Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 475, 136. löggjafarþing 246. mál: eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara (réttindaávinnsla o.fl.).
Lög nr. 169 23. desember 2008.

Lög um breyting á lögum nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.


1. gr.

     Lokamálsliður 2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     3. tölul. 4. gr. laganna orðast svo: Hann hefur gegnt ráðherrastörfum í sex ár samtals eða lengur og lækkar þá aldursmark skv. l. tölul. um eitt ár og síðan um eitt ár til viðbótar fyrir hvert ár í embætti umfram sex ár. Aldursmarkið getur þó ekki lækkað um meira en fimm ár samkvæmt þessum tölulið.

3. gr.

     1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Eftirlaunahlutfall fyrrverandi ráðherra er 2,375% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári.

4. gr.

     6. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     3. tölul. 8. gr. laganna orðast svo: Hann hefur átt sæti á Alþingi í samtals 16 ár eða lengur og lækkar þá aldursmark skv. 1. tölul. um eitt ár og síðan til viðbótar um sem svarar helmingi þingsetutíma hans sem er umfram 16 ár. Aldursmarkið getur þó ekki lækkað um meira en fimm ár samkvæmt þessum tölulið.

6. gr.

     1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
     Eftirlaunahlutfall fyrrverandi alþingismanns er 2,375% fyrir hvert heilt ár þingsetu og samsvarandi fyrir hluta úr ári.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Hann hefur gegnt dómarastörfum í Hæstarétti í tólf ár eða lengur og lækkar þá aldursmark skv. 1. tölul. um eitt ár og síðan um eitt ár til viðbótar fyrir hvert ár í embætti umfram tólf ár. Aldursmarkið getur þó ekki lækkað um meira en fimm ár samkvæmt þessum tölulið.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Eftirlaunahlutfallið er 2,375% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. Lokamálsliður fellur brott.
  2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Nú gegnir sá sem á rétt til eftirlauna samkvæmt lögum þessum starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, og koma þá launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar þeim eftirlaunum sem ákvörðuð eru samkvæmt þessum lögum.
         Skerðing greiðslna skv. 1. og 2. mgr. fellur niður þegar látið er af starfi.


9. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Nú hefur maður öðlast rétt samkvæmt eldri lögum fyrir 30. desember 2003 og getur hann þá tekið eftirlaun eða makalífeyri samkvæmt þeim, en eftirlaunagreiðslur til hans skulu sæta skerðingu skv. 2. mgr. 19. gr.

10. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr., svohljóðandi:
     Nú hefur maður öðlast rétt á tímabilinu 30. desember 2003 til 30. júní 2009 og skal þá við útreikning eftirlauna, makalífeyris og örorkulífeyris taka fullt tillit til áunninna réttinda. Nánar skal mælt fyrir um fyrirkomulag útreiknings í reglum fjármálaráðherra, sbr. 2. mgr. 20. gr.
     Um úrlausn ágreinings fer skv. 1. mgr. 20. gr.

11. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 15. gr. koma ekki til framkvæmda gagnvart þeim dómurum sem skipaðir hafa verið í Hæstarétt fyrir 1. júlí 2009.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2009.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 2008.