Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 261, 137. löggjafarþing 1. mál: endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja (stofnun hlutafélags, heildarlög).
Lög nr. 75 14. júlí 2009.

Lög um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.


1. gr.

Markmið.
     Markmið þessara laga er að tryggja skjóta úrlausn fjármálafyrirtækja á skuldavanda rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Félag skv. 2. gr. skal tryggja með ráðgjöf hlutlæga, sanngjarna og gagnsæja skuldameðferð fyrirtækjanna að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og samkeppni.
     Lög þessi taka til fjármálafyrirtækja sem beint eða óbeint eru í meirihlutaeigu ríkissjóðs og þeirra sem ríkissjóður hefur lagt til fé skv. 2. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

2. gr.

Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.
     Fjármálaráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag til að sinna þeim verkefnum sem um getur í 3. gr.
     Stofnfé félagsins, 20 millj. kr., skal vera í eigu íslenska ríkisins. Hluthafafundur getur aukið við hlutafé ef þörf er á og að fenginni heimild í fjárlögum.
     Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu og annast undirbúning þess og stofnun í samráði við viðskiptaráðherra. Fjármálaráðherra er heimilt að framselja eignarhlutinn til Bankasýslu ríkisins.
     Félagið skal hafa lokið störfum og því verið slitið eigi síðar en 31. desember 2015.
     Ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum og eftir því sem við á. Stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um starfsemi félagsins.

3. gr.

Tilgangur félagsins.
     Tilgangur félagsins er eftirfarandi:
  1. að vera ráðgefandi og aðstoða fjármálafyrirtæki sem hlut eiga að máli við fjárhagslega endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja. Félaginu er heimilt í undantekningartilvikum að kaupa lánskröfur og eftir atvikum eignarhluti í hlutaðeigandi atvinnufyrirtækjum. Félagið skal starfa eftir gagnsæjum og hlutlægum reglum um endurskipulagningu og kaup á eignum að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og samkeppni,
  2. að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja með það að markmiði að ekki þurfi að koma til rekstrarstöðvunar, og eftir atvikum vinna að frekari skipulagningu á rekstri, t.d. með því að leggja niður eða selja óhagkvæmar rekstrareiningar eða sameina fyrirtæki, eða með öðrum ráðstöfunum sem teljast nauðsynlegar til að koma fyrirtækjum í rekstrarhæft ástand,
  3. að ráðstafa eignum sem félagið kaupir, sbr. a-lið, eins fljótt og markaðsaðstæður leyfa með gagnsæjum hætti og að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði, virka samkeppni, dreifða eignaraðild, þ.m.t. eignaraðild starfsfólks, hámörkun verðmæta ríkissjóðs og byggðafestu,
  4. að byggja upp heildstæða þekkingu á fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja.

     Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess og reglugerð sem fjármálaráðherra setur að fenginni umsögn aðila vinnumarkaðarins.

4. gr.

Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri.
     Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert.
     Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og skal staða hans auglýst. Umsóknarfrestur má ekki vera skemmri en tvær vikur frá birtingu auglýsingar. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn til félagsins.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa haldgóða menntun og sérþekkingu á fjármálum og rekstri fyrirtækja.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum og lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri og aðrir sem starfa á vegum félagsins skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þeir skulu jafnframt upplýsa stjórn um hagsmunatengsl eða önnur atriði sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa.

5. gr.

Aðgangur að upplýsingum.
     Fjármálafyrirtæki er skylt að verða við kröfu félagsins um að láta í té hvers konar upplýsingar og gögn, þ.m.t. bókhald, sem félagið fer fram á og snerta starfssvið félagsins. Lagaákvæði um þagnarskyldu samkvæmt reglum um fjármálafyrirtæki takmarka ekki skyldu þeirra til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

6. gr.

Gagnsæi.
     Ríkisendurskoðun skal auk þess að annast fjárhagsendurskoðun félagsins fylgjast með að starfsemi þess sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda. Stjórn félagsins skal ef ástæða er til ráða innri endurskoðanda eða gera samning um innri endurskoðun við endurskoðunarfélag sem skal vera þáttur í eftirlitskerfi félagsins.
     Félagið skal á starfstíma þess gera efnahags- og skattanefnd Alþingis grein fyrir störfum sínum eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Skal þar m.a. greint frá því hvort og að hvaða leyti verklag við skuldameðferð fyrirtækja innan fjármálafyrirtækja sem lög þessi taka til er frábrugðið verklagi félagsins.
     Fjármálaráðherra skal tvisvar á ári gefa þinginu skýrslu um endurskipulagningu atvinnufyrirtækja samkvæmt lögum þessum, sbr. einkum 3. gr. Þar skal m.a. greint frá fjölda atvinnufyrirtækja sem hafa sætt endurskipulagningu og hversu oft, hvaða fyrirtæki eiga í hlut og á hvaða sviðum atvinnulífsins þau starfa, hverjir hluthafar þeirra eru auk þess sem upplýst skal um eignarhald tengdra aðila, hvaða úrræði hafa verið notuð til að leysa skuldavanda fyrirtækjanna í hverju tilviki fyrir sig og áhrif þessa á efnahag viðkomandi fjármálafyrirtækja, hvernig staðið hefur verið að sölu og verðmati eigna sem félagið eða fjármálafyrirtæki sem lögin taka til hafa yfirtekið og hvort endurskipulagning hafi í hverju tilviki fyrir sig borið árangur. Þá skal gerð grein fyrir hvernig könnun hefur farið fram á almennum og sérstökum hæfisskilyrðum stjórnar, framkvæmdastjóra og annarra sem starfa á vegum félagsins auk þess sem getið skal um hagsmunatengsl og önnur atriði sem til þess eru fallin að draga óhlutdrægni þessara aðila í efa.

7. gr.

Reglugerðarheimild.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. júlí 2009.