Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 152, 137. löggjafarþing 35. mál: framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (samningsbundnar greiðslur til bænda).
Lög nr. 67 22. júní 2009.

Lög um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað ártalsins „2013“ í 1. mgr. 37. gr. laganna kemur: 2015.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
  1. Í stað ártalsins „2013“ í 1. mgr. kemur: 2015.
  2. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
  3.      Framleiðendur sem hafa skorið niður gemlinga og fullorðið sauðfé á býli sínu að kröfu stjórnvalda til að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma eiga rétt til greiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu við kaup á allt að jafnmörgum líflömbum til endurnýjunar fjárstofnsins. Þessi réttur fellur niður um fyrstu áramót eftir að liðin eru tvö ár síðan heimilt var að taka fé að nýju á býlið. Við ákvörðun greiðslna skal miða við 16 kg fallþunga. Óheimilt er að framselja þennan rétt. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um skilyrði þessa réttar í reglugerð.


3. gr.

     Í stað ártalsins „2013“ í kaflafyrirsögn IX. kafla laganna kemur: 2015.

4. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „1. september 2012“ í 3. mgr. 53. gr. laganna kemur: 31. desember 2014.

5. gr.

     Í stað ártalsins „2012“ í kaflafyrirsögn X. kafla laganna kemur: 2014.

6. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða T í lögunum bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að framlengja samninga þessa um tvö ár, verði eftir því leitað, svo að þeir gildi til 31. desember 2015. Þá er jafnhliða heimilt að kveða svo á, í hinum framlengdu samningum, að þeir bændur sem hyggjast hefja sauðfjárrækt að nýju megi koma sér upp bústofni frá 1. september 2014. Ráðherra er einnig heimilt að gera samninga sem þessa við bændur sem hafa náð eða ná 64 ára aldri á tímabilinu 2014–2015, enda öðlist samningarnir fyrst gildi á þeim tíma.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. júní 2009.