Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 324, 137. löggjafarþing 124. mál: Bankasýsla ríkisins (heildarlög).
Lög nr. 88 18. ágúst 2009.

Lög um Bankasýslu ríkisins.


1. gr.

Markmið og gildissvið.
     Bankasýsla ríkisins er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir fjármálaráðherra.
     Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og leggur þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum.
     Bankasýsla ríkisins skal í starfsemi sinni leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.
     Bankasýslu ríkisins er heimilt að setja á fót og fara með eignarhluti ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar.

2. gr.

Stjórn.
     Með yfirstjórn Bankasýslu ríkisins fer þriggja manna stjórn sem fjármálaráðherra skipar. Einn varamaður skal skipaður með sama hætti. Stjórnarmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði 6. gr. Fjármálaráðherra skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnarmanna.
     Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Allar meiri háttar ákvarðanir skal bera skriflega undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.
     Ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið. Viðskiptanefnd Alþingis skal gerð grein fyrir tilmælum ráðherra og afstöðu stjórnarinnar til þeirra eins fljótt og auðið er.

3. gr.

Forstjóri.
     Forstjóri Bankasýslu ríkisins er ráðinn af stjórn stofnunarinnar. Forstjóri skal uppfylla hæfisskilyrði 6. gr. Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra og stjórn stofnunarinnar semur starfslýsingu hans.
     Forstjóri mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti stofnunarinnar og annast daglega stjórn hennar ásamt því að ráða starfslið. Hann ber ábyrgð gagnvart stjórninni á starfsemi og rekstri stofnunarinnar.

4. gr.

Verkefni.
     Verkefni Bankasýslu ríkisins eru:
  1. Að fara með eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum og félögum, sbr. 1. gr.
  2. Að sjá um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhluti í og tengjast eigendahlutverki þess. Samskiptin fara fram í gegnum bankaráð og stjórnir fjármálafyrirtækjanna.
  3. Að hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu ríkisins eins og hún er á hverjum tíma.
  4. Að fara með atkvæði ríkissjóðs á hluthafafundum fjármálafyrirtækja og á fundum stofnfjáreigenda sparisjóða.
  5. Að gera samninga við stjórnir hlutaðeigandi fjármálafyrirtækja, þar á meðal um eiginfjárframlög og um sérstök og almenn markmið í rekstri þeirra. Bankasýsla ríkisins setur þau skilyrði sem hún telur nauðsynleg vegna eiginfjárframlaga. Útdrættir úr samningum skulu birtir opinberlega 12 mánuðum eftir að þeir hafa verið gerðir.
  6. Að fylgjast með að settum markmiðum í samningum verði náð.
  7. Að gera tillögur til fjármálaráðherra um frekari fjármögnun fjármálafyrirtækja á grundvelli hlutverks og markmiða stofnunarinnar.
  8. Að meta og setja skilyrði um endurskipulagningu og sameiningu fjármálafyrirtækja með hliðsjón af hlutverki og markmiðum stofnunarinnar og eigendastefnu ríkisins.
  9. Að gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær tilteknir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum verða boðnir til sölu á almennum markaði með hliðsjón af markmiðum stofnunarinnar, sbr. 3. mgr. 1. gr., og í samræmi við gildandi lög og markmið um dreifða eignaraðild.
  10. Að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.


5. gr.

Samkeppnissjónarmið.
     Stofnunin skal í starfsemi sinni og við meðferð eignarhluta ríkisins kappkosta að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði, m.a. með því að stuðla að því að öflug og virk samkeppni ríki milli fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins.
     Við starfsemi stofnunarinnar skal þess vandlega gætt að trúnaðarupplýsingar um rekstur og starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja sem hún fær vitneskju um berist ekki til annarra fjármálafyrirtækja.

6. gr.

Hæfisskilyrði.
     Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust á þessu sviði og þeir hafi trausta þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja.
     Stjórnarmenn og forstjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Stjórnarmenn og forstjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála sem varða aðila sem eru tengdir þeim persónulega eða fjárhagslega.

7. gr.

Valnefnd.
     Stjórn Bankasýslu ríkisins skipar sérstaka þriggja manna valnefnd sem tilnefnir aðila fyrir hönd ríkisins sem rétt hafa til setu fyrir hönd ríkisins í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar. Valnefndin skal tryggja að í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja sitji sem næst jafnmargar konur og karlar. Bankasýsla ríkisins óskar formlega eftir tilnefningum valnefndar um stjórnarmenn fyrir stjórnarkjör í hlutaðeigandi bankaráðum eða stjórnum.
     Stjórn Bankasýslu ríkisins skal setja nefndinni starfsreglur þar sem fram koma þau viðmið sem valnefndin styðst við í mati sínu á hæfni, menntun og reynslu einstaklinga sem til greina koma til setu í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja. Starfsreglurnar skulu birtar opinberlega á vefsvæði Bankasýslu ríkisins.
     Nefndin kemur saman svo oft sem þurfa þykir og ákveður fjármálaráðherra þóknun nefndarmanna.
     Unnt er að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda nefndinni ferilskrá sína.

8. gr.

Skýrslugjöf.
     Bankasýsla ríkisins skal gefa fjármálaráðherra ítarlega skýrslu um starfsemi sína fyrir 1. júní ár hvert. Í framhaldi af því gerir fjármálaráðherra Alþingi grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og hvernig til hefur tekist varðandi meðferð eignarhluta ríkisins og hverjar framtíðaráherslur ríkisins eru varðandi þá.

9. gr.

Lok starfseminnar.
     Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður.

10. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 1. gr. er fjármálaráðherra heimilt að leggja bönkum og sparisjóðum til eigið fé er uppfylli lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall án milligöngu Bankasýslu ríkisins enda hafi hún ekki tekið að fullu til starfa. Sé slík heimild nýtt skal fjármálaráðherra binda eiginfjárframlagið viðeigandi skilyrðum, sbr. e-lið 4. gr. Réttur Bankasýslu ríkisins til þess að setja frekari skilyrði, breyta skilmálum samninga og réttur til upplýsinga til að fylgjast með árangri fjármálastofnana skal vera hluti af slíkum skilyrðum. Frekari eiginfjárframlög og endanleg fjármögnun verður á hendi Bankasýslunnar.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal Bankasýsla ríkisins gefa fjármálaráðherra ítarlega skýrslu um starfsemi sína í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2009. Í framhaldi af því gerir fjármálaráðherra Alþingi grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og hvernig til hefur tekist varðandi meðferð eignarhluta ríkisins og hverjar framtíðaráherslur ríkisins eru varðandi þá.

Samþykkt á Alþingi 11. ágúst 2009.