Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 364, 137. löggjafarþing 160. mál: fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda (upplýsingar um fjárframlög 2002-2006).
Lög nr. 99 3. september 2009.

Lög um breytingu á lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Ríkisendurskoðun skal að ósk stjórnmálasamtaka veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira á árunum 2002 til 2006, að báðum árum meðtöldum, jafnt til landsflokkanna sem allra eininga sem undir þá falla eða tengjast rekstri og eignum flokksins, svo sem sérsambanda, kjördæmisráða, eignarhaldsfélaga og tengdra sjálfseignarstofnana. Þó er heimilt að undanskilja flokkseiningar ef tekjur þeirra eru undir 300.000 kr. á ári.
     Ríkisendurskoðun skal að ósk frambjóðenda í forvali eða prófkjöri innan stjórnmálasamtaka fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar 2006 og 2007 veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. frá 1. janúar 2005 – 31. maí 2007. Jafnframt skal Ríkisendurskoðun með sama hætti að ósk frambjóðenda í kosningum til æðstu tveggja embætta innan stjórnmálasamtaka, formanns og varaformanns, veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira á árunum 2005 til 2009, að báðum árum meðtöldum. Sé heildarfjárhæð framlaga til frambjóðanda undir 300.000 kr. getur hann beint einfaldri yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar um að svo sé án nánari tilgreiningar eða sundurliðunar upphæða, sbr. 4. mgr.
     Við túlkun á hugtökunum stjórnmálasamtök, prófkjör, framlög og tengdir aðilar skal taka mið af skilgreiningu þeirra hugtaka í 2. gr. laganna.
     Ríkisendurskoðun skal í þessu skyni veita viðtöku upplýsingum frá viðkomandi stjórnmálasamtökum og frambjóðendum um framlög til þeirra á tilgreindu tímabili, sbr. 1. og 2. mgr., og skulu upplýsingar sem veittar eru flokkaðar eftir uppruna þeirra, þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum. Upplýsingum skal fylgja yfirlýsing viðkomandi stjórnmálasamtaka eða frambjóðanda um að upplýsingarnar sé veittar samkvæmt bestu vitneskju og getur Ríkisendurskoðun kallað eftir nánari upplýsingum og skýringum ef hún telur annmarka á upplýsingagjöfinni. Skal upplýsingamiðlun til Ríkisendurskoðunar frá stjórnmálasamtökum og frambjóðendum þeirra sem óska eftir úrvinnslu og birtingu upplýsinga vera lokið fyrir 15. nóvember 2009. Ríkisendurskoðun er þó heimilt að framlengja þann frest um allt að einn mánuð.
     Ríkisendurskoðun skal samræma upplýsingar sem miðlað er til hennar skv. 4. mgr. og birta með samræmdum hætti fyrir lok árs 2009 niðurstöður fyrir hver stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra sem hér segir:
  1. Heildarfjárhæð árlegra framlaga samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.
  2. Heildarfjárhæð árlegra framlaga frá einstaklingum samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.
  3. Heildarfjárhæð árlegra framlaga frá lögaðilum samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.
  4. Tilgreina skal sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500.000 kr. eða meira. Hafi lögaðili krafist trúnaðar um framlög sín til viðkomandi stjórnmálasamtaka skal engu að síður birta upplýsingar um fjárhæð framlagsins en upplýsingar um heiti viðkomandi aðila skulu ekki birtar. Sé um einstakling að ræða skal birting á nafni hans sem styrkveitanda ávallt byggjast á samþykki hans.

     Ríkisendurskoðun getur sett reglur um það með hvaða hætti framlög, sem ekki eru bein fjárframlög, skuli metin til fjár.
     Að öðru leyti en um getur í 5. mgr. er Ríkisendurskoðun bundin trúnaði um allar upplýsingar sem stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra miðla til hennar samkvæmt ákvæði þessu.
     Ákvæði 12. gr. laganna gildir ekki um upplýsingagjöf samkvæmt ákvæði þessu.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. ágúst 2009.