendum fjarskipta- og póstþjónustu eða Póst- og fjarskiptastofnun að greiða gjald samkvæmt ákvæði þessu. Gjöld samkvæmt þessari grein eru aðfararhæf.
 5. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
 6.      Þóknun úrskurðarnefndar vegna málskots notenda fjarskipta- og póstþjónustu og málsmeðferðar fyrir nefndinni skal ákveðin af ráðherra og greiðist úr ríkissjóði. Úrskurðarnefnd getur að fengnu samþykki samgönguráðherra ráðið nefndinni starfslið, kallað sérfróða menn sér til aðstoðar eða falið sjálfstætt starfandi aðila að sjá um skrifstofuhald fyrir nefndina.
       Um starfshætti úrskurðarnefndarinnar, starfslið, sérfræðiaðstoð og umfang hennar, skrifstofuhald, starfsstöð, málsmeðferð, birtingu og aðfararhæfi, frestun réttaráhrifa, útgáfu úrskurða nefndarinnar, málskotsgjöld og kostnað lögaðila, skiptingu kostnaðar og aðra þætti er lúta að starfsumhverfi nefndarinnar skal mælt fyrir í reglugerð sem ráðherra setur.


3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Samgönguráðherra skal skipa úrskurðarnefnd í samræmi við ákvæði 2. gr. laga þessara án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en 1. janúar 2009.
     Úrskurðarnefnd sem er að störfum fyrir gildistöku laga þessara skal ljúka meðferð þeirra kærumála sem borist hafa nefndinni fyrir gildistöku laganna, enda hafi málsmeðferð vegna þeirra hafist hjá nefndinni. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að bera undir dómstóla úrskurði kærunefndar samkvæmt ákvæði þessu sem falla eftir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 11. september 2008.