Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 895, 136. löggjafarþing 335. mál: visthönnun vöru sem notar orku (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 42 8. apríl 2009.

Lög um visthönnun vöru sem notar orku.


1. gr.

Markmið.
     Tilgangur laga þessara er að stuðla að visthönnun vöru sem notar orku með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á vörum sem eru umhverfisvænar, með minni orkunotkun og umhverfisálag að leiðarljósi.

2. gr.

Gildissvið.
     Í lögum þessum er að finna grunnkröfur sem vörur sem nota orku skulu uppfylla svo að setja megi þær á markað og taka í notkun. Ef ekki er annað tekið fram er með hugtakinu vara í lögum þessum eingöngu átt við vöru sem notar orku, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
     Lögin taka til nýrrar vöru og íhluta og undireininga hennar, sem nýta orku, og flutt er inn, tekin í notkun eða framleidd hér á landi eftir gildistöku laga þessara.
     Lögin taka ekki til farartækja eða vöru sem notar orku og hefur þegar verið tekin til notkunar.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Vara sem notar orku: Vara sem, þegar henni hefur verið komið á markað og/eða hún tekin í notkun, nýtir orku (rafmagn, jarðefnaeldsneyti eða endurnýjanlega orkugjafa) til að virka sem skyldi eða vara til flutnings og mælingar á slíkri orku, þ.m.t. hlutir, sem nýta orku og ætlunin er að setja í vöru sem notar orku og fellur undir lög þessi, sem eru settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir notendur og unnt er að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika.
  2. Íhlutir og undireiningar: Hlutir sem ætlunin er að setja í vörur sem nota orku, en eru ekki settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir notendur eða ekki er unnt að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika.
  3. Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir vörur sem falla undir þessi lög og ber ábyrgð á að þær séu í samræmi við þessi lög með tilliti til þess að setja þær á markað og/eða taka þær í notkun undir eigin nafni framleiðanda eða vörumerki eða til eigin notkunar framleiðanda. Ef framleiðandi eða innflytjandi er ekki til staðar skal hver einstaklingur eða lögaðili sem setur á markað og/eða tekur í notkun vörur sem falla undir lög þessi teljast framleiðandi.
  4. Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á EES-svæðinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda til að uppfylla, að öllu leyti eða að hluta til, skuldbindingar og formsatriði fyrir hans hönd að því er varðar lög þessi.
  5. Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á EES-svæðinu sem setur vöru frá þriðja landi á markað á EES-svæðinu sem lið í starfsemi sinni.
  6. Vistferill: Samfelld og samtengd stig á ferli vöru frá notkun sem hráefni til endanlegrar förgunar.
  7. Visthönnun: Að fella umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta vistvænleika vöru allan vistferil hennar.


4. gr.

Orkunýtnikröfur.
     Eingöngu er heimilt að setja á markað vöru sem uppfyllir reglur um orkunýtni og umhverfisálag samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og:
  1. farið hefur fram mat á því hvort varan eða hluti hennar sé í samræmi við kröfur laga þessara eða reglna sem settar hafa verið á grundvelli þeirra,
  2. lögð hefur verið fram samræmisyfirlýsing þess efnis að varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru, og
  3. varan eða hluti hennar er merktur CE-samræmismerkingu.

     Óheimilt er að banna markaðssetningu vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni og umhverfisálag samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar hafa verið, enda uppfylli hún skilyrði annarra laga og reglna.
     Ef vara telst uppfylla orkunýtnikröfur annars EES-lands verður hún talin uppfylla orkunýtnikröfur hérlendis. Í reglum sem Neytendastofa setur skal birtur listi yfir samræmda evrópska staðla sem samþykktir hafa verið og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. gr.

Samræmisyfirlýsingar.
     Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal gefa út samræmisyfirlýsingu sem tryggir að vara samrýmist reglugerðum settum á grundvelli laga þessara.

6. gr.

Samræmismat.
     Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans er skylt að tryggja að samræmismat vöru hafi farið fram áður en vara er flutt inn eða markaðssett.
     Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans er skylt að geyma samræmismat sem hefur verið framkvæmt og útgefnar samræmisyfirlýsingar í að minnsta kosti 10 ár eftir að framleiðslu vöru lýkur. Berist framleiðanda eða fulltrúa hans beiðni um gögn þar að lútandi frá Neytendastofu skulu þau gerð aðgengileg innan 10 daga frá viðtöku beiðninnar.

7. gr.

Samræmismerkingar.
     Vara skal bera CE-samræmismerki, sem samansett er af upphafsstöfunum „CE“, áður en hún er sett á markað.
     Ef vara ber nú þegar CE-samræmismerki skal litið svo á að samræmismerkið sé staðfesting á því að hún fullnægi kröfum sem gerðar eru í lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra að þessu leyti.
     Að öðru leyti fer um samræmismerkingar og samræmismat samkvæmt lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og reglum settum á grundvelli þeirra.

8. gr.

Ábyrgð framleiðanda, fulltrúa hans eða innflytjanda.
     Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, sem flytur inn vörur, ber ábyrgð á að vörur hans uppfylli orkunýtnikröfur samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar hafa verið.
     Ef hvorki framleiðandi né viðurkenndur fulltrúi hans er staðsettur innan EES-svæðisins ber innflytjandi ábyrgð á því að markaðssettar vörur séu í samræmi við orkunýtnikröfur sem gerðar hafa verið. Innflytjandi ber einnig ábyrgð á því að samræmisyfirlýsing og tæknilegar upplýsingar séu aðgengilegar eins og gert er ráð fyrir í lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

9. gr.

Upplýsingaskylda framleiðanda og seljanda.
     Framleiðandi skal tryggja að neytendur fái upplýsingar um umhverfiseiginleika og afköst vöru sem notar orku og ráðleggja þeim hvernig skuli nota vöruna á umhverfisvænan hátt.

10. gr.

Eftirlit.
     Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Eftirlit og dagleg stjórnsýsla á því sviði sem lögin ná til skal þó vera í höndum Neytendastofu. Neytendastofa tekur við tilkynningum um vörur sem ekki eru í samræmi við kröfur laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og annast samskipti vegna þeirra við önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Við framkvæmd eftirlits skal að öðru leyti farið eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

11. gr.

Viðurlög.
     Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

12. gr.

Reglugerðarheimildir.
     Iðnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal reglur um hvaða vörur falli innan gildissviðs laganna, hvaða flokkar vöru sem notar orku þurfi að uppfylla kröfur um orkunýtni og hvaða kröfur vara þurfi að uppfylla. Einnig er ráðherra heimilt að kveða nánar á um upplýsingaskyldu framleiðanda og/eða innflytjanda í reglugerð.
     Þá er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um önnur atriði er varða framkvæmd laganna, svo sem varðandi samræmismat, -merkingar og -yfirlýsingar.

13. gr.

Innleiðing tilskipunar.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB frá 6. júlí 2005 um ramma til að setja fram kröfur um visthönnun vöru að því er varðar vörur sem nota orku og um breytingu á tilskipun ráðsins 92/42/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 96/57/EB og 2000/55/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2007 sem birt var 28. september 2007 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2006, ásamt frekari tilskipunum sem innleiddar verða með reglugerðum samkvæmt heimild í lögum þessum.

14. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur. Reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga halda gildi sínu með þeim breytingum sem leiðir af lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 2. apríl 2009.