Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 439, 136. löggjafarþing 186. mál: dýravernd (hlutverk tilraunadýranefndar og gjaldtökuheimild).
Lög nr. 165 23. desember 2008.

Lög um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Hlutverk tilraunadýranefndar er að taka til afgreiðslu umsóknir um leyfi til dýratilrauna, leyfi til að halda og annast tilraunadýr og leyfi til að rækta tilraunadýr, svo og að sinna sértæku eftirliti með aðbúnaði og meðferð tilraunadýra. Heimilt er tilraunadýranefnd að binda leyfi þeim skilyrðum sem nauðsynleg má telja til að tryggja velferð tilraunadýra. Ef háttsemi leyfishafa brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim er tilraunadýranefnd heimilt að afturkalla leyfi. Tilraunadýranefnd er heimilt að innheimta gjald fyrir útgáfu leyfis svo og sérstakt eftirlit með aðbúnaði og meðferð tilraunadýra. Gjald þetta skal greiðast af hlutaðeigandi leyfishafa og/eða þeim sem eftirlitið beinist að og má ekki vera hærra en nemur eðlilegum kostnaði við eftirlit eða útgáfu leyfis.
  3. Við 5. mgr., er verður 6. mgr., bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kröfur um menntun og þjálfun þeirra sem nota dýr í tilraunaskyni skulu taka mið af menntun í vísindagrein sem tekur til þeirrar tilraunastarfsemi er um ræðir. Þá skal einnig gera kröfu um að námskeiði í meðferð tilraunadýra hafi verið lokið.
  4. 6. mgr., er verður 7. mgr., orðast svo:
  5.      Umhverfisráðherra setur í samráði við tilraunadýranefnd reglugerð þar sem meðal annars er kveðið nánar á um hlutverk og störf tilraunadýranefndar, menntun og þjálfun þeirra sem nota eða halda dýr í tilraunaskyni, meðferð tilraunadýra og eftirlit með dýratilraunum.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 2008.