Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 175, 136. löggjafarþing 115. mál: atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa (hærri bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls).
Lög nr. 131 17. nóvember 2008.

Lög um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. eða 22. gr. er heimilt að lengja hlutfallslega það tímabil sem heimilt er að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. 32. gr. miðað við mismun réttar hins tryggða hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Hinn tryggði hefur áfram rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár skv. 1. mgr. 29. gr.
     Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. eða 22. gr. skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda haldi hinn tryggði að lágmarki 50% starfshlutfalli. Á þetta við hvort sem hinn tryggði fær greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 32. gr. eða grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. Aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá fyrir sama tímabil, hvort sem er frá vinnuveitanda eða öðrum aðila, skulu koma til frádráttar greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 36. gr.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. eru bundin því skilyrði að hinn tryggði hafi misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem hann starfar hjá vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði eða hann hafi misst starf sitt að öllu leyti og ráðið sig í hlutastarf hjá öðrum vinnuveitanda í lægra starfshlutfalli enda eigi viðkomandi að mati Vinnumálastofnunar ekki kost á að ráða sig til starfa í sama starfshlutfalli og hann var í áður vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.
     Atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu skulu greiddar frá 1. nóvember 2008 til þeirra sem fullnægðu skilyrðum þess þegar á þeim tíma.
     Ákvæði þetta gildir til 1. maí 2009.
     
     b. (II.)
     Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst fullnægja skilyrðum f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar hafi hann tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundins atvinnuleysis hans. Hann skal gera grein fyrir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi mánaðarlega og skila virðisaukaskattsskýrslu samkvæmt skráningu hans í grunnskrá virðisaukaskatts. Staðfestingu skattyfirvalda um að tilkynning hafi borist þeim skal skila til Vinnumálastofnunar með umsókn um atvinnuleysisbætur.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er sjálfstætt starfandi einstaklingi heimilt að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Tekjur hans fyrir þau skulu koma til frádráttar atvinnuleysisbótunum skv. 36. gr. og skal þá miða við frítekjumark að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði við útreikning á frádrætti vegna tekna sjálfstætt starfandi einstaklings.
     Láti sjálfstætt starfandi einstaklingur hjá líða að skila inn til skattyfirvalda skilagrein staðgreiðslu á eindaga og virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga fellur niður réttur hans til atvinnuleysisbóta frá þeim tíma er hann hefði átt að skila inn gögnunum til þess tíma er hann gerir fullnægjandi skil enda fullnægi hann jafnframt öðrum skilyrðum laganna.
     Ákvæði þetta gildir til 1. maí 2009.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir a-lið 5. gr. skal taka mið af vinnulaunum launamanns fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda áður en starfshlutfall launamanns var minnkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði enda hafi héraðsdómara borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda innan tólf mánaða frá því að starfshlutfall launamanns var minnkað. Skilyrði er að launamaður hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði í sama starfshlutfalli hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda áður en kom til skerðingar á starfshlutfalli hans vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Að öðru leyti gildir a-liður 5. gr.
     Þrátt fyrir b-lið 5. gr. skal við útreikning bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi taka mið af vinnulaunum launamanns skv. 1. mgr. enda hafi héraðsdómara borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda innan tólf mánaða frá því að starfshlutfall launamanns var minnkað. Skilyrði er að launamaður hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði í sama starfshlutfalli hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda áður en kom til minnkunar á starfshlutfalli hans vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Að öðru leyti gildir b-liður 5. gr.
     Ákvæði þetta gildir um kröfur launamanna sem minnka starfshlutfall sitt á tímabilinu 1. október 2008 til og með 31. desember 2009 að kröfu vinnuveitanda vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem rekja má til sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. nóvember 2008.