Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 743, 136. löggjafarþing 53. mál: verðbréfaviðskipti (yfirtökureglur).
Lög nr. 22 23. mars 2009.

Lög um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum.


1. gr.

     99. gr. laganna orðast svo:
     Með verðbréfum er í þessum kafla átt við verðbréf sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður, og fjármálagerninga sem veita rétt til að afla þegar útgefinna slíkra verðbréfa.
     Ákvæði þessa kafla gilda um yfirtöku sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi hvers verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.
     Þau ákvæði kafla þessa sem fjalla um upplýsingar sem veittar skulu starfsmönnum þess útgefanda sem yfirtökutilboð tekur til skulu gilda gagnvart stjórn útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan EES, en ekki á Íslandi. Sama á við gagnvart þessum útgefendum varðandi þau ákvæði kaflans sem tengjast félagarétti og þau ákvæði hans sem heimila stjórn að grípa til hvers kyns aðgerða sem geta komið í veg fyrir yfirtökutilboðið. Ákvæði kafla þessa taka ekki til yfirtöku á útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hefur eingöngu fengið verðbréf tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði utan EES.
     Um yfirtökutilboð sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar í öðru ríki innan EES og sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi gilda eingöngu þau ákvæði kaflans sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins. Ákvæði kaflans gilda ekki ef viðkomandi útgefandi hefur einnig fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í því ríki þar sem höfuðstöðvar þess eru skráðar.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. gilda ákvæði kaflans ekki ef útgefandi hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki innan EES en því þar sem höfuðstöðvar hans eru skráðar, áður en verðbréf hans eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Ef verðbréf útgefanda eru samtímis tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í öðru ríki EES en því þar sem höfuðstöðvar þess eru skráðar skal útgefandi ákveða reglur hvors ríkisins skulu gilda um hann varðandi endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins og tilkynna það til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar og lögbærs yfirvalds áður en viðskipti hefjast.
     Ákvæði þessa kafla gilda um yfirtökutilboð sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar í ríki utan EES sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eingöngu á Íslandi, en ekki öðrum verðbréfamörkuðum.
     Um yfirtökutilboð sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar í ríki utan EES sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og öðrum verðbréfamörkuðum gilda eingöngu þau ákvæði kaflans sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundin yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 100. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Hafi aðili beint eða óbeint náð yfirráðum í félagi þar sem flokkur verðbréfa hefur verið tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skal sá aðili eigi síðar en fjórum vikum eftir að hann vissi eða mátti vita um tilboðsskyldu eða niðurstaða um hana lá fyrir gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð, þ.e. tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Með yfirráðum er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við:
  1. hafi samanlagt eignast a.m.k. 30% atkvæðisréttar í félaginu,
  2. hafi á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur a.m.k. 30% atkvæða í félaginu, eða
  3. hafi öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu.

 3. 1. tölul. 3. mgr. orðast svo: Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð.
 4. Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Bein eða óbein tengsl á milli aðila innan eða utan þess félags sem í hlut á, hvort sem um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum, sem líkleg eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan þannig að þeir ráði yfir því.
 5. 4. mgr. orðast svo:
 6.      Tilboðsskylda skv. 1. mgr. hvílir á þeim aðila samstarfs sem eykur við hlut sinn þannig að mörkum 1. mgr. sé náð. Ef sá aðili samstarfs sem eykur við hlut sinn er ekki höfuðaðili samstarfsins getur Fjármálaeftirlitið í undantekningartilfellum tekið ákvörðun um að yfirtökuskyldan færist yfir á höfuðaðila samstarfsins. Fjármálaeftirlitið getur heimilað að aðrir megi einnig standa að tilboði einir sér eða með þeim sem er tilboðsskyldur samkvæmt þessari málsgrein, enda sé um það sótt eigi síðar en tveimur vikum eftir að sá er tilboðsskyldur er vissi eða mátti vita um þá skyldu eða úrlausn um tilboðsskyldu lá fyrir. Skulu þá aðilar bera óskipta ábyrgð á tilboðinu og efndum þess.
 7. Við 5. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sótt skal um slíka undanþágu í síðasta lagi tveimur vikum eftir að aðili vissi eða mátti vita um tilboðsskylduna og ekki síðar en tveimur vikum eftir að úrlausn um hana lá fyrir. Heimilt er að sækja sérstaklega um frest á því að selja hluti sem eru umfram þau mörk er greinir í 1. mgr. á meðan mál er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt þessari málsgrein.
 8. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 9.      Nú fer aðili og þeir sem hann er í samstarfi við með yfirráð í félagi þegar verðbréf þess eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, og verður hann þá ekki tilboðsskyldur samkvæmt þessari grein, enda auki hann ekki atkvæðisrétt sinn í félaginu umfram næsta margfeldi af fimm. Þetta gildir þó ekki ef viðkomandi aðili missir yfirráðin en nær þeim að nýju.


3. gr.

     Á eftir 100. gr. laganna kemur ný grein, 100. gr. a, svohljóðandi:
     Nú hyggst hluthafi, eða annar aðili, kaupa hluti í félagi eða gera aðra samninga eða ráðstafanir sem leiða mundu til skyldu hans til að gera yfirtökutilboð samkvæmt lögum þessum, og getur hann þá með skriflegri og rökstuddri beiðni til Fjármálaeftirlitsins óskað eftir því að verða leystur undan tilboðsskyldu í tiltekinn tíma. Skilyrði þess að slíkt leyfi megi veita eru að markmið umsækjanda sé að forða félagi frá alvarlegum fjárhagsvanda eða taka þátt í endurskipulagningu félags vegna fjárhagsvanda þess og stjórn félagsins sé því samþykk.
     Fjármálaeftirlitið skal afgreiða umsókn skv. 1. mgr. svo fljótt sem auðið er og ekki síðar en tveimur vikum frá því umsóknin og gögn sem hún er reist á berast því.
     Fjármálaeftirlitið getur bundið leyfi samkvæmt þessari grein skilyrðum, t.d. um hámark hluta eða um atkvæðisrétt eða um skyldu til að selja hluti fyrir tiltekin tímamörk.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Ákvæði þessa kafla gilda einnig fyrir valfrjáls tilboð. Með valfrjálsu tilboði er átt við tilboð sem beint er til allra hluthafa viðkomandi félags án þess að um tilboðsskyldu sé að ræða skv. 1. mgr. 100. gr. Í valfrjálsu tilboði er tilboðsgjafa ekki skylt að fylgja ákvæðum 2. og 4. mgr. 103. gr. um skilmála í yfirtökutilboði.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Tilboðsgjafa sem gerir valfrjálst tilboð er heimilt að takmarka tilboð sitt þannig að það taki einungis til hluta hlutafjár eða atkvæðisréttar viðkomandi félags, að því tilskildu að tilboðið hafi ekki í för með sér að tilboðsskylda stofnist skv. 100. gr. Við takmarkað tilboð samkvæmt þessari málsgrein skal gefa öllum hluthöfum eða eigendum atkvæðisréttar kost á að afhenda verðbréf sín eða atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína eða atkvæðisrétt.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Ef tilboðsgjafi hefur náð yfirráðum í félagi í kjölfar valfrjáls tilboðs í alla hluti allra hluthafa í viðkomandi félagi ber viðkomandi ekki skylda til að gera yfirtökutilboð í samræmi við 100. gr. hafi hann fylgt ákvæðum 2.–4. mgr. 103. gr. um skilmála í tilboðinu. Sama gildir ef tilboðsgjafi hefur eignast meira en 9/10 hlutafjár í félagi eða ræður yfir samsvarandi atkvæðamagni í kjölfar valfrjáls tilboðs.


5. gr.

     Við 102. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið getur krafið þann aðila sem íhugar að gera yfirtökutilboð um að gera innan tilgreinds frests opinberlega grein fyrir fyrirætlunum sínum ef það telur að orðrómur um yfirvofandi yfirtökutilboð hafi óeðlileg áhrif á verðmyndun verðbréfa útgefanda.
     Nú er gert opinbert að aðili íhugi að gera yfirtökutilboð og skal hann þá birta lokaákvörðun um hvort hann hyggist leggja fram yfirtökutilboð innan sex vikna, í samræmi við ákvæði 1. mgr. Ef slík ákvörðun er ekki tekin innan þess frests jafngildir það opinberri yfirlýsingu um að aðili hyggist ekki gera yfirtökutilboð.
     Nú lýsir aðili því yfir opinberlega að hann hyggist ekki gera yfirtökutilboð og er honum og aðilum í samstarfi við hann þá ekki heimilt að leggja fram slíkt tilboð í sex mánuði frá því yfirlýsing var birt eða að gera nokkuð það er kann að gera hann, eða aðila sem hann er í samstarfi við, tilboðsskyldan skv. 100. gr.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá tímamörkum 3. mgr. og frá 4. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
 1. Orðin „skv. 100. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðanna „skv. 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: samkvæmt yfirtökutilboði.
 3. Við 1. málsl. 6. mgr. bætist: sbr. þó 2. mgr. 108. gr.
 4. Á eftir 1. málsl. 8. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Óski tilboðsgjafi eða tilboðshafi eftir því að Fjármálaeftirlitið endurskoði tilboðsverð skal tilboðsgjafi eða útgefandi standa straum af kostnaði sem hlýst vegna verðmats skv. 1. málsl. Sé um að ræða kostnað sem til fellur hjá Fjármálaeftirlitinu skal greitt samkvæmt gjaldskrá sem samþykkt er af stjórn þess og birt í Stjórnartíðindum. Sé verðmat framkvæmt af utanaðkomandi matsaðila ber tilboðsgjafa eða útgefanda að greiða fyrir verðmatið samkvæmt reikningi matsaðila.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
 1. 2. tölul. 2. mgr. orðast svo: kaup eða sölu eigin verðbréfa eða verðbréfa í dótturfélögum.
 2. Á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hver stjórnarmaður skal einnig gera grein fyrir því hvort hann og aðilar honum fjárhagslega tengdir hyggjast samþykkja tilboðið, ef við á.
 3. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama skylda hvílir á stjórn útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan EES, en ekki á Íslandi.


8. gr.

     Við 106. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið hefur þó heimild til að veita undanþágu frá þessari grein í þeim tilvikum sem viðurkenning stjórnvalda berst eftir að gildistíma tilboðs lýkur og sérstakar ástæður mæla með því að tilboðið eigi að haldast í gildi þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Frá upphafi tilboðstímabils og fram að því tímamarki þegar upplýsingar um niðurstöður tilboðs eru birtar gilda ekki reglur um birtingu flöggunartilkynninga, sbr. IX. kafla, reglur um rannsóknarskyldu og tilkynningarskyldu fruminnherja, sbr. 125. og 126. gr., eða reglur um birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda, sbr. 127. gr., enda sé um að ræða viðskipti vegna samþykkis yfirtökutilboðs. Undanþágan gildir ekki sé um að ræða viðskipti við annan aðila en þann sem lagði fram yfirtökutilboðið. Eftir að upplýsingar um niðurstöðu tilboðs hafa verið birtar skulu tilkynningarskyldir aðilar hins vegar birta tilkynningar um flöggun fyrir lok næsta viðskiptadags eftir að niðurstöður tilboðs urðu opinberar og fruminnherjar senda regluverði tilkynningu um viðskipti sín innan eins viðskiptadags, og skal útgefandi þá samdægurs tilkynna um viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins.
 2. Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef tilboðsgjafi kýs að falla frá skilyrðum sínum skal farið með slíkt í samræmi við ákvæði 107. gr. Einungis er hægt að falla frá skilyrðum innan þriggja viðskiptadaga frá lokum tilboðstímabils.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 110. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „hlutafjár eða atkvæðisréttar“ í 1. og 3. mgr. kemur: hlutafjár og atkvæðisréttar.
 2. Í stað orðsins „hluthafanum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tilboðsgjafa og/eða aðila í samstarfi.
 3. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skilmála fyrir innlausn og matsgrundvöll innlausnarverðs skal greina í tilkynningunni.
 4. Í stað orðsins „hlutabréf“ í 2. mgr. kemur: verðbréf.


11. gr.

      Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 111. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir ef aðili fylgir ekki skilyrðum skv. 3. mgr. 100. gr. a eða brýtur gegn 4. mgr. 102. gr.

12. gr.

     Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Yfirtaka.

13. gr.

     Við 112. gr. laganna bætist: sem tekur til útgefanda sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 113. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „hlutafélagsins“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: félagsins; og í stað orðsins „hlutabréf“ í 7. og 12. tölul. sömu málsgreinar kemur, í viðeigandi falli: verðbréf.
 2. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
 3.      Tilboðsyfirlit skal vera á íslensku. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað að tilboðsyfirlit sé á ensku ef sérstakar ástæður mæla með því.
       Tilboðsyfirlit sem samþykkt hefur verið í einu EES-ríki og uppfyllir skilyrði 3. mgr. skal viðurkennt sem fullgilt hérlendis. Fjármálaeftirlitið getur þó farið fram á að meiri upplýsingum sé bætt inn í tilboðsyfirlitið ef um er að ræða atriði sem eiga sérstaklega við hérlendis um formsatriði sem þarf að uppfylla varðandi samþykki tilboðs og uppgjör fyrir yfirtekna hluti, sem og varðandi skattaleg atriði tengd tilboðinu.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 141. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „6. mgr. 100. gr.“ í 27. tölul. kemur: 8. mgr. 100. gr.
 2. Í stað orðanna „102. gr. um tilkynningu um tilboð“ í 28. tölul. kemur: 1. mgr. 102. gr. um tilkynningu um tilboð og 4. mgr. 102. gr. um bann við að gera yfirtökutilboð.


16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 145. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „6. mgr. 100. gr.“ í 9. tölul. kemur: 8. mgr. 100. gr.
 2. Í stað orðanna „102. gr. um tilkynningu um tilboð“ í 10. tölul. kemur: 1. mgr. 102. gr. um tilkynningu um tilboð og 4. mgr. 102. gr. um bann við að gera yfirtökutilboð.


17. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Nú átti eigandi hlutafjár a.m.k. 30% atkvæðisréttar í félagi sem hefur fjármálagerninga tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir 1. apríl 2009 og hefur hann þá tíma til 31. mars 2011 að fullnægja tilboðsskyldu sinni eða draga svo úr hlutafjáreign sinni að hann fari niður fyrir yfirtökumörk. Auki hann við hlut sinn á tímabilinu gilda reglur laganna um tilboðsskyldu. Sami tímafrestur gildir hafi aðili farið með yfirráð í félagi á grundvelli samstarfs skv. 100. gr. laganna. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framlengja tímafresti 1. málsl. þessa ákvæðis tvisvar sinnum í 6 mánuði í senn ef aðstæður á markaði leiða til þess að ósanngjarnt er að krefjast þess að aðili selji sig niður fyrir yfirtökumörk innan tímamarkanna.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2009.